Atli Harðarson
Tilgangur lífsins

Sum verk hafa tilgang. Menn fara til dæmis í ferðalög í þeim tilgangi að fræðast eða skemmta sér, þeir panta tíma hjá tannlækni í þeim tilgangi að losna við tannskemmdir og borga í lífeyrissjóð til þess að eiga fyrir nauðsynjum eftir að þeir eru hættir að vinna. Við eigum ekki í neinum vandræðum með að skilja hversdagslegt tal um tilgang en þegar rætt er um tilgang alls mannlífsins verður öllu torveldara að ljá orðunum ákveðna merkingu.
    Ef við hugsum okkur leik eins og til dæmis skák eða knattspyrnu eða spil á borð við matador eigum við ekki í neinum vandræðum með að skilja hvernig það sem leikmennirnir gera hefur tilgang innan leiksins. Hvítur fórnar peði til að ná biskupi af andstæðingnum. Framherji hleypur upp völlinn til að geta tekið við sendingu. Leikmaður kaupir hús í þeim tilgangi að taka gjald af þeim sem fara um götuna. Þótt hvaðeina sem þátttakendur í þessum leikjum gera hafi tilgang innan leiksins er ekki þar með sagt að leikurinn sjálfur hafi tilgang. Raunar er ekkert því til fyrirstöðu að tvær tölvur sem tengjast gegnum internetið byrji að tefla skák hvor við aðra, t.d. vegna þess að hundur dillaði rófunni og sló óvart í mús eða lyklaborð. Hver einasti leikur sem vélarnar leika hefur tilgang innan leiksins en leikurinn sem heild er samt svo tilgangslaus sem mest getur verið. Tilgangur leiks í heild er ekki summan af tilgangi alls þess sem gert er í leiknum neitt frekar en verðgildi kassa með matador er summan af verði allra gatna og húsa á borðinu.
    Leikur eins og skák getur haft tilgang eins og til dæmis að skemmta mönnum, þjálfa rökhugsun og einbeitingu, safna stigum, vinna mót. Þessi tilgangur leiksins er algerlega utan við leikinn sjálfan og er til vegna þess að skákin er leikin af mönnum sem lifa sínu lífi utan við taflborðið og láta sig varða um þroska sinn, heiður og önnur gæði. Sama má segja um aðra leiki sem menn leika. Ef þeir hafa tilgang þá er það vegna þess að þeir eru hluti af einhverju stærra samhengi, veröld sem nær út fyrir leikinn sjálfan. Þetta stærra samhengi þarf ekki endilega að vera mannlífið allt. Á móti þar sem tefldar eru margar skákir eða leiknir margir knattspyrnuleikir getur einstakur leikur haft tilgang innan mótsins. Lið getur til dæmis þurft að vinna leik til þess að komast í úrslit. En þótt einstakar leikfléttur hafi tilgang innan leiks og einstakur leikur hafi tilgang innan móts er ekki þar með sagt að mótið hafi tilgang.
    Þau dæmi sem hér hafa verið nefnd skýra að ég held hvers vegna það er erfitt að skilja tal um tilgang alls mannlífsins. Til að lífið hafi tilgang þarf það að vera hluti af stærra samhengi og það er allt annað en auðvelt að átta sig á hvert það samhengi getur verið.

*
Fyrir um það bil 900 árum skrifaði presturinn Honorius Augustodunensis kennslubók í guðfræði og heimspeki sem heitir Elucidarius. Bók þessi var rituð á latínu en þegar á tólftu öld var hún þýdd á íslensku. Elucidarius er skrifaður sem samræða milli meistara og nema. Í íslensku þýðingunni eru þeir nefndir upp á latínu og kallaðir magister og discipulus. Neminn spyr spurninga og meistarinn svarar og mynda svör hans rökrétt og skipulegt yfirlit yfir heimsmynd og helstu kenningar kristinnar kirkju. Meðal annars er sagt frá því í hvaða tilgangi guð skapaði mennina.
    Í fyrsta hluta samræðunnar segir frá sköpun heimsins og þar kemur fram að áður en mennirnir urðu til skapaði guð himnaríki og níu sveitir engla. Ekki segir hvers konar störf voru unnin í himnaríki en ljóst er þó að englar höfðu þar embætti. Ríki himnanna hafði verið til í tæpa klukkustund þegar þeir atburðir urðu að fegursti engillinn gerði uppreist gegn guði almáttugum:
Discipulus: Í hví var hann Guðs andskoti?
Magister: Þá er hann sá sig öllum englum æðra í dýrð og fegurð, þá fyrirleit hann það allt og vildi vera jafn sem Guð eða meiri. …
Discipulus: Hvað gerðist þá?
Magister: Braut var hann rekin úr konungs höllu og settur í dýflissu, og varð hinn ljótasti er fyrst var hinn fegursti, og rekinn frá öllum veg er fyrr var prýddur öllum veg. …
Discipulus: Hvað misgerðu aðrir englar?
Magister: Það er þeir urðu samhuga við ofmetnað hans og ætluðu sig öðrum englum æðri mundu verða ef hann mætti meira an Guð.
Discipulus: Hvað var þeim?
Magister: Með honum voru þeir á braut reknir og sendir sumir í helvítisdjúp, en sumir í myrkraloft og hafa þó kvöl sem hinir er í helvíti brenna.
(Þrjár þýðingar lærðar frá miðöldum (Gunnar Ágúst Harðarson bjó til prentunar) 
Hið Íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 1989. Bls. 51-52.)
Eftir þetta voru nokkrar stöður lausar í himnaríki og vantaði fleiri heilaga til að sinna embættum vondu englanna sem voru reknir burt. Gefum magister og discipulus aftur orðið:

Discipulus: Þvarr tala heilagra við fall vondra engla?
Magister: Því var maður skapaður að fylltist tala heilagra.

( S.r. Bls. 54.)

Þar höfum við það. Mennirnir voru skapaðir til þess að manna embættin sem losnuðu í himnaríki þegar Satan og félagar hans voru reknir úr vinnunni og tala heilagra þvarr (þ.e. lækkaði). Þessi miðaldaguðfræði er brosleg í augum flestra nútímamanna. Hún verður enn broslegri þegar magister útskýrir hvers vegna maðurinn var skapaður úr leir jarðar og í ljós kemur að jarðlífið er til þess að gefa djöflinum langt nef.

Discipulus: Hví skapaði Guð mann úr svo herfilegu efni?
Magister: Til óvegs djöflinum, að hann skammaðist þá er jarðlegur maður og óstyrkur komi til þeirrar dýrðar er hann var frá rekinn fyr ofmetnað.
(S.r. Bls. 56.)
Þessi saga um fall vondra engla myndar samhengi sem nær út fyrir mannlífið og gefur því tilgang. Ég efast um að margir nútímamenn trúi henni bókstaflega. Allmargir virðast samt telja að trú á guð geri mönnum kleift að sjá tilgang í mannlífinu með því að skoða það sem hluta af stærra samhengi. Nú til dags eru slíkar hugmyndir þó sjaldan settar fram með jafn skýrum og rökréttum hætti og í þessari samræðu sem rituð var nálægt aldamótunum 1100.
*
Hugmyndir um að mannlífið sé hluti af stærra samhengi sem gefur því tilgang vekja fleiri spurningar en þær svara og erfiðast af öllu er kannski að átta sig á hvers vegna þeir sem taka þátt í mannlífinu ættu að láta sig nokkru varða um tilgang þess. Skiptir tilgangur lífsins (ef einhver er) nokkru máli í lífinu? Í leik eins og skák skiptir tilgangur sem er utan við leikinn ekki neinu máli í leiknum. Ef það er skynsamlegt að fórna peði til að ná biskupi andstæðingsins þá er það jafn skynsamlegt hvort sem skákin er tefld til að vinna mót, eða til að ná sér niðri á andstæðingnum eða bara til skemmtunar. Tilgangur þess sem gert er í leiknum kemur tilgangi leiksins ekkert við.
    Það skiptir máli fyrir menn að verk þeirra og viðleitni hafi tilgang innan mannlífsins og lífi einstaklings sé lifað í einhverju stærra samhengi sem getur t.d. verið líf fjölskyldu, fyrirtækis, stofnunar, þjóðar eða jafnvel alls mannkyns. Vafalaust er öllum hollt að skoða eigið líf í slíku samhengi og gefa því tilgang með því að gagnast öðrum. En hvar á að láta staðar numið? Nægir það manni að auðga líf nágranna og nánustu skyldmenna eða þarf hann víðara svið og þá hversu vítt? Um þetta eru deildar meiningar. En þær snúast um tilgang innan mannlífsins en ekki hvort lífið á jörðinni hafi tilgang í heild sinni. Þótt ýmislegt sem við erum að bauka dags daglega hafi tilgang getur veröldin í heild sinni samt verið tilgangslaus.