Atli Harðarson
Heimspeki nútímans

 


Arfurinn frá Locke og Kant
Undir lok 17. aldar urðu þáttaskil í enskri heimspeki þegar John Locke (1632 - 1704) skrifaði Ritgerð um mannlegan skilning. Hliðstæð þáttaskil urðu í þýskri heimspeki þegar Gagnrýni hreinnar skynsemi eftir Immanuel Kant (1724 - 1804) kom út árið 1781. Í þessum tveim bókum birtust ný viðhorf til heimspekilegra fræða sem hafa mótað flest það besta sem unnið hefur verið á þeim vettvangi síðan. Fyrir daga Locke og Kants litu flestir menntamenn svo á að heimspeki og guðfræði væru þess umkomnar að skýra fyrir mönnum hvernig heimurinn er og hvers vegna hann er svona en ekki einhvern veginn öðru vísi. Með vísindabyltingunni á 17. öld varð fleirum og fleirum ljóst að menn gætu ekki aflað þekkingar á náttúrunni öðru vísi en með reynslu og rannsóknum, úr heimspekilegum og guðfræðilegum rökum einum saman væri í besta falli hægt að byggja skýjaborgir og loftkastala.
    Locke og Kant þekktu báðir vel til í heimi vísindanna. Kant vann fyrir sér með kennslu við háskólann í Königsberg og meðal námsgreina sem hann kenndi voru stærðfræði og eðlisfræði. Locke var samverkamaður Newtons og Boyle og þótt hann hafi sjálfur ekki verið neinn stærðfræðingur gerði hann sér grein fyrir því að auk reynslu og rannsókna studdust hin nýju vísindi einkum við stærðfræðileg rök fremur en heimspekileg.
    Það er ekki vanalegt að stilla þeim Locke og Kant upp hlið við hlið, enda voru þeir ólíkir um margt. En hugmyndir þeirra um hlutverk heimspekinnar eru þó nauðalíkar og þessar hugmyndir hafa heimspekingar nútímans tekið í arf. Þeir höfnuðu því báðir að heimspekin sé uppspretta þekkingar á náttúrunni og mannlífinu. Slíka þekkingu töldu þeir að menn yrðu að afla með aðferðum reynsluvísinda. En þessi vísindi styðjast við hugtök, þankagang og rökvísi sem eru engan vegin hafin yfir gagnrýni og leiða menn raunar stundum á villigötur. Að áliti Locke og Kants er hlutverk heimspekinnar einkum að rannsaka, gagnrýna og leiðrétta hugsunarhátt manna og hugtök. Einstakar greinar vísinda og fræða skoða aðeins afmarkaða þætti veruleikans og nota oft hugtök sem vart eru skiljanleg öðrum en innvígðum. Hér kemur líka til kasta heimspekinnar að gera þankagang einnar fræðigreinar skiljanlegan öðrum og tengja saman þekkingu úr ólíkum áttum. Með orðalagi, sem ég held að sé ættað frá Páli Skúlasyni háskólarektor, má segja að það sé hlutverk vísindamanna að pæla í veruleikanum en heimspekingar pæli í pælingunni. Nánar tiltekið fást þeir við að:
 

 • Tengja þekkingu sem tiltæk er saman í heildarmynd af veröldinni og bera boð milli óskyldra umræðuheima.
 • Leita uppi og benda á mótsagnir í skoðunum manna, viðhorfum, hugmyndum eða kenningum. Til að gera þetta þarf oft að greina hugtök og rannsaka rökleg tengsl milli þeirra.
 • Lagfæra hugtök, fága þau eða tálga til. Þetta er stundum gert til að sneiða hjá mótsögum, stundum til að koma í veg fyrir margræðni og misskilning.
 • Andæfa hugsunarleysi, klisjum og innantómu orðagjálfri og vefengja ýmislegt sem er haft fyrir satt vegna þess eins hvað það lætur vel í eyrum.

 • Þótt viðfangsefni af þessu tagi einkenni einkum heimspeki seinni alda hafa þau verið snar þáttur í allri heimspeki frá því á dögum Sókratesar. Svona heimspekileg gagnrýni er ekki og hefur aldrei verið bundin við eitt viðfangsefni öðrum fremur. Hennar er alls staðar þörf þar sem rökræður manna og pælingar lenda í ógöngum vegna þess að hugmyndir þeirra eru mótsagnakenndar, hugtök ófullkomin, einhver djúpstæður misskilningur á ferðinni eða menn eru farnir að japla á innantómum klisjum í stað þess að rökræða í alvöru. En þótt heimspeki nútímans sé ekki bundin tilteknum viðfangsefnum hefur hún mest látið að sér kveða þar sem eru átök milli andstæðra hugmynda sem varða kjarnann í heimsmynd manna eða gildismati.
      Sé reynt að segja sögu heimspekinnar án þess að tengja hana öðrum hræringum í andlegu lífi þá virðist hún ósköp marklaus. Við áttum okkur ekki á því lykilhlutverki sem hún gegnir í allri vitsmunalegri framþróun, hvort sem það er í vísindum, stjórnmálum, siðferði eða almennum lífsviðhorfum, nema við skoðum hana sem tilraunir manna til að átta sig á mótsögnum í hugmyndaheimi samtímans, skilja og greina hugmyndafræðilegan ágreining, bera boð milli ólíkra umræðuheima og krefja menn svara um hvað þeir meina þegar málflutningur þeirra virðist komin út í klisjur, stagl eða rugl.

  Annarlegar tungur
  Á sautjándu og átjándu öld skipuðu evrópskir lærdómsmenn sér í nokkrar meginfylkingar og mikilvægustu átökin voru á milli talsmanna skólaspekinnar og þeirra sem fylgdu Galíleó og öðrum frumkvöðlum hinna nýja vísinda. Einnig tókust málsvarar jafnréttis og einstaklingshyggju á við þá sem vildu halda í samfélagsskipan frá miðöldum. Þessar meginátakalínur í hugmyndaheimi menntamanna fyrir tvö til fjögurhundruð árum voru ekki ljósar þá á sama hátt og þær eru núna. Hugmyndasagan er sögð eftir á.
      Á nítjándu öld urðu átakalínurnar fleiri og margbrotnari. Þá breikkaði bilið milli raunvísinda og húmanískra greina og þrætur ólíkra stjórnmálahugmynda urðu flóknari og fylkingarnar fleiri þegar rómantísk þjóðernisstefna og sósíalismi tóku að láta að sér kveða. Átök veraldarhyggju og trúarlegra sjónarmiða öðluðust líka nýja vídd með þróunarkenningu Darwins. Þessi flókni hugmyndaheimur 19. aldar ól af sér margbreytilega og sundurleita heimspeki og það er miklu erfiðara að skipa höfuðspekingum 19. aldar í flokka heldur en frumkvöðlunum í heimspeki 17. og 18. aldar. Þegar kemur að 20. öldinni verður þetta ennþá flóknara. Ég get mér þess til að í framtíðinni þyki mönnum að það merkasta í heimspeki 20. aldar hafi annars vegar tengst átökum milli jafnaðarstefnu og frjálshyggju og hins vegar tilraunum kristinna heimspekinga til að verja leifar trúarlegrar heimsmyndar gegn ásókn veraldarhyggju og vísindalegrar hugsunar. En þetta eru ágiskanir einar því ég get ekki horft á hugsun samtímans úr þeirri fjarlægð að ég sjái skóginn fyrir trjánum og þá stærri drætti í landslaginu sem nauðsynlegir eru til að ná áttum. Hverri kynslóð þykir erfitt að átta sig á heimspeki samtímans vegna þess að á hverjum tíma lætur heimspekin helst að sér kveða þar sem menn eru hvað áttavilltastir.
      Hugmyndir nútímamanna eru í vaxandi mæli hugmyndir allra þjóða og allra tíma rétt eins og tónlist okkar er í senn tónlist margra alda og heimsins alls. Í bókahillum standa Hávamál og Bókin um veginn kannski hlið við hlið eða Kóraninn og bækur um kvenréttindi. Menningarheimur nútímans, hugarheimur okkar, er fjölmenningarlegri og um leið gróskumeiri og „dynamiskari“ en hugarheimur fyrri alda. Hugmyndir, kenningar og heilar fræðigreinar spretta fram hraðar en fyrr og í ríki andans verða nýjar átakalínur til nánast á hverjum degi. Það er því eðlilegt að viðfangsefni nútímaheimspeki séu fjölbreytt og sundurleit.
      Ég gat þess að á 19. öld hafi bilið milli raunvísinda og húmanískra greina breikkað. Fyrir fræðimenn úr öðrum hópnum var mál hinna eins og á annarlegri tungu. Nú eru þessi ólíku „mál“ orðin miklu fleiri. Það má orða þetta svo að verkaskipting í heimi vísinda og fræða hafi aukist. Fyrir 150 árum skildu flestir raunvísindamenn og stærðfræðingar hver annan og svipaða sögu má segja um sagnfræðinga og þá sem fengust við mannvísindi. En eftir því sem þekkingin hefur aukist kemst minna brot hennar fyrir í einu mannshöfði. Því er vaxandi þörf fyrir menn sem geta borið boð milli óskyldra umræðuheima og raðað þekkingu úr ólíkum áttum saman í heildarmynd. Slíkir menn þurfa að hafa þjálfun í heimspekilegri hugsun, þ.e. rannsókn á hugtökum og gagnrýninni skoðun á hugmyndaheimi og þankagangi samtímans. Þeir þurfa líka að hafa meira en bara yfirborðsþekkingu á þeim annarlegu tungum sem túlkaðar skulu.

  Meintur klofningur heimspekinnar
  Sumir sem fjalla um sögu heimspekinnar á 20. öld gera greinarmun á meginlandsheimspeki og rökgreiningarheimspeki. Sú fyrrnefnda kvað eiga sín sterkustu vígi í Þýskalandi og Frakklandi en sú síðarnefnda einkum vera runnin undan rifjum Breta og Bandaríkjamanna. Þessi flokkun er ekki alveg úr lausu lofti gripin því Georg Hegel (1770-1831) og heimspekingar sem andmæltu Hegel, eins og t.d. Daninn Søren Kierkegård (1813 - 1855), hafa lengst af verið mun áhrifameiri í þýsku- og frönskumælandi löndum en meðal þeirra sem rita á ensku. Enskumælandi heimspekingar hafa hins vegar verið undir meiri áhrifum frá raunhyggjumönnunum John Locke og David Hume (1711 - 1776) og stærðfræðilegri rökfræði sem mótuð var af Gottlob Frege (1848 - 1925) og Bertrand Russell (1872 - 1970) fyrir um það bil 100 árum. Einnig hefur dæmigerð meginlandsheimspeki jafnan haft heldur meiri tengsl við húmanískar greinar og guðfræði heldur en rökgreiningarheimspekin sem hefur verið undir meiri áhrifum frá hugsunarhætti raunvísinda.
      Þótt víst sé fótur fyrir því að hægt sé að skipta verulegum hluta af heimspeki tuttugustu aldar í meginlands- og rökgreiningarheimspeki er samt mikil einföldun að halda að hægt sé að setja alla breska og bandaríska heimspeki undir einn hatt og þýska og franska undir annan. Helsti forsprakki meginlandsheimspekinnar, Þjóðverjinn Edmund Husserl (1859 - 1938), var t.d. undir miklum áhrifum frá David Hume og Michael Oakeshott (1900 - 1991), sem ég hygg að sé merkasti stjórnmálaheimspekingur Englendinga á tuttugustu öld, sótti einkum innblástur í rit Hegels. Margir af bestu heimspekingum aldarinnar voru líka algerlega fyrir utan þessa flokka eða tilheyrðu báðum jafnt. Hér má til dæmis nefna Austurríkismennina Ludwig Wittgenstein (1889 - 1951) og Karl Popper (1902 - 1994).
      Frá því um miðja tuttugustu öld hafa Bandaríkin haft afgerandi forystu í flestum greinum vísinda og fræða og þar er heimspeki ekki undan skilin. Margir af öflugustu talsmönnum meginlandshefðarinnar sem nú eru á dögum starfa fyrir vestan haf svo „meginlandsheimspeki“ er ekki bundin við meginland Evrópu. Rökgreiningarheimspeki hefur heldur aldrei verið bundin við enskumælandi lönd. Áður en nasistar hröktu hugsandi menn burt frá Mið-Evrópu var höfuðvígi hennar raunar í Vínarborg.
      Oft er erfitt að draga mörk milli heimspeki og annarra fræðigreina. Niels Bohr (1885 - 1962) er þekktastur fyrir afrek sín á sviði eðlisfræði. Hann er einn af upphafsmönnum skammtafræðinnar. Alan Turing (1912 - 1954) er frægastur fyrir uppgötvanir í stærðfræði og fyrir að vera einn af helstu upphafsmönnum tölvufræðinnar.  Hugmyndir Bohr um túlkun skammtafræðinnar og það sem Turing hafði að segja um hugtök eins og aðferð, hugsun og vit hljóta þó að teljast með helstu stórtíðindum í heimspekisögu síðustu aldar. Fjölmarga aðra merka vísinda- og lærdómsmenn má nefna sem lögðu heimspekinni lið þótt þeir störfuðu einnig að öðrum fræðum. Friedrich von Hayek (1899 - 1992) var t.d. hagfræðingur en hefur þó um hálfrar aldar skeið haft ómæld áhrif á stjórnmálaheimspeki beggja vegna Atlantshafs. Þessum þremenningum er hvorki hægt að skipa á bekk með meginlands- né rökgreiningarheimspekingum. Rétt eins og Popper og Wittgenstein og ótal aðrir eru þeir utan við svoleiðis flokkun, enda hafa merkimiðar og stimplar iðulega tollað illa við hina mestu andans menn.
      En er þá engin leið að henda reiður á heimspeki liðinnar aldar, búa til einhvers konar flokkunarkerfi til að koma skipulagi á fjölbreytileikann? Jú, það er til dæmis hægt að skipta stjórnmálaheimspekingum í frjálshyggjumenn og jafnaðarmenn og fleiri flokka. Siðfræðingum má t.d. skipta í þá sem telja að trúarleg rök skipti máli og þá sem viðurkenna aðeins veraldleg rök. Margir heimspekingar sem láta að sér kveða á víglínum andstæðra skoðana taka afstöðu og þá er hægt að skipa þeim í sömu flokka og öðru fólki t.d. fylgismenn og andstæðinga Evrópusamruna, frjálsra fóstureyðinga, hvalveiða, kvótakerfis eða virkjana á hálendinu. Heimspekileg hugsun á erindi í umræður um alla þessa málflokka (því þeir gefa allir tilefni til að benda á mótsagnir, fága hugtök, bera boð milli óskyldra umræðuheima og andæfa innantómu orðagjálfri) og yfirleitt taka heimspekingar þátt í þeim til þess að leggja lóð á aðra vogarskálina.
      Svona flokkun á heimspekingum eftir því hvaða skoðanir þeir aðhyllast verður seint mjög fræðileg eða nákvæm og ég býst við að einhverjum finnist hún ómerkilegri en flokkun sem tekur mið af því hvers konar rannsóknaraðferðir og rökfærslur þeir nota. En slík flokkun orkar trúlega alltaf jafntvímælis og sú skipting í meginlands- og rökgreiningarheimspeki sem stuðst er við í mörgum kennslubókum í hugmyndasögu. Fyrir þessu eru margar ástæður. Ein hin mikilvægasta er, að minni hyggju, að hugmyndaheimurinn tekur sífelldum breytingum, átakalínur færast til, hugtök þróast og breytast. Heimspekingar bregðast við þessu með því að tileinka sér ný glímubrögð. Það besta og merkilegasta í heimspeki hvers tíma verður til í átökum við hugtakalegar ógöngur, mótsagnir og misskilning sem engin leið var að sjá fyrir og ekki eru neinar fyrirframgefnar aðferðir til að takast á við. Merkileg heimspeki er því oftast nær utan við alla flokka og kerfi sem menn kunna að nefna þegar hún kemur fram. Hún verður ekki felld undir neina stefnu eða „isma“ fyrr en eftir á. Sagan er ekki sögð fyrr en eftir hún gerist.
   
  Ær og kýr nútímamannsins
  Á síðasta fjórðungi 20. aldar hljóp töluverður vöxtur í íslenska heimspeki og hér á landi fjölgar mönnum sem numið hafa slík fræði nokkuð ört um þessar mundir. Þeir hafa sótt skóla víða um lönd og hér eru að verða til ágæt skilyrði fyrir frjóar og andgæfar samræður milli ólíkra heimspekihefða. Hér er líka vaxandi þörf fyrir heimspeki því almenn menntun er á háu stigi og eins og fyrr segir þarf hinn fjölbreytti fræðaheimur nútímans á heimspekingum að halda til að túlka og tengja og bera boð milli ólíkra umræðuheima, krefja menn svara um hvað þeir meina og rýna í þankagang þeirra og hugtakanotkun.
      Á hverju ári gefa Mál og menning, Hið íslenska bókmenntafélag, Háskólaútgáfan og fleiri forlög út heimspekirit á íslensku, bæði þýdd og frumsamin. Þessi blómlega útgáfa sýnir svo ekki verður um villst að heimspekin er orðin samofin menningu okkar. Þótt mestur hluti þess sem ritað er um heimspeki á íslensku tengist siðfræði er langt því frá að umræðan sé einhæf eða án tengsla við aðra þætti þjóðlífsins. Hitt er sönnu nær að íslensk heimspeki tengist umræðu um ótal efni þar sem óvissa er um hvernig best er að nota hugtök og þar sem takast á ólíkar kenningar eða ólík sýn á tilveruna. Sem dæmi um umræðuefni þar sem íslenskir heimspekingar hafa látið til sín taka má nefna: Siðfræði heilbrigðisstétta  (Vilhjálmur Árnason); Átök um menntastefnu og skólapólitík (Kristján Kristjánsson); Siðferði og skyldur starfsstétta (Sigurður Kristinsson); Jafnrétti kynjanna (Sigríður Þorgeirsdóttir); Kvótakerfið og eignarréttur á náttúruauðlindum (Hannes Gissurarson); Umhverfismál (Páll Skúlason).

  *
  Hugmyndir eru ær og kýr nútímamannsins. Hann býr sig ekki undir lífsbaráttuna með því að eignast jarðnæði og fé á fæti heldur tryggir afkomu sína með því að afla sér hugmynda, kunnáttu og menntunar.
      Með tæknivæðingu, sérhæfingu og þróun samfélagsins eykst þörfin fyrir menntun og agaða fræðilega hugsun. Slík hugsun getur ekki hliðrað sér hjá hugtakalegum ógöngum, hún verður að brjóta sér leið í gegnum þær. Hún getur heldur ekki, a.m.k. ekki alltaf, einangrað sinn hugarheim frá þeim sem hugsa öðru vísi heldur verður finna leið til sameiginlegs skilning. Túlkun, greining og gagnrýni af heimspekilegum toga er óaðskiljanlegur hluti af heiðarlegri þekkingaröflun og opinskárri umræðu. Samfélag sem er upplýst, tæknivætt, opið og „dýnamískt„ þarf því sífellt á heimspeki að halda- ekki heimspeki sem lætur mönnum í té klisjur, einfaldar lausnir eða eitthvað þægilegt til að trúa á heldur heimspeki sem knýr þá til að efast og sjá veruleikann í nýju ljósi. Slík heimspeki getur birst í gervi grafalvarlegra fræða. Hún á líka ljóðrænan tón og skáldlegt hugarflug. Stundum tjáir hún sig með ströngum rómi siðapostulans eða með íbygginni rödd efasemdamannsins en hún á það líka til að koma fram sem glaðhlakkalegt grín og oft er stríðnistónn í rödd hennar. Svona hefur þetta verið frá árdögum heimspekinnar í Grikklandi þar sem Sókrates dró þá sem gortuðu af yfirburðaþekkingu sundur og saman í háði, Demókrítos skellihló að hugmyndum samborgara sinna, Pyrron vefengdi hvert orð sem sagt var og Platon talaði í skáldlegum líkingum milli þess sem hann sagði mönnum til syndanna.
      Það fer tæpast hjá því að heimspekin sé dálítið pirrandi á stundum. Það er ekkert ákaflega skemmtilegt fyrir þá sem þykjast vita betur en aðrir þegar eftirmenn Demokrítosar hlæja að þeim eða einhver Sókratískur stríðnispúki bendir er á mótsagnir í máli þeirra. Það er heldur ekkert gaman að sitja undir því að rétt sé að nota hugtök á einhvern annan hátt en manni er tamt. Enn síður er mönnum skemmt þegar þeim er sagt að skoðanir þeirra á andstæðingum sínum séu byggðar á tómum misskilningi. Ergilegast af öllu er þó þegar einhverri heimspeki, sem maður álítur sjálfur að sé engin heimspeki heldur bara „heilbrigð skynsemi“, er andmælt hressilega og hún jafnvel kveðin algerlega í kútinn.
      Stundum hefur íslenskum heimspekingum tekist nokkuð vel að vera pirrandi á einmitt þann hátt sem góðir heimspekingar eiga að vera. Þetta gerði Þorsteinn Gylfason til dæmis fyrir um það bil tveim áratugum með ágætum greinum um sálarfræði og fleiri félagsvísindi. Styttra er síðan Kristján Kristjánsson fór skemmtilega í taugarnar á mörgum með greinaflokki um póstmódernisma hér í Lesbókinni. Nútímafólk sem hefur hugmyndir fyrir ær og kýr þarf á svona heimspekilegum hrekkjalómum að halda. Þeir stugga við svefngöngum vanans.
  *
  Ef heimspeki nútímans er ruglingsleg þá er það líklega vegna þess að nútíminn þarf á heimspeki að halda. Ef hún er pirrandi þá er trúlegasta skýringin sú að heimspekingarnir standi sig þokkalega í stykkinu. Falli hún hins vegar flestum í geð þá eru mestar líkur á að hún sé lítið annað en hugsunarlaus kliður og vaðall í mönnum sem njóta þess að þykjast gáfaðir með því að bergmála ruglið hver úr öðrum.