Atli Harðarson
Vit og hamingja

Í sjöttu bók Ríkisins eftir Platon (427-347 f. Kr.) ræðast þeir við Sókrates og Adeimantos:

    Sé hugur manns að sönnu hjá því sem er, Adeimantos minn, gefst honum víst ekki mikið ráðrúm til að líta niður á amstur mannanna og fyllast kala og beiskju af því að berjast við þá. Nei, þar sem hann sér og virðir fyrir sér fasta skipan þessara hluta sem ávalt eru samir við sig og fremja ekki ranglæti hver á öðrum heldur eru allir með skaplegri setningu og skynsemi, líkir hann eftir þeim og samlagar sig þeim svo sem hann má. Eða heldurðu að nokkuð geti komið í veg fyrir að maður líki eftir því sem hann dáist að og samneytir?
    Nei, það er óhugsandi, svaraði hann.
    Svo að heimspekingurinn, sem hefur samneyti við hið guðlega og hið skaplega, verður þá sjálfur eins guðlegur og skaplegur og nokkur maður getur orðið.
(Platon: Ríkið IV. bók 500c-d. Íslensk þýðing Eyjólfs Kjalars Emilssonar, Hið íslenska bókmenntafélag 1991.)
Platon trúði því ekki aðeins að hin dýpsta speki boði líf og frið eins og Davíð Stefánsson segir í einu ljóða sinna heldur áleit hann líka að spekingur sem býr yfir slíkri þekkingu verði sjálfur bæði góður og hamingjusamur. Platon var ekki fyrsti maðurinn sem trúði þessu. Rúmlega hundrað árum fyrr hafði Indverjinn Siddharta Gauthama (563-483 f. Kr.), sem þekktari er undir nafninu Búddha, komist að svipaðri niðurstöðu. Í orðskviðum sem við hann eru kenndir og standa á bók sem kölluð er Dhammapada segir að vitur maður fylgi sjö ljósum árvekni og fagni endanlegu frelsi frá fýsnum þessa heims.  Um þann sem er fullnuma í visku segir:
Sá sem hefur lokið leið sinni
býr ekki lengur yfir neinum sorgum.
Fjötrar langana eru fallnir
og frelsið ríkir eitt.
(Dhammapada, Íslensk þýðing Njarðar P. Njarðvík, JPV útgáfa 2003, bls. 39.)
Þessi gamla hugmynd um að viskan geri menn frjálsa, góða eða hamingjusama er að einhverju leyti orðin innbyggð í hversdagslegt orðfæri og það virðist augljóst mál að ekki sé viturlegt að spilla lífi sínu með öfund, græðgi, geðvonsku, smásálarskap, æsingi, stressi og argaþrasi. Ef allt þetta sem gerir mönnum lífið leitt er óviturlegt hljóta vitrir menn þá ekki að vera lausir við það? Það er freistandi að segja já en það er líka freistandi að segja nei því við rekumst hvarvetna á fólk sem er uppfullt af lærdómi og þekkingu á alls konar vísindum en hagar sér samt þveröfugt við vitringana sem Platon og Búddha segja frá. Hér virðist hversdagsleg reynsla stangast á við sjálfsögð sannindi. Hvað eigum við að halda? Eigum við að trúa Búddha og Platoni eða Salómó konungi sem sagði í predikunarbók sinni „mikilli speki er samfara mikil gremja, og sá sem eykur þekking sína eykur kvöl sína.“  (Predikarinn 1:18.)
    Vera kann að Búddha og Platon hafi haft nokkuð til síns máls þótt til séu sprenglærðir ólánsmenn. Það er til dæmis hugsanlegt að því meira vit sem menn hafa því betri og hamingjusamari séu þeir að öllum jafnaði en hjá sumum þurfi mikið vit að togast á við enn meiri heimsku. Einnig kann að vera að það sem þessir fornu spekingar kölluðu vit sé eitthvað annað og meira en kunnátta og þekking af því tagi sem menn afla sér með skólagöngu og venjulegum lærdómi. Ég veit of lítið um kenningar Búddha til að útlista hvaða hugmyndir hann hafði um lærdóm, þekkingu og vit en ég tel mér óhætt að fullyrða að Platon áleit að sú viska sem gerir mennina „guðlega og skaplega“ sé æðri gerðar en hversdagsleg reynsla og fróðleikur.
    Ég held að sumir nútímamenn sem álíta augljóst að vitur maður sé hafinn yfir öfund, græðgi, geðvonsku, smásálarskap og annað í þeim dúr hafi einhverjar hugmyndir í þá veru að viska feli í sér alls konar mannkosti til viðbótar við þekkingu og skilning á flóknum fræðum. Sé orðið „vitur“ skilgreint svo að það merki „fróður og góður“ þá blasir auðvitað við að allir sem eru vitrir eru líka góðir. Þetta er ekki kenning Platons. Sú viska sem hann fjallaði um er fræðileg þekking og skilningur á vísindalegum eða heimspekilegum sannindum. Hann virðist hafa álitið að hugur sem veit og skilur hvað er að sönnu gott og fagurt verði sjálfur fallegur og góður og að þennan skilning væri hægt að öðlast með fræðilegum lærdómi. Ef til vill tók Platon þessar hugmyndir að einhverju leyti í arf frá fylgismönnum Pyþagórasar (um 580 - 500 f. Kr.), a.m.k. eru hugmyndir hans um gildi þess að læra stærðfræði í dúr við hugmyndir Pyþagóringa.
    Eftirmenn Platons meðal grískra heimspekinga fylgdu í fótspor hans og töldu að heimspekileg þekking væri ekki bara vonarsnauð viska eða menntaglys til að slá um sig með og svala hégómlegri forvitni. Á því tímaskeiði sem hófst með herferðum Alexanders mikla (365-323 f. Kr.) breiddist grísk heimspeki út til landanna í kringum Miðjarðarhafið. Þær stefnur sem náðu mestri útbreiðslu voru efahyggja, epikúrismi og stóuspeki. Fylgismenn allra þessara heimspekiskóla töldu að spekin sem þeir kenndu væri lykill að hamingju, frelsi og mannlegri fullkomnun. Heimspekingar nútímans ætla fræðum sínum minna hlutverk enda óvíst að því yrði vel tekið ef einstakar háskóladeildir kenndu að sínir prófessorar hefðu fundið lykilinn að lífshamingjunni. Ætli það yrði ekki hlegið að þeim.
    Þótt kenningar um lífsgildi heimspekinnar séu ekki fyrirferðarmiklar í skólaspeki nútímans hafa allmargir áhrifamiklir heimspekingar á seinni öldum haldið fram slíkum skoðunum. Sá áhrifamesti er líklega hollenski Gyðingurinn Baruch Spinoza (1632-1677).
    Spinoza gerði grein fyrir þrenns konar þekkingu. Í fyrsta lagi hafa menn hversdaglega vitneskju sem þeir afla af reynslu eða afspurn án þess að leggjast í djúpar pælingar. Í öðru lagi er til fræðileg þekking. Þessar tvær tegundir taldi hann vissulega afar gagnlegar en sú þekking sem færði mönnum frelsi og hamingju var að dómi Spinoza af þriðju og æðstu gerðinni sem menn öðlast þegar viðfangsefni vísindalegrar þekkingar verða kunnugleg, þeir fá tilfinningu fyrir röklegu samhengi tilverunnar og skynja sjálfa sig sem hluta af náttúrunni. Með slíkri þekkingu áleit hann að menn gætu sigrast á eigin endanleika og takmörkunum og eignast hlutdeild í eilífðinni hér og nú. Hann taldi að þessi þriðja gerð þekkingar gefi mönnum kost á að upplifa eigin hverfulleika sem smámuni eina og ástríðu sína og girnd sem lítils háttar umrót í heimi þar sem annað er meira um vert. Hugmyndir Spinoza eru ólíkar kenningum Búddha og Platons og flestra annarra fornspekinga sem reyndu að tengja saman vit og hamingju að því leyti að Spinoza hafnaði allri dulspeki og trúði hvorki á framhaldslíf né yfirnáttúrulegan veruleika.
    Ef ég skil Spinoza rétt reyndi hann að sætta sig við dauðann með dálítið svipuðum hætti og Stephan G. gerði í ljóði sínu Kveld þar sem hann segist geta
hugarrór stigið í hvíluna þá
að hinztu, sem við ég ei skil:
svo viss, að í heiminum vari þó enn
hver von mín með ljós sitt og yl,
það lifi, sem best var í sálu míns sjálfs –
að sólskinið verður þó til!
Það kann að vera töluvert vit í þessari hugmynd, að manni sé auðveldara að sætta sig við dauðann ef það sem hann lætur sér einkum annt um eru hugsjónir og málefni sem varða hann sjálfan ekki sérstaklega og halda því áfram að vera til.
    Ég er ekki sá spámaður að ég treysti mér til að boða mönnum Búddhatrú, Platonisma eða kenningu Spinoza um að hin þriðja gerð þekkingar færi mönnum frelsi og sigur á lítilmótlegum takmörkunum. Mig grunar þó að það geti verið rétt að hampa ögn meira en gert er siðferðilegu gildi hlutlægrar þekkingar, vísinda og fræða. Ef til vill geta menn orðið meiri og betri ef þeir öðlast nægilegt vit til að sjá og skilja sína eigin smæð.