Sálmar á páskum

   

Á páskadag 2017

Böðlast á og bæla og pína og berja niður
vonina í veröldinni
vondir menn í heimsku sinni.

Hún deyr samt aldrei algerlega, en ósköp feimin
lítil bæði og létt í spori
lifnar við á hverju vori.

   

Á páskadag 2018

Steininum velt frá og orðin þyrlast eins og ryk í morgunsólinni.

Mest ber á kveini frá næstu misserum.
Það eru líka fjarlægar raddir,
orðaskil jafnvel frá síðustu tímum.

   

Á páskadag 2019

Ef lífið er kvikmynd
er síðasti ramminn
þá endalok tímans?

Er hugurinn líka
úti í salnum
og hvaðan er ljósið?

   

Á páskadag 2020

Hann er stór þessi heimur.

Er það hugsun og líf
sem mér finnst eins og bærist
bak við fellingar tímans?