Atli Harðarson

Dómharka og refsigleði

Þann 5. janúar síðastliðinn birtist frétt í DV þar sem fram kemur að Gallup könnun bendi til að 72% landsmanna telji dóma vegna fíkniefnabrota of væga og aðeins 2% telji þá of þunga. Ég hef engar sérstakar taugar til þeirra sem selja fólki eiturlyf. Samt tilheyri ég þessum tveim hundraðshlutum sem álíta að dómar í fíkniefnamálum séu heldur of þungir en of vægir.
     Ég hef  áhyggjur af þeirri dómhörku og refsigleði sem einkennir umræðu um sölu og neyslu eiturlyfja og held raunar að hún beri vott um siðferðilegt dómgreindarleysi. Í þessum efnum ættum við að láta okkur víti Bandaríkjamanna að varnaði verða. Þar heyja yfirvöld stríð gegn eiturlyfjum og dæma menn til langrar refsivistar fyrir það eitt að hafa vímuefni í fórum sínum. Fyrir vikið situr óheyrilegur fjöldi manna bak við lás og slá. Margt bendir til að stefna bandarískra stjórnvalda í fíkniefnamálum hafi beinlínis orðið til þess að fjölga glæpum og stríðið gegn eiturlyfjunum þar í landi valdi þjáningum og óhamingju sem eru jafnvel enn meiri og verri en þær hörmungar sem hljótast af neyslu efnanna.
     Tilgangur refsinga er bæði að draga úr líkum á að menn brjóti aftur af sér og að fæla aðra frá að fremja svipuð afbrot. Með nokkurri einföldun má segja að meginrökin fyrir því að samfélag hafi lögreglu, dómstóla og fangelsi séu nytjarök sem vísa til þess að tilvera slíkra stofnana dragi úr ofbeldi, ránum og illvirkjum. En þegar ákvarða skal í smáatriðum hvernig lögregla og dómstólar eiga að starfa og meta hvað sé hæfileg refsing fyrir einstök afbrot þá skipta rök sem vísa til réttlætis og mannréttinda ekki minna máli en bollaleggingar um nytsemi og almannahag. Þessi réttlætisrök eru einkum af tvennu tagi: Annars vegar þarf að gæta þess að enginn hljóti þyngri refsingu en réttlátt má telja og fylgja þeirri meginreglu að betra sé að nokkrir glæpamenn sleppi of vel en að einum saklausum manni sé refsað; Hins vegar þarf að huga að virðingu þeirra sem verða fórnarlömb glæpamanna og stilla þyngd refsingar til samræmis við hve svívirðilegt, ranglátt eða ósiðlegt afbrotið er.
     Hvaða rök geta mælt með harðari refsingum í fíkniefnamálum? Eru það nytjarök sem benda til að þyngri dómar dragi úr ofbeldi, ránum, illvirkjum eða öðru böli? Eru það réttlætisrök í þá veru að refsingar séu svo vægar að stríði gegn eðlilegri réttlætiskennd eða misbjóði virðingu fórnarlambanna?
     Harðar refsingar eru beggja handa járn og geta komið þeim í koll sem síst skyldi. Þær koma lítt eða ekki í veg fyrir fíkn í vímuefni. Hins vegar geta þungir dómar fyrir meðferð og dreifingu vímuefna aukið líkur á að sölumenn og innflytjendur beiti örþrifaráðum, eins og að drepa hugsanleg vitni, til að komast hjá refsingum. Þeir valda því líka að verð á eiturlyfjum hækkar og fleiri fíklar kosta neysluna með því að gerast sölumenn eða ræningjar.
     Ætla má að refsingar dugi best til að fæla menn frá að fremja skipulögð auðgunarbrot en þær dragi síður úr ástríðuglæpum eða afbrotum sem menn fremja helst þegar eitthvað vantar á að þeir hafi fulla sjálfstjórn og rænu á að hugsa um afleiðingar gerða sinna. Bófi sem ætlar að ræna fúlgu fjár, segjum tvöföldum árslaunum, getur hugsað með sér að það borgi sig að taka áhættuna ef það eru helmings líkur á að nást og þurfa þá að sitja inni í eitt ár. Ef hann hugsar aðeins um að hámarka ávinning sinn af glæpnum þá þykir honum ekki borga sig að stela peningunum ef það eru helmings líkur á að þurfa að sitja inni í fimm ár. Hér gætu einföld nytjarök mælt með refsivist í fimm ár fremur en eitt. Heldur er ólíklegt að neytendur eiturlyfja séu upp til hópa „hagsýnir“ með þessum hætti. En hvað með sölumenn og innflytjendur? Munu harðari refsingar ekki draga úr líkunum á því að menn reyni að hagnast á viðskiptum með eiturlyf? Um þetta er ekki hægt að fullyrða af neinni vissu. Harðari refsingar leiða ekki bara til þess að menn tapi meiru ef þeir nást. Þær leiða líka til þess að verð á efnunum hækkar og menn græða meira ef þeir nást ekki.
     Ef harðari refsingar í fíkniefnamálum verða til þess að fjölga ránum og ofbeldisglæpum og þær duga ekki til að þeir sem þegar neyta efnanna hætti því, hvaða gagn geta þær þá gert? Einhverjir halda kannski að þær verði til þess að færri hefji eiturlyfjaneyslu en ég efast um að það sé rétt.
     Svo virðist raunar sem samskipti yfirvalda og eiturlyfjasala séu læst inni í vítahring. Yfirvöld beita aukinni hörku sem leiðir til hærra verðs á eiturlyfjum. Hærra verð leiðir meðal annars til þess að fíklar fjármagna neysluna með því að selja öðrum eiturlyf, einkum óhörðnuðum unglingum. Við þá sölumennsku er öllum brögðum beitt og hún veldur því að neytendum fjölgar og eftirspurn eykst og fleiri eygja möguleika á miklum og skyndilegum gróða af innflutningi eða framleiðslu. Þetta kallar aftur á harðari viðbrögð yfirvalda og ólánið rúllar annan hring og stækkar eins og snjóbolti sem veltur niður brekku. Útkoman úr öllu saman er að fjöldinn allur af ógæfumönnum breytist í glæpamenn. Þetta stríð geta yfirvöld líklega ekki unnið með því að beita harðari refsingum. Sennilega gera þær illt verra.
     Ég hef nú tíundað nokkrar ástæður til að efast um nytsemi þess að herða refsingar í fíkniefnamálum. En hvað með réttlætið? Krefst það harðari refsinga? Mér virðist næsta ljóst að „fórnarlömbum“ fíkniefnasala, þ.e. kaupendum, sé ekki sýnd aukin virðing með hertum refsingum. Hitt er sönnu nær að með þungum dómi yfir sölumönnum sé gefið í skyn að kaupendur geti ekki sjálfir séð fótum sínum forráð, það þurfi að passa þá eins og börn. Þeir eru raunar alls ekki fórnarlömb í sama skilningi og þeir sem verða fyrir líkamsárás eða eru rændir. Það er andstætt öllu réttlæti að ólánsmenn sem selja öðrum eiturlyf sæti jafn hörðum refsingum og þeir sem sekir eru um gróft ofbeldi.
     Í allri umræðu um harðar refsingar eins og fangelsisvist ber að hafa í huga að þær eru neyðarúrræði og það þarf mjög góð rök til að réttlæta að maður sé læstur inni árum saman. Leiki verulegur vafi á að það sé réttlátt að sakborningur hljóti þungan dóm, þá á hann að njóta vafans.
     Nauðsynlegt er að banna sölu og neyslu ýmissa eiturefna og refsa mönnum fyrir að flytja þau inn, framleiða eða selja. En það ber samt að gjalda varhug við kröfum um mjög harðar refsingar í fíkniefnamálum. Sé orðið við þeim er hætt við að afleiðingarnar verði fleiri glæpir og meira ofbeldi. Þótt mikilvægt sé að koma í veg fyrir að fólk ánetjist eiturlyfjum er ekkert vit að stríð yfirvalda gegn þeim sé rekið af slíkri hörku að það geri illt verra.