Nokkur ljóð eftir Elytis

Odysseas Elytis (Οδυσσέας Ελύτης, 1911 –1996) var með helstu ljóðskáldum Grikkja á síðustu öld og hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1979.

Eftirfarandi ljóð er áttundi hluti af ljóðabálki í átján pörtum sem birtist árið 1943 í bókinni Sól hin fyrsta (Ήλιος ο πρώτος).

Ég hef lifað nafnið sem er elskað
í skugga af tré – það var ólívukerlingin gamla –
í dyn frá hafsins ævilöngu leið.

Þeir sem grýttu mig lifa ekki lengur
ég hlóð brunn úr steinunum
að barmi hans koma ferskar og grænleitar stúlkur
varir þeirra berast niður úr dagrenningunni
hár þeirra raknar djúpt inn í ókomna tíma.

Koma svölur, ungbörn sem vindurinn á,
þær drekka og fljúga svo lífið gangi sinn gang
ógnvaldur draumsins breytist í draum
og bágindin sveigja hjá höfðanum góða
hvergi fer rödd til einskis um himinsins flóa.

Ódauðlegi sær, hvað hvíslar þú, segðu mér frá því
snemmendis kom ég að þínum árdegismunni
á efsta leiti þar sem ástin þín birtist
sé ég löngun næturinnar til að hella niður stjörnum
löngun dagsins til að kroppa gróður jarðar.

Í akra lífsins sáði ég smáblómum, þúsundum saman,
þúsundum barna þar sem réttsýnir vindar blása
fallegra og hraustra barna sem anda góðvild
og kunna að beina augum að ystu sjónarrönd
þegar tónlistin hefur eyjarnar á loft.

Ég hef letrað nafnið sem er elskað
í skugga af tré – það var ólívukerlingin gamla –
í dyn frá hafsins ævilöngu leið.

Þýðingin er engan vegin nákvæm og veldur þar nokkru um hvernig Elytis leikur sér að margræðni orða. Sem dæmi má taka fyrstu ljóðlínuna Έζησα τ’ όνομα το αγαπημένο sem þýða mætti orðrétt: Lifði nafnið hið elskaða. En þetta er ekki eina mögulega þýðingin því þegar sögnin ζώ (sem merkir ég lifi) tekur andlag getur hún þýtt ég annast, ég el, eða ég lifi við eða ég geng í gegnum.

Έζησα er einföld þátíð af ζώ og einföld þátíð í grísku á yfirleitt við um einn liðinn atburð. Sé um að ræða endurtekið ástand í fortíðinni er notuð annars konar þátíð, í tilviki þessarar sagnar er hún εζούσα.

Fyrsta ljóðlínan gæti því þýtt Eitt sinn annaðist ég nafnið elskaða. Þessa margræðni er erfitt að tjá í stuttu máli á íslensku. Svipaða sögu má segja um fleiri ljóðlínur.

Á stöku stað reyni ég að tjá margræðni sem ekki er hægt að þýða beint með því að lengja ljóðið til að koma tveim mögulegum merkingum að. Dæmi um þetta er í sjöttu línu þar sem ég þýði χλωρά κορίτσια sem ferskar og grænleitar stúlkur. Lýsingarorðið χλωρός merkir oftast grænn en það getur líka þýtt ferskur eða nýskorinn eða nýsleginn þegar það er notað um jarðargróða.

Gríski frumtextinn fer hér á eftir.

Έζησα τ’ όνομα το αγαπημένο
Στον ίσκιο της γιαγιάς ελιάς
Στον ρόχθο της ισόβιας θάλασσας.

Εκείνοι που με λιθοβόλησαν δεν ζούνε πιά
Με τις πέτρες τους έχτισα μια κρήνη
Στο κατώφλι της έρχονται χλωρά κορίτσια
Τα χείλια τους κατάγονται από την αυγή
Τα μαλλιά τους ξετυλίγονται βαθιά στο μέλλον.

Έρχονται χελιδόνια τα μωρά του ανέμου
Πίνουν πετούν να πάει μπροστά η ζωή
Το φόβητρο του ονείρου γίνεται όνειρο
Η οδύνη στρίβει το καλό ακρωτήρι
Καμιά φωνή δεν πάει χαμένη στους κόρφους τ’ ουρανού.

Ώ αμάραντο πέλαγο τι ψιθυρίζεις πες μου
Από νωρίς είμαι στο πρωινό σου στόμα
Στην κορυφήν όπου προβάλλ’ η αγάπη σου
Βλέπω τη θέληση της νύχτας να ξεχύνει τ’ άστρα
Τη θέληση της μέρας να κορφολογάει τη γη.

Σπέρνω στους κάμπους της ζωής χίλια μπλαβάκια
Χίλια παιδιά μέσα στο τίμιο αγέρι
Ωραία γερά παιδιά που αχνίζουν καλοσύνη
Και ξέρουν ν’ ατενίζουν τους βαθιούς ορίζοντες
Όταν η μουσική ανεβάζει τα νησιά.

Χάραξα τ’ όνομα το αγαπημένο
Στον ίσκιο της γιαγιάς ελιάς
Στον ρόχθο της ισόβιας θάλασσας.

 

Næst á eftir ljóðabókinni Sól hin fyrsta (Ήλιος ο πρώτος) sem út kom 1943 birti Elytis hugleiðingar og minningar um seinna stríðið í bókinni Hetjusöngur og harmaljóð um flokksforingjann sem fórst í Albaníu (Άσμα ηρωικό και πένθιμο για τον χαμένο ανθυπολοχαγό της Αλβανίας) sem út kom 1946. Á eftir þeirri bók kom svo hans frægasta verk, Verðugt er (Αξιον Εστί) þar sem viðfangsefnum fyrri bóka er fléttað saman.

Hér fer á eftir þýðing á fjórða ljóðinu úr Hetjusöng og harmaljóði um flokksforingjann sem fórst í Albaníu.

Hann liggur nú ofan á skorpnuðum hermannafrakka
með gust sem hefur staðnæmst í kyrru hári
með grein af meiði gleymskunnar í vinstra eyra
líkur garði sem fuglarnir hafa skyndilega yfirgefið
líkur söng sem er keflaður í myrkrinu
líkur englaklukku sem stöðvaðist
þegar augnhárin sögðu „sæll og bless“
og undrunin varð að steini ...

Hann liggur ofan á skorpnuðum hermannafrakka.
Í kringum hann gjamma myrkar aldir
með beinagrindum hunda að hræðilegri þögninni
og stundirnar sem aftur urðu að steindúfum
hlusta vandlega eftir;
Þótt brosið sviðnaði og jörðin yrði heyrnarlaus
þótt enginn heyrði það hinsta hróp
tæmdist veröld öll við hinsta hróp.

Undir fimm sedrusviðartrjám
án annarra kerta
liggur hann á skorpnuðum hermannafrakka;
Hjálmurinn tómur, gruggað blóðið
hálfur handleggur hjá
og milli augnabrúnanna —
lítill beiskur brunnur, fingrafar örlaganna
lítill beiskur dumbrauður brunnur
brunnur þar sem minningarnar kólna!

Æ lítið ekki á æ lítið ekki á hvar frá honum
hvar lífið flúði frá honum. Ekki segja
ekki segja hve reykurinn steig hátt upp af draumnum
þannig eitt augnablik, þannig eitt
þannig skilur eitt augnablik sig frá öðru
og ódauðleg sólin í skyndi frá mannanna heimi!

Á frummálinu:

Τώρα κείτεται απάνω στην τσουρουφλισμένη χλαίνη,
Μ' ένα σταματημένο αγέρα στα ήσυχα μαλλιά,
Μ' ένα κλαδάκι λησμονιάς στ' αριστερό του αφτί,
Μοιάζει μπαξές που του' φυγαν άξαφνα τα πουλιά,
Μοιάζει τραγούδι που το φίμωσαν μέσα στη σκοτεινιά,
Μοιάζει ρολόι αγγέλου που εσταμάτησε
Μόλις είπαν «γεια παιδιά!» τα ματοτσίνορα
Κι η απορία μαρμάρωσε...

Κείτεται απάνω στην τσουρουφλισμένη χλαίνη.
Αιώνες μαύροι γύρω του
Αλυχτούν με σκελετούς σκυλιών τη φοβερή σιωπή
Κι οι ώρες που ξανάγιναν πέτρινες περιστέρες
Ακούν με προσοχή·
Όμως το γέλιο κάηκε, όμως η γη κουφάθηκε,
Όμως κανείς δεν άκουσε την πιο στερνή κραυγή
Όλος ο κόσμος άδειασε με τη στερνή κραυγή.

Κάτω απ' τα πέντε κέδρα,
Χωρίς άλλα κεριά,
Κείτεται στην τσουρουφλισμένη χλαίνη...
Άδειο το κράνος, λασπωμένο το αίμα,
Στο πλάι το μισοτελειωμένο μπράτσο,
Κι ανάμεσα απ' τα φρύδια -
Μικρό πικρό πηγάδι, δακτυλιά της μοίρας,
Μικρό πικρό πηγάδι κοκκινόμαυρο,
Πηγάδι όπου κρυώνει η θύμηση!

Ω μην κοιτάτε, ω μην κοιτάτε από που του-
Από που του' φυγε η ζωή. Μην πείτε πως -
Μην πείτε πως ανέβηκε ψηλά ο καπνός του ονείρου
Έτσι λοιπόν η μια στιγμή, έτσι λοιπόν η μια
Έτσι λοιπόν η μια στιγμή, παράτησε την άλλη,
Κι ο ήλιος ο παντοτεινός έτσι με μιας τον κόσμο!

  

Nokkur ljóð úr Verðugt er (Άξιον Εστί)

Ljóðabókin Verðugt er (Άξιον Εστί) sem kom út árið 1959 er þekktasta verk Elytis. Fyrsta ljóðið sem hér fer á eftir er upphaf fyrsta hluta sem kallast Sköpunin eða Tilurðin (Η Γένεσις). Hin eru öll úr miðhlutanum sem kallast Þjáningin eða Passían (Τα Πάθη). Þriðji og síðasti hluti verksins kallast Lofsöngurinn eða Glorían (Τo Δοξαστικόν).

Þessi ljóðabálkur er einhvers konar sálmur um Grikkland og stundum óljóst hvort ljóðmælandinn er skáldið eða land þess.

Þýðing á Sköpuninni er hér í pdf-skrá. Hún birtist í Són, tímariti um óðfræði, 14. árg. 2016.    

Sálmur númer 2

   Gáfu mér málið mitt, hellenska tungu –
fátæklegt kot, á ströndum sem tilheyra Hómer.
   Fyrir málinu el ég önn og því einu,
á ströndum sem tilheyra Hómer.
   Þar eru aborrar og kólguflekkir, hreggbarðar sagnir,
grænleitir straumar í bládjúpi hafsins,
   allt sá ég, er sírenur mæltu hin fyrstu orð,
ljóma í iðrum mín sjálfs,
   marglyttur, svampa og rauðleitar skeljar
með fyrsta hrollinum svarta.
   Fyrir málinu el ég önn og því einu,
með fyrsta hrollinum svarta.
   Þar eru granatepli og aldin af runnanum rjóða,
hörundsdökk goð og bræðrungar, frændur,
   tæmandi olíu ofan í risastór ker –
úr gilinu ilmandi gustur,
   tágavíðir og róðutré, sefgresi, engiferrætur
við fyrstu tíst finkunnar
   sætlegur lofsöngur, Dýrð-sé-þér, í allrafyrsta sinn.
Fyrir málinu el ég önn og því einu,
   Dýrð-sé-þér, kveðið í alfyrsta sinn.
Þar er lárviður, pálmar, reykelsisker og heilög angan
   blessandi sverðin og byssur með tinnusteinslása.
Ilmur af grilluðu kjöti og brestandi skurn
   á dúkuðum vínekrum jarðar
og Kristur upprisinn
   þá kveðjuskot Hellena hljóma hið fyrsta sinn.
Leyndar ástir í fyrstu orðum Lofsöngsins.
   Fyrir málinu el ég önn og því einu,
í fyrstu orðum Lofsöngsins.

Undir lok ljóðsins koma fyrir vísanir sem líklegt er að flestir grískir lesendur átti sig á en útlendingar síður. Orðin „κνίσες, τσουγκρίσματα“ sem hér eru þýdd með „ilmur af grilluðu kjöti og brestandi skurn“ vísa trúlega til páskanna þegar lambakjöt er steikt á grilli og vinir slá saman soðnum eggjum og sjá hjá hvorum skurnin brotnar fyrr. Lofsöngurinn sem nefndur er í síðustu vísuorðunum er væntanlega þjóðsöngur Grikkja sem er Lofsöngur til frelsisins eftir Dionysios Solomos (Διονύσιος Σολωμός, 1798 – 1857) sem hefst á erindunum:

Σε γνωρίζω από την κόψη / του σπαθιού την τρομερή, / σε γνωρίζω από την όψη / που με βιά μετράει τη γη.
Απ' τα κόκαλα βγαλμένη / των Ελλήνων τα ιερά, / και σαν πρώτα ανδρειωμένη, / χαίρε, ω χαίρε, Ελευθεριά!

Í lauslegri þýðingu getur þetta verið:

Af biti sverðsins þig ég þekki / þess er skelfir eggin hörð / af hvössum sjónum þig ég þekki / þeim er spanna afli jörð.
Af Hellenanna helgu beinum / hugrekki sem forðum tíð, / heill þér, heill þér, rómi einum / hyllum frelsið ár og síð.

Ég þýði „στις αμμουδιές του Όμηρου“ með „á ströndum sem tilheyra Hómer.“ En kvenkynsorðið „αμμουδιά“ þýðir stundum strönd, oftast þó sandströnd en það getur líka merkt sand. Það er því mögulegt að þýða þetta með „á söndum Hómers.“

Eins og víðar í ljóðabálknum Verðugt er virðist mælandinn ýmist vera skáldið eða land þess. Það er að minnsta kosti enginn venjulegur maður sem sér sjávardýr ljóma í eigin iðrum.

Á frummálinu:

   Τη γλώσσα μου έδωσαν ελληνική·
το σπίτι φτωχικό στις αμμουδιές του Όμηρου.
   Μονάχη έγνοια η γλώσσα μου στις αμμουδιές του Όμηρου.
Εκεί σπάροι και πέρκες
   ανεμόδαρτα ρήματα
ρεύματα πράσινα μες στα γαλάζια
   όσα είδα στα σπλάχνα μου ν' ανάβουνε
σφουγγάρια, μέδουσες
   με τα πρώτα λόγια των Σειρήνων
όστρακα ρόδινα με τα πρώτα μαύρα ρίγη.
   Μονάχη έγνοια η γλώσσα μου, με τα πρώτα μαύρα ρίγη.
Εκεί ρόδια, κυδώνια
   θεοί μελαχρινοί, θείοι κι εξάδελφοι
το λάδι αδειάζοντας μες στα πελώρια κιούπια·
   και πνοές από τη ρεματιά ευωδιάζοντας
λυγαριά και σχίνο
   σπάρτο και πιπερόριζα
με τα πρώτα πιπίσματα των σπίνων
   ψαλμωδίες γλυκές με τα πρώτα πρώτα Δόξα Σοι.
Μονάχη έγνοια η γλώσσα μου, με τα πρώτα πρώτα Δόξα Σοι!
   Εκεί δάφνες και βάγια
θυμιατό και λιβάνισμα
   τις πάλες ευλογώντας και τα καριοφίλια.
Στο χώμα το στρωμένο με τ' αμπελομάντιλα
   κνίσες, τσουγκρίσματα
και Χριστός Ανέστη
   με τα πρώτα σμπάρα των Ελλήνων.
Αγάπες μυστικές με τα πρώτα λόγια του Ύμνου.
   Μονάχη έγνοια η γλώσσα μου, με τα πρώτα λόγια του Ύμνου!

   

Óður númer 4

Svala ein * og yndi vorsins
aftur til að snúi sól * er æði mikið verk að vinna
þurfa af þeim sem eru dauðir * þúsundir að knýja hjól
þörf er líka lifendanna * að láti þeir í té sitt blóð.

Ó, þú guð minn Yfirsmiður * inn í fjöllin byggt mig hefur
Ó, þú guð minn Yfirsmiður * læstir mig í hafsins faðm!

Maí er heygður * líki liðnu
legstað úti á hafi bjuggu * galdrakarlar gerðu lokað
grafhýsi í djúpum brunni * þar sem allt til hinstu botna
ilma myrkur * ilma hyljir.

Ó, þú guð minn Yfirsmiður * þú ert inn um liljur vorsins
Ó, þú guð minn Yfirsmiður * upprisunnar angan kennir.

Hrærist eins og * sæðisfruma
titri inni í myrkum kviði * minninganna skorkvikindi
skelfilegt í iðrum jarðar * sem köngurvofa kroppar ljósið
birtan skín í flæðarmáli * bliki slær á hafsins flöt.

Ó, þú guð minn Yfirsmiður * girt mig hefur ströndum sævar
Ó, þú guð minn Yfirsmiður * að undirstöðum gafst mér fjöllin!

Upphafsorð ljóðsins vísa trúlega í 7. kafla fyrstu bókar í Siðræði Níkomakkosar eftir Aristóteles þar sem segir (í þýðingu Svavars Hrafns Svavarssonar) „[Þ]að vorar ekki með einni svölu eða einum blíðskapardegi. Á sama hátt verður maður ekki sæll eða farsæll á einum degi eða skömmum tíma.“ Þessi ummæli Aristótelesar eru þekktari en svo að hægt sé að nefna svölur og vor í sama vísuorði án þess að þau komi lesendum í hug. Það er eins og Elytis neiti því sem Aristóteles heldur fram og þótt það sé ósagt í ljóðinu liggur ef til vill milli línanna að hægt sé að öðlast farsæld á einum degi.

Yfirsmiðurinn (Πρωτομάστορας) vísar í þjóðsögu um brúarsmið í borginni Arta í vestanverðu Grikklandi. Eftir því sem sagan segir átti Yfirsmiðurinn að stjórna brúarbyggingu en á hverri nóttu hrundu undirstöðurnar sem reistar voru daginn áður. Á þessu gekk uns fugl með mannsrödd upplýsti að brúin mundi ekki standa nema Yfirsmiðurinn fórnaði konu sinni. Hún var því grafin lifandi í undirstöðum brúarinnar.

Á frummálinu:

Ένα το χελιδόνι * κι η Άνοιξη ακριβή
Για να γυρίσει ο ήλιος * θέλει δουλειά πολλή
Θέλει νεκροί χιλιάδες * να 'ναι στους Τροχούς
Θέλει κι οι ζωντανοί * να δίνουν το αίμα τους.

Θε μου Πρωτομάστορα * μ' έχτισες μέσα στα βουνά
Θε μου Πρωτομάστορα * μ' έκλεισες μες στη θάλασσα!

Πάρθηκεν από Μάγους * το σώμα του Μαγιού
Το' χουνε θάψει σ' ένα * μνήμα του πελάγου
Σ' ένα βαθύ πηγάδι * το 'χουνε κλειστό
Μύρισε το σκότα * δι κι όλη η Άβυσσο.

Θε μου Πρωτομάστορα * μέσα στις πασχαλιές και Συ
Θε μου Πρωτομάστορα * μύρισες την Ανάσταση!

Σάλεψε σαν το σπέρμα * σε μήτρα σκοτεινή
Το φοβερό της μνήμης * έντομο μες στη γη
Κι όπως δαγκώνει αράχνη * δάγκωσε το φως
Έλαμψαν οι γιαλοί * κι όλο το πέλαγος.

Θε μου Πρωτομάστορα * μ' έζωσες τις ακρογιαλιές
Θε μου Πρωτομάστορα * στα βουνά με θεμέλιωσες!

 

Sálmur númer 7   

   Klæddir sem „vinir“
komu þeir
   andskotar mínir ótal sinnum
og tróðu fótum forna mold.
   En moldin hæfði aldrei hælum þeirra.
Þeir komu
   með vitringinn, landtökumanninn og rúmfræðinginn,
ritningar fullar af bréfum og tölum
   og samleik auðsveipni og valds
sem ríkti yfir ljósinu forna.
   En ljósið hæfði aldrei hlífum þeirra.
Ekki varð býflugan ginnt í sinn gullna leik
   né heldur golan af vestri blekkt til að þenja voðirnar hvítu.
Efst á tindum,
    við opin sund og inni í dölum
reistu þeir voldug virki og smíðuðu mikil hús
   eikjur bæði og önnur fley,
settu lögin sér í hag
   sem brutu hvergi í bág við forna reglu.
En reglan hæfði aldrei hugsun þeirra.
   
Ekki var spor eftir guð markað í sál þeirra
né heldur gerði huldan þá mállausa með augnaráði sínu.
   
Klæddir sem „vinir“
komust þeir hingað
   andskotar mínir ótal sinnum
gefandi sínar fornu gjafir.
   En gáfu ekkert
nema eld og járn.
   Í opnar lúkur sem lengi biðu,
ekkert nema eld og vopn og járn.
   Ekkert nema eld og vopn og járn.

Þar sem segir að huldan geri þá ekki mállausa með augnarráði sínu er vísað í gríska þjóðtrú sem segir að ef maður horfist í augu við huldukonu steli hún rödd hans.

Á frummálinu:

  Ήρθαν
ντυμένοι «φίλοι»
  αμέτρητες φορές οι εχθροί μου
το παμπάλαιο χώμα πατώντας.
  Και το χώμα δεν έδεσε ποτέ με τη φτέρνα τους.
Έφεραν
  τον Σοφό, τον Οικιστή και τον Γεωμέτρη
Βίβλους γραμμάτων και αριθμών
  την πάσα Υποταγή και Δύναμη
το παμπάλαιο φως εξουσιάζοντας.
  Και το φως δεν έδεσε ποτέ με τη σκέπη τους.
Ούτε μέλισσα καν δε γελάστηκε το χρυσό ν’ αρχινίσει παιχνίδι·
  ούτε ζέφυρος καν, τις λευκές να φουσκώσει ποδιές.
Έστησαν και θεμέλιωσαν
  στις κορφές, στις κοιλάδες, στα πόρτα
πύργους κραταιούς κι επαύλεις
  ξύλα και άλλα πλεούμενα
τους Νόμους, τους θεσπίζοντας τα καλά και συμφέροντα
  στο παμπάλαιο μέτρο εφαρμόζοντας.
Και το μέτρο δεν έδεσε ποτέ με τη σκέψη τους.
  Ούτε καν ένα χνάρι Θεού στην ψυχή τους σημάδι δεν άφησε·
ούτε καν ένα βλέμμα ξωθιάς τη μιλιά τους δεν είπε να πάρει.
  Έφτασαν
ντυμένοι «φίλοι»
  αμέτρητες φορές οι εχθροί μου
τα παμπάλαια δώρα προσφέροντας.
  Και τα δώρα τους άλλα δεν ήτανε
παρά μόνο σίδερο και φωτιά.
  Στ’ ανοιχτά που καρτέραγαν δάχτυλα
μόνον όπλα και σίδερο και φωτιά.
  Μόνον όπλα και σίδερο και φωτιά.

   

Óður númer 5

Með lukt úr ljósi stjarna * ég leitaði til himna,
út á svölum engjum * á heimsins einu strönd,
hvar finn ég sálu mína * hið fjögurra laufa tár!

Brúðarlaufi mæddu * silfruðu af svefni,
ýrðu mér um andlit * einn ég geng og blæs,
hvar finn ég sálu mína * hið fjögurra laufa tár!

Þú sem stýrir geislum * rekkjugaldrakarlinn,
svikahrappur vitandi * um seinni tíma, seg mér
hvar finn ég sálu mína * hið fjögurra laufa tár!

Í stúlkum mínum sitja * sorgir heilla alda,
með riffla mínir piltar * en vita ekki samt
hvar finn ég sálu mína * hið fjögurra laufa tár!

Hundraðhentar nætur * í himinhveli víðu
erta mig í iðrum * undan sviðinn kvelur,
hvar finn ég sálu mína * hið fjögurra laufa tár!

Með lukt úr ljósi stjarna * ég geng um himingeima,
út á svölum engjum * á heimsins einu strönd,
hvar finn ég sálu mína * hið fjögurra laufa tár!

Brúðarlauf eða myrta (Myrtus communis) er algeng jurt á Grikklandi og víðar við Miðjarðarhaf. Hún tengist bæði ódauðleika og dýrkun Afródídu ástargyðju.

Á frummálinu:

Με το λύχνο του άστρου * στους ουρανούς εβγήκα
Στο αγιάζι των λειμώνων * στη μόνη ακτή του κόσμου
Που να βρω την ψυχή μου * το τετράφυλλο δάκρυ!

Λυπημένες μυρσίνες * ασημωμένες ύπνο
Μου ράντισαν την όψη * Φυσώ και μόνος πάω
Που να βρω την ψυχή μου * το τετράφυλλο δάκρυ!

Οδηγέ των ακτινών * και των κοιτώνων Μάγε
Αγύρτη που γνωρίζεις * το μέλλον μίλησέ μου
Που να βρω την ψυχή μου * το τετράφυλλο δάκρυ!

Τα κορίτσια μου πένθος * για τους αιώνες έχουν
Τ’ αγόρια μου τουφέκια * κρατούν και δεν κατέχουν
Που να βρω την ψυχή μου * το τετράφυλλο δάκρυ!

Εκατόγχειρες νύχτες * μες στο στερέωμα όλο
Τα σπλάχνα μου αναδεύουν * Αυτός ο πόνος καίει
Που να βρω την ψυχή μου * το τετράφυλλο δάκρυ!

Με το λύχνο του άστρου * στους ουρανούς γυρίζω
Στο αγιάζι των λειμώνων * στη μόνη ακτή του κόσμου
Που να βρω την ψυχή μου * το τετράφυλλο δάκρυ!

    

Óður númer 6

Þú réttlætissól sem í andanum ljómar * og brúðarlauf þú sem lofsungið ert
ég bið að þið gleymið ei * gleymið ei landinu mínu!

Með fjöllin sín háu í arnarlíki * eldborgir vínviði grónar
og húsin svo hvít * við himinsins bláma!

Snertir það Asíu á eina hlið * við Evrópu nemur á hina
horfir þó einstakt við hafsæ * og heiðríkju loftsins!

Hvorki rök aðkomumanna * né kærleikur eigin niðja
aðeins harmur, vei, á alla vegu * og vægðarlaust ljósið!

Mínar bitru hendur bera Þrumufleyginn * á bak við Tíðina ég vendi þeim
og ákalla svo aldagamla vini * með ægilegum hótunum og blóði!

En horfið er allt blóð það hefur þornað * hótanirnar grafnar, vei, í steina
og hver á móti öðrum úti setjast * allir vindar loftsins!

Þú réttlætissól sem í andanum ljómar * og brúðarlauf þú sem lofsungið ert
ég bið að þið gleymið ei * gleymið ei landinu mínu!

Gríska orðið καιρός (keros) sem kemur fyrir í fimmta erindi hefur sömu tvíræðu merkingu og íslenska orðið tíð, getur merkt bæði tíma og veður.

Á frummálinu:

Της δικαιοσύνης ήλιε νοητέ * και μυρσίνη εσύ δοξαστική
μη παρακαλώ σας μη * λησμονάτε τη χώρα μου!

Αετόμορφα έχει τα ψηλά βουνά * στα ηφαίστεια κλήματα σειρά
και τα σπίτια πιο λευκά * στου γλαυκού το γειτόνεμα!

Της Ασιάς αν αγγίζει από τη μια * της Ευρώπης λίγο αν ακουμπά
στον αιθέρα στέκει να * και στη θάλασσα μόνη της!

Και δεν είναι μήτε ξένου λογισμός * και δικού της μήτε αγάπη μια
μόνο πένθος αχ παντού * και το φως ανελέητο!

Τα πικρά μου χέρια με τον Κεραυνό * τα γυρίζω πίσω απ’ τον Καιρό
τους παλιούς μου φίλους καλώ * με φοβέρες και αίματα!

Μα ‘χουν όλα τα αίματα ξαντιμεθεί * και οι φοβέρες αχ λατομηθεί
και στον έναν ο άλλος μπαί * νουν ενάντια οι άνεμοι!

Της δικαιοσύνης ήλιε νοητέ * και μυρσίνη εσύ δοξαστική
μη παρακαλώ σας μη * λησμονάτε τη χώρα μου!

 

Óður númer 10

Blóð elskunnar * prýddi mig purpura
ég hjúpaðist yndi * sem aldrei var séð
í næðingi mannfólksins * þraut ég og þvarr
fjarlæga móðir * mín eilífa rós

Þeir biðu mín þar sem * útsærinn opnast
á þrímastra skipum * og skeytin mér sendu
synd mín að dirfðist ég * sjálfur að elska
fjarlæga móðir * mín eilífa rós

Einn júlídag opnuðust * með mér hið innra
augu hennar stóru * en aðeins til hálfs
að bregða á meyjar líf birtu * í örskamma stund
fjarlæga móðir * mín eilífa rós

Eftir það hefur snúist * og geisað í gegn mér
aldanna bræði * sem öskrar og hrín
„Hver sem þig litið fékk augum * lifi í blóði og í steini“
fjarlæga móðir * mín eilífa rós

Landinu mínu * ég líktist á ný
blómstraði í grjótinu * greri og óx
morðingja blóðskuld * borga með ljósi
fjarlæga móðir * mín eilífa rós.

Síðasta vísuorðið er eins í öllum erindunum og þar ávarpar skáldið fjarstadda móður með orðunum Roðo mú Amaranto (Ρόδο μου Αμάραντο) sem þýða rósin mín sem aldrei fölnar eða rósin mín eilífðarblóm. Þessi orð tengjast Maríu guðsmóður þótt það sé ef til vill álitmál hvort skáldið ávarpar hana eða einhvern af landvættum Grikklands, enda kannski engin leið að segja á venjulegu máli um hvað Elytis yrkir.

Sögnin μισανοίγω sem kemur fyrir í þriðja erindi er hér þýdd með orðasambandinu að opnast aðeins til hálfs. Hún getur líka þýtt að blómgast eða springa út (ef það er haft um blómhnappa). Það er því álitamál hvort augu hennar stóru sem nefnd eru hálfopnuðust eða sprungu út eins og blóm.

Á frummálinu:

Της αγάπης αίματα * με πορφύρωσαν
Και χαρές ανίδωτες * με σκιάσανε
Οξειδώθηκα μες στη * νοτιά των ανθρώπων
Μακρινή Μητέρα * Ρόδο μου Αμάραντο

Στ' ανοιχτά του πέλαγου * με καρτέρεσαν
Με μπομπάρδες τρικάταρτες * και μου ρίξανε
Αμαρτία μου να 'χα * κι εγώ μιαν αγάπη
Μακρινή Μητέρα * Ρόδο μου Αμάραντο

Τον Ιούλιο κάποτε * μισανοίξανε
Τα μεγάλα μάτια της * μες στα σπλάχνα μου
Την παρθένα ζωή μια * στιγμή να φωτίσουν
Μακρινή Μητέρα * Ρόδο μου Αμάραντο

Κι από τότε γύρισαν * καταπάνω μου
Των αιώνων όργητες * ξεφωνίζοντας
«Ο που σ' είδε, στο αίμα * να ζει και στην πέτρα»
Μακρινή Μητέρα * Ρόδο μου Αμάραντο

Της πατρίδας μου πάλι * ομοιώθηκα
Μες στις πέτρες άνθισα * και μεγάλωσα
Των φονιάδων το αίμα * με φως ξεπληρώνω
Μακρινή Μητέρα * Ρόδο μου Αμάραντο.