Atli Harðarson
„Amerískt rusl“

Ég náði mér í myndina Super Size Me á myndabandaleigu. Hún greinir frá reynslu höfundarins, Morgans Spurlock, af því að lifa í heilan mánuð eingöngu á mat frá McDonalds skyndibitakeðjunni. Hann lét sér ekki duga að kaupa einn og einn lítinn hamborgara heldur hesthúsaði risaskammta og innbyrti daglega um 5000 kílókaloríur eða tvöfalt meira en meðalmaður nær að brenna. Eftir mánuðinn hafði Spurlock bætt á sig töluverðu spiki og hafði ýmisleg merki um hnignandi heilsu. Þessi mynd er vafalaust holl áminning fyrir þá sem hafa vanið sig á óhóflegt gosdrykkjaþamb og skyndibitaát. Hún var skemmtilegri en ég átti von á, talsvert fyndin á köflum. En hún er samt ekki frábær, ekkert stórvirki.
   Mynd Spurlocks hefur vakið heimsathygli og af henni hefur spunnist mikið umtal um óhollar matarvenjur í Bandaríkjunum. Þegar hún var sýnd í Háskólabíói var t.d. töluvert um hana talað í fjölmiðlum hér á landi. En Bandaríkjamenn eru ekki einir um að éta óholla og fitandi skyndibita. Íslendingar kaupa til dæmis pylsur í pylsubrauði með miklu remúlaði og drekka ýmiskonar sykursull með og hvað sem landbúnaðarráðherra segir er næsta víst að þetta er ekkert heilsufæði. Ein pylsa með öllu inniheldur að mér skilst milli 400 og 450 kílókaloríur og þarf því 11 eða 12 slíkar til að fá álíka mikla orku og Spurlock innbyrti daglega hjá McDonalds.
   Ekki veit ég hvernig kvikmyndagerðarmanninum hefði reitt af ef hann hefði étið 12 pylsur með öllu á hverjum degi í heilan mánuð? Ég efast um að það hefði verið neitt öllu skárra fyrir hann en maturinn hjá McDonalds. Hins vegar þykist ég þess fullviss að kvikmynd um mann sem færi í fitun með því að éta 360 rammíslenskar pylsur í sama mánuðinum vekti enga verulega athygli. Slæmt umtal um Íslendinga, menningu þeirra og mataræði er ekki góð söluvara. Hins vegar er veruleg eftirspurn eftir neikvæðri umfjöllun um Bandaríkin og fólkið sem þar býr og markaðurinn svarar þessari eftirspurn m.a. með kvikmynd á borð við Super Size Me. Það sem ef til vill er merkilegast við umtalið og athyglina sem mynd Spurlocks hefur hlotið er hvað því virðist vera tekið af barnslegri gleði að einhver skuli fara ófögrum orðum um átlagið á Bandaríkjamönnum.
   Í raun réttri eru McDonalds hamborgarar, Kók og Pepsí ekkert dæmigerðari fyrir bandaríska matargerð heldur en t.d. Cheerios, hrásalat eða eplasítra. Sé óhollustan á skyndibitastöðunum einkennandi fyrir mataræði Ameríkana má með sömu rökum telja pylsu með öllu, bland í poka, kartöfluflögur og kokteilsósu vera auðkenni á mataræði Íslendinga. Það má líka andmæla þessu með sömu rökum því á okkar borðum eru skyr, rúgbrauð og soðin ýsa ekki síður dæmigerður matur. Svipaða sögu má vafalítið segja um flestar þjóðir. Það er hægt að draga fram bæði góðar og slæmar hliðar á mataræði þeirra og annarri menningu.
   Vissulega á drjúgur hluti af áhuga fólks á gagnrýninni og óvæginni umfjöllun um Bandaríkin sér virðingarverðar ástæður. Ég sé enga ástæðu til að gera lítið úr fólki sem t.d. gagnrýnir stjórnvöld í Whasington með málefnalegum hætti. Raunar þykir mér afar skiljanlegt að upplýst fólk hafi áhyggjur af því að risaveldið noti afl sitt til illra verka. Tortryggni í garð þeirra sem hafa mikil völd og mikil áhrif kann að vera skynsamleg. En ég held að slík skynsamleg tortryggni skýri ekki nema lítinn hluta af áhuga Íslendinga og fleiri Evrópuþjóða á því sem aflaga fer í Vesturheimi.
   Mynd Bandaríkjanna eins og hún lítur út fyrir hugskotssjónum Evrópumanna á sér mikla sögu og merkilega. Á myndflötinn varpa menn ekki aðeins fréttum og fróðleik sem þeim berast vestan um haf heldur líka sínum eigin öfgum og firrum, löstum og ósiðum. Meðan villta vestrið var og hét hneyksluðust evrópskir íhaldsmenn á menntunarleysi, skorti á siðfágun og bágbornu menningarástandi Bandaríkjamanna. Það var kannski skiljanlegt að gamla yfirstéttin yrði pirruð á því hvað fátæklingarnir sem hröktust yfir hafið áttu allt í einu andskoti mikla peninga. Þessi viðhorf eru býsna lífseig og eiga trúlega enn sinn þátt í því að þótt bandarískir háskólar og vísindastofnanir séu í fremstu röð og raki til sín Nóbelsverðlaunum eru Kanar gjarna taldir öðrum mönnum grunnhyggnari og þótt þeir hafi fóstrað Aaron Copland, George Gershwin, Louis Armstrong, Miles Davis, Arthur Miller, Ernest Hemingway, Tennessee Williams, John Steinbeck og Richard Wright þykir ekkert tiltakanlega hjárænulegt að álíta þá menningarsnauða ef ekki menningarlausa með öllu.
   Það er eins með matinn og menninguna, það ómerkilegasta sem Bandaríkjamenn bera á borð er iðulega talið dæmigert fyrir þá. Hins vegar dettur fáum í hug að Eurovision söngvakeppnin sé dæmigerð fyrir Evrópska tónlist eða enskar fótboltabullur séu samnefnari fyrir alþýðumenningu við austanvert Atlantshaf. Hér hefur verið bent á eina rót þessara viðhorfa sem er urgur og beiskja evrópskrar yfirstéttar á 19. öld út í fátæklinga sem hættu að knékrjúpa fyrir henni, fluttu til Ameríku og gerðust sínir eigin herrar. En þótt þessi rót sé ekki alveg dauð dafna viðhorf Evrópumanna til Ameríku tæpast eingöngu á þeim litla safa sem hún dregur upp úr fortíðinni.
   Ég held að veigamesta ástæðan fyrir mikilli eftirspurn eftir illu umtali um Bandaríkin sé að slíkt umtal afsakar nær allt sem aflaga fer hjá öðrum. „Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir meina sér leyfist það“ kvað Hallgrímur Pétursson í 22. Passíusálmi. Bandaríkin hafa um langt skeið verið forysturíki bæði í efnahagsmálum, vísindum, tækni og þjóðfélagsþróun. Fyrir vikið er freistandi fyrir þjóðir sem halda t.d. menntakerfi sínu í endalausu fjársvelti og búa við kennaraverkföll svo vikum skiptir að rifja upp sögur um illa menntaða Ameríkana. Og fyrir þjóð eins og Íslendinga sem eiga heimsmet í sykuráti er afskaplega þægilegt að tala um átlag manna vestanhafs. Það er eins og fólk hugsi með sér: „Er ekki ástæðulaust að hneykslast á okkur fyrst ríkasta og voldugasta þjóð í heimi stendur sig ekki betur?“ Getur verið að allt það „víðsýna, menntaða, upplýsta og umburðarlynda“ fólk sem talar af mestri vandlætingu um öfgar Ameríku noti þær sem snuð til að þagga niður í sinni eigin samvisku?
   Þótt þetta sé kannski mikilvægasta ástæðan fyrir því að fólk hefur meiri áhuga á slæmum afleiðingum þess að éta McDonalds hamborgara en pylsu með öllu skipta fleiri ástæður máli. Ein þeirra er að meðal Bandaríkjamanna er afar sterk hefð fyrir vægðarlausri gagnrýni á eigið samfélag. Þessi hefð er þeirra styrkur. En trúlega er það til marks um veikleika fremur en styrk þegar fjölmiðlar hér á landi og víðar éta upp gagnrýni Bandaríkjamanna á ástand mála í landi sínu í stað þess að læra af þeim hvernig á að taka til í eigin ranni. Að réttu lagi ættu varnaðarorð næringarfræðinga vegna miður heilsusamlegs mataræðis barna og unglinga hér á landi að vekja meiri athygli í íslenskum fjölmiðlum en kvikmynd um Bandaríkjamann sem étur yfir sig af McDonalds á hverjum degi í heilan mánuð.