Nýtt efni

 

 

Um þjóðaríþrótt Íslendinga - höfrungahlaupið

Grein birt í vetrarhefti Þjóðmála 2018

Þann 2. janúar árið 1941 boðuðu átta verkalýðsfélög verkfall. Þau voru Dagsbrún, Hið íslenzka Prentarafélag, Bókbindarafélagið, Iðja, Félag verksmiðjufólks, Félag járniðnaðarmanna, Bakarasveinafélagið, Sveinafélag húsgagnasmiða og síðast en ekki síst Félag ísIenzkra hljóðfæraleikara. Rót verkfallanna virðist hafa verið mikil verðbólga, eða dýrtíð, vegna vöruskorts er fylgdi heimsstyrjöldinni. Verkalýðsfélögin vildu þess vegna fá „dýrtíðaruppbót“. Þá virðist„Bretavinnan“ hafa komið vinnumarkaðinum í uppnám og skapað ný launaviðmið. Í grein sem ég ritaði í vetrarhefti Þjóðmála í desember færi ég rök fyrir því að verkfallið 2. janúar 1941 hafi verið upphaf hins sk. Höfrungahlaups. Þ.e. hvernig mismunandi starfsgreinar skiptast á um að berja fram „launaleiðréttingar“ án tillits til efnahagslegra aðstæðna. Almennar nafnlaunahækkanir umfram framleiðni eru - eðli málsins samkvæmt - innistæðulausar og hljóta ávallt að leiða til verðbólgu. Vestrænar þjóðir telja sig lánsamar að ná 1-3% aukinni framleiðni á ári - og þá geta aukið kaupmátt almennings um sama hlutfall. Höfrungahlaupið á Íslandi er einstakt meðal vestrænna landa og er ein megin ástæða fyrir þeirri verðbólgu og óstöðugleika sem hefur einkennt lýðveldistímann. Af einhverjum ástæðum vilja Íslendingar ávallt berja fram tugaprósenta launahækkanir - jafnvel þó slíkt hefni sín ávallt með gengisfalli og verðbólguskotum. Lausnin sem ég legg til í greininni er ek. stéttasátt að norrænni fyrirmynd - og er í líkingu við þjóðarsáttina á tíunda áratugnum. Staðreyndin er einfaldlega sú að stöðugleiki á vinnumarkaði er forsenda verðstöðugleika.

 

 

 

Okurmálin í Austurstræti

Útgáfudagur janúar 2014

Í þessar bók eru tvær greinar um sem fjalla báðar um eftirmál stórra gjaldþrota. Sú hin fyrri snýr að gjaldþroti Blöndalsbúðar, stærstu fataverslunar landsins í Austurstræti árið 1955. Rekstrinum hafði verið haldið á floti með okurlánum á 30-60% ársvöxtum. Gjaldþrotið kveikti ákafa þjóðfélagsumræðu sem varð til þess að Alþingi skipaði rannsóknarnefnd til þess að fjalla um okur. Á eftir fylgdu húsleitir, handtökur, og loks voru fjórir menn dæmdir fyrir ólöglega vaxtatöku. Sú hin seinni lýsir bankahruni hinu fyrra árið 1930 þegar Íslandsbanki varð gjaldþrota og Útvegsbankinn var stofnaður. Þetta þrot varð tilefni til pólitískrar yfirtöku á bankakerfinu sem var fylgt eftir með setningu fjármagnshafta 1931 og lögsetningu vaxta 1933. Greinarnar tengjast þar sem fall Íslandsbanka plægði akurinn fyrir starfsemi okurlánara á Íslandi.Á sínum tíma voru okurlánararnir gerðir að blórabögglum fyrir kórvillur nýsjálfstæðrar þjóðar í efnahagsmálum. Ekki er laust við að okurumræðan frá Blöndalsbúð bergmáli enn á okkar tímum.


„En hver getur neitað því að nú sje vond tíð? Hjer hefir verið bankahrun, flóð, læknauppreisn, brjálæðisþvaður og ótal margt fleira, sem er einkenni mjög vondrar tíðar.“

Spegillinn, 15. mars, 1930.

 

 

Í leit að staðfestu

Bók gefin út að tilefni af 95 ára afmælis Jónasar Haralz með styrk frá Landsbanka Íslands. Útgáfudagur er október 2014

Jónas H. Haralz fæddist 1919, árið eftir fullveldi, og stóð ávallt nálægt kviku atburða í efnahagsmálum þjóðarinnar á sínum langa ferli. Hann var skarpur greinandi í bæði ræðu og riti og var einn fárra samtíðarmanna til þess að grípa þýðingu atburða þegar þeir gerðust. Það hefðu því fáir átt að vera betur til þess fallnir að greina atburði ársins 2008 í sögulegu samhengi en einmitt hann. Í þessari stuttu bók birtast nokkrar greinar eftir Jónas, fyrirlestrar og viðtöl frá 2009 – sem er bæði árið eftir hrun og árið sem hann varð níræður. Þessi skrif eru tekin saman undir ritstjórn Ásgeirs Jónssonar hagfræðings í tilefni af 95 ára afmæli Jónasar árið 2014. Hér birtist sýn Jónasar á þýðingu hrunsins fyrir framtíð landsins auk þess sem einnig fylgja ráð til ráðvilltrar þjóðar. Sérstaklega standa skýrum stöfum aðvaranir um að Íslendingar endurtaki mistök fortíðar og dragi sig frá umheiminum með höftum og einangrunarhyggju.

 

 

Skilnaður til góðs?
Fyrirlestur um aðskilnað viðskipta- og fjárfestingarbanka er var fluttur á hádegisfundi Félags viðskipta- og hagfræðinga 17. nóvember 2015.

 

 

Drög að uppgjöri

Bók rituð fyrir Slitastjórn Glitnis. Meðhöfundur Dr. Hersir Sigurgeirsson. Útgáfudagur 6.maí.2015

Þann 6. október 2008 gripu íslensk stjórnvöld til neyðarréttar og tóku yfir rekstur þriggja stærstu banka landsins til að koma í veg fyrir þjóðargjaldþrot. Á grundvelli neyðarlaganna var bönkunum skipt upp í tvennt: Innlendan hluta sem var endurfjármagnaður og erlendan hluta sem fór í slitameðferð. Þessar aðgerðir brutu blað í bankasögu Evrópu en eru taldar hafa heppnast vel. Núna, rúmum sex árum síðar, er uppgjöri vegna aðgerðanna þó ekki lokið og fjármagnshöft eru enn við lýði. Í þessari skýrslu, sem samin er að beiðni slitastjórnar Glitnis, er reynt að afmarka þann greiðslujafnaðarvanda sem Ísland á nú við að glíma og þær leiðir sem koma til greina til að leysa hann farsællega. Þá leggja skýrsluhöfundar einnig mat á þær björgunaraðgerðir sem gripið var til í tengslum við hrunið.

Ísland – líkt og önnur þjóðríki með eigin mynt – hefur bæði prentvald og skattvald til þess að bregðast við bankakrísum. Prentvaldið liggur hjá Seðlabanka sem þjónar sem lánveitandi til þrautavara. Skattvaldið er hjá ríkisstjórn og Alþingi í umboði skattgreiðenda þegar kemur að endurfjármögnun banka. Farið er yfir beitingu þessara tveggja valdheimilda og hvaða kostnað þær hafa haft í för með sér fyrir ríkissjóð Íslands.


Þessi skýrsla er því Drög að uppgjöri eftir bankahrunið 2008.

 

Evran, Ísland og höftin

Fyrirlestur fluttur á fundi Viðreisnar mánudaginn 23. mars.

Ísland gæti tekið upp evru 3-5 árum eftir samþykkt aðildarsamnings ef ERM II gengisfestan yrði farsæl.
Ákvörðun um aðild og síðan upptöku evru  breytir efnahagsmálum Íslands strax frá fyrsta degi.
Forsendur fyrir afnámi hafta breytast strax þar sem fyrirséð er að íslenskar krónur myndu breytast í evrur innan ákveðins tíma og Íslensk efnahagsstefna fengi nýjan trúverðugleika.
Leiðin í gegnum ERM II prógrammið er þó mjög krefjandi verkefni sem krefst mikils aga í hagstjórn.
Við upptöku evru myndi íslenska fjármálakerfið öðlast nýjan trúverðugleika og losna undan alls kyns sér-íslenskum kvöðum.
Samkeppnisstaða íslensks atvinnulífs myndi batna verulega. 

 

Ingibjörg Pálsdóttir Kolka Minning

Minningarorð um ömmu mína sem lést þann 12. mars 2015.

 

Um hrun hagfræðinnar

Grein rituð í Hjálmar, blað hagfræðinema, í febrúar 2015

Í þriggja greina bálki sem einn þekktasti sagnfræðingur nútímans, Niall Ferguson, ritaði árið 2013 og ber heitið „Krugtron the invincible“ fór hann yfir helstu spáskekkjur hagfræðiprófessorsins. Paul Krugmans. Þar má telja að hann hafi ekki séð fjármálakrísuna fyrir sem og að hafa ítrekað spáð hruni evrunnar, auk ótal annarra sleggjudóma og fullyrðinga sem hafa alls ekki gengið eftir.

Paul Krugman hefur áð árangri við að smíða líkön og kenningar til þess að skýra efnahagslega ákvörðunartöku fólks. Sú staða hefur gefið honum trúverðugleika til þess að tjá sig, en því miður lítinn árangur í spámennsku. Gagnrýnin á Krugman er því að ýmsu leyti dæmigerð um þá gagnrýni sem hagfræðin hefur orðið fyrir eftir að fjármálakrísan hófst um mitt ár 2007. Þessi umræða hefur líka skotið upp kollinum á Íslandi. Til að mynda hélt sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson fyrirlestur á síðasta Þjóðarspegli – ráðstefnu Félagsvísindasviðs er haldin var þann 31. október 2014 – sem bar hið lýsandi heiti: „Hrun háskólanna, hrun hagfræðinnar, hrun kenninganna“.
Það er í sjálfu sér eðlilegt að spurt sé hvort hagfræðin sé hér á rangri braut og hvort spáskekkjur Krugmans og stéttarbræðra hans afsanni kenningar hagfræðinnar.

 

Áhættudreifing eða einangrun: Um tengsl lífeyrissparnaðar, greiðslujafnaðar og erlendra fjárfestinga.

Bók rituð fyrir Landssamtök Lífeyrissjóða. Meðhöfundur Dr. Hersir Sigurgeirsson. Útgáfudagur 27.11.2014

Ísland er með einna hagstæðustu aldurssamsetningu í Vestur-Evrópu og siglir nú hraðbyri að því að lífeyriseignir verði 180-200% af landsframleiðslu. Þegar litið er til framtíðar er alþjóðleg eignadreifing ein forsenda þess að hægt sé að tryggja öruggan lífeyri og forðast neikvæð efnahagsleg áhrif þegar þjóðin tekur að eldast á næstu árum. Erlendar eignir lífeyrissjóðanna nema nú um 22% af heildareignum, sem er of lágt samkvæmt flestum áhættuviðmiðum.

Í þessari bók er fjallað um erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna í samhengi við bæði greiðslujöfnuð og eðlileg áhættuviðmið við ávöxtun sparnaðar. Reynt er að svara spurningum líkt og hvort fjármagnshöftin geti breytt líf-eyriskerfinu í gegnumstreymiskerfi, hve mikið af erlendum eignum líf-eyrissjóðirnir þurfi að eiga til þess að tryggja efnahagslegan stöðugleika og hvernig mögulegt sé fyrir sjóðina að fjárfesta erlendis í núverandi umhverfi. Ennfremur er greiðslujöfnuður landsins greindur frá fræðilegu og sögulegu sjónarhorni og núverandi staða metin. Að lokum er fjallað um áhrif haftanna á íslenskan þjóðarbúskap í bæði bráð og lengd.

 Ísland hefur glímt við ójafnvægi í greiðslujöfnuði allt frá því að landið varð að sjálfstæðu myntsvæði með fullveldi árið 1918. Sá órói hefur verið orsök bæði hafta á utanríkisviðskiptum og sífelldra gengisfellinga. Þannig brugðust Íslendingar við bankahruni og fjármagnsflótta með höftum árið 1931 er stóðu í 62 ár til ársins 1993. Fjármagnsfrelsið stóð þó aðeins í 15 ár, eða til 2008, að höft voru tekin upp að nýju. Flest bendir nú til þess að höftin verði viðvarandi hérlendis í einu eða öðru formi á næstu árum. Greiðslujöfnuðurinn hefur því frá upphafi sjálfstæðis verið öxull íslenskra efnahagsmála sem hagstjórnin hefur hverfst um. Í þessari bók er reynt með skipulegum hætti að greina áhrif hans á íslensk efnahagsmál og atvinnulíf.

 

KÚVENDING Í SKIPULAGSMÁLUM? Nýtt aðalskipulag í Reykjavík; forsendur, áhrif og gagnrýni

Grein rituð í blað verkræðinema upp í vindinn vorið 2014

 Skipulagið fyrra 1962-1983 sem og skipulagið 2010-2030 voru bæði í samræmi við þann tíðaranda sem var ríkjandi á þeim tíma er þau voru gjörð. Bæði hafa þau til síns ágætis nokkuð. Hinu fyrra var ætlað að ná þeim markmiðum að viðhalda stöðu miðbæjarins sem verslunar og þjónustumiðstöð með góðum umferðartengingum, sem og af atvinnustarfsemi. Þeim markmiðum var náð á skipulagstímanum, en með höfuðborgarsvæðið of stórt, götótt og óhagkvæmt. Það er mjög verðugt verkefni að bæta úr þessum göllum, sem er eitt helsta markmið nýs aðalskipulags. Helsti galli hins nýja skipulags felst í neikvæðni gagnvart umferðarbótum og samgöngumannvirkjum sem virðist vera litið á sem einhvers konar þjónkun við einkabílinn sem kalli aftur á meiri umferð. Vistvænar samgöngur og þétting hlýtur einnig að snúast um umferðarbætur sem stytta leiðir á milli staða þannig að tími og eldsneyti sparist – og byggðin sé færð saman.

Ekki val heldur skylda? Um nauðsyn þess að lífeyrissjóðir fjárfesti í útlöndum

Erindi flutt á aðalfundi Landssamtaka lífeyrissjóða þann 22. maí 2014

 

Aftur til fortíðar? Er stýring peningamagns með bindiskyldu framtíðin?

Erindi flutt á ráðstefnunni "Í ljósi reynslunnar" til heiðurs Jóhannesi Haralz þann 9. maí 2014

 

 Vaxtaþak á íbúðalán með breytilegum vöxtum.

Minnisblað fyrir nefnd um afnám verðtryggingar. 14. janúar 2014, Ritað með Hersi Sigurgeirsyni

Þegar horft er yfir farinn veg hvað varðar bæði verðbólgu og vaxtahækkanir ætti það ekki að koma á óvart að að það fylgir því ekki aðeins verulegur kostnaður að verja íslenska lántakendur fyrir hækkun skammtímavaxta heldur leggst sá varnarkostnaður ofan á vaxtastig sem er mjög hátt fyrir. Samkvæmt ofangreindum útreikningum um þaksetningu breytilegra vaxta er ekki augljóst að slíkt þak á skili lántakendum raunverulegum ábata umfram það sem fengist með festingu vaxta til langs tíma miðað við núverandi halla vaxtarófsins. Sem dæmi mætti nefna að ef miðað metið vaxtaróf, sem sýnt er á mynd 6, væri hægt að fá fá lán til 17 ára með um 8,6% föstum vöxtum og stýrivextir þurfa að fara
undir 4,5% til þess að lántakendur finni fyrir ábata af lækkun breytilegra vaxta. Hins vegar kann þetta að vera mismunandi frá einum tíma til annars eftir því hvernig að vaxtarófið leggst upp.

  

ÞEGAR REYKJAVÍKVAR ÞÉTTBÝLASTA BORG NORÐURLANDA, Jólablað Vísbendingar, 2013

 Árið 1930 voru 28 þúsund íbúar Í Reykjavík, sem allir voru í göngufæri við miðbæinn enda aðeins um einn til tveir kílómetrar frá miðju byggðarinnar til jaðars.
Þéttni búsetunnar var gífurleg. Í húsnæðisrannsókn sem Páll Zóphaníasson vann árið 1928 kemur fram að 15,3% allra íbúða í bænum voru kjallaraíbúðir (eða 803) og 17,7% af öllum íbúðum voru undir súð. Í könnunni var það metið svo að um helmingur bæjarbúa byggi í of miklu þröngbýli – þ.e. með innan við 15 fermetra húspláss á mann – og af þessum hóp væru um 15% íbúa í „alvarlegu“ þröngbýli eða með innan við 10 fermetra húsplássi á mann. Aukinheldur bjuggu um 5% íbúanna í alvarlega heilsuspillandi íbúðum að mati könnunarfólks á þeim tíma. Reykjavík hefur á þessum tíma líklega verið ein þéttbýlasta borg Norðurlanda. Samkvæmt fyrrgreindri könnun var húsaleiga í Reykjavík um helmingi hærri en í Kaupmannahöfn sem sýnir einnig þrengslin og húsnæðisskortinn.