Atli Harðarson
Er illa gert að klóna fólk?


Kindin Dollý og hrollvekjur úr heimi bókmenntanna
Elucidarius er kennslubók í guðfræði sem samin var einhvers staðar í Vestur-Evrópu um 1100 og þýdd á íslensku þegar á 12. öld. Bókin er samræða lærisveins og meistara og í 119. grein segir meistarinn:

Fjórum háttum skapaði Guð menn. Einum hætti fyrir utan föður og móður sem Adam. Að öðrum hætti af karlmanni einum sem Evu. Þriðja hætti frá karlmanni og konu sem altítt er. Fjórða hætti frá meyju einni saman sem Kristur var borinn.1
Einhverjum kann að finnast þessi upptalning á þeim fjórum aðferðum sem Guð hefur til að skapa menn dálítið brosleg. En nú er svo komið að menn fjölga sauðfé tvennum hætti: Af hrúti og kind sem altítt er og frá kind einni saman sem Dollý var borin. Það var í Skotlandi sem líffræðingurinn Ian Wilmut og félagar hans tóku frumu úr júgri sex vetra kindar og komu kjarna hennar fyrir í eggfrumu úr annarri kind. Þeir sögðu frá þessu í grein sem birtist í tímaritinu Nature í febrúar 1997.2 Síðan hafa menn klónað skepnur af öðrum tegundum, t.d. nautgripi, og sumar þessar klónuðu skepnur hafa erfðaefni frá karldýri einu þótt eggið sem því er plantað í sé úr kvendýri og fóstrið vaxi í kviði kvendýrs. Ekki veit ég til að menn hafi enn skapað dýr af engu foreldri en þeir tímar koma ef til vill að einhver búi til erfðaefni frá grunni og skapi þannig nýjar tegundir sem ekki eru byggðar á skepnum sem til eru í náttúrunni. Þegar er töluvert til af erfðabreyttum lífverum sem menn hafa skapað með því að splæsa saman genum úr nokkrum skepnum, sumum af sömu tegund, sumum ólíkrar gerðar.
    Grein Wilmut og félaga olli töluverðum taugatitringi. Menn tóku þegar að velta fyrir sér hugmyndum um að klóna fólk. Wilmut sjálfur hefur lýst þeirri skoðun sinni að óráðlegt sé að klóna menn með sama hætti og Dollý og víst er þessi tækni enn ekki nógu þróuð til að verjandi sé að beita henni til að eignast börn. T.d. er ýmislegt á huldu um hvort börn sem yrðu til með þessum hætti geta orðið jafnheilbrigð og átt sömu vonir um langlífi og börn sem verða til með venjulegri æxlun. Rannsóknir á klónuðum skepnum benda til að dýr sem klónuð eru af fullorðnum einstaklingi verði fyrr ellihrum en þau sem til verða með kynæxlun.
    Erfðaefnið sem geymt er í kjarna hverrar frumu er risasameindir sem kallast DNA. Þær eru lengjur úr milljónum niturbasa sem raða sér í tvöfalda röð. Í hvert sinn sem fruma skiptir sér klofnar þessi lengja að endilöngu og hver helft fær nýja niturbasa á móti. Þannig tvöfaldast erfðaefnið og í framhaldi af því verða til tveir frumukjarnar úr einum. Þetta afritunarferli er ekki óskeikult m.a. vegna þess að lengjurnar rýrna til endanna. Þegar skepna lifir lengi og frumurnar í vefjum líkamans skipta sér oft hrörnar því erfðaefnið. Þetta á þó ekki við um egg og sæðisfrumur. Þær eru eins í ungum og gömlum. Af þessum sökum er hætt við að barn sem klónað er af fullorðnum manni verði fremur ellihrumt fyrir aldur fram en náttúruleg afkvæmi roskinna foreldra. Meðan ekki er séð við þessu er varla verjandi að búa til börn með því að klóna fullorðið fólk.
    En þótt ekki sé á dagskrá að fullorðið fólk klóni sig til að eignast börn alveg á næstunni hafa menn rætt um það í fullri alvöru að nota klónun til að skapa fósturvísa og eyða þeim áður en þeir taka á sig mennska mynd. Fyrr á þessu ári var enskum vísindamönnum synjað um leyfi til slíkrar tilraunastarfsemi. Að mér skilst studdist synjunin einkum við siðferðileg rök.
Vangaveltur um klónun manna vekja upp ótal drauga og grýlur. Þær blandast á ýmsan hátt við hrollvekjur eins og skáldsögu Mary Shelley um vísindamanninn Frankenstein sem skapaði mann með tæknibrögðum. Sá var af holdi og blóði og gæddur tilfinningum eins og við hin. En vegna uppruna síns var hann dæmdur til lífs án ástar og vináttu. Mönnum varð líka hugsað til sögu Aldous Huxley Veröld ný og góð. Þar er lýst framtíðarþjóðfélagi þar sem börnin eru búin til í tilraunaglösum og hvert og eitt hannað til að sinna ákveðnu hlutverki og gera sér það að góðu. Kynlíf er iðkað til skemmtunar en kemur æxlun ekkert við. Þessi framtíðarsýn Huxley er óhugnanleg vegna þess að skoðanir manna og tilfinningar mótast ekki af rökum eða skynsamlegri umræðu heldur er þeim beinlínis áskapað að sætta sig við þann skerf sem þeim er úthlutaður.
    Hér hefur verið minnst á tvö bókmenntaverk sem hafa að einhverju leyti mótað viðhorf manna til tækni eins og þeirrar sem notuð var til að skapa kindina Dollý. Það mætti tína til ýmislegt fleira út menningararfinum sem skýrt getur þann óhug sem margir eru slegnir þegar rætt er um möguleikana á að klóna fólk. Mér verður til dæmis hugsað til kynbótatilrauna þýskra þjóðernissósíalista fyrr á öldinni og hugmynda bandarískra gervigreindarfræðinga um að búa til vélmenni til að nota í hernaði, verur með mannsvit sem eru fullkomlega kaldrifjaðar og kunna ekki að óttast. Mun kannski einhver stríðsherra nota líftækni til að búa til morðvarga og fjöldaframleiða þá svo með klónun? Svona mætti lengi telja. En gamlar hryllingssögur og skáldlegt ímyndunarafl eru ekki gild rök gegn þróun og beitingu líf- og erfðatækni, a.m.k. ekki nema ástæður séu til að ætla að hún leiði í raun og veru til hryllings af því tagi sem Shelley, Huxley og fleiri hafa ímyndað sér.
    Í því sem hér fer á eftir ætla ég að velta fyrir mér rökum með og á móti því að banna tilraunir til að klóna fólk. En fyrst ætla ég að fara örfáum orðum um hvað gerist þegar dýr er klónað.

Klónun, tvíburar og kynlaus æxlun
Kynfrumur, þ.e. egg- og sæðisfrumur eru ólíkar öðrum frumum. Erfðaefni þeirra er aðeins hálft. Þegar sæðið frjóvgar eggið leggja þessar tvær frumur saman í púkk og úr verður okfruma. Hún skiptir sér svo aftur og aftur og myndar fósturvísi sem verður fóstur og síðan jóð og loks fullvaxinn einstaklingur. Frumurnar í fullvöxnu dýri, t.d. kind, eru margs konar t.d. vöðvafrumur, taugafrumur og húðfrumur. Að kynfrumunum undanskildum hafa þær allar sama erfðaefni og okfruman, sem varð til við samruna eggsins og sáðfrumunnar þegar dýrið var getið. Með því að taka frumukjarna úr eggi og setja í staðinn kjarna úr t.d. húðfrumu er því búin til okfruma sem hefur sömu erfðaeiginleika og eigandi húðfrumunnar. Sé þessari frumu komið fyrir í legi getur hún svo skipt sér þannig að upp vaxi dýr sem er eins konar tvíburi síns eina foreldris. Með öðrum orðum: klónun gerir það mögulegt að fjölga dýrum og mönnum með kynlausri æxlun.
    Nú er svo sem ekkert nýtt að nota kynlausa æxlun til að fjölga lífverum sem eignast afkvæmi með kynæxlun í náttúrunni. Þetta er til dæmis gert þegar græðlingar eru teknir af plöntum. Það gerist líka meðal sumra lífvera, sem yfirleitt fjölga sér með kynæxlun, að einn og einn einstaklingur verði til með kynlausum hætti. Sá er þá kvenkyns og með sömu erfðaeiginleika og móðirin. Ekki er heldur nýtt að til verði tveir menn með sömu erfðaeiginleika því eineggja tvíburar hafa verið til alla tíð. Klónun á sér því samsvörun bæði í hefðbundnum landbúnaði og í ríki náttúrunnar.
Í umræðu um klónun hefur þess misskilnings stundum gætt að einstaklingar sem verða til með þessum hætti verði nákvæmlega eins og foreldrið. Menn hafa ímyndað sér að hægt verði að fjöldaframleiða mann og afkvæmin yrðu með einhverjum hætti mörg eintök af sama manninum. En eineggja tvíburar eru tveir menn en ekki tvö eintök af sama manni. Þeir hafa hvor sinn persónuleika, hugsanir, hæfileika og tilfinningar. Þeir eru kannski líkari en gerist og gengur um systkini en engu að síður tveir sjálfstæðir einstaklingar.
    Raunar eru eineggja tvíburar töluvert líkari en t.d. Dollý er sínu eina foreldri eða menn yrðu sínum klón-áum og klón-burum. Veldur hér að minnsta kosti fernt:
 

  1. Eineggja tvíburar hafa sama erfðaefni í hvatberum en klónaður einstaklingur hefur hvatbera úr eggi þótt erfðaefnið í frumukjarna sé fengið úr öðrum einstaklingi. Þetta á þó ekki við ef frumukjarninn og eggfruman eru úr sama líkama.
  2. Eineggja tvíburar vaxa upp af sama eggi og þar sem prótín í eggi hafa nokkur áhrif á vöxt og þroska lífveru verða þeir af þessum sökum líkari en tvær verur með sama erfðaefni sem vaxa upp af tveim ólíkum eggjum.
  3. Eineggja tvíburar dvelja í sama legi og fá sams konar næringu á meðgöngutíma.
  4. Eineggja tvíburar fæðast á sama tíma og alast oftast nær upp við svipaðar aðstæður.


Trúlegt er að þau atriði sem hér voru talin númer 3 og 4 hafi veruleg áhrif á vöxt og þroska miðtaugakerfisins og þar með þróun persónuleika, tilfinninga og vitsmuna.
    Frá því miðtaugakerfið byrjar að vaxa þar til á unglingsárum eru taugafrumur sífellt að tengjast saman og rjúfa tengsl sín á milli. Fullvaxinn mannsheili inniheldur um 100.000 milljónir taugafruma sem hver um sig tengist nokkur þúsund öðrum. Þetta er flókið net og enn skilja menn ekki nema að litlu leyti hvernig það virkar. En eftir því sem best er vitað ráðast tengingar í heilanum aðeins að hluta til af erfðum og því er lítil ástæða til að ætla að einstaklingar með sama erfðaefni þurfi endilega að vera líkir í hugsun og hátt. Það er því ástæðulaust að óttast að maður sem yrði til við klónun yrði eitthvað síður einstakur og með sín eigin persónueinkenni heldur en við hin.

Krafa um bann
Löngu áður en Dollý varð til voru komnar fram kröfur um bann við klónun á fólki. Árið 1987 gaf páfagarður til dæmis út plagg með fyrirsögninni Donum Vitae þar sem tilraunir til að klóna fólk eru fordæmdar m.a. á þeim forsendum að þær stríði gegn mannlegri reisn og helgi hjónabandsins.3 Fulltrúar ýmissa annarra trúfélaga, sem og veraldlega þenkjandi siðfræðingar, hafa líka fordæmt klónun m.a. á þeim forsendum að menn megi ekki "leika guð".4
    Ef til vill hafa páfinn og hans menn dæmt sjálfa sig úr leik í alvarlegum umræðum um þetta efni því þeir halda til streitu alls konar firrum um kynlíf og barneignir, eins og þeim að rangt sé að nota getnaðarvarnir. En hvort sem við nú tökum mark á páfanum eða ekki hlýtur umræða um réttmæti þess að banna klónun að taka mið af þeirri staðreynd að mörgu skynsömu fólki þykir slíkt vera helgispjöll og menn sem slíkt gera sýni þann ofmetnað að leika guð.
    Þegar menn vara hver annan við að leika guð hafa þeir yfirleitt tilfinningu fyrir eða hugboð um að þeir séu í þann mund að fara yfir einhver mörk sem ekki má fara yfir. Í sumum tilvikum kann svona tilfinning að eiga rætur í fordómum eða skoðunum sem ekki verða studdar skynsamlegum rökum. En stundum kann hún að vera hluti af viturlegu gildismati og þroskaðri siðferðiskennd sem menn eiga erfitt með að koma orðum að eða skýra nákvæmlega. Til að vega það og meta hvort þeir sem klóna menn "leika guð" með einhverjum vítaverðum hætti dugar þó ekki að styðjast við óljósa tilfinningu. Það verður að rökstyðja að eitthvað annað og meira en grillur og fordómar búi að baki henni.
    Margir óttast það óþekkta. Það er því ekkert undrunarefni að í hvert sinn sem fram koma nýjar hugmyndir, ný tækni, nýir lífshættir þá vilji einhverjir banna nýjungina, segja hingað og ekki lengra. Þessi viðbrögð eru skiljanleg en ekki er þar með sagt að þau séu skynsamleg. Þegar röntgengeislarnir voru uppgötvaðir fyrir um það bil 100 árum síðan þótti mörgum óhugnanlegt til þess að hugsa að hægt væri að "lýsa" gegnum föt, húð og kjöt allt inn að beini. Fljótlega kom líka í ljós að þessi tækni var hættuleg og nokkrir dóu af völdum hennar. Nú, öld síðar, er augljóst að sá óhugur sem sumir voru slegnir og sú hætta sem stafaði af rannsóknum á þessum geislum, hefðu engan veginn verið gild rök fyrir banni við tilraunum með þá.
    Frá því Röntgen var og hét hafa framfarir í tækni, meðal annars í læknisfræði og líffræði, gerbylt lífi manna til hins betra. Ef við viljum áframhaldandi tækniframfarir og batnandi lífskjör ættum við ekki að setja skorður við tilraunum og vísindarannsóknum nema mjög brýnar ástæður séu til. Og jafnvel þótt við efumst um að meiri þekking og fullkomnari tækni verði til góðs höfum við ástæður til að ætla að mannlegri farsæld sé best borgið í frjálsu og opnu samfélagi, þar sem fólk má í flestum greinum fara sínu fram meðan það skaðar ekki aðra. Með þessu er ekki sagt að það sé sjálfsagt og rétt að fólk taki upp á að fjölga sér með kynlausum hætti heldur aðeins að sönnunarbyrðin sé hjá þeim sem vilja banna það. Eigi að banna klónun þarf að styðja það bann betri rökum en þeim að rifja upp hryllingssögur, eða segja að menn skuli ekki leika guð.
    Áður en ég skoða rök fyrir því að banna að klóna fólk ætla ég að fara nokkrum orðum um mögulegar ástæður til að reyna slíkt.

1. ástæða: Aðferð til að eignast börn
Í Heimdallargaldri segir guðinn Heimdallur frá uppruna sínum:

Níu em ek mæðra mögur,
níu em ek systra sonur.
Ekki veit ég hverjum hætti mæður Heimdallar blönduðu saman genum sínum. Þær kunnu trúlega lítil skil á líftækni. En þróist sú tækni áfram má vel hugsa sér að hægt verði að splæsa saman erfðaefni úr níu systrum, setja litningana sem úr verða í einn frumukjarna og koma honum svo fyrir innan í eggi. Ein þeirra gæti svo gengið með krógann.
    Hvort nokkurs staðar eru níu systur sem kæra sig um að gera þetta skal ósagt látið. En ef tæknin þróast á þann veg að hægt verði að eignast börn með klónun, án þess þeim hætti fremur en öðrum til vanheilsu og ellihrumleika fyrir aldur fram, því skyldu tvær lesbíur þá ekki vilja eignast barn saman? Ein leið væri að önnur legði til egg og gengi með barnið en erfðaefni væri frá hinni; önnur að erfðaefnið yrði blanda af erfðaefni beggja. Dóttirin sem fæddist ætti þá tvær mæður og engan föður. Með hvaða rökum er hægt að banna tveim konum að eignast barn með þessum hætti? Barnið yrði venjuleg stúlka og mæðrum hennar þætti jafnvænt um hana og foreldrum yfirleitt þykir um börn sín. Hún yrði að vísu til með tæknibrellum en það sama má segja um "glasabörn" og börn sem fæðast fyrir tímann og er bjargað með háþróaðri tækni. Það eitt að nútímatækni hafi gegnt lykilhlutverki við tilurð manns gerir hann ekki á nokkurn hátt að minni manni.
    Ein rökin með klónun eru að hún gæti gert fólki mögulegt að eignast barn sem getur það ekki með venjulegum hætti. Þetta gæti gagnast fleirum en lesbíum sem vilja eiga barn saman, t.d. þeim sem eru ófrjóir.
    Nú má kannski segja að þeir sem þurfa á klónun að halda til að eignast börn geti eins ættleitt barn og trúlegast er að þótt klónun standi til boða muni flestir fremur kjósa ættleiðingu. En af þessu er ekki hægt að draga þá ályktun að rétt sé að banna þeim minnihluta sem kýs klónun að fara sínu fram.

2. ástæða: Aðferð til að lækna sjúka og fatlaða
Það er ekki sennilegt að börn verði til með sama hætti og kindin Dollý alveg á næstunni. Hins vegar kann að vera stutt í að menn noti klónaða fósturvísa við lækningar. Það má til dæmis hugsa sér að mögulegt verði að gera við skaddaða líkamshluta með því að láta klónað fóstur vaxa, þar til þær frumur sem á þarf að halda myndast, og koma þeim svo fyrir og láta þær vaxa í líkama sjúklingsins. Ef aðferðir af þessu tagi verða til þess að menn sem annars yrðu t.d. lamaðir til æviloka geti staðið á fætur því ætti þá ekki að nota þær?
    Klónaðir fósturvísar geta gert læknum mögulegt að bæta líf sumra sjúklinga. Þeir tímar kunna jafnvel að koma að hægt verði að rækta einstök líffæri upp af okfrumu sem til er orðin með því að skipta um frumukjarna í eggi. Þá verður hægt að útvega mönnum ný líffæri án þess að fyrri eigandi deyi. Blátt bann við tilraunum til að klóna fólk kann að koma í veg fyrir að takist að þróa tækni af þessu tagi og afla gagnlegrar þekkingar sem getur bætt líf manna.
    Umræðan um þetta hefur stundum verið nokkuð ýkjukennd. Sumir hafa til dæmis mótmælt hugmyndum um að klóna fósturvísa til að nota við lækningar á þeim forsendum að það sé ekki réttlætanlegt að búa til mann til þess eins að drepa hann og nota í varahluti. Ég efast um að margir læknar eða líffræðingar hafi áhuga á slíkum voðaverkum. Siðaðir menn eru á einu máli um að óréttlætanlegt sé að drepa mann til þess eins að hirða úr honum líffæri. En fósturvísir eða ungt fóstur sem enn hefur of óþroskað miðtaugakerfi til að geta haft meðvitund af neinu tagi er ekki mannvera, heldur í mesta lagi tilvonandi mannvera. Sé slíkur fósturvísir notaður til að bjarga lífi eða heilsu manns er því ekki verið að drepa einn mann til að bjarga öðrum. Það er ef til vill hálfgert óyndisúrræði að rækta fósturvísa til þess að aflífa, en óyndisúrræði geta verið réttlætanleg þegar mikið er í húfi. Að jafna þessu við stórglæpi eins og morð er ýkjur og öfgar.

3. ástæða: Að eignast barn og bjarga öðru um leið
Auk þess sem hugsanlegt er að rækta fósturvísa og jafnvel einstök líffæri með klónun og nota til lækninga má hugsa sér að undir vissum kringumstæðum vilji fólk eignast barn með klónun til þess að bjarga um leið öðrum manni. Hugsum okkur til dæmis að hjón eigi barn og það sé með lífshættulegan sjúkdóm sem hægt væri að lækna með blóðgjöf úr einstaklingi sem er erfðafræðilega mjög líkur því, eða eins.
    Hjónin hafa kannski hugsað sér að eignast annað barn og standa nú frammi fyrir vali milli þess að eignast það með venjulegum hætti og þess að klóna veika barnið. Velji þau seinni kostinn tekst næstum örugglega að bjarga sjúklingnum svo því skyldu þau ekki gera það? Börnin þeirra yrðu þá misgamlir tvíburar. Þótt það yngra hafi orðið til með óvenjulegum hætti er ekkert sem kemur í veg fyrir að þeim þyki jafnvænt um bæði. Yngra barnið yrði sjálfstæður einstaklingur með sama rétt og önnur börn þótt það hafi að nokkru verið skapað til að bjarga bróður sínum eða systur.
    Það er ekki endilega verra hlutskipti að vera skapaður í þessum tilgangi heldur en að vera til dæmis getinn til að bjarga vonlausu hjónabandi eða fá móður sinni afsökun til að hætta í skóla. Fólk eignast börn í alls konar tilgangi sem stundum er miklu ómerkilegri en þessi, að bjarga öðru barni. Þetta kemur ekki í veg fyrir að þegar barnið er fætt þá hafi líf þess tilgang í sjálfu sér.
Ég hef nú litið á þrenns konar ástæður sem menn gætu haft til skapa mann eða mannsfóstur með klónun. Erfitt er að meta mikilvægi ástæðna af því tagi sem taldar voru númer eitt en ég held að ástæður eins og þær sem taldar voru númer tvö og þrjú hljóti að teljast nokkuð veigamiklar og það þurfi því sterk mótrök til þess að styðja blátt bann við tilraunum til að klóna fólk. Hver gætu þau verið? Í því sem á eftir fer ætla ég að skoða fimm gerðir andmæla sem nokkuð hefur borið á í umræðum um þetta efni.

1. andmæli: Slæm kjör þeirra klónuðu

Meðalsnotur
skyli manna hver,
æva til snotur sé.
Örlög sín
viti engi fyrir,
þeim er sorgalausastr sefi.
Í þeim umræðum um mögulega klónun manna sem fóru af stað þegar fréttir bárust af tilurð kindarinnar Dollý er stundum gert ráð fyrir að klónburar séu eins, nánast tvö eintök af sama manninum fremur en tveir sjálfstæðir einstaklingar. Sé þessi hugmynd tekin bókstaflega þá gefur hún tilefni til að efast um að sá yngri tveggja klónaðra einstaklinga eigi sér opna og óráðna framtíð eins og við hin. Sé hann bara eftirmynd þessi eldri hlýtur honum þá ekki að vera neitað um þann sorgalausa sefa sem Hávamál segja að menn hafi ef þeir vita ekki örlög sín fyrir? Ef sá yngri tvítugur sér þann eldri kominn með ístru og skalla um fertugt getur hann þá gert sér vonir um að vera enn í góðu formi eftir 20 ár? Því ekki? Hann getur látið sér víti hins eldra að varnaði verða og gerst grænmetisæta. Eins og ég hef gert grein fyrir er sú hugmynd að klónaðir menn séu tvö eintök af sama manninum óttaleg firra. En gæti samt ekki verið eitthvað til í því að ef aldursmunur klónaðra einstaklinga skiptir árum þá lifi sá yngri með einhverjum hætti í skugga þess eldri? Hér er fátt um svör. Við vitum ekki um sálræn og félagsleg áhrif þess á mann að eiga sér eldra "tvíburasystkin". Við vitum ekki heldur um áhrif þess á sjálfsmynd manns að eiga sér aðeins eitt foreldri sem er um leið eins konar tvíburi hans, en sennilega vildum við fæst vera í þeim sporum.
    Hugmyndir um skrýtna stöðu og undarleg kjör klónaðs barns eru svo sem lítið annað en getgátur. Hugsanlegt er að einhvern tíma í fjarlægri framtíð þyki það betri kostur fyrir barn að vera til orðið með einhverjum tæknibrellum en að vera getið með sama hætti og við.
    Séu ástæður til að ætla að kjör klónaðra manna yrðu verri en annarra fyrir þá sök að þeir lifðu í skugga síns eina foreldris og tengdust ekki öðru fólki sams konar fjölskylduböndum og flestir aðrir, þá kunna það að vera rök gegn því að nota klónun til að búa til börn. En rök af þessu tagi segja ekkert um réttmæti þess að nota klónaða fósturvísa í læknisfræðilegum tilgangi.

2. andmæli: Virðingin fyrir einstaklingnum
Ef til vill er ástæða til að óttast að klónun á fólki dragi úr virðingunni fyrir einstaklingnum, grafi undan mannúð og mannhelgi alveg burtséð frá því hvort kjör þeirra klónuðu yrðu verri eða betri en okkar hinna. Þetta gæti gerst með ýmsum hætti. Ef það fer til dæmis að tíðkast að ala klónaða fósturvísa til að nota í "varahluti" er hætta á að einhverjir vilji ganga skrefi lengra og deyða eldri fóstur eða jafnvel ungabörn.
    Einhvers staðar á leiðinni frá okfrumu til nýfædds barns verður til mennskur einstaklingur. Einn mikilvægasti hornsteinn allrar siðmenningar er virðingin fyrir mannslífum og blátt bann við morðum. Ef menn taka upp á því að rækta fóstur og drepa þau til að hirða úr þeim líffæri eftir að þau hafa fengið mannlegt sköpulag þá er ef til vill stutt í að farið verði að líta á morð sem hagstæðan kost í sumum tilvikum.
    Hér er margs að gæta. Þegar tekið var að leyfa fóstureyðingar óttuðust sumir að þær græfu undan virðingu fyrir lífinu og menn mundu smám saman hætta að líta á hvert mannsbarn sem ómetanlega gersemi, að þeir væru einu skrefi nær því en áður að leyfa útburð. En ekkert bendir til að samfélög sem leyfa frjálsar fóstureyðingar hafi minni mætur á börnum en hin sem banna þær.
    Verði farið að rækta fósturvísa í 8 vikur og deyða þá svo eru menn vissulega nær því en áður að rækta þá í 9 vikur en það er ekki þar með sagt að þeir þokist nær og nær því að líða dráp á börnum. Það er hægt að setja mörk og segja svo: Hingað og ekki lengra. Ætla má að háskólar og sjúkrahús mundu virða þessi mörk. En ekki er þar með sagt að allir mundu gera það. Nú þegar er nokkuð um ólöglega sölu á líffærum, sem e.t.v. eru stundum fengin með manndrápum. Þróist tækni til að rækta klónuð fóstur geta einhverjir notað hana á ólöglegan hátt, jafnvel gengið svo langt að búa til börn til þess eins að drepa þau. Ekki er óeðlilegt að mönnum þyki möguleikinn á slíkum voðaverkum gefa tilefni til að stöðva rannsóknir á þessu sviði og vona að slík tækni verði aldrei til. Hér er enn margs að gæta. Möguleikinn á að menn yrðu myrtir til að hirða úr þeim líffæri hefur aldrei þótt nein rök gegn rannsóknum á tækni til líffæraflutninga. Rök af þessu tagi geta því ekki talist einhlít.
    Önnur rök sem kunna að renna stoðum undir þá skoðun að klónun á fólki grafi undan virðingunni fyrir mannslífum eru á þá leið að fólk gæti farið að nota þessa tækni til að endurheimta látna ástvini með því að klóna þá, búa til eftirmyndir þeirra. Dauði þeirra yrði þá ekki lengur óbætanlegur missir og mannslíf ekki lengur ómetanlegt. Hugmyndin um að endurheimta látinn mann með klónun er vitaskuld tóm vitleysa því klónun býr ekki til annað eintak af sama manni heldur annan mann með svipaða líkamsgerð en ef til vill ólíkan persónuleika. Hugmyndin um að nota klónun á þennan hátt til að sigrast á dauðanum byggir því á misskilningi sem aukin umræða um efnið mun vonandi eyða.
    Hér hef ég tíundað tvenn rök og sagt að þau fyrri séu ekki einhlít og þau síðari byggi á misskilningi. En þótt erfitt sé að slá neinu föstu um hvort klónun á mönnum sé líkleg til að draga úr virðingunni fyrir mannlegu lífi væri fávíslegt að loka augunum fyrir þeim möguleika.

3. andmæli: Afhelgun og umturnun gilda
Óttinn við að klónun grafi undan virðingunni fyrir mannslífum, og lækki þá tilfinningalegu þröskulda sem menn þurfa að yfirstíga til að fremja morð, er ef til vill afbrigði miklu almennari ótta við að vísindin muni afhelga manninn og umturna um leið mikilsverðum gildum.
    Framfarir í líffræði hafa gert mannslíkamann skiljanlegan a.m.k. í aðalatriðum. Við vitum nokkurn veginn hvernig barn verður til úr eggi og sáðfrumu og ef til vill styttist í að menn ráði gátur miðtaugakerfisins. Þessari þekkingu fylgir tækni og vald til að stjórna gangi náttúrunnar. Líftæknin gerir mönnum mögulegt að stjórna því hvernig börn þeir eignast. Þekking á heilanum mun ef til vill gera þeim mögulegt að stjórna hugsun þeirra og tilfinningum í meira mæli en þeir nú geta.
    Tæknin mun ef til vill gera manninn í auknum mæli að sinni eigin afurð eða smíð. Nú þegar hafa verið gerðar tilraunir til að græða nema í heila manns til að gera honum kleift að stjórna tölvubúnaði með hugsuninni einni. Kannski verða menn brátt tengdir vélbúnaði í þeim mæli að þeir viti ekki gerla skil milli sjálfra sín og vélrænna viðbóta við líkama og sál. Ef við þetta bætist að hægt verði að nota líftækni til að breyta líkamanum, framleiða í hann varahluti og hann verði jafnvel að hluta til hannaður eins og hver önnur smíð þá verður maðurinn ekki bara framleiðandi heldur líka framleiðsluvara. Tæknin hefur þegar breytt möguleikum mannsins og stöðu hans í ríki náttúrunnar en ef til vill eru enn róttækari breytingar fram undan.
    Það er alkunna að skilningur mannsins á sjálfum sér mótast að verulegu leyti af tækninni. Meðan lækir sneru mylluhjólum og mannshendur halasnældum var örlagahjólið tákn fyrir tilveru mannsins. Þegar aflvélarnar komu fram fóru menn að hugsa um tilfinningar sínar sem þrýsting, krafta líka þeim sem knúðu bullur og stimpla. Þegar tölvan var fundin upp tóku þeir svo að hugsa sér hugann sem forrit. Menn hafa löngum skilið og misskilið sjálfa sig í ljósi tækninnar. Þetta er ósköp eðlilegt. Það sem menn hafa sjálfir hannað og skapað er þeim yfirleitt gagnsærra og skiljanlegra en fyrirbæri náttúrunnar og þeir nota það sem þeir skilja til að henda reiður á því sem þeir skilja ekki. En hvað verður þegar menn taka að umskapa og hanna sjálfa sig. Verður þeim eigið líf þá fyrst skiljanlegt eða klúðra þeir þá loks endanlega allri sinni tilveru? Við svona spurningum veit enginn neitt svar. Menn eins og ég sem gleðjast yfir nýrri tækni og aukinni þekkingu eru bjartsýnir og gera sér vonir um að vísindin geri lífið betra. En það verður að segjast eins og er að þessi bjartsýni styðst ekki við mjög haldgóð rök.
    Vera kann að klónun eða önnur tækni grafi undan einhverjum gildum en hún kann að skapa önnur í staðinn sem ef til vill eru engu síðri. Svartsýni þeirra sem halda að tæknin fari með mannkynið til andskotans styðst ekki við neitt betri rök en bjartsýnin. Það er litlu hægt að spá um hvaða áhrif ný þekking og ný tækni og ný reynsla mun hafa. Við getum ekki vitað margt um vitneskju sem er enn ekki orðin til.

4. andmæli: Misnotkun tækninnar
Það er hægt að misnota líftækni eins og svo margt annað. Að jafnaði teljast það ekki vera rök gegn tækniþróun að hægt sé að misnota afraksturinn. Við vitum t.d. að það er hægt að misnota tölvutækni t.d. til að njósna um fólk, það er hægt að misnota bíla, t.d. með því að fara í kappakstur á þjóðvegunum og með flugvélum er hægt að gera loftárásir á saklaust fólk. Þetta eru þó tæpast rök gegn framleiðslu á tölvum, bílum og flugvélum því gagnið af frelsinu til að framleiða og selja slíka hluti vegur miklu þyngra en skaðinn sem hlotist getur af misnotkun þeirra. En hvað ef mögulegt tjón af misnotkun er miklu meira en nokkuð það gagn sem líklegt er að hljótist af tækni til að klóna fólk? Hlýtur þá ekki að vera ástæða til að banna eða a.m.k. að takmarka mjög tilraunir til að skapa slíka tækni? Hér er úr vöndu að ráða. Til að svara spurningum sem þessari þarf að setja tvær óþekktar stærðir á vogarskálar: gagn af skynsamlegri notkun og tjón af mögulegri misnotkun á tækni sem er enn lítt mótuð. Það er engin leið að vita hvor vogarskálin fer upp og hvor fer niður.
    En hvaða mögulega misnotkun er um að ræða? Áður hefur verið minnst á þann möguleika að einhverjir taki að búa til börn til þess að drepa þau og hirða úr þeim líffæri. Trúlega mundu dómstólar flestra ríkja líta á slíkt sem morð og beita viðurlögum í samræmi við það. Yfirvöld gætu ef til vill ekki komið alveg í veg fyrir þetta fremur en annars konar morð en vart þarf að óttast að þetta verði gert í stórum stíl nema fyrst grafi verulega undan siðmenningu og virðingu fyrir mannslífum. Rök fyrir að útiloka klónun á þessum forsendum hljóta því að byggja á rökum af því tagi sem hér voru talin númer tvö.
    Önnur möguleg misnotkun gæti falist í því að framleiða fólk eins og hverja aðra vöru. Einhverjir sjálfumglaðir bjánar vilja kannski búa til margar eftirmyndir af sjálfum sér. Öðrum gæti dottið í hug að klóna rudda til að nota fyrir hermenn eða fjöldaframleiða lítilþæga og auðsveipa þræla. Framfarir í líftækni gætu gert eitthvað þessu líkt mögulegt. Í flestum ríkjum yrði það vafalaust ólöglegt en kannski ekki í öllum. Kannski munu stjórnvöld eða stórfyrirtæki einhvers staðar nýta þennan möguleika til að eignast þegna og þý að sínu skapi. Ef til vill er hægt að draga úr líkum á að þetta verði gert með löggjöf og alþjóðlegum samningum en það verða samt áfram til valdamiklir menn sem virða öll lög og allt siðferði að vettugi svo það verður tæpast hægt að útiloka þetta alveg með öðru móti en því að koma í veg fyrir að kunnátta til þess arna breiðist út.
    Ég efast um að skynsamlegt sé fyrir ríki heims að reyna að koma í veg fyrir tilurð og útbreiðslu þekkingar eða kunnáttu á sviði líftækni. Bann við þekkingaröflun á einhverjum sviðum fæli í sér verulega skerðingu á málfrelsi og afturhvarf frá hugsjónum upplýsingarinnar um að vísindin efli alla dáð. Ómögulegt er að framfylgja slíku banni nema með ritskoðun og opinberu eftirliti með rökræðum og rannsóknum. Slíkar skorður við frjálsum rannsóknum og skoðanaskiptum eru vísar til að valda meira böli en líklegt er að hljótist af misnotkun líftækninnar. Auk þess er með öllu óvíst að bann við þróun og miðlun kunnáttu til að klóna fólk héldi aftur af öllum. Eru þeir sem framfylgja slíku banni ekki vel líklegir til að einoka þekkinguna og beita henni á laun?
    Ríkisstjórnir geta ákveðið að styrkja ekki rannsóknir eða tilraunir af einhverju tagi með opinberu fé. Þær geta líka sett lög um klónun á fólki, jafnvel bannað hana alveg. En þeir sem vilja banna útbreiðslu á þekkingu til að klóna fólk gætu gert að einkunnarorðum það sem ólánsmaðurinn Grettir Ásmundsson sagði: "Svo skal böl bæta að bíða annað meira."
    Hættan á misnotkun líftækni er ef til vill næg til þess að ástæða sé til að skapa alþjóðlega samstöðu um lög og reglur um þetta efni. En það er langur vegur frá því að setja lög og reglur og banna notkun á tilteknum sviðum til þess að útiloka allar tilraunir og rannsóknir og banna jafnvel miðlun kunnáttu og þekkingar.

5. andmæli: Líffræðileg hnignun
Lengi vel fjölguðu allar lífverur sér með kynlausri æxlun og það gera fjölmargar tegundir enn. Það er raunar undrunarefni að kynæxlun skuli hafa náð fótfestu í lífríkinu því ef marka má þróunarkenninguna er lífið á jörðinni stöðug keppni um að tryggja genum sínum framtíð. Við erum til vegna þess að forfeður okkar voru duglegir að fjölga sér. Þeir sem ekki voru eins duglegir að koma genum sínum á framfæri eiga enga afkomendur. Þeirra gen eru glötuð.
    Þeir sem fjölga sér með kynlausri æxlun forða öllum sínum genum frá glötun en þeir sem sætta sig við kynæxlun koma aðeins helmingi undan til afkomanda. Hann fær hinn helminginn frá hinu foreldrinu. Hvernig getur þetta uppátæki, að blanda saman genum úr tveim til að búa til einn afkomanda, verið samkeppnishæft? Hugsum okkur að í hópi lífvera einhvern tíma í árdaga hafi komið fram ein sem fjölgar sér með því að fá hálft erfðaefni frá annarri. Hver erfðaeiginleiki hennar, þar með sá sem veldur hæfileika til kynæxlunar, hefur þá helmings líkur á að komast til afkomanda. Hinar verurnar eignast afkvæmi sem erfa næstum örugglega alla eiginleika þeirra. Kynveran hefur einfaldlega tvöfalt minni líkur en hinir á að forða sínum eiginleikum frá glötun, nema henni takist að eignast tvöfalt fleiri afkvæmi. Og það hlýtur að hafa gerst. Kynæxlun hlýtur upphaflega að hafa haft það mikla kosti umfram kynlausa æxlun að hvert kyndýr hafi að jafnaði eignast a.m.k. tvöfalt fleiri afkvæmi en kynlausir nágrannar.
En í hverju gætu yfirburðir kynæxlunar verið fólgnir? Sú kenning sem mér skilst að njóti nú mestrar hylli meðal líffræðinga gerir ráð fyrir að kynæxlun sé vörn gegn sníkjudýrum og sóttkveikjum. Fjölfrumungar hýsa ótal örverur sem æxlast inni í þeim og þróast þannig að þær læra smám saman að sigrast á vörnum líkamans. Ef afkvæmi dýrs hefur að öllu leyti sömu gen og það sjálft þá fær það í vöggugjöf örverur sem kunna að komast fram hjá öllum vörnum sem það fær við komið. Skynsamlegasta leiðin til að gera gen sín ódauðleg er því að eignast afkvæmi sem er öðru vísi, hefur að nokkru leyti önnur gen. Þá þurfa sóttkveikjurnar að byrja upp á nýtt að laga sig vörnum afkvæmisins. Kynæxlun er einmitt leið til að eignast afkvæmi sem er að sumu leyti eins og maður sjálfur en að sumu leyti öðru vísi.
    Klónun er eitt form kynlausrar æxlunar og það er að minnsta kosti umhugsunarefni hvort hætta sé á að dragi úr mótstöðu manna gegn sýklum ef hún verður algeng. Það var ekki út í bláinn sem náttúran "uppgötvaði" kynlífið. Þó náttúruvalið "hugsi" hægt á okkar mælikvarða kemst það að nokkuð traustum niðurstöðum. Kynæxlun var líklega skynsamleg lausn á raunverulegu vandamáli svo þeir sem hafa hug á að eignast barn með kynlausum hætti hafa góða ástæðu til að hugsa sig um a.m.k. tvisvar. Gæti verið að meðan barnið yrði enn ungt og ónæmiskerfi þess óþroskað yrði það berskjaldað fyrir sýklum sem það fengi frá foreldri sínu, örverum sem kynnu á þær varnir foreldrisins sem ekki byggjast á þroskuðu ónæmiskerfi?
    Önnur líffræðileg rök sem kunna að skipta máli eru þau að kynlaus æxlun getur leitt til þess að ófrjósemi verði útbreiddari.5 Hugsum okkur að 1% þeirra sem verða til við kynæxlun séu ófrjóir með þeim hætti að einstaklingar klónaðir af þeim verði það líka. Hugsum okkur ennfremur að klónun verði til þess að ófrjóir eignist jafnmörg afkvæmi og þeir sem eru frjóir. Í upphafi eru þá 99% frjóir og 1% ófrjóir. Af næstu kynslóð verða öll afkvæmi þeirra ófrjóu ófrjó og að auki 1% af afkvæmum hinna 99%. Ófrjóir af annarri kynslóð verða því 1% + 0,99% þ.e. 1,99%. Af þriðju kynslóð verða hinir ófrjóu 2,9701% (þ.e. öll afkvæmi ófrjórra af annarri kynslóð, sem eru 1,99% og 1% af 98,01%.) Með sama áframhaldi verða ófrjóir af 4 kynslóð 3,940399%. Þetta getur ekki farið nema á einn veg. Frjósemi verður útrýmt.
    Þetta eru sterk rök gegn því að nota klónun í stórum stíl til að eignast börn. En þau segja ekkert um hvort réttmætt kunni að vera að nota hana í einhverjum tilvikum eða til að rækta fósturvísa í læknisfræðilegum tilgangi.

Niðurstöður
Umræða um hugsanlega klónun á mönnum er á ýmsan hátt erfið. Hún vekur upp grýlur og drauga, fleiri en tölu verður á komið og þegar reynt er að skoða hlutlæg rök í málinu blasir hvarvetna við óvissa um mögulegar og líklegar afleiðingar tilrauna til klónunar á mönnum eða mannsfóstrum. Niðurstaða þessara bollalegginga minna eru engan veginn ótvíræðar. Ég held þó að hægt sé að draga saman þær helstu með því að segja að óráðalegt sé að útiloka eða banna alveg tilraunir til að klóna mannsfóstur til nota við lækningar og ekki sé tímabært að fella endanlegan dóm um hvort einhvern tíma verði réttmætt að nota þessa tækni til að eignast börn.
    Sé spurt hvort leyfa eigi eða banna klónun á fólki er málinu stillt upp eins og það sé aðeins um tvo kosti að ræða. En í raun og veru er langur vegur frá afdráttarlausu banni til algers frelsis. Það er hægt að leyfa sumt, t.d. tilraunir með fósturvísa undir vissum aldri, en banna annað, t.d. að skapa eftirmyndir látinna einstaklinga.
    Byltingar í tækni og vísindum hafa svo sem áður vakið mönnum beyg og óvissu um framtíðina og þá er vandinn að láta óttann hvorki villa sér sýn né afneita honum og ana áfram án aðgæslu og umhugsunar. Leit mannanna að þekkingu og valdi á náttúrunni hefur alltaf verið ferðalag á vit þess óþekkta. Í augum sumra er þetta sigurganga út í vorið á veginum. Aðrir vilja helst snúa við. En reyni þeir það finna þeir ekki fornar slóðir, eins og þeir kannski vona. Leið þeirra verður líka á vit þess óþekkta.

1 Þrjár þýðingar lærðar frá miðöldum. 1989. Gunnar Ágúst Harðarson bjó til prentunar. Hið Íslenska bókmenntafélag. Reykjavík. Bls. 65.
2 Wilmut, Schnieke, McWhir, Kind og Campbell. 1997. "Viable Offspring Derived from Fetal and Adult Mammalian Cells." Nature vol. 385 bls. 810-813.
3 Heimild: Skýrsla ráðgjafanefndar bandaríska alríkisins um siðfræði lífvísinda í Martha C. Nussbaum og Cass R. Sunstein (ritsjórar). 1998. Clones and Clones. W. W. Norton & Co. New York. Bls. 165-180.
4 Sjá t.d. viðöl við siðfræðingana Vilhjálm Árnason og Björn Björnsson í DV þann 6. júlí 1999.
5 Þessi rök eru sótt í grein Eric A. Posner og Richard A. Posner "The Demand for Human Cloning" í Martha C. Nussbaum og Cass R. Sunstein (ritsjórar). 1998. Clones and Clones. W. W. Norton & Co. New York. Bls. 233-261.