Atli Harðarson
Biblían, Hómer og almenn menntun

Almenn menntun er hugsjón sem er erfitt að orða í stuttu máli. Hún er í einhverjum skilningi andstæða sérhæfingar og tengist með nokkrum hætti víðsýni, smekkvísi og menningarlegu ríkidæmi. Sá sem býr yfir góðri almennri menntun hefur lykla að fjársjóðum mannsandans og þegar best lætur upplifir hann sjálfan sig sem hluta af siðmenningu, þar sem sameiginleg mannleg gildi skipta meira máli en eigin stundarhagur.
    Skólakerfi okkar hefur að nokkru leyti þróast og vaxið til að mæta þörf fyrir sérhæft vinnuafl. Í gamla daga þurfti að mennta nokkra embættismenn og presta en nú þarf stór hluti fólks að sérhæfa sig í einhverju fagi eða starfsgrein. Skólakerfið á þó ekki aðeins að vera æfingabúðir fyrir vinnumarkaðinn. Það á líka að veita ungu fólki almenna menntun. Þessi hlutverk verða ef til vill ekki aðskilin með góðu móti því atvinnulífið hefur í auknum mæli þörf fyrir fólk sem hugsar sjálfstætt og býr yfir nægilegri víðsýni, sjálfsvirðingu og siðmennt til að vinna traust og virðingu viðskiptavina og samstarfsmanna.
    Í framhaldsskólum 19. aldar voru mikilvægustu námsgreinarnar fornmál og fornar bókmenntir Gyðinga, Grikkja og Rómverja. Uppsprettulindir Evrópskrar menningar eru í sögum Biblíunnar, kviðum Hómers, bókum heimspekinga, leikskálda og sagnaritara úr klassískri fornöld. Menn öðluðust almenna menntun að þeirrar tíðar hætti með því að lesa þessi rit. En menningin er ekki bara gamlar bækur. Með stórstígum framförum í stærðfræði og raunvísindum og auknu notagildi slíkra vísinda tóku þau smám saman meira rúm í námskrám barna- og unglingaskóla. Talsmenn þeirra bentu réttilega á að þekking á heimsmynd og aðferðum raunvísindanna væri hluti af almennri menntun, enda eru vísindaleg hugsun og virðing fyrir sannleikanum flestu öðru fremur til þess fallin að hefja menn yfir sjálfhverfan smásálarskap, eyða fordómum og efla víðsýni.
    Sú almenna menntun sem skólar 19. aldar veittu fólki var ef til vill aldrei nema hálf, því lítið var hirt um nám í verkmenntum, tæknigreinum, náttúruvísindum og stærðfræði. Auk þess náði hún aðeins til lítils hluta af almenningi. En á 20. öld jókst mjög hlutur skólanna í uppeldi og menntun barna og unglinga. Stærri og stærri hluti hvers árgangs gekk í skóla frá 6 til 8 ára aldri og fram á unglingsár og við aldarlok gekk þorri ungmenna á Vesturlöndum í skóla í 12 ár eða lengur. Spurningin um hvort almenn menntun í skólunum sé veil og hálf er samt enn jafn áleitin og fyrir hundrað árum. Slag raunvísinda og hugvísinda lyktaði með því að unglingar sem vilja kynnast heimsmynd raunvísindanna og læra undirstöðuatriði í eðlisfræði, efnafræði, jarðfræði, líffræði og stærðfræði í framhaldsskóla hafa þokkaleg tækifæri til þess. Sama má segja um félagsvísindin. Um listir, bókmenntir, heimspeki og aðrar húmanískar greinar gegnir hins vegar öðru máli. Þær hafa látið í minni pokann og nú hirða fáir skólar um að dusta rykið af Biblíunni og Hómer.
    Í nýlegri námskrá fyrir íslenska framhaldsskóla sem menntamálaráðuneytið gaf út árið 1999 eru taldar upp námsgreinar á bóknámsbrautum. Þeim er skipt í kjarna (sem er 98 einingar eða 70% af náminu), kjörsvið (sem er 30 einingar eða um það bil 21,5%) og frjálst val (sem er 12 einingar eða um 8,5%). Hver nemandi velur sér nokkrar kjörsviðsgreinar og nemur 9 einingar eða meira í hverri þeirra. (Flestar kjörsviðsgreinar eru líka hluti af brautarkjarna og nám á kjörsviði því viðbót við það sem öllum á brautinni er skylt að nema.) Hægt er að velja milli nokkurra tungumála, stærðfræði, tölvufræði, íslensku, raungreina (eðlis-, efna-, jarð- og líffræði) og samfélagsgreina (félagsfræði, fjölmiðlafræði, hagfræði, landafræði, sálfræði, sögu, uppeldisfræði). Fyrir utan sagnfræði fá húmanískar greinar og hugvísindi hvergi rúm nema sem hluti af kennslu í móðurmáli og tungumálum. Heimspeki, sígildar bókmenntir og trúarbragðafræði eru ekki hluti af kjarna neinnar brautar. Þessar greinar eru ekki einu sinni til sem kjörsvið. Skólar geta þó boðið upp á þær sem valgreinar, því á hverri bóknámsbraut er rúm fyrir 12 einingar af frjálsu vali.
    Þetta er alger umpólun frá námskrám 19. aldar og við hljótum að spyrja hvort ekki sé of langt gengið. Getum við haldið í hugsjónir um almenna menntun og látið sagnaheim Hómers og sögur Biblíunnar um Abraham og Ísak, Davíð konung, Job og Jónas lönd og leið? Dugar að nemendur lesi aðeins íslenskan skáldskap og hvernig eiga þeir að skilja hann ef þeir hafa ekki einu sinni forsendur til að átta sig á hvers vegna Matthías vísar til Hallgríms sem "Davíðs konungs þessa jökullands"; Benedikt Gröndal ávarpar Reykjavík "Ó, Bóreasar Babýlon!"; Þorsteinn Erlingsson andmælir áformum um að virkja Dettifoss með því að segja "nú selst á þúsundir þetta sem fyrr var þrjátíu peninga virði." Kynni af bókmenntum fornaldar opna dyr til skilnings á íslenskum ljóðum. Þau opna líka dyr að mörgum öðrum fjársjóðum því þessar fornu menntir voru stór hluti af hugarheimi Evrópumanna öld fram af öld. Ættu framhaldsskólar ekki að gefa nemendum tækifæri til að kynnast heimspeki og bókmenntum sem hafa mótað þeirra eigin menningarheim, t.d. með því að bæta við einu kjörsviði á bóknámsbrautum?
    Eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum í september á síðasta ári var allmikið talað um að skólakrakkar á Vesturlöndum þyrftu að læra um Islam. Vissulega er þörf að læra um hugsunarhátt, siði og bókmenntir Araba og fleiri þjóða. En þarf ekki fyrst að læra eitthvað dálítið um eigin hugarheim? Væri ef til vill auðveldara fyrir íslenska unglinga að skilja hugsun Araba ef þeir þekktu sameiginlegar rætur Kristni og Islam, hefðu t.d. lesið sögurnar í fyrstu bók Móse? Rétt eins og góð kunnátta í eigin móðurmáli er ein af forsendum þess að menn nái árangri í að læra önnur mál er ratvísi um eigin hugarheim ein af forsendum þess að menn geti átt frjóar samræður við fólk sem er alið upp við öðru vísi þankagang. Í heimi fjölmenningar höfum við meira fram að færa ef við þekkjum uppsprettur eigin menningar í sagnaheimi og hugsun Gyðinga, Grikkja og Rómverja.
    Kannski er tími til kominn að Biblían og Hómer fái aftur rúm í námskrá framhaldsskóla.