Atli Harðarson

 
Ég fæddist í Biskupstungum í Árnessýslu árið 1960 og ólst að mestu upp í Laugarási í þeirri sveit. Foreldrar mínir, Hörður Sigurðsson og Ingibjörg Bjarnadóttir, reistu þar garðyrkjubýlið Lyngás árið 1964 og bjuggu þar þangað til í desember árið 2002 þegar þau fluttu í Hveragerði. Ég á tvö systkini, Bjarna sem býr á Selfossi og Kristínu Þóru í Reykjavík.
   Ég lauk námi í barnaskóla Biskupstungna árið 1974 og landsprófi frá Skálholtsskóla vorið 1975. Stúdentspróf tók ég úr eðlisfræðideild Menntaskólans að Laugarvatni vorið 1979 og lauk BA prófi í heimspeki og bókmenntum frá Háskóla Íslands 1982. Árið 1984 útskrifaðist ég með MA próf í heimspeki frá Brown University á Rhode Island í Bandaríkjum Norður Ameríku. Nokkrum árum síðar lauk ég svo námi í uppeldis- og kennslufræðum til kennsluréttinda frá Háskóla Íslands. Í júní 2013 varði ég doktorsritgerð við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og útskrifaðist með PhD gráðu í menntunarfræðum.
   Síðan ég lauk námi hef ég lengst af starfað við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi ef frá eru talin skólaárin 1996-7 og 1997-8 þegar ég kenndi við Menntaskólann að Laugarvatni. Frá 1. ágúst 2001 til 31. júlí 2011 var ég aðstoðarskólameistari við Fjölbrautaskóla Vesturlands. Ég er skipaður skólameistari við sama skóla frá og með 1. ágúst 2011 og gegndi því starfi til 15. september 2014. Ég starfa nú sem dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
   Ásamt kennslunni hef ég fengist við heimspeki, ritstörf, ljóðaþýðingar, félagsmál kennara og gerð námsefnis í tölvufræði. 
   Ég var á tímabili í stjórn og skólamálanefnd Hins íslenska kennarafélags. Einnig hef ég setið í stjórn 3F - Félags um upplýsingatækni og menntun og í Samstarfsnefnd um endurmenntun framhaldsskólakennara. Frá júní 2002 til júní 2005 var ég stjórnarmaður í Félagi íslenskra framhaldsskóla (FÍF) og frá október 2003 til júní 2005 var ég í stjórn Félags stjórnenda í framhaldsskólum (FS) en áður var ég formaður skólamálanefndar þess félags sem er eitt af aðildarfélögum Kennarasambands Íslands. Frá miðju ári 2011 er ég í stjórn Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi og ég var áður í stjórn þeirrar stofnunar milli 2005 og 2008.
    Frá upphafi árs 2008 til ársloka 2009 var ég formaður stjórnar Launasjóðs fræðiritahöfunda. Frá upphafi árs 2009 til miðs árs 2011 var ég fulltrúi Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum í Siðaráði Kennarasambands Íslands og gegndi embætti formanns í ráðinu.

*

Eiginkona mín er Harpa Hreinsdóttir. Við eigum tvo syni, Mána (fd. 1985) og Vífil (fd. 1991). Ég hef verið félagi í Rótarýklúbbi Akraness síðan í maí 2004.

Curriculum vitae er hér á pdf-formi.