Atli Harðarson
Hugur manns

Spurningar um frelsi viljans eru meðal sígildra viðfangsefna heimspekinnar. Stundum er erfitt að átta sig á hvað þessar spurningar þýða en ég held samt að með dálítilli einföldun megi segja að þær snúist um möguleika manns á að stjórna sjálfur hugsunum sínum, vali og athöfnum. Margir af áhrifamestu heimspekingum nýaldar hafa gert nokkuð mikið úr hæfileikum einstaklinga til velja lífi sínu stefnu á eigin forsendum og fylgja henni af eigin rammleik.
     Þessi hetjulega, og kannski dálítið rómantíska, hugmynd um sjálfstæði hvers manns er löngu orðin samofin hugsunarhætti okkar eða því sem í daglegu tali er stundum kallað „heilbrigð skynsemi.“ Rætur hennar liggja víða í heimspekihefð Vesturlanda. Ein rótin sækir næringu í kenningar Descartes (1591-1650) um að skynsemi hvers manns geti ein og óstudd öðlast skilning á heiminum án þess að styðjast við skólalærdóm, hefð eða gagnrýni frá öðrum. Önnur liggur í rit Rousseau (1712-1778) sem kenndi að náttúrubörn, sem alast upp án áhrifa frá samfélaginu, geti mótað heilbrigt og rétt gildismat af sjálfum sér og uppgötvað hjálparlaust allt sem vita þarf um siðferðileg efni. Á eftir þeim Descartes og Rousseau kom Kant (1724-1804) með sitt mikla heimspekikerfi þar sem gert er ráð fyrir að vilji mannsins sé hafinn yfir duttlunga höfuðskepnanna og hver einstaklingur eigi það algerlega undir sjálfum sér hvort hann breytir með lofsverðum hætti eða vítaverðum. Ég gæti haldið áfram að telja fræg nöfn úr heimspekisögunni og tengja þau þessari hugmynd um fullveldi einstaklings yfir vilja sínum og hugsunum. Ég gæti líka tengt hana við ýmsar stefnur í uppeldis- og skólamálum á 20. öld. En ég læt hér staðar numið.
     Þótt hugmyndir bæði heimspekinga og leikmanna um frjálsan vilja séu æði sundurleitar og margir efist raunar um að það sé mikið vit í þeim hefur kjarni þess sem Descartes, Rousseau, Kant og fleiri hugsuðir sögðu um sjálfstæði hugans orðið hluti af ríkjandi þankagangi. Flestir líta svo á að sjálfstjórn sé eðlilegt ástand og skortur á henni sé afbrigðilegur, beri jafnvel vott um einhvers konar sjúkdóm eða bilun. Fólki hefur ekki alltaf þótt sjálfsagt að hugsa svona. Hallgrímur Pétursson (1614-1674), sem var uppi um svipað leyti og Descartes, áleit líkast til fráleitt að hugur manns gæti hjálparlaust gáð vits eða vilja. Í ellefta versi fyrsta Passíusálms segir hann:

Þurfamaður ert þú, mín sál,
þiggur af drottni sérhvert mál,
fæðu þína og fóstrið allt.
Fyrir það honum þakka skalt.
Hér er sálin þurfamaður sem kemst ekki af án hjálpar æðri máttarvalda. Ef við förum lengra aftur í tímann og lesum hugsanir kristinna höfunda eða grískra fornmanna sjáum við víða hugmyndir sem minna á þetta vers í Passíusálmunum og eru algerlega öndverðar þeirri skoðun að það sé sjálfgefið að hver heilbrigður og eðlilegur maður geti ákvarðað stefnu sína í lífinu algerlega á eigin forsendum og fylgt henni einn og sjálfur. Eitt dæmi, sem mér er hugleikið, kemur fyrir undir lok leikritsins Antígónu eftir Sófókles, sem var uppi í Aþenu á árunum 496 til 406 f. Kr. Þegar aðalpersónur leikritsins hafa lagt tilveru sína í rúst og eytt og drepið það sem þeim sjálfum þótti vænst um syngur kór viturra öldunga: „Æðsta heill er að eiga ráð eigin vilja og hugarfars.“ Af því sem á undan er gengið er áhorfendum ljóst að þessi æðsta heill er ekki sjálfgefin. Hún er hnoss sem fáum hlotnast.
     Í fornöld voru að vísu á kreiki hugmyndir um að hver maður sé sinnar eigin gæfu smiður og hugurinn geti óstuddur ratað þann mjóa og krókótta veg sem liggur til hamingju og farsældar. Slíkum hugmyndum var t.d. haldið á lofti af stóumönnum eins og Epiktetosi (55-135). Málið er því ekki svo einfalt að nútímamenn telji allir sem einn sjálfsagt að einstaklingar hafi fullt vald yfir eigin huga en fornmenn hafi neitað þessu. Menn hafa öldum saman haft margvíslegar og sundurleitar hugmyndir um sjálfa sig. Ég held samt að í versinu eftir Hallgrím og kórsöng öldunganna í Antógónu séu sannleikskorn sem er of lítill gaumur gefinn nú á tímum og gætu orðið hollt mótvægi við ríkjandi hugmyndir um sjálfstjórn og sjálfstæði.
*
Mörg erfiðustu vandamál fólks sem býr við allsnægtir og þægindi tengjast stjórnleysi: Takmarkaðri getu til að hafa ráð yfir eigin vilja og hugarfari; Vanhæfni til að temja sér skynsamlegt gildismat og breyta í samræmi við það. Stjórnleysið birtist í ýmsum myndum sem taumleysi, árátta, fíkn, þráhyggja, verkkvíði, leti, eirðarleysi, vingulsháttur. Þótt annar hver maður sé plagaður af einhverju í þessum dúr trúir fólk að stjórnleysið sé afbrigðilegt og heilbrigðir og eðlilegir menn geti sigrast á því með eigin viljastyrk og þurfi hvorki lærdóm, tamningu, þjálfun, aðhald né aga til að standa við ákvarðanir sínar um að: Einn af merkilegustu þverbrestunum í hugarheimi nútímans er að flestir trúa því að þeir geti þetta allt hjálparlaust en mistekst samt (a.m.k. eitthvað af þessu) aftur og aftur og aftur. Og þar sem menn telja að frjáls vilji eða sjálfstjórn sé eðlilegt ástand líta margir svo á að þeir sem mistekst svona að móta skynsamlegt gildismat og lifa eftir því séu með einhverjum hætti sjúkir eða bilaðir. Ein afleiðing þessa viðhorfs verður líklega sú að senn telst meiri hluti fólks sjúklingar.
*
Mér þykir trúlegt að sum vandamál sem rekja má til stjórnleysis yrðu auðveldari viðureignar ef við hugsuðum eins og Hallgrímur og Sófókles og hættum að líta á það sem sjálfsagt mál að menn geti valið lífi sínu stefnu á eigin forsendum og fylgt henni hjálparlaust. Upphafsmenn AA-samtakanna trúðu því að drykkjumenn þyrftu stuðning máttar, sem er æðri og meiri en þeir sjálfir, til að ná stjórn á eigin lífi. Þeir álitu að til að slíkir menn öðlist sjálfstjórn þurfi þeir fyrst að viðurkenna að þeim sé um megn að stjórna lífi sínu algerlega af eigin rammleik. Margir virðast telja að þetta sé vegna þess að drykkjumenn séu sjúkari og bilaðri en við hin. Einhvern veginn finnst mér að þetta viðhorf sé til marks um gorgeir og hroka og mig grunar að hitt sé sönnu nær að allir menn (líka þeir „eðlilegustu“ og „heilbrigðustu“) þurfi stuðning „æðri máttar“ til að læra skynsamlegt gildismat og lifa eftir því.
     Með þessu er ég ekki að slá því föstu að menn þurfi liðsinni frá guði eða öðrum yfirnáttúrulegum öflum (enda hef ég ekkert vit á æðri veruleika af því tagi). Sá „æðri máttur“ sem styður venjulegt fólk í að ná tökum á tilverunni og hafa þokkalega stjórn á eigin lífi er a.m.k. öðrum þræði það sem við köllum einu nafni siðmenningu og byggist á venjulegum heimilisaga, siðum, venjum, félagslegu aðhaldi, almenningsáliti og stofnunum á borð við skóla, söfnuði, félög og vinnustaði. Vel má vera að mönnum sé líka hollt að hugsa sér að á bak við þetta hversdagslega umhverfi sem siðmenningin hvílir á sé einhvers konar guðleg forsjón. Ég tek ekki afstöðu til þess.
     „Æðsta heill er að eiga ráð eigin vilja og hugarfars“ sögðu öldungarnir í Antógónu. Ef til vill náum við betri tökum á tilverunni ef við hugsum okkur að sjálfstjórn sé hnoss, ávinningur sem mönnum hlotnast ef þeir eru reiðubúnir að taka tilsögn, læra af þeim sem hefur auðnast að lifa vel og viðurkenna að uppsöfnuð reynsla fjölda fólks, sem fólgin er í siðmenningu og mótuðum samfélagsháttum, býr yfir talsvert meira viti en rúmast í einu mannshöfði. Ef til vill þurfum við að brjóta odd af oflæti okkar og þakka „æðri mætti“ hvern dag sem okkur lánast að lifa nokkurn veginn skammlaust til enda.
     Fyrr í þessum pistli skrifaði ég upp ellefta erindið úr fyrsta Passíusálmi Hallgríms. Það tólfta er svona:
Illum þræl er það eilíf smán,
ef hann þiggur svo herrans lán
drambsamlega og dreissar sig.
Drottinn geymi frá slíku mig.