Bækur og bókarkaflar


Okurmálin í Austurstræti
Útgáfudagur janúar 2014
Í þessar bók eru tvær greinar um sem fjalla báðar um eftirmál stórra
gjaldþrota. Sú hin fyrri snýr að gjaldþroti Blöndalsbúðar, stærstu fataverslunar
landsins í Austurstræti árið 1955. Rekstrinum hafði verið haldið á floti með
okurlánum á 30-60% ársvöxtum. Gjaldþrotið kveikti ákafa þjóðfélagsumræðu sem
varð til þess að Alþingi skipaði rannsóknarnefnd til þess að fjalla um okur. Á
eftir fylgdu húsleitir, handtökur, og loks voru fjórir menn dæmdir fyrir
ólöglega vaxtatöku. Sú hin seinni lýsir bankahruni hinu fyrra árið 1930 þegar
Íslandsbanki varð gjaldþrota og Útvegsbankinn var stofnaður. Þetta þrot varð
tilefni til pólitískrar yfirtöku á bankakerfinu sem var fylgt eftir með setningu
fjármagnshafta 1931 og lögsetningu vaxta 1933. Greinarnar tengjast þar sem fall
Íslandsbanka plægði akurinn fyrir starfsemi okurlánara á Íslandi.Á sínum tíma
voru okurlánararnir gerðir að blórabögglum fyrir kórvillur nýsjálfstæðrar þjóðar
í efnahagsmálum. Ekki er laust við að okurumræðan frá Blöndalsbúð bergmáli enn á
okkar tímum.
„En hver getur neitað því að nú sje vond tíð? Hjer hefir verið
bankahrun, flóð, læknauppreisn, brjálæðisþvaður og ótal margt fleira, sem er
einkenni mjög vondrar tíðar.“
Spegillinn, 15. mars, 1930.

Drög að uppgjöri
Bók rituð fyrir Slitastjórn Glitnis. Meðhöfundur Dr. Hersir
Sigurgeirsson. Útgáfudagur 6.maí.2015
Þann 6. október 2008 gripu íslensk stjórnvöld til neyðarréttar og tóku yfir
rekstur þriggja stærstu banka landsins til að koma í veg fyrir þjóðargjaldþrot.
Á grundvelli neyðarlaganna var bönkunum skipt upp í tvennt: Innlendan hluta sem
var endurfjármagnaður og erlendan hluta sem fór í slitameðferð. Þessar aðgerðir
brutu blað í bankasögu Evrópu en eru taldar hafa heppnast vel. Núna, rúmum sex
árum síðar, er uppgjöri vegna aðgerðanna þó ekki lokið og fjármagnshöft eru enn
við lýði. Í þessari skýrslu, sem samin er að beiðni slitastjórnar Glitnis, er
reynt að afmarka þann greiðslujafnaðarvanda sem Ísland á nú við að glíma og þær
leiðir sem koma til greina til að leysa hann farsællega. Þá leggja
skýrsluhöfundar einnig mat á þær björgunaraðgerðir sem gripið var til í tengslum
við hrunið.
Ísland – líkt og önnur þjóðríki með eigin mynt – hefur bæði prentvald og
skattvald til þess að bregðast við bankakrísum. Prentvaldið liggur hjá
Seðlabanka sem þjónar sem lánveitandi til þrautavara. Skattvaldið er hjá
ríkisstjórn og Alþingi í umboði skattgreiðenda þegar kemur að endurfjármögnun
banka. Farið er yfir beitingu þessara tveggja valdheimilda og hvaða kostnað þær
hafa haft í för með sér fyrir ríkissjóð Íslands.
Þessi skýrsla er því Drög að uppgjöri eftir bankahrunið 2008.

Bók rituð fyrir Landssamtök Lífeyrissjóða. Meðhöfundur Dr. Hersir
Sigurgeirsson. Útgáfudagur 27.11.2014
Ísland er með einna hagstæðustu aldurssamsetningu í Vestur-Evrópu og siglir
nú hraðbyri að því að lífeyriseignir verði 180-200% af landsframleiðslu. Þegar
litið er til framtíðar er alþjóðleg eignadreifing ein forsenda þess að hægt sé
að tryggja öruggan lífeyri og forðast neikvæð efnahagsleg áhrif þegar þjóðin
tekur að eldast á næstu árum. Erlendar eignir lífeyrissjóðanna nema nú um 22% af
heildareignum, sem er of lágt samkvæmt flestum áhættuviðmiðum.
Í þessari bók er fjallað um erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna í
samhengi við bæði greiðslujöfnuð og eðlileg áhættuviðmið við ávöxtun sparnaðar.
Reynt er að svara spurningum líkt og hvort fjármagnshöftin geti breytt
líf-eyriskerfinu í gegnumstreymiskerfi, hve mikið af erlendum eignum
líf-eyrissjóðirnir þurfi að eiga til þess að tryggja efnahagslegan stöðugleika
og hvernig mögulegt sé fyrir sjóðina að fjárfesta erlendis í núverandi umhverfi.
Ennfremur er greiðslujöfnuður landsins greindur frá fræðilegu og sögulegu
sjónarhorni og núverandi staða metin. Að lokum er fjallað um áhrif haftanna á
íslenskan þjóðarbúskap í bæði bráð og lengd.
Ísland hefur glímt við ójafnvægi í greiðslujöfnuði allt frá því að
landið varð að sjálfstæðu myntsvæði með fullveldi árið 1918. Sá órói hefur verið
orsök bæði hafta á utanríkisviðskiptum og sífelldra gengisfellinga. Þannig
brugðust Íslendingar við bankahruni og fjármagnsflótta með höftum árið 1931 er
stóðu í 62 ár til ársins 1993. Fjármagnsfrelsið stóð þó aðeins í 15 ár, eða til
2008, að höft voru tekin upp að nýju. Flest bendir nú til þess að höftin verði
viðvarandi hérlendis í einu eða öðru formi á næstu árum. Greiðslujöfnuðurinn
hefur því frá upphafi sjálfstæðis verið öxull íslenskra efnahagsmála sem
hagstjórnin hefur hverfst um. Í þessari bók er reynt með skipulegum hætti að
greina áhrif hans á íslensk efnahagsmál og atvinnulíf.
Í leit að staðfestu
Bók gefin út að tilefni af 95 ára afmælis Jónasar Haralz með styrk
frá Landsbanka Íslands. Útgáfudagur er október 2014
Jónas H. Haralz fæddist 1919, árið eftir fullveldi, og stóð ávallt nálægt
kviku atburða í efnahagsmálum þjóðarinnar á sínum langa ferli. Hann var skarpur
greinandi í bæði ræðu og riti og var einn fárra samtíðarmanna til þess að grípa
þýðingu atburða þegar þeir gerðust. Það hefðu því fáir átt að vera betur til
þess fallnir að greina atburði ársins 2008 í sögulegu samhengi en einmitt hann.
Í þessari stuttu bók birtast nokkrar greinar eftir Jónas, fyrirlestrar og viðtöl
frá 2009 – sem er bæði árið eftir hrun og árið sem hann varð níræður. Þessi
skrif eru tekin saman undir ritstjórn Ásgeirs Jónssonar hagfræðings í tilefni af
95 ára afmæli Jónasar árið 2014. Hér birtist sýn Jónasar á þýðingu hrunsins
fyrir framtíð landsins auk þess sem einnig fylgja ráð til ráðvilltrar þjóðar.
Sérstaklega standa skýrum stöfum aðvaranir um að Íslendingar endurtaki mistök
fortíðar og dragi sig frá umheiminum með höftum og einangrunarhyggju.

アイスランドからの警鐘―国家破綻の現実
[単行本]
Japönsk þýðing á Why Iceland - gefin út af
Shinsensha Inc. í desember 2012.
Ritdómar

Nauðsyn eða val? Verðtrygging, vextir og
verðbólga
Gefið út af Samtökum Fjármálafyrirtækja, september 2012
Meðhöfundar: Sigurður Jóhannesson, Valdimar Ármann, Brice
Benaben og Stefania Perrucci.
Bókin í heild sinni
Hér er fjallað um verðtryggingu frá 5
sjónarhornum; Sögulegu samhengi, fjármálafræðum, rekstri fjármálafyrirtækja,
hagstjórn og lánakostum fyrir heimilin.
Að mati skýrsluhöfunda er vandamálið sem fylgir notkun verðtryggingar
hérlendis fjórþætt:
- Veiting Íslandslána, 40 ára verðtryggðra lána, skapar hvata fyrir of
mikla skuldsetningu og ýtir undir lánabólur. Jafngreiðslufyrirkomulagið
tryggir að nær ekkert er greitt af höfuðstól á fyrri hluta lánstímans
- Fjármögnun Íslandslánanna byggir á ríkisábyrgð er í raun niðurgreiðsla
sem hvetur til skuldsetningar, auk þess sem ríkissjóður hefur þegar tekið á
sig óhóflega fjárhagslega ábyrgð.
- Heimilin taka á sig of mikla þjóðhagslega áhættu með verðtryggðum lánum
þar sem óvæntir verðbólguskellir færast allir á þeirra reikning.
- Verðtrygging hindrar framgang peningamálastefnu Seðlabankans, einkum þó
leiðni stýrivaxta.
Til þess að leysa þessi vandamál leggja skýrsluhöfundar eftirfarandi til:
- Aukinn endurgreiðsluhraði fasteignalána.
- Afnám ríkisábyrgðar á lánaviðskiptum.
- Þjóðhagslegar varúðarreglur.
- Aukið vægi breytilegra nafnvaxta (þ.e. óverðtryggðra lána á breytilegum
vöxtum).
Makt myrkranna - Sagan af Drakúla greifa
Gefin út af Bókafélaginu 2011 - Ásgeir Jónsson hafði
umsjón með endurútgáfunni og ritaði eftirmála.
Inngangur
Umfjöllun
Sagan um Drakúla eftir Bram Stoker var fyrst gefin út í Bretlandi 1897 og er ein
áhrifamesta skáldsaga síðari tíma. Hægt er að lesa hana sem hrollvekju, erótík,
reyfara eða rannsókn á innsta eðli mannsins. En umfram allt er aðalsöguhetjan,
Drakúla greifi, ógleymanleg.
Makt myrkranna
er fyrsta þýðing sögunnar frá ensku í heiminum, gerð um 1900. Þýðandinn,
Valdimar Ásmundsson, meitlar textann og tekur sér skáldaleyfi til þess að
umskrifa söguna að smekk íslenskra lesenda. Verður sagan mun berorðari og
blóðugri fyrir vikið.
Makt myrkranna
var kölluð rusl og þvættingur þegar hún kom fyrst út en meðal aðdáenda sögunnar
má nefna Halldór Laxness er áleit Valdimar „einn besta penna landsins“. Hefur
því verið haldið fram að bókin sé eins konar fyrra bindi af bók Nóbelsskáldsins,
Kristnihald undir Jökli.

Jón Sigurðsson - Hugsjónir og stefnumál
Greinasafn gefið út af Hinu Íslenska Bókmenntafélagi í
tilefni af 200 ára afmæli Jóns forseta- ritstjóri Jón Sigurðsson
Greinin
mín
Bók þessi hefur að geyma ritgerðir átta fræðimanna um hugmyndaheim Jóns
Sigurðssonar, hugsjónir hans og baráttumál, og fjalla um þrjú málefni sem áttu
hug hans öðrum fremur – stjórnskipun Íslands, menntamál þjóðarinnar og
verslunar- og efnahagsmál.

Der Fall Island
- Wie
internationale Spekulanten ein Land an den Rand des Staatsbankrotts brachten
Þýsk þýðing á Why Iceland - gefin út af FinanzBuch Verlag
Island ist das bisher prominenteste Opfer der globalen
Wirtschaftskrise. Die 300.000 Einwohner zählende Insel wurde wie kein anderes
europäisches Land in den Finanzstrudel gerissen. Innerhalb von nur einer Woche
zerfiel annähernd der gesamte Bankensektor des Landes. Doch ist Island wirklich
ein Opfer der Finanzkrise? Oder brachte ein gezielter Angriff von
internationalen Hedge-Fonds die Währung, das Bankensystem sowie den Aktienmarkt
des Inselstaates zum Einsturz? Das behauptet nämlich Ásgeir Jónsson, der
Chefvolkswirt der Kaupthing Bank. Er liefert in diesem Buch den Nachweis, dass
Island Opfer eines internationalen Coups war. Für seine provokante These hat er
eine Fülle brisanter und unwiderlegbarer Fakten und Beweise gesammelt, die nur
einen Schluss zulassen: Island war der Verlierer, große Hedge-Fonds die
Gewinner.

Why Iceland?: How One of the World's
Smallest Countries Became the Meltdown's Biggest Casualty
Gefin út af McCraw Hill í ágúst 2009
Erlendir ritdómar -
íslenskir ritdómar
As late as the mid 1980s, Iceland’s economy revolved around little
else than a semi-robust cod-fishing industry. By the end of the
century, however, it had transformed itself into a major player in
world finance, building an international banking empire worth twelve
times its GDP. The tiny island nation of 300,000 was one of the
global economy’s great success stories.
And then everything came
crashing down.
Why Iceland? is the inside account of one of the economic
meltdown’s most fascinating and far-reaching tragedies. As Chief
Economist of Kaupthing Bank, the country’s largest bank before the
collapse, Ásgeir Jónsson is perfectly suited to examine Iceland’s
collapse in painstaking detail. He witnessed behind-the-scenes
events firsthand, such as an intriguing meeting in January 2008 when
a group of international hedge fund managers gathered in a bar in
Reykjavik to discuss Iceland’s economy—an informal affair that
eventually became the center of a criminal investigation by the
country’s Financial Supervisory Authority.
This inside account examines the pressing issues behind history’s
biggest banking collapse:
- How did Iceland transform itself from one of Europe’s
poorest to one of its wealthiest countries?
- What happened to cause the destruction of the nation’s
banking industry during a single week of October 2008?
- Was it the result of a speculation “attack” by hedge funds
on the nation’s currency?
Iceland remains the biggest casualty of the economic downturn,
and the ramifications of its catastrophic failure reach deeply into
the economies of Europe, the United States, and other global
markets. Ásgeir Jónsson offers a unique perspective and an expert’s
insight into the rise and fall of this once-proud banking giant.
Why Iceland? provides the who, what, where, and when of
Iceland’s demise, serving as a fascinating read and providing the
understanding necessary for forecasting when and where the
aftershocks will shake up markets in other parts of the world.

Jón Arason biskup
- Ljóðmæli
Gefin út af JPV útgáfunni 7. nóvember 2006
Meðhöfundur Kári Bjarnason handritafræðingur (auk vitaskuld Jóns biskups
sjálfs).
Inngangur
ritdómar
Skáldskapur
fyrri alda á Íslandi var um langan aldur bundinn við munnlega geymd og
pappírshandrit. Uppskriftir fóru á milli manna og fátt var prentað þegar
prentlistin nam land. En það skýrir samt ekki þá undarlegu staðreynd að ljóðmæli
Jóns Arasonar biskups hafa aldrei komið út í heild sinni. Skáldverk hafa verið
tileinkuð dramatískri og stórbrotinni ævi síðasta biskupsins í kaþólskum sið,
bæði leikrit og skáldsögur. Flestum er kunnugt að hann var skáld en samt hefur
einungis brot af kveðskap hans komist á bók þar til nú að ljóðasafn hans var
gefið út með tilstyrk Kristnihátíðar sjóðs og menntamálaráðuneytis.

Borgarbrot. Sextán sjónarhorn á borgarsamfélagið
Gefin út af Háskólaútgáfunni 2003 - Ritstjóri: Páll Björnsson
Framlag mitt - Hve lengi mun Reykjavík vaxa?
Bókarkafli á rafrænu formi -
blaðaumfjöllun
Í Borgarbrotum eru sextán greinar eftir fólk sem hefur numið ýmis fræði víða
um lönd, svo sem sagnfræði, listfræði, hagfræði, bókmenntafræði, afbrotafræði,
heimspeki, landafræði, mannfræði, skipulagsfræði, borgarlandafræði,
menningafræði, eðlis- og stærðfræði, þjóðfélagsfræði, tækni- og vísindafræði og
umhverfisskipulag. Eins og nærri má geta er nálgun viðfangsefnis margvísleg og
viðfangsefnin eru ólík, þótt öll fjalli þau um borgir og borgaralíf.

Heilræði fyrir unga menn í verzlun og viðskiftum
Gefin út af Viðskipta- og hagfræðideild 2003 - endurútgefin með auknum
formála árið 2008
Georg H. F. Schrader þýtt hefur Steingrímur Matthíasson
Formáli: Ásgeir Jónsson ritdómar
Hjálpsami Þjóðverjinn sem hvarf - Grein um Schrader
tímarit M og M apríl 2003
Georg Scharder var af þýskum ættum og starfaði á Wall Street í 35 ár. Eftir
hann liggur þessi litla bók sem gefin var út á Akureyri árið 1913 í þýðingu
Steingríms Matthíassonar læknis. Heilræðin sem finna má í bókinni eru sett fram
eins og orðskviðir, í stuttum, meitluðum málsgreinum sem birta lífsvisku
heillrar mannsævi í viðskiptum. Þau eiga jafnmikið erindi við ungt fólk í
upphafi 21. aldar og þeirrar tuttugustu og eru þýdd á gullsleginni íslensku.
Heilræði Schraders voru endurútgefin af Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla
Íslands, árið 2003, með ítarlegum formála eftir Ásgeir Jónsson. 2003
Sagan
af dvöl Schraders á Akureyri felur í sér dálitla ráðgátu um ríkan
mann sem yfirgaf vini og ættingja vorið 1912 og kaus að þremur síðustu árum
ævi sinnar í það að hjálpa Akureyringum með ýmsa hluti. En hér hangir
samt mun fleira á spýtunni. Þegar farið er yfir verk Schraders á Akureyri,
skrif hans um Íslendinga og blaðafréttir af öllu saman, vakna margar
spurningar um eðli hjálpseminnar. Og þá sérstaklega hvaða skyldur sá hjálpsami
leggur á þá sem hann hjálpar, og hvaða þakklæti hann vill fá í staðinn.
Og hvort hjálpin sé í raun gagnleg þegar öllu er á botninn hvolft. Staðreyndin
er sú að hjálpsemin og afskiptasemin eru náfrænkur.
Hjálparstarf er of blinduð af forsendum og fordómum þess sem leggur
slíkt erfiði á sig að hún kemur ekki að gagni nema að litlu leyti. Og þeir
sem taka við hjálpinni gera það oft af gæsku við þann sem lætur hana í
té fremur en gagnsemi hjálparinnar sjálfra. Sagan af starfi Schrader á
Akureyri þegar Ísland var fátækasta land V-Evrópu gæti þess vegna sýnt
í hnotskurn af hverju hjálparstarf með vanþróaðra þjóða kemur oft fyrir
lítið.

Bygggðir og búseta: Þéttbýlismyndun á
Íslandi
Haustskýrsla Hagfræðistofnunar 2002.
Meðhöfundar Axel Hall og Sveinn Agnarsson
Ágrip -
bókin á rafrænu
formi- ritdómar
Bókin fjallar um helstu
kenningar hagfræðinnar sem tengjast þéttbýlismyndun, fólksflutningum og
staðsetningu bæjarkjarna, og þeim beitt á íslenskar aðstæður. Á
síðasta áratug hefur mikil framþróun átt sér stað í erlendum
rannsóknum á byggðaþróun og búsetumynstri, sem gefur nýja möguleika í
íslenskum byggðarannsóknum. Í skýrslunni er þeirri spurningu velt upp
hvort að sérstakar aðstæður, sem ríktu í upphafi borgarmyndunar
hérlendis á fyrstu áratugum tuttugustu aldar, geti skýrt núverandi
byggðamynstur, einkum sterka stöðu Reykjavíkur meðal annarra
þéttbýliskjarna landsins. Ennfremur er reynt að skýra af hverju þéttbýli
myndast, og hvort verkaskipting sé til staðar á milli smærri og stærri
þéttbýlisstaða. Hér er lögð áhersla á hlutverk samgangna fyrir
íslenska byggðaþróun, og sú spurning könnuð hvort tilkoma landsamgangna
í stað sjósamgangna eftir 1940 geti skýrt hnignun sumra sjávarbyggða. Þá
er reynt að sýna með fræðilegum hætti hvaða áhrif stærðarhagkvæmni og
lækkun flutningskostnaðar hefur á stærð höfuðborgarsvæðisins og
atvinnulíf á landsbyggðinni. Í þessu tilliti er lögð sérstök áhersla
á að greina þróun í sjávarútvegi og staðsetningu
sjávarútvegsfyrirtækja. Loks, eru búferlaflutningar greindir niður eftir
aldri og menntun á síðustu 15 árum og reynt að finna sameiginlega
orsakaþætti.

Tekjuskipting á Íslandi: þróun og
áhrifavaldar
Haustskýrsla Hagfræðistofnunar 2001.
Meðhöfundar Ástu
Hall,
Gylfa Zoëga, Marta
Skúladóttir, Tryggvi
Þór Herbertsson
Ágrip -
bókin á rafrænu formi
Ítarleg
könnun á tekjuskiptingu á Íslandi og þróun síðustu ára.
Í þessari umfjöllun er ýmsum spurningum velt upp um ástæður og stefnu ójafnaðari
og þeim svarað í ljósi nýjustu hagfræðikenninga á þessu sviði, s.s. í
tengslum við alþjóðavæðingu
og tækniframfarir. Lögð er sérstök áhersla á að tengja umfjöllunina Íslenskum
aðstæðum. Sérstaða landsins er dregin fram en einnig er reynt að meta áhrif
á alþjóðlegra þátta á tekjujöfnuð hérlendis. Hér er einnig birtar niðurstöður
af umfangsmiklum tölfræðilegum rannsóknum á ójöfnuði sem gerðar voru í
tengslum við verkefnið. Fjallað er sérstaklega um tengsl búsetu, kynferðis,
atvinnulífs, hagsveiflna og tekjuskiptingar. Einnig er efnahagslegur
hreyfanleiki meðal Íslendinga skoðaður.