Atli Harðarson
Lýðræði

Hugtakið lýðræði hefur óljós mörk. Það sama má segja um fleiri hugtök sem notuð eru í umræðum um stjórnmál eins og réttlæti og frelsi. Þau hafa líka margháttuð rök- og hugrenningatengsl við kenningar, hugmyndir og sýn á veruleikann. Innihald þeirra endurspeglar heilan menningarheim og verður tæpast orðað í stuttu máli. Samt er hægt að lýsa merkingu þeirra á ýmsa vegu og rekja tengsl þeirra við hugsjónir og skoðanir. Þetta gera stjórnmálaheimspekingar. Upp á síðkastið hefur farið mikið fyrir heimspekilegum rökræðum um réttlæti og frelsi. Um lýðræði hefur minna verið fjallað. Þetta er skaði því að baki ólíkum hugmyndum manna um lýðræði býr ekki síður djúpstæður ágreiningur og ólík sýn á tilveruna heldur en bak við ólíkar hugmyndir um réttlæti og frelsi. Hér hefur heimspekin því verk að vinna við að túlka og skýra ólík sjónarmið.
    Þótt menn noti hugtak á ólíka vegu og séu ósammála um hvað fellur undir það eru þeir oft sammála um einhvern kjarna. Við getum tekið frelsi sem dæmi. Menn eru kannski ósammála um hvort sá sem er undir miklum áhrifum áróðurs eða hópþrýstings sé frjáls en þrátt fyrir slíkan ágreining geta þeir verið sammála um að dæmigerðasta tegund ófrelsis sé að vera þræll í hlekkjum eða fangi í klefa. Sennilega var hugtakið frelsi upphaflega notað sem andstæða við þrælkun eða ánauð og orðið „frjáls“ upphaflega hugsað sem „frí-háls“, þ.e. maður sem ekki er með hlekki um hálsinn.  Þegar menn hafa gert sér grein fyrir þessum merkingarkjarna eiga þeir auðveldara með að ræða ágreiningsefni sín. Þeir geta þá t.d. spurt á hvern hátt áhrif áróðurs eða hópþrýstings líkist eða líkist ekki fangelsi og hlekkjum.
    Í því sem hér fer á eftir reyni ég að nálgast þann kjarna sem er sameiginlegur öllum lýðræðishugsjónum. Síðan geri ég grein fyrir því hvernig ólíkar hugmyndir manna um lýðræðið tengjast tvenns konar stjórnspekikenningum sem voru áhrifamiklar á átjándu og nítjándu öld þegar lýðræðislegir stjórnarhættir mótuðust í Evrópu og Norður-Ameríku.
    Önnur þessara kenninga er frjálshyggjan sem John Locke (1632-1704) og fleiri breskir hugsuðir mótuðu. Meðal þess sem frjálshyggjumenn leggja áherslu á er að:

a) Samfélagið, þar með talið efnahags- og atvinnulíf, trúarbrögð, félagsstarf og uppeldi, sé og skuli vera að mestu leyti óháð ríkisvaldinu;
b) Siðferði sé æðra stjórnmálum og pólitískt vald ráði engu um hvað sé réttlátt og hvað ranglátt í mannlegum samskiptum. Hjá Locke og fleiri frjálshyggjumönnum tengist þessi skoðun kenningu um náttúrurétt sem kveður á um að innihald laga ákvarðist að nokkru leyti af  sannindum um rétt og rangt sem stjórnvöld verði að beygja sig undir og geti ekki breytt;
c) Hlutverk ríkisvaldsins sé fyrst og fremst að verja rétt einstaklinganna til lífs, frelsis og eigna og koma í veg fyrir að árekstrar og deilur leiði til stigvaxandi átaka. Heimild þess til valdbeitingar sé takmörkuð af náttúrurétti, mannréttindum eða siðferðilegum boðum og það megi ekki gera neitt sem stríðir gegn frelsi og eignarétti borgaranna.

Til viðbótar við þetta þrennt má nefna að hjá mörgum höfundum tengist frjálshyggjan áherslu á borgaralegar dyggðir einkum heiðarleika og iðjusemi.
    Það er nokkuð á reiki hvað hin kenningin heitir á íslensku. Á ensku kallast hún ýmist „republicanism“ eða „civic humanism“.  Ef til vill er réttast að kenna hana við lýðveldi og kalla fylgismenn hennar lýðveldissinna. Gallinn við þetta orð er að það er líka notað um ríki þar sem þjóðhöfðingi er kosinn í almennum kosningum og mönnum getur þótt það gott og blessað þó þeir séu ekki lýðveldissinnar í þeim skilningi sem hér um ræðir.
    Þessi stefna sækir um sumt til Aristótelesar  (384-322 f. Kr.) en öflugustu talsmenn hennar á seinni öldum eru Ítalinn Niccolò Machiavelli (1469-1527), Englendingurinn James Harrington (1611-77) og Frakkinn Jean-Jacques Rousseau (1712-78). Það sem helst einkennir hugsun lýðveldissinna er:

a) Áhersla á mikilvægi þess að almennir borgarar taki virkan þátt í stjórnmálum;
b) Hugmyndir um að stjórnmálin taki til allra sviða mannlífsins og samfélagið og ríkið séu ein heild;
c) Þeir hafna því að pólitískt vald sé fyrst og fremst til þess að verja réttindi sem eru til óháð ríkinu enda álíta þeir að mikilvægasti réttur hvers manns sé rétturinn til að vera fullgildur þátttakandi í stjórnmálum og sameiginlegum ákvörðunum.

    Til viðbótar við þetta má nefna að hugmyndir lýðveldissinna um borgaralegar dyggðir eru nokkuð ólíkar hugmyndum frjálshyggjumanna. Í stað þess að leggja áherslu á að iðjusemi og heiðarleiki séu undirstaða farsældar í samfélaginu hampa þeir hugrekki og ættjarðarást, samstöðu, bræðralagi og félagslyndi.
    Af þeim lýðveldissinnum sem hér voru nefndir hefur Rousseau verið áhrifamestur. Í ritum hans blandaðist lýðveldishugsjónin við jafnaðarstefnu og kenningu um fullveldi sem rekja má til Thomasar Hobbes (1588-1679).
    Þótt frjálshyggju- og lýðveldiskenningum sé hér stillt upp sem andstæðum eru skilin á milli þeirra ekki alltaf mjög skörp. Merkir stjórnspekingar á átjándu og nítjándu öld eins og Þjóðverjarnir Immanuel Kant (1724-1804) og Georg Hegel (1770-1831) og Englendingurinn John Stuart Mill (1806-73) blönduðu þessum kenningum saman á ýmsa vegu.
 
Prótagóras og kjarni lýðræðishugtaksins
Hver er kjarni lýðræðishugtaksins? Hvað eiga allar lýðræðishugsjónir sameiginlegt? Ein leið til að öðlast skilning á hugtaki er að skoða uppruna þess og mótunarsögu. Sögu lýðræðis í okkar heimshluta er hægt að rekja aftur til Aþenu í byrjun sjöttu aldar f. Kr. Þá geisuðu þar hörð átök milli stóreignamanna og fátæklinga. Átökum þessum linnti með málamiðlun sem iðulega er kennd við spekinginn Sólon. Sú stjórnarbót sem hann beitti sér fyrir markar upphaf aþenska lýðræðisins sem stóð með hléum fram eftir fjórðu öld f. Kr. Allan þennan tíma tókust á tvær fylkingar í aþenskum stjórnmálum: Lýðræðissinnar og höfðingjar. Hugmyndafræðilegur ágreiningur þeirra snerist einkum um það hvort alþýðumenn ættu að fá að  taka þátt í stjórn ríkisins eða hvort stjórnmál væru eingöngu fyrir aðals- og stóreignamenn.
    Stjórnmálahugsun lýðræðissinna í Aþenu til forna var lítt mótuð sé hún borin saman við hugmyndir sem við þekkjum. Þó eru til drög að lýðræðislegri hugmyndafræði frá fimmtu öld f. Kr. Hennar sér til dæmis stað í hinu mikla riti Þúkýdídesar um Pelópsskagastríðið og í samræðu Platons Prótagórasi þar sem þeir ræðast við Sókrates og fræðarinn Prótagóras (um 485–410 f. Kr.). Þótt Platon sé heldur andsnúinn Prótagórasi er sennilegast að hann segi nokkurn veginn rétt frá skoðunum hans, enda voru þær of þekktar til að hægt væri að komast upp með að afbaka þær að ráði.
    Í samræðunni heldur Prótagóras því fram að aðeins sumir séu hafðir með í ráðum þegar rætt er um tæknileg efni eins og byggingar, en þegar rætt sé um stjórnmál þá hlusti Aþeningar á skoðanir allra því þeir álíti alla búa yfir þeim dygðum eða hæfni sem stjórnmál byggjast á. Svo bætir hann því við að þessi hæfni sé ekki meðfædd heldur kennd. Til að rökstyðja þessa skoðun sína setur Prótagóras fram kenningu um félagsmótun og uppeldi sem gerir ráð fyrir að allir borgararnir taki þátt í að temja hverri nýrri kynslóð stjórnvisku og borgaralegar dygðir. Þeim rökum sem Platon leggur Sókratesi í munn, að ekki séu til neinir sérfræðingar í dygðum og stjórnvisku sem geti kennt öðrum, svarar Prótagóras með því að benda á að tungumálið sé kennt en það sé enginn sérstakur hópur kennara því börnin læri það af öllum.
    Með sögu sinni og rökræðum sem á eftir koma hafnar Prótagóras því að rétt sé að gera greinarmun á sérfræðingum og leikmönnum í stjórnmálum eins og gert er í byggingarlist, læknisfræði og fleiri greinum. Meginboðskapur hans er að allir menn hafi vit á því hvað er réttlátt og hvað ranglátt og í umræðum um stjórnmál sé best að sjónarmið sem flestra komi fram.
    Í orðum Prótagórasar birtist að minni hyggju kjarni lýðræðishugsjónarinnar, að stjórnmál séu ekki fyrir fáeina útvalda, þau komi almenningi við og alþýða manna eigi að fá að hafa áhrif á pólitíska umræðu og ákvarðanir. Þessi kjarni  felur í sér kröfu um jafnrétti. Það er óréttlátt að mismuna fólki og lýðræði er eina fyrirkomulagið sem veitir öllum sama rétt. Þetta er, að ég held, meginástæðan fyrir ást okkar á lýðræðinu, ekki að lýðræðisleg stjórn sé endilega svo góð heldur að öll önnur skipan er beinlínis ranglát.
    Lýðræðishugsjón Prótagórasar er arfur frá gullöld Grikkja. Úr máli þeirra höfum við líka orðið demokratia sem er notað yfir lýðræði í mörgum nútímamálum.
 

Gerræði, óstöðugleiki og skrílslæti
Þótt Prótagóras, og fleiri fræðarar á fimmtu öld f. Kr. hafi mælt með lýðræðislegum stjórnarháttum ber miklu meira á rökum gegn lýðræði heldur en með því í ritum fornra heimspekinga. Höfuðspekingar fjórðu aldar, þeir Platon og Aristóteles, voru báðir mótfallnir lýðræði og tengdu það gerræði, óstöðugleika og múgæsingum, sennilega með nokkrum rétti. Lýðræðið í Aþenu var að ýmsu leyti gallað, t.d. voru einstaklingar sem fengu lýðinn upp á móti sér nær varnarlausir. Einfaldur meirihluti atkvæðisbærra manna gat dæmt þá í útlegð.
    En þótt Platon og Aristóteles hafi hallmælt lýðræðinu eða því sem þeir kölluðu demokratiu voru þeir ekki öldungis frábitnir því að almenningur hefði áhrif á stjórn ríkisins. Í Lögum Platons og Stjórnspeki Aristótelesar er m.a. rætt um blandaða stjórnarhætti þar sem sumir þættir hins pólitíska valds eru hjá almenningi en sumir hjá konungi, aðli eða sérfræðingum. Í Lögunum setti Platon fram hugmyndir um réttarríki og skiptingu valdsins, þ.e. að valdhafar eigi að fara að lögum, hver sem er megi kæra þá ef þeir beita valdi sínu með ólöglegum hætti og valdastofnanir skuli hafa eftirlit hver með annarri þannig að fari einhver þeirra út fyrir lögleg mörk grípi hinar í taumana.
    Heimspekihefð Vesturlanda tók neikvæða afstöðu Platons og Aristótelesar til lýðræðis í arf. Allt fram undir lok átjándu aldar er lýðræði nær undantekningalaust talið afleit skipun þar sem þess er getið í ritum um stjórnmál. Þær fáu undantekningar sem mér er kunnugt um eru flestar í enskum ritum eftir púrítana og þingræðissinna frá miðbiki og seinni hluta sautjándu aldar. Annars hugsuðu menn sér lýðræði yfirleitt sem skefjalaust alræði höfðatölunnar en ekki sem rammbyggt skipulag þar sem valdi meirihlutans eru settar lagalegar skorður af stjórnarskrá og almenningur hefur áhrif gegnum starf stjórnmálaflokka fremur en með þjóðfundi eða þjóðaratkvæðagreiðslum um einstök mál. Á þessu varð veruleg breyting undir lok átjándu aldar með sjálfstæðisyfirlýsingu og stjórnarskrá Bandaríkjanna og byltingunni í Frakklandi.

Stofnun Bandaríkjanna
Stjórnarskrá Bandaríkjanna svipar að vísu meira til hugmynda Platons og Aristótelesar um blandaða stjórnarhætti heldur en til lýðræðisins í Aþenu á sjöttu til fjórðu öld f. Kr. en hún inniheldur þó kjarnann í lýðræðishugsjóninni sem er að stjórnmál séu ekki fyrir fáeina útvalda, þau komi almenningi við og almennir borgarar (a. m. k. karlar sem ráða fyrir búi) eigi að fá að hafa áhrif á pólitíska umræðu og ákvarðanir.
    Með nokkurri einföldun má segja að fram að stofnun Bandaríkjanna hafi hugmyndir um blandaða stjórnarhætti yfirleitt gert ráð fyrir að hið æðsta vald væri hjá fáeinum útvöldum, kóngum, aðalsmönnum, páfa eða biskupum. Vald stofnana sem almenningur hefði áhrif á, eins og stéttar- og héraðsþinga, sveitarstjórna og kviðdóma skyldi sett skör neðar veldi kónga og kirkju. Stofnendur Bandaríkjanna sneru þessu við. Hjá þeim var vald almennings ekki bara til að gefa hinum raunverulegu valdhöfum ráð eða hnika til einstökum málum innan þeirra marka sem ákveðin eru á æðri stöðum. Hið æðsta vald átti að vera í höndum almennings. Þeir voru undir áhrifum frá frjálshyggju Locke svo þótt þeir teldu að hið æðsta vald væri hjá almenningi álitu þeir að þetta vald væri takmarkað og því mætti aðeins beita á afmörkuðum sviðum. Þeir reyndu að setja valdinu skorður með því að tilgreina réttindi borgaranna og setja strangar reglur um hvernig má setja lög, breyta stjórnarskránni, skera úr um hvort lög stangast á við stjórnarskrá og fleira í þeim dúr.
    Bandaríska stjórnarskráin steypir mörgum hugmyndum saman í eina heild. Þær mikilvægustu eru:

a)  Kjarni lýðræðishugsjónarinnar að stjórnmál séu ekki fyrir fáeina útvalda, þau komi almenningi við og alþýða manna eigi að fá að hafa áhrif á pólitíska umræðu og ákvarðanir.
b) Þingræði þar sem kjörnir fulltrúar almennings hafa löggjafarvald.
c) Fornar hugmyndir um réttarríki og blandaða stjórnarhætti þar sem lögin setja valdinu skorður og hver valdastofnun er undir eftirliti annarra valdastofnana. Í anda þessara hugmynda var valdinu skipt í löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald og sérstök áhersla lögð á sjálfstæði dómstóla.
d) Frjálshyggjuhugmyndir um náttúrurétt og að allt pólitískt vald sé takmarkað af mannréttindum eða lögum sem stjórnvöld hafa ekki umboð til að breyta.

Þessi volduga og rammbyggða samsteypa hugmynda úr ólíkum áttum hefur í meira en tvö hundruð ár mótað umræður um lýðræði svo mjög að nú þykir mörgum það nánast sjálfgefið að lýðræði feli í sér þingræði, réttarríki og mannréttindi.

Franska byltingin
Skömmu eftir að Bandaríkin lýstu yfir sjálfstæði gerðu Frakkar byltingu og reyndu að koma á lýðræði, að nokkru leyti að amerískri fyrirmynd. En þar blönduðust hugmyndir manna um lýðræði saman við lýðveldishugsjónir í mun ríkari mæli en gerst hafði í Vesturheimi. Munaði þar mest um áhrif frá Rousseau.
    Rousseau var ekki hrifinn af lýðræðinu í Aþenu til forna. Hans fyrirmynd var Sparta. Þar lyktaði stéttaátökum sjöttu aldar á annan veg en í Aþenu því höfðingjar náðu öllum völdum og lifðu herbúðalífi og tömdu sér vopnaburð, órofa samstöðu og strangan aga til þess að halda uppreisnargjörnum fátæklingum í skefjum. Þessi órofa samstaða heillaði Rousseau og hann dreymdi um samfélag þar sem almannavilji hefði fullveldi í öllum málum og menn væru jafningjar og bræður. Frönsku byltingarmennirnir unnu úr þessum hugmyndum Rousseau og undir áhrifum þeirra tóku menn að tengja lýðræðið við:

a) Hugsjónir um bræðralag og jafnrétti sem er eitthvað annað og meira en bara jöfn lagaleg réttindi. Þessar hugsjónir hafa tekið á sig ýmsar myndir allt frá hófsömum kröfum um að allir hljóti þá lágmarksmenntun sem þarf til að geta haft áhrif eftir lýðræðislegum leiðum yfir í draumóra um samfélag þar sem allir taka fullan þátt í sameiginlegum ákvörðunum og hafa jafnmikil áhrif.
b) Trú á að ríkið eigi að lúta stjórn almannavilja eða þjóðarvilja og allir eigi að taka sameiginlegan þátt í stjórn þess. Jakobínar gerðu sér mikinn mat úr þessari hugmynd og síðan hefur henni oft verið hampað af byltingarsinnum og róttækum vinstrimönnum.
c) Fullveldi í höndum almennings, þ.e. að almannavaldið sé ótakmarkað og megi hlutast til um öll málefni samfélagsins.

Það er í anda þessara hugmynda að álíta að lýðræði sé því meira og betra því víðtækara sem almannavaldið er og því fleiri sem taka þátt í stjórnun, stefnumótun og sameiginlegum ákvörðunum. Þetta kemur fremur illa heim við lýðræðishugsjónir frjálshyggjumanna sem álíta að flest svið mannlífsins skuli vera óháð pólitískum afskiptum og þorri manna hafi annað og þarfara að gera en að vasast í stjórnmálum. Sé reynt að gera það að einhvers konar skilgreiningaratriði að lýðræði feli bæði í sér allt þetta og þingræði, réttarríki og mannréttindi til viðbótar við það að almenningur megi taka þátt í stjórnmálum þá er hætt við að hugtakið verði mótsagnakennt og geti aldrei fallið að neinum veruleika.

Locke og Rousseau
Þótt einhverjir láti eins og heimspeki fyrri tíma sé úrelt og telji sig ekki bara komna fram úr upplýsingunni, heldur líka fram úr nútímanum og kalli sig „póstmódern“ þá þarf ekki mikla þekkingu á hugmyndasögu til að sjá og skilja að stjórnmálaumræða nútímans er að miklu leyti mótuð af kenningum, hugsjónum og heimspeki sem urðu til á sautjándu og átjándu öld. Umræða um lýðræði og lýðræðisleg stjórnmálahugsun einkennast enn af spennu eða togstreitu milli hugmynda úr smiðju Rousseau og þeirra hugmynda sem mótuðu bandarísku stjórnarskrána og eru að miklu leyti sóttar til Locke. Frá lokum átjándu aldar hefur Locke haft mest áhrif í Norður-Ameríku og á Englandi en Rousseau verið áhrifameiri á meginlandi Evrópu.
    Locke og stofnendur Bandaríkjanna gerðu greinarmun á samfélagi og ríki og álitu að maðurinn lifi sem félagsvera með því að taka þátt í samfélagi (markaði, fyrirtækjum, félögum, trúflokkum, menningarstarfi o.s.frv.) sem er að mestu leyti óháð ríkisvaldinu. Í þeirra augum var hlutverk ríkisvaldsins takmarkað. Það átti að koma í veg fyrir ofbeldi, halda uppi lögum og reglu, hjálpa mönnum að verja frelsis- og eignarréttindi sín, sjá um landvarnir og utanríkisþjónustu og ef til vill einhverja þætti velferðar og menntamála. Þeir vildu setja almannavaldinu skorður með stjórnarskrá og mannréttindaákvæðum sem meðal annars tryggðu mönnum frelsi til að vera lausir við pólitísk afskipti.
    Fyrir þeim sem hugsa á þessum nótum er mannlífið að mestu leyti ópólitískt og lýðræðið ekki markmið í sjálfu sér heldur tæki til að koma í veg fyrir að valdhafar arðræni eða kúgi almenning. Sú frjálshyggja sem mótast hefur af fylgismönnum Locke gerir yfirleitt ekki ráð fyrir að lýðræði tryggi að stjórn ríkisins sé í samræmi við neinn almannavilja. Þeirra rök fyrir lýðræði eru frekar á þá leið að sum vandamál mannlegs samfélags verði ekki leyst án ríkisvalds; Þar sem slíkt vald þurfi að hafa bolmagn til að halda uppi lögum og reglu sé óhjákvæmilegt að það hafi líka afl til illra verka; Fái almenningur að velja stjórnendur í kosningum þá séu mestar líkur á að valdhafar sem ganga mjög langt í illverkum séu settir af við lok kjörtímabils og þess vegna sé lýðræði betra en önnur skipan.
    Samkvæmt þessari stjórnspeki þýðir lýðræði ekki að meirihlutinn eða almannaviljinn ráði öllum hlutum, heldur að hver einstaklingur megi að mestu leyti fara sínu fram hvort sem meirihlutanum líkar það betur eða verr, sameiginleg málefni séu að verulegu leyti í höndum félaga og stofnana sem starfa óháð ríkisvaldinu, en þar sem nauðsynlegt er að beita pólitísku valdi sé því hagað þannig að hver sem er megi sækjast eftir því og allir geti haft áhrif á hverjir hreppa það vafasama hnoss.
    Sú stjórnmálahugsun sem sækir næringu og þrótt í rit Rousseau gengur í þveröfuga átt. Hún gerir ekki ráð fyrir aðgreiningu samfélags og ríkis heldur að menning, siðir, trúarbrögð og ríkisvald myndi órofa heild, pólitíkin taki til allra þátta mannlífsins og maðurinn lifi sem félagsvera með þátttöku í stjórnmálum eða aðild að stofnunum ríkisins. Rousseau sagði að hver einstaklingur ætti að vera svo óháður öðrum einstaklingum sem verið getur en þess í stað algerlega háður ríkinu og vald þess mætti ekki vera takmarkað á neinn hátt og engin lög gætu verið æðri en almannavilji.  Kenningar hans um þennan almannavilja voru að vísu æði þokukenndar og nú til dags mæla fáir þeim bót í fullri alvöru enda hæpið að tala um að hópar og þjóðir hafi vilja á sama hátt og einstaklingar.
    Samkvæmt hugsun í anda Rousseau er lýðræðið ekki bara tæki til að koma í veg fyrir kúgun og ofríki heldur tilgangur í sjálfu sér. Þátttaka í sameiginlegum ákvörðunum er þá talin æðst gæða og nánast ekki hægt að vera maður með mönnum án þess að láta pólitík til sín taka. Í augum þeirra sem hugsa á þessum nótum hlýtur að vera eitthvað athugavert við samfélag þar sem almenningur hefur lítinn áhuga á stjórnmálum, nennir jafnvel ekki að kjósa. En þeir sem hafa tamið sér hugsun í anda Locke líta fremur svo á að áhugaleysi um stjórnmál bendi til þess að stjórnarfarið sé í lagi og almenningur finni lítið fyrir áreitni valdsmanna.
    Hugmyndir Rousseau, Jakobína og eftirmanna þeirra um bræðralag, almannavilja, sameiginlega sjálfstjórn allra borgara ríkisins og pólitík sem kórónu mannlífsins eru ef til vill barnalegar, mótsagnakenndar og í ætt við draumóra. En þær eru samt hluti af þeim heimi sem við byggjum. Í lýðræðisríkjum Evrópu nálgast pólitíkin það í reynd að vera alltumlykjandi og samofin öllum stofnunum samfélagsins með þeim hætti sem Rousseau hugsaði sér. Þótt röklegum undirstöðum hafi fyrir löngu verið kippt undan kenningum um almannavilja má enn heyra bergmál af þeim í máli manna sem boða „beint lýðræði“ og „þátttökulýðræði“ og líka meðal þeirra sem spyrja hvernig samfélag viljum við, og álíta að til sé svar og ætlast jafnvel til að það kalli á „pólitískar aðgerðir.“
    Í huga þeirra sem hafa erft frjálshyggju Locke og hugmyndir um réttarríki er spurning stjórnmálanna ekki hvernig samfélag við viljum heldur hvernig er hægt að leysa sameiginleg vandamál, setja niður deilur, koma í veg fyrir ófrið og árekstra án þess að raska um of skipan samfélagsins eða brjóta gegn réttindum manna.
    Kenning Rousseau um fullveldi almannaviljans er tilraun til að laga fullveldishugtak frá tímum einvaldskónga að lýðræðislegri stjórnspeki. Sá hugsuður sem átti mestan þátt í að móta þetta hugtak var Englendingurinn Thomas Hobbes. Hann gerði ráð fyrir að í fullveldi ríkis fælist ótakmarkað vald löggjafa til að ákveða um lög, reglur og bindandi fyrirmæli. Hann var ennfremur talsmaður vildarréttar og áleit að engar reglur gætu haft lagagildi án þess að þær væru ákveðnar af löggjafarvaldinu. Stjórnspeki Hobbes er því andstæð þeim viðhorfum til laga og réttar sem hefðbundin voru á Englandi og John Locke gerði að sínum og kenndi við náttúrurétt. Þessa þætti úr stjórnspeki Hobbes tók Rousseau í arf og sú lýðræðishugsjón sem hann mótaði gerir yfirleitt ráð fyrir að réttur almannavaldsins til lagasetningar sé ótakmarkaður eða því sem næst.

Ofhlaðið hugtak
Frá lokum átjándu aldar hefur lýðræði lengst af verið í sókn. Fram eftir nítjándu öld hafði hugtakið að vísu á sér neikvæðan blæ í augum flestra Evrópskra menntamanna en eftir byltingarnar 1848 tók þetta að breytast. Þá blönduðust lýðræðishugsjónir líka saman við rómantískar hugmyndir um þjóðfrelsi eða rétt þjóða til fullveldis. Á seinni hluta nítjándu aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu voru því æði sundurleitar og á margan hátt andstæðar hugsjónir kallaðar lýðræðislegar.
    Eftir seinni heimstyrjöldina má segja að allar öflugustu stjórnmálahreyfingar í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku hafi reynt að eigna sér lýðræðið. Frjálshyggjumenn, miðjumenn, jafnaðarmenn, íhaldsflokkar ? allar þessar fylkingar hafa kennt sig við lýðræði. Þótt þjóðernissinnar og kommúnistar hafi líka oft og iðulega látið heita að þeir séu fylgjandi lýðræði tengja flestir nútímamenn lýðræði við andstöðu gegn þessum öfgahreyfingum frá fyrri hluta aldarinnar og í alþýðlegri stjórnmálaumræðu eftirstríðsáranna fór lýðræði nánast að merkja alla jákvæða eiginleika sem stjórnskipan ríkja í Norðvestanverðri Evrópu og Norður-Ameríku hafði umfram stjórn kommúnista í Austur-Evrópu og einræðisherra í Suður-Evrópu eða löndum þriðja heimsins.
    Segja má að lýðræðishugtakið hafi hlaðið utan á sig og tengst fleiri og fleiri hugsjónum og hugmyndum. Hugtakið er yfirhlaðið og í umræðum um stjórnmál er afskaplega óljóst hvað af öllum þessum hugmyndafarmi er innbyggt í það og hvað er laustengdir fylgihlutir.
    Sumar þessar hugmyndir stangast hver á við aðra. Sumar eru á mörkum þess að hafa neina vitlega merkingu og sumar eru í afar lauslegum tengslum við kjarna hugtaksins, að allir megi taka þátt í stjórnmálum. Afleiðing svona ofhleðslu er skert notagildi. Ef lýðræði merkir nánast alla kosti stjórnskipunar hvaða gagn er þá að hugtakinu? Er þá ekki eins hægt að tala bara um góða stjórnskipun?
    Við notum hugtök til að gera greinarmun á ólíkum hlutum. Það skiptir máli að þau nýtist til að flokka fyrirbæri. Ef við notuðum hugtakið hávaxinn yfir alla menn sem eru yfir 25 cm á hæð og lágvaxinn yfir alla sem eru 25 cm eða minni væru hugtökin einskis virði. Þau nýttust ekki til að  skipta mönnum í tvo flokka. Það lentu allir í fyrri flokknum. Ef við hins vegar setjum mörkin við 170 cm þá fá hugtökin hávaxinn og  lágvaxinn notagildi.
    Til að lýðræðishugtakið nýtist sem best þarf að tálga það til á skynsamlegan hátt og aðgreina lýðræði frá öðrum hugtökum sem notuð eru til að lýsa kostum stjórnarfars. Ef við getum sagt um eitt ríki að þar sé lýðræði en mannréttindamál í ólagi og um annað að það sé réttarríki en stjórnarfarið sé ólýðræðislegt þá höfum við tök á fágaðri og nákvæmari umræðu heldur en ef við gefum báðum sömu einkunn, að stjórnarfarið sé ólýðræðislegt.
    En hvernig er skynsamlegast að tálga hugtakið til? Eins og ég hef nefnt er kjarni lýðræðishugsjónarinnar að stjórnmál séu ekki fyrir fáeina útvalda, þau komi almenningi við og alþýða manna eigi að fá að hafa áhrif á pólitíska umræðu og ákvarðanir og yfirleitt er eðlilegt að tala um lýðræði þar sem öllum er frjálst að taka þátt í stjórnmálum og hafa áhrif. Lýðræði getur verið jafnmikið og jafngott hvort sem margir eða fáir kjósa að nýta þennan rétt, rétt eins og málfrelsi getur verið jafnmikið hvort sem margir eða fáir kjósa að láta í sér heyra. Samkvæmt þessum skilningi getur lýðræði líka verið jafnfullkomið og algert hvort sem almannavaldinu eru settar þröngar skorður eða það látið ná til allra sviða mannlífsins.
    Þetta er vitaskuld engin skilgreining. Það þarf að fylgja útlistun á því hvað er átt við með að fólki sé leyft að hafa áhrif. Það dugar ekki að allir megi ganga í þann eina stjórnmálaflokk sem er leyft að starfa að því tilskildu að þeir lúti flokksaga. Við slíka skipan má svo sem segja að öllum sé leyft að vera með en við köllum stjórnskipan ekki lýðræðislega nema ólíkar skoðanir á samfélagsmálum fái að takast á og keppa um hylli fólks. Það er samt of langt gengið að halda því fram að engin skipan sé lýðræðisleg nema allar skoðanir hafi sama rétt. Bann við starfsemi óaldaflokka sem hvetja til ofbeldis og illverka getur samrýmst lýðræði.
    Þessar vangaveltur sýna að það er erfitt að skilgreina lýðræði í stuttu máli en ég held samt að flestir viti nokkurn veginn hvað ég á við þegar ég segi að það sem gerir stjórnskipan lýðræðislega sé að þorra fólks sé heimilt að taka þátt í stjórnmálum og hafa áhrif. En er þetta nóg? Eigum við að telja eitthvað fleira með? Ég efast um að það sé skynsamlegt og held að fátt gott hljótist af því að ofhlaða hugtakið eins og tilhneiging hefur verið til að gera. Það væri trúlega til bóta að nota önnur orð til að lýsa hugsjónum frjálshyggjumanna og lýðveldissinna og hafa skilgreininguna á lýðræði nógu víða til að hún geri ekki upp á milli þessara hugmyndakerfa. Við höfum orð eins og réttarríki, frelsi og mannréttindi til að lýsa áherslum Locke og fylgismanna hans og við getum notað orðin jöfnuður, bræðralag, og samstaða til að lýsa hugsjónum Rousseau.