Átta ljóð um hunda

Reykjavík 27. september 2020

Ég hef nú unnið að ljóðabók minni um hunda í fimm ár samfellt og strokað út öll ljóðin nema átta. Þessi fáu sem eftir eru hafa styst sem tímar liðu. Bókin er því einfaldlega orðin of stutt til að taki því að gefa hana út. Ég hef því ákveðið að birta hana áður en ég eyði fleiri orðum og verkið hverfur algerlega.

Atli


1.
Þegar Lappi og Ísleifur voru einir eftir í kotinu
fór sá síðarnefndi yfir í gamla skólahúsið
og sótti krítartöflu sem hann festi hjá matardöllum hundsins.
Veturinn eftir fékk kvikindið tilsögn í bókstafareikningi.


2.
Hundar eru ákaflega ólíkir
en samt allir af sömu tegund.
Þegar einn þeirra gengur fram fyrir hópinn
og les af glærum sínum
þá vita hinir hvenær á að dilla rófunni.
Líka blendingar úr sveitinni
sem ekki er ætlað meira vit en þeir hafa.


3.
Depill var vel gefinn.
Það er haft eftir honum
að hið sanna hundseðli
sé fólgið í endalausri viðleitni
til að ganga hring
í kringum sjálfan sig.


4.
Það var einu sinni kjölturakki
sem ákvað að tilkynna
hvernig heimurinn er í raun og veru.
Hann hafði þefað mjög víða
og vissi þetta.


5.
Korri, sem fyrri eigendur kölluðu Brúnó,
mátti vera inni í bókaherberginu.
Honum var þó stranglega bannað
að gelta á fundum. Þá hringaði hann sig undir borði
innan um harða skó
og pressaðar buxnaskálmar
og þöglar áhyggjur runnu saman við
lykt úr öðrum húsum.


6.
Loks fundust aðferðir
til setja lifandi miðtaugakerfi
í samband við önnur tæki og Sámur
var gerður að sjálfstæðri einingu á Netinu.
Hann var lífsglaður hundur
og hafði aðeins verið tengdur skamma stund
þegar iðnaðarþjarkar
og alls konar hergögn
fóru að dilla sér.
Eymd heimsins
hætti að skipta nokkru máli.


7.
Ævilangt gelti Snati
eins og honum var til sigað.
Hann var raunar trúr allt til dauðans.
Kúrði þó lengst af
með trýnið milli framfótanna
og ýlfraði lágt í svefni.


8.
Vaskur var nógu vel að sér til að vita
að þótt sumar sögur endi vel
gera ævisögur það aldrei.
Hann bjóst samt ekki við
að sér yrði beinlínis lógað.