Ritdómur
um bókina Heimspeki fyrir þig eftir Ármann Halldórsson og Róbert Jack

Bókin Heimspeki fyrir þig eftir Ármann Halldórsson og Róbert Jack kom út hjá Máli og menningu síðsumars 2008. Hún er 203 blaðsíður að lengd. Í formála hennar segja höfundar að hún sé kennslubók í heimspeki fyrir framhaldsskólastig og að undanfarin ár hafi kaflar úr henni verið notaðir sem kennsluefni við nokkra framhaldsskóla. Í formálanum gera þeir líka stutta grein fyrir því hvernig bókin er hugsuð þar sem þeir segja:

Strax í upphafi gengum við út frá þessum viðmiðum: að kaflar skiptust eftir viðfangsefnum (frekar en sögulegum tímabilum), að textinn væri heppilegur til umræðu, að hver kafli væri margradda (geymdi nokkur viðhorf á viðfangsefnið), að sem flestir merkustu höfundar heimspekisögunnar kæmu við sögu í bókinni, að greint væri frá samtímaviðhorfum í heimspeki, að umfjöllunin tengdist hversdagslegum veruleika og að heimspeki væri lýst sem lifandi viðfangsefni. (s. 10.)

Hér eru mörg og stór markmið sett fremur stuttri bók. Höfundar færast mikið í fang. Þeir kynna til sögu hugsuði frá tímum sem spanna tvö og hálft árþúsund og fjalla um úrlausnarefni úr flestum helstu undirgreinum heimspekinnar.

Bókin skiptist í þrjá hluta. Hver hluti er fimm kaflar sem er skipt í stutta undirkafla með millifyrirsögnum. Fyrsti hlutinn heitir Hið sanna. Hann fjallar um nokkur viðfengsefni á sviði rökfræði, frumspeki, þekkingarfræði og vísindaheimspeki. Annar hlutinn, Hið góða, snýst að mestu um siðfræði og stjórnmálaheimspeki þótt fleira sé kynnt til sögu, meðal annars það sem J. L. Austin sagði um málgjörðir (s. 84–86). Þriðji hlutinn ber yfirskriftina Hið fagra. Af nafni hans má ætla að hann fjalli um fagurfræði, en fyrsti kafli hans fjallar um heimspeki sem lífsleikni eða leið til að temja sér heillavænlegan lífsstíl og þankagang. Næstu þrír kaflarnir snúast um ráðgátur á sviði trúarheimspeki og aðeins sá síðasti fjallar um eiginlega fagurfræði.

Af þessari upptalningu má ljóst vera að höfundar koma mjög víða við. Þetta á sjálfsagt sinn þátt í því að textinn er lipur og skemmtilegur – það eru nýjar hugmyndir á hverri blaðsíðu. En í svo hröðum texta er nær hvergi staldrað við til að grandskoða einstaka hugmynd eða kenningu. Sem dæmi um þennan þeyting má taka 4. kaflann sem heitir Þekking. Þar er, á 11 blaðsíðum, lýst: Flokkun Aristótelesar á þekkingu, fjölgreindakenningu Howards Gardner, rakhníf Ockhams, kenningu Thomasar Kuhn um vísindabyltingar, vísindaheimspeki Karls Popper og Ians Hacking og hugmyndum Michels Foucault um þekkingu og vald.

Sums staðar leika höfundar sér að því að stilla upp hugmyndum úr mjög ólíkum áttum. Í 13. kafla, sem fjallar um trú, er til dæmis bæði rætt um sönnun Anselms og tólf reynsluspor AA samtakanna og í 3. kafla, sem fjallar um sálina, kynnist lesandinn bæði bollaleggingum Sókratesar um kosti þess að sálin losni úr „fjötrum líkamans“ og hugmynd enska líffræðingsins Richards Dawkins um eigingjarna erfðavísa og náttúruval í menningarheiminum (s. 56). Í þessum sama kafla er líka fjallað um tvíhyggju og vélhyggju Descartes og þróunarkenningu Darwins.

Hvernig skyldi þessi hraða yfirferð yfir mörg sundurleit efnisatriði þjóna þeim tilgangi bókarinnar að vera kennslubók í heimspeki fyrir framhaldsskóla?

*

Það er sitt hvað að kenna um íþróttir og að kenna íþróttir, enda er hægt að vera fróður um íþróttir án þess að geta neitt í þeim. Á sama hátt er það ólíkt að kenna um söng og að kenna söng enda fer ekkert endilega saman að vita mikið um söng og að geta sungið. Einnig er hægt að læra um tungumál án þess að læra neitt tungumál. Ég held að hægt sé að gera svipaðan greinarmun á að kenna heimspeki og að kenna um heimspeki enda er hægt að vita margt um heimspeki án þess að geta neitt í henni.

Þessi greinarmunur á að því annars vegar að kenna íþróttir, söng, tungumál eða heimspeki og hins vegar að kenna um íþróttir, söng, tungumál eða heimspeki er náskyldur greinarmuninum á þjálfun og fræðslu. Menn geta sótt fræðslu til fjölmiðla en þeir veita sjaldan þjálfun. Fræðsla getur verið einhliða miðlun og hún getur líka verið þægileg og átakalítil. Hins vegar krefst þjálfun þess ævinlega að nemandinn geri eitthvað sjálfur og oft ber hún bestan árangur þegar farið er að ystu mörkum þess sem hann þolir.

Breytingar á námsefnisgerð fyrir framhaldsskóla undanfarna áratugi hafa því miður verið á þann veg að auka vægi fræðslu og yfirferðar yfir mörg efnisatriði á kostnað þjálfunar. Í sumum námsgreinum, eins og til dæmis stærðfræði, hefur þetta gengið svo langt að hlaupið er yfir ótal efnisatriði á hundavaði án þess nemendum, öðrum en þeim hraðfleygustu, gefist ráðrúm til að ná almennilegu valdi á neinum þeirra.

Það er eins og skólarnir hafi dregist inn í hraðann og flaustrið sem einkennir heim fjölmiðla og viðskiptalífs. En að réttu lagi er það ekki hlutverk skóla að keppa við sjónvarpið og vefinn í því að miðla yfirborðslegum fróðleik. Góður skóli er þvert á móti staður þar sem nemendur fá ráðrúm, hvatningu og stuðning til að tileinka sér færni sem aðeins verður numin með langri þjálfun. Í heimi hraðans á skólinn að vera griðastaður þess seinlega – og það er seinlegt að læra að skrifa góðan stíl, reikna af öryggi, tala og lesa erlend mál, smíða af hagleik, leika á hljóðfæri, tileinka sér vísindalegan þankagang eða gagnrýna hugsun.

*

Bókin Heimspeki fyrir þig kennir lesanda sínum ýmislegt um heimspeki. En hversu vel skyldi hún duga til að veita þjálfun, reyna á þrek hugans, gera nemandann að heimspekingi?

Til að svara þessari spurningu þarf fyrst að átta sig á í hverju slík þjálfun er fólgin. Hvað lærir sá sem lærir heimspeki, en ekki bara um heimspeki? Hér eru fimm svör sem ég held að séu öll rétt, eða að minnsta kosti eitthvað í áttina:

Vel má vera að svörin séu fleiri en ég held samt að flestir geti verið sammála því að sá sem hefur náð leikni í einhverju af því sem hér var talið hefur að minnsta kosti komist nokkuð áleiðis í heimspeki.

Þjálfun í heimspeki á háskólastigi felst oft í því að nemendur lesa, rökræða og gagnrýna texta eftir höfunda sem hafa náð langt í greininni, eru færir í að gagnrýna, rökræða, greina, átta sig á mótsögnum og „hugsa út fyrir rammann.“ Ef vel tekst til læra nemendur að taka ný viðfangsefni svipuðum hugartökum og höfundarnir sem þeir lesa og komast jafnvel svo langt að grípa skynsamlega á einhverju með nýjum hætti.

Það er álitamál hvort rétt er að beita sömu kennsluaðferð í framhaldsskóla. Þar lærir hver nemandi margar greinar og heimspekin getur því ekki verið nema lítill hluti af því sem hann fæst við. Á þessu skólastigi gefst því varla tími fyrir þjálfun sem innifelur lestur mjög langra og erfiðra texta. Það kann því að vera fullt vit í að láta framhaldsskólanema lesa yfirlitsrit eða kennslubók. En eigi slík bók að styðja við kennslu í heimspeki, en ekki bara um heimspeki, held ég að höfundar þurfi að gera sér skýra grein fyrir hvers konar þjálfun og æfingu nemendur eiga að fá.

Formáli Ármanns og Róberts er fáorður um kennslufræði heimspekinnar og af texta bókarinnar er erfitt að glöggva sig á hvað höfundar telja felast í því að læra heimspeki. Þeir segja þó (s. 10) að textinn eigi að vera heppilegur til umræðu og af því má ráða að þeir ætli nemendum að æfast í heimspekilegum þankagangi með því að ræða saman um efni bókarinnar. Í henni eru vissulega áhugaverðar hugmyndir og nokkrar vel valdar tilvitnanir sem góður kennari getur notað til koma rökræðum af stað. Ef þeir sem kenna bókina draga þessi umræðuefni fram og gæta þess að láta fróðleikinn ekki yfirskyggja þau, þá ef vafalaust hægt að nota bókina til að þjálfa nemendur í að rökræða um ýmis heimspekileg efni.

*

Heimspeki fyrir þig er skrifuð á góðri íslensku. Á stöku stað eru þó hnökrar á máli, stíl og frágangi:

Á fáeinum stöðum í textanum eru fullyrðingar sem mér þykja hæpnar þó ég viðurkenni að sumar af efasemdum mínum kunni að vera umdeilanlegar:

Á blaðsíðu 159 er fjallað um sönnun Anselms en hún er ekki útskýrð nógu vel til að aðrir en þeir sem þekkja hana fyrir skilji hvernig hún er hugsuð. Þetta er skaði því þessi „sönnun“ er heppilegt umræðuefni til að þjálfa nemendur í heimspeki.

*

Þótt ég hafi fundið að ýmsu í bókinni tel ég að hún sé vel til þess fallin að vekja áhuga á heimspeki. Þetta er skemmtileg bók og fremur auðlesin og það er óhætt að mæla með henni við þá sem langar í lausleg kynni af þeim stóra og víðfeðma fræðaheimi sem heimspekin er. Margt í bókinni er vel hugsað og í öllum köflum hennar má finna athyglisverðar pælingar, en til að skrifa virkilega góða kennslubók í heimspeki, en ekki bara um heimspeki, held ég að þurfi að ígrunda betur vel hvað í því felst að kenna hana og nema.

Atli Harðarson