Önnur skrif

 

Ég ætlaði mér ekki að verða hagfræðingur þegar ég yrði stór. Ég þekkti enga hagfræðinga persónulega fyrir tvítugt og hafði ekki gefið greininni neinn sérstakan gaum fyrir þann tíma. Margar hugmyndir um framhaldsnám flögruðu um í huga mér þegar að stúdentsprófi var lokið, en aldrei hagfræðinám. Að byrja í hagfræði var skyndihugdetta sem ég fékk á Halamiðum vorið 1991, sem ég fylgdi eftir um haustið fremur en halda áfram sem togarasjómaður. 

En hvernig sem ákvörðunin var tekin, er samt svo að síðustu 10 árin hafa flestar mínar vökustundir verið helgaðar þessari grein í námi og starfi. Vitanlega er oft hægt að teygja greinina til ýmissa átta og það hef ég gert. En samt sem áður liggur fátt eftir mig sem ekki tengist efnahagsmálum að einhverju leyti. 

 

Líkfylgd Jóns Arasonar Hólabiskups

Dagskráin í heild sinni - Frásagnir um líkfylgd Jóns biskups .- Um verkefnið 

Vorið 2003 tók ég þátt í því að semja að semja dagskrá sem reyndi að fella saman ævi og skáldskap Jóns Arasonar í eina söngdagskrá með tali og tónum, ásamt fjórum listamönnum - tónskáldinu Örlygi Benediktssyni - orgelleikaranum Kára Þormar - sópransöngkonunni Gerði Bolladóttur og Hirti Pálssyni rithöfundi sem sá um upplestur.  Dagskráin bar yfirskriftina : Líkfylgd Jóns Arasonar. Hér að ofan má finna efnisskránna sjálfa en vonandi munu lögin sjálf koma bráðlega út á geisladiski. 

Ég hef lengi verið aðdáandi Jóns biskups Arasonar. Ef til má rekja það til þess að ég ólst upp á Hólum í Hjaltadal þar sem minning Jóns svífur enn yfir vötnum en auk þess hef ég alltaf haft mætur á mönnum sem reyndu að breyta aðstæðum fremur en láta stjórnast af þeim.  Slíkir menn eru að vísu sjaldgæfir í Íslandssögunni enda eru Íslendingar fremur gefnir fyrir að láta sig fljóta með straumum sögunnar fremur en spyrna á móti þeim. Þetta er þjóðin sem tók kristni og geng Noregskonungi á hönd af praktískum ástæðum (sjá nánar hér). Hins vegar eru nokkrir menn líkt og Skúli fógeti Magnússon og Jón biskup sem eru öðru marki brenndir. Skúli reyndi að iðnvæða Ísland upp á eigin spýtur 150 árum á undan því sem síðar varð og Jón Arason reyndi að snúa við siðaskiptunum hérlendis með aðstoð sona sinna. Báðum mönnum mistókst vitaskuld en dirfska þeirra og þrautseigja er aðdáunarverð. Aukinheldur var Jón Arason eitt fremsta skáld sinnar tíðar og ljóð hans veita tækifæri til þess að skilja hugsanir hans og gjörðir, auk þess að vera með því besta sem ort hefur verið á íslensku. 

Hins vegar breytir það því ekki að ég held - kalt á litið - að það hafi í raun verið lán í óláni að Jón var höggvinn haustið 1550 því vorið eftir kom fjölmennur danskur her hingað út sem Norðlendingar hefðu ekki getað staðið á móti. Ef Jón hefði verið á lífi vorið 1551 hefðu siðaskiptin líklega verið barin áfram með ofbeldi og mannfalli. 

 

Villta vestrið á Íslandi

Tímarit máls og menningar, október 2003

Oft er því haldið fram að hámenning hafi látið undan síga fyrir lágmenningu eða skemmtanaiðnaði sem er rekinn áfram af markaðsöflunum. Í því samhengi er yfirleitt talað „markaðinn“ sem sjálfstæða veru sem komi andstyggilegum gróðasjónarmiðum til leiðar. Orðið markaður þýðir þó aðeins svæði sem hefur verið markað af til kaupskapar og er sú merking enn rétt á okkar tímum. Innan markaðanna er síðan fólk. Orðið markaður í eintölu er aðeins annað orð yfir íslensku þjóðina þegar hún kaupir eitthvað og selur. Það er því ekkert markaðnum að kenna í sjálfu sér. Hann er aðeins spegill þjóðfélagsins og hefur sama bókmenntasmekk og þjóðin sjálf.

Vinsældir Shakespeares í villta vestrinu sýna vel að list og skemmtun geta hæglega verið eitt. Og það er merki um fordóma nútímafólks að geta ekki hugsað sér kúreka njóta leiksýninga í stað þess að drekka og slást. Ennfremur hættir nútímafólki til að gera of lítið úr forfeðrum sínum í moldarkofunum sem voru þrátt fyrir allt betur bókmenntaðir en helftin af þjóðinni er nú, þrátt fyrir að hafa aldrei farið í skóla. Hvorki fátækt, erfiðisvinna né skortur á formlegri skólagöngu þarf að tákna menningarleysi. Þvert á móti. Listir eiga ekki að vera eitthvað sem fólk getur aðeins notið eftir langan undirbúning og skólagöngu og eru það ekki í raun og veru. Alþýðan býr yfir sköpunargáfu sem skortir oft á hærri stöðum. Og þegar alþýðulist er gerð að hámenningu er oft sem hún verði að steini – klassík – sem ekki er lengur ætluð til gamans nema fyrir fáa útvalda. Aftur á móti getur almúginn oft verið ansi vegalaus og villst með sköpunargáfuna í lítilsiglda hluti ef hann hefur ekki stefnumið af bókmenntaarfleið eða menningarvitum þjóðarinnar. Hér verður að ríkja jafnvægi í anda þess sem Jónas Hallgrímsson talaði fyrir á sínum tíma og var grundvöllurinn fyrir menningarbyltingu Fjölnissinna og tilvist íslenskrar menningar eins og vér þekkjum hana nú.

 

 

Bergsteinn Sigurðarson: Minning 

Morgunblaðið, september 2003. Minningargrein um Bergstein Sigurðsson afa minn. 

 

Jóhannes Helgi: Minning 

Morgunblaðið, september 2001. Minningargrein um Jóhannes Helga rithöfund. 

 

Ljóðaþýðingar

Nokkur engilsaxnesk ljóð