Atli Harðarson

Hvernig væri að leyfa öllum að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa?

Í 75. grein stjórnarskrárinnar stendur: „Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.“ Þrátt fyrir þetta ákvæði fer því mjög fjarri að landsmenn njóti atvinnufrelsis. Það úir og grúir af ranglátum og fáránlegum reglum og lagakrókum sem hindra menn í að stunda þá vinnu sem þeir kjósa.
    Hugsum okkur að ég þurfi að láta gera við bilaða vatnslögn hjá mér. Það þarf að brjóta vegg, skipta um rör, múra yfir og mála upp á nýtt. Ég hringi í iðnaðarmann sem ég þekki. Hann vill vinna verkið. En þar sem hann hefur aðeins próf í pípulögnum, en hvorki múrverki né málaraiðn er honum bannað að taka að sér nema hluta þess. Getur hugsast að þetta bann sé í almannaþágu? Hvernig getur almenningur haft hag af því að banna nokkrum manni að vinna við steypu og málningu?
    Það er hægt að tína til óteljandi dæmi og sum mun fáránlegri. Rússneskur tannlæknir sem flytur hingað til lands má ekki opna stofu vegna þess að prófið hans er öðru vísi en íslenskt tannlæknispróf. Húsmóðir má ekki baka brauð til að selja því hún er ekki með réttindi sem bakari. Doktor í stærðfræði þarf að sækja um undanþágu til að mega kenna unglingum því hann hefur ekki próf í uppeldisfræði. Stelpa sem vill verða hárgreiðslukona fær aldrei að stunda þá vinnu vegna þess að hún fellur aftur og aftur á prófi í algebru. (Já það þarf í alvöru að standast próf í algebru til að fá leyfi til að vinna við hárgreiðslu.)
    Ef einhverjir yrðu til verja reglurnar sem banna mönnum að vinna þau verk sem hér voru talin mundu þeir trúlega bera því við að fullt frelsi á vinnumarkaði yrði til þess að mikilvæg verk lentu í höndum fúskara sem klúðruðu þeim. Í flestum tilvikum eru rök af þessu tagi léttvæg. Almannahag stendur engin ógn af því þótt einn og einn maður leyfi fúskara að klippa hárið á sér, mála veggina í íbúðinni sinni eða baka handa sér brauð. Stundum er þó dálítið vit í svona rökum. Íbúar í fjölbýlishúsi geta t.d. ekki liðið að einn úr hópnum ráði fúskara til að gera við rafmagnið hjá sér ef hætta er á að frágangur verði með þeim endemum að það kvikni í húsinu. En þessar undantekningar breyta engu þar um að flestar reglur sem takmarka atvinnufrelsi manna eru mjög langt frá því að vera í almannaþágu. Þær eru miklu oftar til þess að verja einokun, koma í veg fyrir samkeppni eða hlífa þröngum hópi manna við því að takast á við breytta tíma.
    Nú kunna sumir að hugsa sem svo að þetta geri lítið til. Það sé nóg svigrúm á vinnumarkaði til að flestir geti fundið sér eitthvað að gera og hvers vegna megi þá ekki létta sumum stéttum lífið ofurlítið með því að tryggja þeim einkarétt á að vinna tiltekin verk. Þetta dragi kannski eitthvað úr samkeppni og sveigjanleika en á móti komi að stórir hópar manna njóti meira atvinnuöryggis og minni hætta sé að á fúskarar klúðri hlutunum. Þetta er hugsunarháttur manna sem óttast þann fagnandi hraða sem gæðir nútímann lífi og lit.
    Lögverndun á tilteknum starfsgreinum kemur sjaldan í veg fyrir að fúskarar vinni verkin. Þeir eru til í öllum stéttum og fólk hefur lag á að forðast þá vegna þess að það spyrst út að ekki borgi sig að eiga viðskipti við þá. Hins vegar getur skerðing á atvinnufrelsi neytt fólk til að kaupa lélega eða dýra þjónustu því það hlýtur að gerast við og við að einhver geti boðið betri vinnu eða betri kjör en þeir sem hafa einkarétt á starfinu.
    Þegar einsleitur hópur manna með svipaða menntun fær einkaleyfi til að vinna einhver verk dregur úr líkunum á því að framfarir verði í greininni og fólk með ólíkan bakgrunn prófi nýjar hugmyndir. Ef engir nema „faglærðir“ menn mættu smíða sjóntæki þá hefðu snertilinsurnar aldrei verið fundnar upp og ætli við sæjum afrískar fléttur og þess lags skraut víða hér á norðurslóðum nema vegna þess að sums staðar hefur „ófaglærðum“ konum frá Afríku haldist það uppi að keppa við fólk með sveinspróf í háriðnum. Ef  aðeins lærðir matreiðslumenn mættu selja tilbúna rétti þá væri líklega ekki hægt að panta flatböku með hálftíma fyrirvara í nær öllum kaupstöðum landsins og hugsum okkur ósköpin ef engir nema útskrifaðir kerfisfræðingar mættu taka að sér vefsíðugerð. Skelfing væri veraldarvefurinn þá fátæklegur.
    Á síðustu áratugum 20. aldar var tölvu- og upplýsingatæknin mikilvægasta driffjöður framfara og bættra lífskjara. Öll saga þessarar tækni er til vitnis um þann sköpunarmátt sem losnar úr læðingi þegar allir mega spreyta sig á að hrinda eigin hugmyndum í framkvæmd hversu vitlausar sem þær kunna að vera samkvæmt einhverjum hefðbundnum mælikvörðum.
    Það eru engin lögvernduð störf í tölvu- og hugbúnaðargeiranum. Samt er menntun óvíða jafn mikils metin. Yfirvöld gera ekkert til að koma í veg fyrir að „fúskarar“ vinni verkin. Samt eru hvergi meiri framfarir. Það er óheft samkeppni um störf. Samt eru kjör launþega í þessum greinum með besta móti. Berum þetta saman við greinar þar sem einokun er á flestum störfum. Við getum að vísu ekki vitað hvernig væri umhorfs í þeim ef þar ríkti fullkomið atvinnufrelsi. Þessi óhjákvæmilega vanþekking okkar er kannski meginástæða þess að við sættum okkur við ófrelsi og reglugerðafargan því þar sem gildi frelsisins felst ekki síst í að gera mönnum mögulegt að nýta tækifæri sem enginn getur séð fyrir þá vitum við sjaldnast hvers við förum á mis þegar það er skert eða takmarkað.
    En þótt við vitum yfirleitt ekki hvað einstök skerðing á frelsi manna kostar þá vita það allir sem vilja vita að atvinnufrelsi stuðlar almennt og yfirleitt að framförum og hagsæld og „kjör meginþorra fólks, eru best þar sem framfarir eru og samfélagið býr við batnandi hag. Hlutskipti alþýðunnar er erfitt þar sem efnahagur stendur í stað og ömurlegt þar sem honum  hnignar. Framfarirnar færa öllum stéttum fjör og fögnuð en stöðnun fylgir deyfð og drungi og með hnignun kemur eymd og ami.“ (Adam Smith: Auðlegð þjóðanna I. bindi viii. kafli.)