Greinar um sagnfræði og hagsögu

 

Ég alltaf haft mikinn áhuga á sagnfræði og svo fór að ég vann lokaritgerð frá Hagfræðiskor Háskóla í hagsögu. Ég tók síðan valsvið í hagsögu - einkum mannfjöldasögu - í  doktorsnámi mínu ytra. Hér eru nokkrar af þeim greinum er ég hef ritað um sagnfræði:

 

Um framþróun íslenska bankakerfisins

Jólablað Vísbendingar, 2004

Það er ekki ofmælt að bylting hafi átt sér stað í bankaviðskiptum á síðustu árum. Þessa byltingu má merkja með því að skoða aukningu útlána eða eigin fjár bankakerfisins, en þessar magnstærðir segja þó aðeins hálfa söguna um þær breytingar sem hafa átt sér stað. Íslenskur banki í dag er einfaldlega allt önnur stofnun en hann var fyrir 10 árum. Bankakerfið er nú í auknum mæli orðið vettvangur fyrir háskólamenntaða sérfræðinga á ýmsum sviðum og býður upp á mjög fjölbreytta fjármálaþjónustu bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Það er fremur auðvelt að benda á þá þætti sem gerðu þessa byltingu mögulega. Hún átti sér stað eftir að bankarnir fengu loksins athafnarými með vaxtafrelsi eftir 1985, frelsi í fjármagnsflutningum við útlönd eftir árið 1995, með tilkomu nútímalegs millibankamarkaðar með krónur og gjaldeyri árið 1998 og síðan einkavæðingu bankakerfisins sem átti sér stað í þrepum á árunum 1998-2003. Sú spurning er hins vegar mun torræðari hvort þessi þróun hafi verið fyrirsjáanleg – um leið frelsið var fengið – og hvort hægt sé að sjá fyrir næstu skref í þróun íslenska bankakerfisins.

Í þessari grein verður þess freistað að setja þróun íslenskra bankaviðskipta í samband við þróun samsvarandi viðskipta erlendis. Markmiðið er tvíþætt. Annars vegar að reyna að átti sig hvaða hlutverk einstaka atburðir í bankasögunni hafa haft áhrif á þróun efnahagsmála hérlendis, s,s, tilkoma Íslandsbanka árið 1904 og gjaldþrot þess sama banka árið 1930. Hins vegar að velta upp nokkrum hugmyndum um hvað sé framundan í íslensku bankakerfi. Því þrátt fyrir allt hafa íslensk bankaviðskipti ekki náð jafn langt á þróunarbrautinni eins og t.d. í Bretlandi og ef saga annarra þjóða er að einhverju leyti fordæmi má afla ákveðinna vísbendinga um bankarekstur hérlendis á næstu árum.

 

Villta vestrið á Íslandi

Tímarit máls og menningar, október 2003

Oft er því haldið fram að hámenning hafi látið undan síga fyrir lágmenningu eða skemmtanaiðnaði sem er rekinn áfram af markaðsöflunum. Í því samhengi er yfirleitt talað „markaðinn“ sem sjálfstæða veru sem komi andstyggilegum gróðasjónarmiðum til leiðar. Orðið markaður þýðir þó aðeins svæði sem hefur verið markað af til kaupskapar og er sú merking enn rétt á okkar tímum. Innan markaðanna er síðan fólk. Orðið markaður í eintölu er aðeins annað orð yfir íslensku þjóðina þegar hún kaupir eitthvað og selur. Það er því ekkert markaðnum að kenna í sjálfu sér. Hann er aðeins spegill þjóðfélagsins og hefur sama bókmenntasmekk og þjóðin sjálf.

Vinsældir Shakespeares í villta vestrinu sýna vel að list og skemmtun geta hæglega verið eitt. Og það er merki um fordóma nútímafólks að geta ekki hugsað sér kúreka njóta leiksýninga í stað þess að drekka og slást. Ennfremur hættir nútímafólki til að gera of lítið úr forfeðrum sínum í moldarkofunum sem voru þrátt fyrir allt betur bókmenntaðir en helftin af þjóðinni er nú, þrátt fyrir að hafa aldrei farið í skóla. Hvorki fátækt, erfiðisvinna né skortur á formlegri skólagöngu þarf að tákna menningarleysi. Þvert á móti. Listir eiga ekki að vera eitthvað sem fólk getur aðeins notið eftir langan undirbúning og skólagöngu og eru það ekki í raun og veru. Alþýðan býr yfir sköpunargáfu sem skortir oft á hærri stöðum. Og þegar alþýðulist er gerð að hámenningu er oft sem hún verði að steini – klassík – sem ekki er lengur ætluð til gamans nema fyrir fáa útvalda. Aftur á móti getur almúginn oft verið ansi vegalaus og villst með sköpunargáfuna í lítilsiglda hluti ef hann hefur ekki stefnumið af bókmenntaarfleið eða menningarvitum þjóðarinnar. Hér verður að ríkja jafnvægi í anda þess sem Jónas Hallgrímsson talaði fyrir á sínum tíma og var grundvöllurinn fyrir menningarbyltingu Fjölnissinna og tilvist íslenskrar menningar eins og vér þekkjum hana nú.

 

Hjálpsami Þjóðverjinn sem hvarf

Tímarit máls og menningar, apríl 2003

Hinn 15. nóvember árið 1915 fengu öll grunnskólabörn á Akureyri frí frá kennslu. Þeim var safnað saman undir styrkri stjórn Halldóru Bjarnadóttur skólastýru og síðan fylktu þau liði niður að höfn. Krakkaskarinn nam staðar við síldarbátinn Helga magra, sem var að leggja út til síldveiða við Noreg, og hélt tónleika við káetudyrnar. Akureyrska fréttablaðið Íslendingur lýsti því svo í frétt, þremur dögum síðar, að börnin hefðu verið að syngja góðan gest úr garði „er svo lengi hafði kynt sig hér sem stakan barnavin.” Gesturinn var þjóðverji,  George H. F. Schrader að nafni, sem skyndilega birtist á Akureyri vorið 1912. Nú, rúmlega 90 árum seinna, veit enginn af hverju hann kom hingað og hvað rak hann til þess að fara aftur rúmlega þremur árum síðar. Vitað var að honum hafði græðst töluvert fé með viðskiptum í Bandaríkjunum og þeim fjármunum hafði að miklu leyti verið varið til góðgerðamála fyrir vestan haf og á Íslandi. Haft var á orði á Akureyri að hann hefði orðið fyrir einhverju áfalli – sumir sögðu ástarsorg en aðrir nefndu ástvinamissi – sem hefði fengið hann til þess að brjóta blað í lífi sínu og verja auðæfum sínum til hjálpar öðrum. 

Sagan af dvöl Schraders á Akureyri felur  í sér dálitla ráðgátu um ríkan mann sem yfirgaf vini og ættingja vorið 1912 og kaus að þremur síðustu árum ævi sinnar í það að hjálpa Akureyringum með ýmsa hluti. En hér hangir samt mun fleira á spýtunni. Þegar farið er yfir verk Schraders á Akureyri, skrif hans um Íslendinga og blaðafréttir af öllu saman, vakna margar spurningar um eðli hjálpseminnar. Og þá sérstaklega hvaða skyldur sá hjálpsami leggur á þá sem hann hjálpar, og hvaða þakklæti hann vill fá í staðinn. Og hvort hjálpin sé í raun gagnleg þegar öllu er á botninn hvolft. Staðreyndin er sú að hjálpsemin og afskiptasemin eru náfrænkur.  Hjálparstarf er of blinduð af forsendum og fordómum þess sem leggur slíkt erfiði á sig að hún kemur ekki að gagni nema að litlu leyti. Og þeir sem taka við hjálpinni gera það oft af gæsku við þann sem lætur hana í té fremur en gagnsemi hjálparinnar sjálfra. Sagan af starfi Schrader á Akureyri þegar Ísland var fátækasta land V-Evrópu gæti þess vegna sýnt í hnotskurn af hverju hjálparstarf með vanþróaðra þjóða kemur oft fyrir lítið.

 

 

Af örlögum íslenskra hafnarbyggða

Tímarit Máls og Menningar, nóvember 2002. 

Undanfarin ár hafa margir gamalgrónir þéttbýlisstaðir á landsbyggðinni tapað fólki. Hér er einkum um að ræða hafnarbyggðir á Vestfjörðum, Austfjörðum og Norðurlandi, sem eru annað hvort girtar fjöllum eða í langri fjarlægð frá öðru þéttbýli. Margir hafa freistast til þess að kenna sjávarútvegi alfarið um þessa fólksfækkun, og þá sérstaklega kvótakerfinu. En samt er það svo að þessi mannfjöldaþróun hófst mun fyrr en kvótakerfið kom til sögunnar.Um miðbik tuttugustu aldar nam fólksfjölgun staðar í sjávarbyggðum kringum um landið eftir mikla aukningu áratugina á undan og síðan hefur fólksfækkun tekið við. Fækkun íbúa hefur verið mun hraðari en fækkun starfa í sjávarútvegi, sem mikill fjöldi erlends farandverkafólks í fiskvinnslu sýnir ljóslega. Hér verður þeirri tilgátu varpað fram að þessu umskipti í hafnarbyggðunum megi rekja til þess að landflutningar tóku við af sjóflutningum eftir seinna stríð.

 

 

Gamli Sáttmáli og ESB

(stendur þjóðin í sömu sporum og fyrir 740 árum?)

Tímarit Máls og menningar. Október 2002. Það er athyglisvert að nú í upphafi þessarar aldar skuli örlög Noregs og Íslands aftur vera samtvinnuð í Evrópumálum svo sem var til forna, því hvorugt landið vill sitja eftir ef hitt gengur í ESB. Þetta er þó ekki hið eina. Hér verða færð rök fyrir því að þær spurningar sem Íslendingar þurfa nú að kljást við í Evrópumálum séu að stofni til þær sömu og þegar þjóðveldið leið undir lok. Þar veldur að nokkru landfræðileg lega. Landsmenn eru enn fámenn, sérsinna þjóð í útjaðri Evrópu eins og á tímum Sturlunga. Svo vill einnig til að þeir valkostir sem nú eru lagðir fyrir þjóðina eru undarlega líkir því sem gerðist þegar landsmönnum bauðst aðild að norska konungdæminu á sínum tíma. Íslendingar verða nú að samþykkja skattgreiðslur í stað markaðsaðgangs og fullveldisframsal í stað viðurkenningar og réttinda í Evrópu. Þeir eru í raun beðnir um að tvinna saman stjórnmál og utanríkisviðskipti líkt og tíðkast í nýrri sameinaðri Evrópu. Eins og við endalok þjóðveldisins snýst spurningin nú um það hvort stíga þurfi ný pólitísk skref til þess að halda sér í hópi fullgildra Evrópuþjóða.

 

Þá Skúli var yfirvald Skagfirðinga

Grein væntanleg til birtingar í Skagfirðingabók 2002. Skúli Magnússon var sýslumaður Skagfirðinga í 12 ár - áður en hann varð landfógeti. Árin hans nyrðra voru ótrúlega viðburðarík og hann dróst inn í margs konar deilur um verslun, stjórnun biskupsstólsins á Hólum og ýmislegt annað. Til eru geipilegar margar sagnir og sögur af veru hans þar sem gengið hafa manna á millum allt fram á þennan dag. Skúli kemur fyrir sem skjótráður,  hvatvís en þó réttlátur og tilbúinn að viðurkenna verðleika án tillits til þjóðfélagsstéttar – líkt og kóngarnir í ævintýrasögunum sem gefa dætur sínar karlsyni úr koti fyrir einhverja drýgða dáð. Hann kemur einnig fyrir sem maður sem vílar það ekki fyrir sér að snúa á kerfið til þess að fá réttláta niðurstöðu, sama við hverja var að eiga. Athafnasemi og hans einurð koma einnig fram í viðskiptum hans við einokunarkaupmenn,  Hólabiskupa, Hollenska verslunarbrjóta, stóðbændur og ýmsa aðra sem voru á ferli í Skagafirði á árunum 1738-1750. 

Þegar Bandaríkin voru bólusett gegn kommúnisma

Grein birt í Hagmálum í mars 2002. Mitt á meðal allra fánanna, í miðju miðvestrinu, örskammt frá heimili sjálfs Abrahams Lincolns, er lítill bær sem tíminn hefur gleymt og kallast New Harmony. Þar var fyrsta tilraunin gerð með kommúnisma á fyrri hluta nítjándu aldar, þegar Bandaríkin voru ung og ómótuð. Þessi tilraun fór ekki hljótt. Öll þjóðin fylgdist með af áhuga og margir af hennar bestu mönnum komu til þess að taka þátt í stofnum nýs þjóðfélags. Forvígismanni tilraunarinnar var boðið að ávarpa Bandaríkjaþing, Hæstarétt og ríkisstjórn til þess að predika sameignarstefnu. Flestir þátttakendur kusu síðar að þurrka tilraunina út úr minni sínu. En samt sem áður. Þessi tvö örlagaþrungnu ár, 1826-27, í miðvestrinu mörkuðu spor bæði í þjóðarsál Bandaríkjanna og hreyfingu Marxista sem síðar spratt upp.

Að útvelja lausgangarana: Íslendingar í þegnskylduvinnu

Grein birt í Vísbendingu í desember 2001. Hér sagt frá því þegar Norðlensk alþýða byggði kirkjuna á Hólum í þegnskylduvinnu 1757-63 undir stjórn þjóðverja að nafni Sabinsky. Raunin varð ú að Íslenskur veruleiki og dönsk skriffinnska skullu saman með harkalegum hætti við þessar byggingu, þannig verkið tafðist og allt gekk á afturfótunum. Hver hreppur í Skagafirði og Húnavatnssýslum átti að leggja fram tvo menn til verksins og vitanlega voru lötustu og erfðustu mennirnir valdir til þess að vinna kauplaust. Sabinsky reyndi að skipa þeim til með þýskri hörku en komst að fullkeyptu. Hann bjó því til hvatningarkerfi þar sem mennirnir fengu tóbak og brennivín að launum fyrir unnið verk - og kirkjan komst að lokum upp.

Múrinn rauði á Hólum

Grein rituð í Skagfirðingabók 2001. Því hefur verið haldið fram af flestum málsmetandi mönnum að Auðunn rauði Hólabiskup hafi hafið smíði steinkirkju á Hólum 1321, sem hafi aldrei verið lokið vegna andláts Auðuns ári síðar. Það er vitað um rauðan múr á Hólum eftir 1549, en hins vegar má efast um að sá múr hafi komið Auðunni við að einhverju leyti. Í fyrsta lagi var ný timburkirkja fyrir á staðnum þegar Auðunn varð biskup og auk þess geta samtímaheimildir að engu þessarar byggingar. Þetta er enn einkennilegra fyrir þá sök að til er nokkuð áreiðanleg lýsing á biskupsárum Auðunar í sögu eftirmanns hans á biskupsstóli, Lárentíusar Kálfssonar, sem lést árið 1331. Reyndar líða 400 ár frá andláti Auðuns þar til því fyrst haldið fram á prenti hann hafi ráðist í smíði steinkirkju. Hér er farið yfir þessi mál og leitt rök því hvenær múrinn var raunverulega byggður, af hverjum og af hvaða ástæðum. Þá er því einnig svarað af hverju seinni tíðar menn hafa verið svo áfram með að tengja nafn Auðuns við téðan múr.

Bækurnar hans Benjamíns

Grein rituð í Hagmál 2001. Benjamín J. Eiríksson verður hiklaust að telja einn fremsta hagfræðing tuttugustu aldar, bæði hvað varðar yfirgrip menntunar og framlag til landsmála. Benjamín átti gott bókasafn, sem er gefur yfirlit yfir þekkingu hans og þróun hagfræðikenninga frá dauða Arnljóts 1901 allt fram til 1960.  Þessu safni var ánafnað til Hagfræðistofnunar Háskólans. Hér er verður stiklað á stóru um helstu bækur í þessu safni og við hvaða aðstæður Benjamín áskotnaðist þær.

Nýlenduhagfræði

Grein rituð í Vísbendingu í desember 2000. Sjálfstæði og jafnvel lýðræði er í sjálfu sér enginn trygging fyrir auðsæld. Lífskjör í mörgum fyrrum nýlendum, t.d. í Afríku, eru mun verri nú en var fyrir sjálfstæði. Aðrar nýlendur eins og t.d. Indland hafa búið við kyrr kjör þar til á allra seinustu árum. Aftur móti hafa þær fáu nýlendur sem urðu eftir í forsjá nýlenduveldanna, s.s. Hong Kong í Asíu eða Belize í S-Ameríku vaxið að auðsæld og eru jafnvel orðnar ríkari en nýlenduríkin sjálf.Í þessu sambandi er fróðlegt að velta fyrir sér stöðu mála ef Íslendingar hefðu ekki sótt eftir sjálfstæði og haldið áfram tryggð við Danaveldi. Færa má fyrir því sterk rök að leið íslensku þjóðarinnar á tuttugustu öld frá örbirgð til auðæva hefði orðið beinni og krókaminni hefðu þeir lotið forræði Dana. Þeir hefðu til að mynda sloppið við mörg dýr hagstjórnarmistök á eftirstríðsárunum, s.s. haftatíman 1947-60 og verðbólgubálið 1972-92. Íslendingar hafa hins vegar ávallt verið staðfastir í þeirri trú að sjálfstæði væri undirstaða framfara og velsældar. Sú spurning sem blasir við upphafi nýrrar hvort þetta sé að öllu leyti rétt.

Qwerty hagfræði

Grein birt í Vísbendingu, desember 1998. Hvaða máli skipta sögulegar tilviljanir í hagþróun þjóða og héraða? Hagfræðingurinn Paul David leit á lyklaborðið á tölvunni sinni og las QWERTY.  Hann þóttist af því geta dregið fram kenningu sem getur útskýrt hvernig markaðir láta stjórnast af duttlungum sögunnar frekar en einskærri hagsýni. Hann birti þessa nýju hugdettu í grein árið 1985 sem olli miklu írafári meðal hagfræðinga. Qwertylögmálið hefur síðan verið notað til þess að skýra auðlegð og fátækt þjóða, utanríkisviðskipti og hættuna af einokunarstöðu Microsoft svo fátt eitt sé nefnt. En efasemdarmenn eru að vísu aldrei langt undan....

Ævi og endalok velferðarkapítalista

Grein rituð í Vísbendingu í desember 1997 um Henry Ford bílakóng. Ford var brautryðjandi á mörgum sviðum og ekki aðeins í bílaframleiðslu og færibandavinnu. Hann er einnig höfundurinn að ýmsum nýjungum á vinnumarkaði, varð einn sá fyrsti til þess að ráða blökkumenn, fyrrverandi fanga og fatlaða í vinnu. Ennfremur hækkaði hann laun starfsmanna sinna um helming árið 1914. Hins vegar neitaði hann alfarið að viðurkenna verkalýðsfélög í verksmiðjum sínum og það tilefni til heiftarlegra átaka - sem hættu fyrr en kona hans hótaði að fara frá honum gæfi hann ekki eftir.

Skúli fógeti:Var hann "endurlífgari Ísalands?

Grein rituð í Vísbendingu í desember 1997 um Skúla fógeta og innréttingarnar í Reykjavík. Reynt er að meta fyrirtækin út frá nútíma rekstri nútímafyrirtækja - og hvort þetta hafi verið dauðadæmt frá byrjun eður ei. Annars er Skúli Magnússon ein uppáhaldspersónan mín úr Íslandssögunni. Það er ekki hægt annað en dást að dugnaði hans, áræðni og einbeitni til þess að stjórna aðstæðum fremur en láta aðstæður stjórna sér. Það er mikil þörf á því að gefa út safnrit yfir verk hans, en hann ritaði margt um haglýsingu landsins.

Gull og grjót, Arnljótur Ólafsson, fyrsti hagfræðingur Íslands.

Grein rituð í Vísbendingu 17. júní 1995 um Arnljót Ólafsson og bók hans um hagfræði (Auðfræði) sem er afburða gott aflestrar enn þann dag í dag.

Siglt gegn vindi.

Fjármálatíðindi, desember 2004

Þjóðhagfræðileg greining á Íslenska hagkerfinu 1400-1600. Grein sem birt í Fjármálatíðindum, seinna hefti 1994. Þetta er lokaritgerðin mín frá Viðskipta- og hagfræðideild sem minnst er á hér að ofan. Leiðbeinendur mínir voru tveir þeir Gísli Gunnarsson sagnfræðingur og Þorvaldur Gylfason hagfræðingur, en hluti ritgerðarinnar var síðan birtur í Fjármálatíðindum í desember 1994.