Atli Harðarson
Barnabækur, lærdómslistir og samræmd próf

Fyrir rúmu ári síðan mætti ég á foreldrafund í Grundaskóla á Akranesi. Umræðuefnið var samræmd próf í tíunda bekk. Auðheyrt var á sumum foreldranna að þeir kviðu þessum prófum og óttuðust að börnum sínum vegnaði ekki nógu vel. Dálítið var spurt um möguleika á aukatímum, stuðningskennslu og hvernig hægt væri að halda unglingunum að verki að hjálpa þeim að búa sig sem best undir samræmdu prófin.
    Nú er kunnara en frá þurfi að segja að það er erfitt að stjórna fimmtán ára unglingum. Það sem fólk á þessum aldri hefur mestan áhuga á að læra er að standa á eigin fótum og taka sjálfstæðar ákvarðanir og þetta verður víst varla lært með eintómri auðsveipni. Tilraunir foreldra til að halda tíundubekkingum að námi bera því vægast sagt misjafnan árangur. Er þá ekkert sem foreldrar geta gert til að börnum þeirra vegni vel í skóla og nái t.d. góðum árangri á samræmdum prófum? Börn eru misjöfn og foreldrar enn misjafnari svo það sem er gerlegt í einni fjölskyldu er kannski ógerlegt í annarri. Alhæfingar um þessi efni orka því ætíð tvímælis. Samt ætla ég að slá fram tveim almennum staðhæfingum um áhrif foreldra á nám barna sinna. Önnur staðhæfingin er að foreldrar geta miklu fremur haft áhrif á börnin meðan þau eru enn á forskólaaldri heldur en þegar þau eru orðin stálpuð eða jafnvel hálffullorðin. Hin er að börn mótast meira af því sem þau sjá foreldra sína gera heldur en því sem þeir segja að fólk eigi að gera.
    Þessar staðhæfingar styðjast við niðurstöður allmargra rannsókna og ég gæti vitnað í lærðar bækur um uppeldisfræði máli mínu til stuðnings. Árangursríkasta leiðin fyrir foreldra til að kenna börnum sínum að forðast vímu- og fíkniefni er að vera sjálfir allsgáðir. Feður sem vilja koma í veg fyrir að synir þeirra fari sér að voða með glannaskap þegar þeir fá bílpróf gera það best með því að aka sjálfir gætilega og fylgja umferðarreglunum. Kannanir og rannsóknir sýna verulega fylgni milli bóklesturs á heimilum og velgengni í skóla. Svona má lengi telja. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft og foreldrarnir eru mikilvægustu fyrirmyndirnar.

*
Samfélagsbreytingar undanfarinna ára eru á þann veg að velgengni í skóla hefur sífellt meiri áhrif á stöðu fólks á vinnumarkaði. Atvinnulífið gerir líka í auknum mæli kröfur um að fullorðið fólk sé sífellt að læra. Mér finnst trúlegt að á næstu árum og áratugum verði enn víðar litið á það sem eðlilegan hluta af daglegu lífi á heimilum að allir fjölskyldumeðlimir, börn jafnt sem fullorðnir, verji töluverðum tíma til náms. Fjölskyldur sem tileinka sér þetta viðhorf nú þegar temja börnum sínum um leið hugsunarhátt sem líklega stuðlar að velgengni í skóla. Ef foreldrar lesa bækur og ræða efni þeirra, sækja námskeið samhliða vinnu, eru forvitnir og gleðjast yfir tækifærum til að læra eitthvað nýtt þá verður krökkunum leikur að læra. Ég efast um að það hafi jafn góð áhrif að reka börn sín til að læra, án þess að hafa sjálfur neinn áhuga á námi. Hvað fleira geta foreldrar gert til að bæta námsárangur barna sinna en að vera sjálfir duglegir að læra? Ég held að eitt af því mikilvægasta sé að lesa fyrir þau meðan þau eru enn nógu ung til að vilja hlusta.
    Fyrir utan forvitni, jákvætt viðhorf til náms og iðjusemi veltur velgengni í skóla trúlega mest á því að hafa gott vald á ritmáli: að geta gert letur á bók eða upplestur á bandi að lifandi myndum, fylgt þræði í texta, flakkað fram og aftur í tíma og rúmi og hoppað parís inn í viðtengingarhátt og þáskildagatíð, snúið við í hausnum og stokkið til baka í veruleikann hér og nú. Flest börn læra þetta fremur áreynslulaust ef einhver nennir að lesa fyrir þau.
    Barnabókmenntir eru heillandi heimur og þeir fara mikils á mis sem aldrei komast í kynni við Einar Áskel, Jón Odd og Jón Bjarna, Blikabæ og drekann í Furðufjalli, Múmínsnáðann og Snorkstelpuna, krakkana á Griffindor vistinni, Línu langsokk, Þjóðhildi gömlu og krókófílana eða Pétur og Brand. Þetta er allt saman jafnskemmtilegt fyrir fullorðna eins og börn og ekki bara skemmtun heldur líka menntun.
    Þeir sem líta svo á að hlutverk skóla sé eingöngu að framleiða tæknimenn og sérhæft vinnuafl eiga ef til vill bágt með að skilja menntagildi lista og skáldskapar. Þeir eru svo sem ekki einir á báti. Menningarvitar og listunnendur eiga líka erfitt með að festa hendur á gildi hugðarefna sinna. Sjálfur er ég líklega einhvers konar blendingur af tæknimanni og menningarvita og skil ekki nema í mesta lagi svona rétt til hálfs hvaða gildi það hefur umfram skemmtanagildi að lesa sögur og skáldskap fyrir börn. En mig grunar þó að sögur kenni börnum ýmislegt sem þau læra ekki jafnauðveldlega með neinu öðru móti. Eitt af því er meðferð tungumálsins, orðaforði og að skilja vísbendingar og samhengi í texta. Ég held að það sé miklu auðveldara fyrir unglinga að tileinka sér fræðilegt námsefni af bók ef þeir hafa vanist því frá blautu barnsbeini að rata um hugarheim sem vakinn er af stöfum á blaði.
    Annað sem börn læra af sögum er að setja sig í annarra spor og hafa samúð með fólki sem er öðruvísi eða tilheyrir öðrum heimi. Þetta er vitaskuld ein af forsendum þess að menn séu húsum hæfir og geti lifað saman í friði. Mig grunar líka að góðar sögur hjálpi börnum að takast á við eigin tilfinningar og semja sig í sátt við umhverfið en þetta er bara grunur og ég hef ekki tök á þeim fræðum sem þarf til að rökstyðja hann.
*
Þetta spjall byrjaði á foreldrafundi í tíunda bekk þar sem spurt var hvað foreldrar geti gert til að börnum þeirra vegni vel á samræmdum prófum. Ég hef engin svör við þeirri spurningu hvað foreldrar barna sem orðin eru fimmtán ára geta gert og ég efast raunar um að til sé neitt eitt svar sem gildir fyrir allar fjölskyldur. Hins vegar held ég að til séu þokkaleg svör við annarri spurningu sem er: Hvað geta foreldrar fimm ára barna gert til að auka líkurnar á að þeim gangi vel í skóla eftir tíu ár? Þeir geta farið með þeim á bókasafn, fundið góða bók og lesið fyrir þau. Þeir geta líka hugað að því að skella sér sjálfir í eitthvert nám, byrjað t.d. að blaða í auglýsingum frá námsflokkum og símenntunarmiðstöðvum og spurt sig: Er ekki eitthvað þarna sem mig langar til að læra?