Atli Harðarson
Uppruni tegundanna
4. hluti: Apamál og óvinsældir

Skoski eðlisfræðingurinn William Thomson sem þekktur er undir nafninu Kelvin lávarður (1824-1907) var einn af merkustu frumkvöðlum í eðlisfræði nítjándu aldar. Einkum er hann frægur fyrir rannsóknir á sviði varmafræði. Kelvin var ekki hrifinn af kenningu Darwins. Hann áleit að þróun lífsins gæti ekki verið afsprengi tilviljana og efniskrafta sem ekkert hirða um tilgang eða markmið. Hann óttaðist líka að kenningin leiddi til efnishyggju sem honum var lítt að skapi. Þótt ástæður þess að Kelvin var í nöp við þróunarkenningu Darwins hafi verið að nokkru leyti trúarlegar voru rök hans gegn kenningunni vísindaleg fremur en trúarleg. Kelvin benti á að þar sem jörðin er heit að innan geti hún ekki verið nærri eins gömul og Darwin hlaut að gera ráð fyrir, því þá væri hún löngu búin að geisla frá sér öllum hita og orðin köld í gegn. Á þessum tíma stóð enginn honum framar á sviði varmafræði svo Kelvin vissi manna best hvað hann var að tala um þegar hann hélt því fram að jörðin gæti vart verið meira en eitthundrað milljón ára gömul. Miðað við þá eðlisfræði sem þekkt var á nítjándu öld gat heldur ekki staðist að sólin logaði í þúsundir milljóna ára- ekkert eldsneyti gæti innihaldið svo mikla efnaorku.
   Það var ekki fyrr en eftir aldamótin 1900 að menn gerðu sér grein fyrir þeim möguleika að sólin sé knúin kjarnorku og jörðin haldist heit að innan vegna niðurbrots geislavirkra efna (þ.e. útverminna kjarnahvarfa). Rök Kelvins gáfu mönnum góðar ástæður til að vefengja kenningu Darwins allt þar til hjónin Pierre og Marie Curie sýndu fram á það á fyrstu árum tuttugustu aldar að geislavirk efni gæfu frá sér nægan hita til að kynda upp iður jarðar. Síðan þá hefur andóf gegn darwinisma lítt eða ekki stuðst við vísindaleg rök. Samt er mörgum í nöp við þróunarkenninguna enn þann dag í dag.
   Sem dæmi um andstöðu gegn darwinisma má til dæmis nefna grein sem birtist í New York Times þann 7. júlí síðastliðinn eftir Christoph Schönborn kardínála og erkibiskup í Vínarborg. Í greininni segir hann að „þróunarkenningin kunni að vera sönn í þeim skilningi að ólíkar lífverur eigi sér sameiginlegan forföður, en darwinismi í nútímaskilningi- þ.e. sú kenning að þróunin verði fyrir náttúruval sem verki á handahófskenndar breytingar án þess neinn stýri henni eða skipuleggi- geti ekki verið sönn kenning.“ Schönborn er með virtari prelátum Rómarkirkjunnar og talinn hafa nokkuð náinn tengsl við Benedikt XVI páfa. Ekki er ljóst hvort grein hans er undanfari einhvers konar stefnubreytingar hjá kaþólsku kirkjunni, en hún hefur hingað til hvorki tekið afstöðu með né á móti kenningu Darwins. Hvað sem því líður eru margir kristnir söfnuðir, einkum í Bandaríkjunum heldur andsnúnir darwinisma og hafa reynt að koma í veg fyrir að líffræðingar kenni skólabörnum það sem þeir vita sannast og réttast um þróun lífsins og skyldleika ólíkra tegunda.
   Andstaða trúaðra manna í Vesturheimi við þróunarkenninguna er líklega frægust af apamálinu sem svo er nefnt. Dómsmál þetta var höfðað gegn kennara nokkrum í Tennesseefylki árið 1925 og var honum meðal annars gefið að sök að kenna börnum að menn væru komnir af öpum. Réttarhöldin vöktu mikla athygli í fjölmiðlum og kristnir bókstafstrúarmenn í suðurríkjum Bandaríkjanna urðu að athlægi víða um heim, enda héldu flestir vísindalega þenkjandi menn að þessi æsingur í Tennesseebúum bæri vott um úreltan hugsunarhátt sem brátt heyrði sögunni til. Þeim skjátlaðist. Andófið hefur ekki minnkað heldur aukist ef eitthvað er.
   Hvers vegna skyldi svo mörgum líka verr við þróunarkenningu Darwins en aðrar vísindalegar kenningar? Meginástæðan er vafalítið að kenningin kallar á endurmat margra gilda sem eiga sér djúpar rætur í menningu okkar og hún knýr fólk til að skoða líf sitt í öðru ljósi en því er tamt. Hér á eftir ætla ég að nefna þrenns konar ástæður fyrir því að mönnum finnst erfitt að fallast á að allt líf á jörðinni hafi mótast fyrir náttúruval. Vafalaust eru ástæðurnar fleiri og mér dettur ekki í hug að þessi upptalning sé á nokkurn hátt tæmandi.

1.
Darwinismi passar illa við hugmyndir um sérstöðu mannsins og að það séu skörp skil milli mannlífs og náttúru eða maðurinn sé af allt öðru tagi en aðrar dýrategundir. Ef ættir okkar eru raktar aftur til sameiginlegra forvera manna og simpansa verða engin skil á leiðinni þar sem hægt er að draga mörkin milli manns og dýrs. Sé mannlífið skoðað í ljósi þróunarkenningarinnar er eðlilegast að líta svo á að mannshugurinn sé safn af hæfileikum sem hafa mótast smám saman fyrir náttúruval og aðeins sé stigsmunur á þeim og gáfum sem nánustu ættingjar okkar í dýraríkinu búa yfir.
   Ef til vill óttast menn að um leið og þeirra eigin hátterni er útskýrt með tilvísun til náttúruvals þá sé útilokað að þeir hafi frelsi til að breyta því. Tökum dæmi: Það liggur í augum uppi að karl eignast flesta afkomendur með því að serða margar konur. Líffræðilega er ekkert því til fyrirstöðu að sami karlinn eignist mörg hundruð börn ef hann kemst yfir nýja konu á hverjum degi. Kona getur hins vegar ekki eignast nema um það bil eitt barn á ári meðan henni endist heilsa til að ganga með þau. Það besta sem kona getur gert til að koma sem flestum afkvæmum á legg er því að vanda val sitt á karlmönnum og halda sig að þeim sem eru trygglyndir og hjálpa henni að afla fæðu fyrir krógana eftir að þeir eru komnir í heiminn. Væntanlega hefur náttúruvalið innrætt körlum og konum tilhneigingar í samræmi við þetta. Matt Ritley orðar þetta svo í bók sinni The Red Queen:

Erfðaefni okkar hefur ekki breyst síðan við vorum safnarar og djúpt í huga nútímakarlsins er einföld regla sem forfeður hans fylgdu: Reyndu að ná völdum og nota þau til að komast yfir konur sem fæða þér erfingja; reyndu líka að auðgast og nota ríkidæmi þitt til að komast yfir annarra manna konur svo þær fæði þér laungetin börn. /.../
   Djúpt í huga nútímakonunnar er reikniverk safnaranna enn í gangi, það hefur ekki náð að breytast að ráði á svo stuttum tíma: Reyndu að ná í mann sem skaffar vel og sér börnum þínum fyrir fæði og umhyggju; reyndu líka að finna þér elskhuga sem gefur þessum sömu börnum fyrsta flokks erfðavísa. (London: Penguin Books 1994, bls. 236)

Mörgum þykir ógnvekjandi ef rök af þessu tagi eru viðurkennd. Trúlega er það að hluta til vegna þess að mönnum finnst í aðra röndina að það sem er náttúrulegt og mönnum í blóð borið hljóti að vera með einhverjum hætti gott, réttmætt eða a.m.k. afsakanlegt. Að hluta til er þetta sjálfsagt líka vegna þeirrar ranghugmyndar að það sé vonlaust að vinna gegn tilhneigingu sem á sér náttúrulegar orsakir.

2.
Kenning Darwins stangast á við hugmyndir um náttúruna sem virðast eiga töluverð ítök í hugum margra. Hér á ég við hugmyndir í þá veru að náttúran sé í jafnvægi, náttúruleg skipan sé með einhverjum hætti rétt og náttúruleg framvinda stefni í átt að einhvers konar fullkomnun. Stundum helst þessi hugmynd í hendur við kenningar um sérstöðu mannsins, t.d. þegar því er haldið fram að náttúran sé í réttum skorðum nema maðurinn raski henni. Kenning Darwins knýr okkur til að hafna þessu og viðurkenna að náttúran er síbreytileg. Lífverur keppa stöðugt um takmörkuð gæði og þær sem ná forskoti útrýma keppinautum sínum með þeim afleiðingum að sárafáar tegundir af öllum þeim sem til hafa verið eiga afkomendur enn þann dag í dag. Flestar gamlar tegundir eru liðnar undir lok en yngri stofnar eins og grasið og mannfólkið hafa lagt jörðina undir sig.
   Á sumardegi þegar spóinn vellir graut og hunangsflugan suðar er þægilegt að trúa því að náttúran sé ekki bara falleg heldur líka góð. En spóahjón geta átt tugi unga um ævina og ef allir lifðu skiptu barnabörnin hundruðum og barnabarnabörnin tugum þúsunda. Þetta er þó ekkert hjá viðkomu hunangsflugunnar. Samt fjölgar þessum dýrum ekki frá ári til árs því aðeins örlítill hluti af ungviðinu kemst á legg. Þótt náttúran sé síbreytileg eru alltaf til blóðugar tennur og beittar klær, tilbúnar að slátra flestu sem lífsanda dregur.
    Þær tvenns konar ástæður til að amast við darwinisma sem hér hafa verið nefndar eru ekki beinlínis trúarlegar þótt vel megi vera að þær hafi einhver losaraleg tengsl við hugmyndir um að náttúran sé sköpuð af góðum guði. Þriðja ástæðan tengist trúarbrögðum með augljósari hætti.

3.
Heimspekilega þenkjandi menn sem trúa á æðri máttarvöld hafa hugsað upp ýmsar leiðir til að rökstyðja eða sanna að guð sé ekki tómur hugarburður heldur til í raun og veru. Sumar þessar meintu sannanir fyrir tilveru guðs er torvelt að skilja. Ein þeirra er þó þokkalega skiljanleg hverjum manni. Hún er stundum kölluð skipulagsrökin og má endursegja á þessa leið: Flókin vél, þar sem hlutarnir vinna saman eftir skynsamlegu kerfi, verður ekki til nema einhver hanni hana og smíði- það er til dæmis óhugsandi að klukka þar sem fjöður og fjöldi tannhjóla vinna saman verði til án þess einhver hugsandi vera búi hana til. Þar sem lifandi líkami er enn flóknara og stórkostlegra furðuverk en nokkur vél hlýtur hann að eiga sér vitran höfund.
   Fyrir daga Darwins þóttu flestum þetta vera fullgild rök fyrir tilveru viturs skapara. En Darwin sýndi fram á að flókið skipulag getur orðið til án neins skipuleggjanda. Það getur mótast fyrir náttúruval. Verði til efni sem framkallar afrit af sjálfu sér þar sem afritin eru ekki öll alveg nákvæm og sum víkja frá forverum sínum á þann hátt að þeim gengur greiðar að afrita sig, þá er farið í gang ferli sem getur leitt af sér flókið skipulag án þess nein hugsandi vera komi við sögu. Á síðustu árum hefur efnafræðiþekkingu fleygt svo fram að menn gera sér þokkalega glögga mynd af því hvernig fyrsta lífið gæti hafa kviknað með náttúrulegum hætti af dauðu efni. Um þetta má til dæmis lesa í ritum eftir Englendinginn John Maynard Smith sem lést í apríl á síðasta ári, en hann var með mestu afreksmönnum í fræðilegri líffræði á seinni helmingi tuttugustu aldar.
   Þótt darwinismi nútímans hafi eyðilagt vinsælustu rökin fyrir tilveru guðs útilokar hann auðvitað ekki að heimurinn lúti stjórn æðri máttarvalda. Þótt rökfærsla sé ógild er ekki þar með sagt að niðurstaða hennar sé ósönn. Ef til vill áleit Darwin sjálfur trúlegast að fyrsta lífveran hafi verið sköpuð af guði, en allar aðrar hafi æxlast af henni. Í niðurlagi 2. útg. á Uppruna tegundanna segir hann að skaparinn hafi í upphafi blásið lífi í örfá eða aðeins eitt lífsform sem gat af sér „ótal fagurra og undursamlegra lífsforma sem enn eru í stöðugri þróun.“ (Bls. 661) Darwin var ekki byltingamaður að upplagi og hafði lítinn áhuga á að standa í stríði við trúarbrögðin. En rit hans hafa í eina og hálfa öld verið uppspretta róttækra hugmynda og enn í dag skerst í odda þar sem eldri skilningur á tilverunni stendur í vegi þeirra.

(Birist í Lesbˇk Morgunbla­sins 12.. nˇvember 2005)