Atli Harðarson
Alþjóðavæðingin

Norðurlandabúar geta keypt appelsínur á öllum árstímum. Pólskir verkamenn leita að vinnu á Íslandi og ég kaupi bækur hjá amazon.com. Alþjóðavæðingin er samofin lífsháttum okkar og hagkerfi. Þessi aukning á viðskiptum milli landa samfara minni viðskiptahindrunum og greiðari samgöngum er ein hlið á efnahagslífi sem frá annarri hlið er lýst sem markaðshagkerfi eða kerfi frjálsra viðskipta og frá enn annarri hlið sem iðnbyltingu með aukinni tækni, verkaskiptingu og sérhæfingu. Alþjóðavæðingin verður trauðla aðgreind frá þróun iðnaðar og markaðsvæðingu. Tilraunir til iðnbyltingar án markaðshagkerfis (eins og í Rússlandi á valdatíma kommúnista) og markaðshagkerfis án alþjóðavæðingar (haftastefnan á fyrri hluta 20. aldar) hafa  svo sem verið gerðar og þótt þær hafi (a.m.k. sumar) skilað efnahagslífinu nokkuð áleiðis hafa þær á endanum siglt í strand. Augljóst er að alþjóðleg verkaskipting er nauðsynlegt skilyrði þess að íbúar í köldu landi geti keypt appelsínur. Þótt það sé ef til vill er ekki alveg eins augljóst er alþjóðavæðingin líka forsenda þess að hægt sé að framleiða tölvur, bíla og annan iðnvarning til sölu við jafn lágu verði og nú er gert.
    Iðnbyltingin hófst í Englandi á 18. öld og hefur síðan breiðst út um heiminn. Með henni fór meðalaldur að hækka, barnadauði að minnka, fólki að fjölga, framleiðsla á mann að aukast. Hægt var að brauðfæða fleiri og strákar og stelpur af lágum stigum sem áður hefðu verið dæmd til skírlífis í húsmennsku á sveitbæjum gátu stofnað heimili og eignast börn. Nú búa afkomendur þeirra við rafmagnsljós og rennandi vatn, senda börn sín í skóla og geta borðað fylli sína af hollum mat á hverjum degi. Hagvöxturinn, sem er afleiðing markaðs-, iðn- og alþjóðavæðingar hefur bætt kjör allra stétta og það svo mjög að verkamenn nútímans búa við betri kost en höfðingjar og stórbokkar fyrir 200 árum. Þótt enn sé djúp staðfest milli verkalýðs og yfirstéttar í iðnvæddum ríkjum er bilið samt miklu minna en áður var milli höfðingja og leiguliða eða ánauðugra bænda.
    Á 20. öld náði iðnvæðingin til sífellt stærri hluta heimsins og lífslíkur jarðarbúa jukust úr um 30 árum árið 1900 í um 64 ár árið 2000 (um 74 ár í iðnríkjum og um 50 ár í þróunarlöndum). Á sama tíma fjölgaði fólki á jörðinni úr 1,65 milljörðum í rúma 6 milljarða. Þetta er stórkostleg bylting í lífskjörum jarðarbúa og ætti með réttu að vera fagnaðarefni. Síðan þessi bylting hófst hefur samt ekki verið neitt lát á skrifum og ræðuhöldum í þá veru að alþjóðavæðing, iðnbylting og kapítalismi skerði kjör lágstéttanna og valdi aukinni misskiptingu á lífsins gæðum. Í hvert sinn sem áfanga er náð á leið til meiri hagkvæmni, betri kjara, opnara samfélags og frjálsmannlegri lífshátta er hrópað að nú gangi ranglætið út í enn meiri öfgar en fyrr, auðmennirnir maki krókinn á kostnað þeirra fátæku sem verði enn fátækari. Þeir sem nú andæfa alþjóðavæðingu eru ekki að segja neitt nýtt. Svipaður kór hefur kyrjað þennan sama söng í meira en hundrað ár og á meðan hafa líkurnar á að fátækt barn deyi úr hungri og vosbúð sífellt farið minnkandi og möguleikar þess til að lifa í meira en 60 ár margfaldast.
    Þeir fátæku hafa mun meiri hag af iðnbyltingu, markaðsbúskap og alþjóðavæðingu heldur en þeir ríku. Fyrir þessu eru ýmsar ástæður, t.d. að þá sem hafa þjón á hverjum fingri munar minna um tækni eins og rafmagn og pípulagnir heldur en þá sem þurftu sjálfir sækja vatn í læk og afla eldiviðar og ljósmetis með frumstæðum aðferðum. Fólk sem býr við raunverulegan skort munar líka meira um nokkrar krónur í viðbót en þá sem eiga fyrir öllum helstu nauðsynjum. Ennfremur má nefna að viðskiptahindranir, tollamúrar og stjórnvaldsaðgerðir sem koma í veg fyrir alþjóðavæðingu eru oftast í þágu yfirstéttar fremur en óbreyttra almúgamanna, enda hafa þeir sem tilheyra efri lögum samfélagsins (hvort sem þeir eru af gömlum valdaættum eða flokksbroddar í nýlegum byltingarflokki) meiri áhrif á pólitískar ákvarðanir heldur en alþýðan.
    Tekjudreifing er sveiflukennd. Stundum eykst bilið milli ríkra og fátækra og stundum dregur saman. Langtímaáhrif af alþjóðavæðingu og frjálsum viðskiptum virðast samt heldur á þann veg að jafna lífskjör manna, bæði innan einstakra ríkja og milli ólíkra landa og heimshluta. Undanfarinn aldarfjórðung hafa Indverjar, Kínverjar og fleiri fátækar Asíuþjóðir t.d. búið við talsvert meiri hagvöxt en Vesturlandabúar. Aukin alþjóðavæðing á undanförnum árum hefur m.a. verið knúin áfram af stjórnvöldum þessara ríkja sem hafa neyðst til að viðurkenna að haftastefna og efnahagsleg einangrun hafa valdið þegnum þeirra óbærilegum skorti og þrengingum. Vegna aukinna viðskipta virðist líka von til að Afríka rétti loks úr kútnum. Árið 2001 var hagvöxtur þar meiri en í öðrum heimsálfum. Heldur verr gekk árið 2002 en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því nú að hagvöxtur í Afríku verði 4,2% árið 2003. Ef Vesturlönd hætta að vernda landbúnað sinn með niðurgreiðslum og innflutningshöftum mun hagur Afríkuríkja vænkast enn hraðar. Til að fátækustu þjóðir heims verði bjargálna þarf umfram allt meiri og víðtækari alþjóðavæðingu og hún þarf að ná til framleiðslu og sölu á landbúnaðarafurðum ekki síður en iðnvarningi.
    Þótt allt þetta liggi nánast í augum uppi er ekkert lát á svartagallsrausinu í andstæðingum alþjóðavæðingar. Flestum gengur þeim vonandi gott eitt til. Þeir telja sig berjast fyrir betri heimi. Sumum þeirra rennur til rifja hlutskipti manna sem missa spón úr aski sínum vegna erlendrar samkeppni (eins og margir fataframleiðendur á Vesturlöndum gerðu þegar þangað tóku að streyma ódýr föt frá Asíu og bændur munu gera ef dregið verður úr hömlum gegn innflutningi á mat). Þessum mönnum er e.t.v. hollt að minnast þess að í hagkerfi þar sem enginn getur farið á hausinn er stutt í þorri fólks hrekist á vonar völ. Annað stef sem oft bregður fyrir í máli þeirra sem andæfa alþjóðavæðingu er sögur um ófyrirleitin stórfyrirtæki sem taka höndum saman við spillt stjórnvöld um að svínbeygja verkafólk, virða öryggisreglur að vettugi og þverbrjóta lög og alþjóðasáttmála um umhverfisvernd. Margar svona sögur eru á kreiki. Flest ljótustu dæmin eru frá löndum þar sem stjórnvöld eru ekki háð lýðræðislegu aðhaldi, lítið er um frjálsa fjölmiðlun og spilling meðal embættismanna er landlæg.
    Markmið fyrirtækja er yfirleitt að hámarka hagnað. Þetta markmið er í sjálfu sér siðferðilega hlutlaust, hvorki lofsvert né ámælisvert (þótt vissulega sé ámælisvert að láta það víkja réttlæti og góðvild til hliðar). Sókn í hámarkshagnað leiðir ekki til siðlausrar hegðunar nema hún borgi sig. Sá sem hefur það helsta markmið að græða er að jafnaði heiðarlegur ef heiðarleikinn borgar sig best. Hvort svo er veltur mest á pólitísku umhverfi eins og því hvort fjölmiðlar eru frjálsir, dómstólar hlutlausir og hvort stjórnvöld eiga það undir almennum kjósendum hvort þau halda völdum eða fara frá í lok kjörtímabils. Andstaða gegn markaðsbúskap og alþjóðavæðingu er því tæpast rökrétt ályktun af grýlusögum um siðlaus stórfyrirtæki. Slíkar sögur gefa miklu fremur tilefni til að krefjast lýðræðis og tjáningarfrelsis fyrir alla jarðarbúa.