Tagore   

Í byrjun síðustu aldar var Rabindranath Tagore (1861-­1941) með dáðustu ljóðskáldum heimsins. Eitt þekktasta verk hans er ljóðabókin Gitanjali. Margir telja að það hafi einkum verið vegna hennar sem Tagore fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. En hann er líka þekktur sem höfundur indverska þjóðsöngsins, heimspekingur og hugsuður sem skrifaði meðal annars merk rit um menntun og skóla.

Tagore orti ljóðin í Gitanjali upphaflega á móðurmáli sínu, bengali, en sneri þeim sjálfur á ensku og breytti töluvert í leiðinni. Enska útgáfan kom út 1912 en sú bengalska tveimur árum fyrr. Öll 103 ljóðin í bókinni eiga það sammerkt að ljóðmælandinn beinir máli sínu til guðs. Hér er tilraun til að snúa einu ljóði úr bókinni (því númer 49) á íslensku.

 

#49

Þú komst niður frá hásæti þínu og stóðst við dyrnar á kofanum mínum.

Ég var að syngja aleinn inni í horni og lagið náði eyrum þínum. Þú komst niður og stóðst við dyrnar á kofanum mínum.

Í sal þínum eru margir meistarar og þar eru sungnir söngvar öllum stundum. En einfaldur sálmur byrjandans vakti ást þína. Angurvær viðleitni mín rann saman við hina miklu tónlist heimsins og þú komst með blóm að launum og staðnæmdist við dyrnar á kofanum mínum.

 


Þýtt eftir textanum í The Complete Works of Rabindranath Tagore sem kom út 2017 hjá forlaginu General Press í Nýju Delhi.