Ljóð eftir Girogos Seferis

 

Fróðleikur um höfundinn

Giorgos Seferis (Γιώργος Σεφέρης) fæddist árið 1900 skammt frá Smyrnu í Anatólíu. Hann nam lögfræði við Sorbonne háskóla í Frakklandi og starfaði síðan lengst af í grísku utanríkisþjónustunni m.a. sem sendiherra í Tyrklandi, Englandi og Albaníu.

Seferis hætti að þjóna gríska ríkinu eftir að herforingjar tóku völd árið 1967. Þegar hann lést árið 1971 voru herforingjar enn við völd. Við jarðarförina safnaðist mikill fjöldi manna saman í Aþenu og söng ljóð hans Afneitun (Άρνηση) við lag Mikis Þeodorakis og varð þessi söngur, sem hafði þá um nær tíu ára skeið verið vinsæll og vel þekktur, að sameiningartákni þeirra sem börðust gegn herforingjastjórninni. (Þessi illa þokkaða stjórn sem hrökklaðist frá völdum 1974 stjórnaði Grikklandi að hætti fasista.)

Seferis fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1963.Hann lést árið 1971.

Afneitun

Við flæðarmál á feluströndu
fagurhvítri eins og dúfu
þorstinn mjög á miðjum degi
mæddi en vatnið salti blandað.

Þar á ljósan ljóma sandsins
letrað höfðum nafnið hennar,
en frá sænum golan gladdi
og gustur eyddi skrifum þessum.

Ó hve hjartað ákaft barðist,
öndin þreyði full af löngun,
er líf vort tókum tökum – röngum!
og tilverunni út því skiptum.

Hér er ljóðið á frummálinu:

Αρνηση

Στο περιγιάλι το κρυφό
κι άσπρο σαν περιστέρι
διψάσαμε το μεσημέρι•
μα το νερό γλυφό.

Πάνω στην άμμο την ξανθή
γράψαμε τ' όνομά της•
ωραία που φύσηξεν ο μπάτης
και σβήστηκε η γραφή.

Mε τι καρδιά, με τι πνοή,
τι πόθους και τι πάθος,
πήραμε τη ζωή μας• λάθος!
κι αλλάξαμε ζωή.