Sófókles

Nokkrar ljóðlínur um ástina eftir gríska harmleikjaskáldið Sófókles (496 – 406 f.Kr.)

Kýpurgyðjan kallast mörgum nöfnum,
er kunn sem fleira en dís frá þeirri eyju.
Hún er feigð og hún er ódauðleiki,
hamslaust æði, þrá sem trylltust geisar,
sorg og mæða. Mun það allt í henni
sem mestu veldur, bæði ró og ofsa.
Fer um innstu iður hverrar sálar.
Mun einhver laus við svanga girnd í hana?
Kemst í fiska á sundi úti í sjónum
sem og ferfætt dýr á þurru landi
og meðal fugla vængjum sínum veifar.

Í villtar skepnur, menn og himinguði.

Ástargyðjan Afródída var kennd við eyna Kýpur. Eftir því sem segir í áttunda þætti Ódysseifskviðu átti hún lund nálægt Pafosborg: „Þar lauguðu þokkagyðjurnar hana, og smurðu með himnesku viðsmjöri.“ Önnur saga segir að hún hafi, í árdaga, gengið á land við Grikkjaklett á vesturenda Kýpur eftir að hún varð til úr froðu sem myndaðist þegar Krónos henti hreðjum Úranosar í hafið. Þessi klettur er rétt hjá borginni Pafos.

Sófókles kallar gyðjuna Kýpris og í þýðingunni kalla ég hana Kýpurgyðju.

Ljóðlínurnar eru brot úr lengra verki sem ekki hefur varðveist í heilu lagi (brot 941, sjá Loeb Classical Library 483, bls. 404–405). Þær virðast vera hugleiðing harmleikjaskáldsins um ástina. Á frummálinu eru þær svona:

ὦ παῖδες, ἥ τοι Κύπρις οὐ Κύπρις μόνον,
ἀλλ᾿ ἐστὶ πολλῶν ὀνομάτων ἐπώνυμος.
ἔστιν μὲν Ἅιδης, ἔστι δ᾿ ἄφθιτος βίος,
ἔστιν δὲ λύσσα μανιάς, ἔστι δ᾿ ἵμερος
ἄκρατος, ἔστ᾿ οἰμωγμός. ἐν κείνῃ τὸ πᾶν
σπουδαῖον, ἡσυχαῖον, ἐς βίαν ἄγον.
ἐντήκεται γάρ †πλευμόνων† ὅσοις ἔνι
ψυχή· τίς οὐχὶ τῆσδε τῆς θεοῦ βορός;
εἰσέρχεται μὲν ἰχθύων πλωτῷ γένει,
χέρσου δ᾿ ἔνεστιν ἐν τετρασκελεῖ γονῇ,
νωμᾷ δ᾿ ἐν οἰωνοῖσι τοὐκείνης πτερόν.

ἐν θηρσίν, ἐν βροτοῖσιν, ἐν θεοῖς ἄνω.

Þýðingin er langt frá því að vera orðrétt og nákvæmni víkur fyrir stuðlum og hrynjandi og mínum eigin smekk. Ég sleppi til dæmis ávarpinu ὦ παῖδες (börn) sem fyrsta línan hefst á því mér finnst það ekki hljóma vel á íslensku.