Atli Harðarson
Að sigra sjálfan sig og vera frjáls

Leiðin frá Morinsheiði niður í Þórsmörk liggur um einstigi sem heitir Kattahryggir. Þar er snarbratt niður á báðar hendur og eins gott að halda jafnvægi. Mér kemur þessi leið stundum í hug þegar ég reyni að segja eitthvað af viti um hugtökin sem tjá æðstu hugsjónir mannanna: réttlæti, farsæld, ást og frelsi. Ekkert þessara hugtaka er hægt að skilgreina eða skýra til hlítar í stuttu máli. Orðin þurfa að þræða langar krókaleiðir sem eru eins og Kattahryggirnir með gil á báðar hendur. Villist þau út af öðru megin tekur við mælgi og merkingarlaust rugl. Hinu megin eru sjálfsögð sannindi og flatneskjulegt stagl um hluti sem liggja í augum uppi. En þótt hætt sé við að ég endi annað hvort í rugli eða stagli ætla ég samt að halda þessum skrifum áfram og segja nokkur orð um frelsi og frjálsa menn.
    Einfaldasti skilningurinn á frelsi er að það merki að vera ekki læstur inni, fjötraður eða heftur á annan hátt. En stundum þegar talað er um frelsi og stjórnmál í sama orðinu þýðir frelsi að af öllu því sem mönnum dettur í hug að gera sé sem fæst bannað með lögum eða tilskipunum frá yfirvöldum. Frelsi í þessum pólitíska skilningi nær hámarki þegar menn mega gera hvaðeina sem þeir vilja, svo fremi þeir beiti aðra hvorki ofbeldi eða rangindum né stofni þeim í hættu. Það þarf víst ekki að hafa mörg orð um að æði mikið vantar á að menn njóti algers frelsis af þessu tagi. Mér skilst að landslög banni t.d. íbúum fjölbýlishúsa að reykja í vistarverum sem þeir eiga sameiginlega. Er þó vart hægt að halda því fram í fullri alvöru að þeir geri öðrum mein þótt þeir sammælist um slíkt. Það væri hægt að fylla heilan árgang af Lesbókinni með enn bjánalegri dæmum um lög sem skerða frelsi manna, enda er vilji yfirvalda og löngun til að ráðskast með annað fólk yfirleitt í öfugu hlutfalli við hæfileika þeirra til að stjórna af nokkru viti. En það er önnur saga.
    Mismunurinn á þessum tveim tegundum af frelsi liggur kannski ekki í augum uppi en ætti þó að vera nokkuð ljós ef við hugsum okkur mann sem vill lumbra á öðrum en er bundinn fastur við staur og getur sig hvergi hrært. Honum er ekki í nokkrum skilningi frjálst að lemja einn eða neinn. En sé hann leystur úr böndum þá getur hann barið eins og hann hefur krafta til. Hann er ekki lengur fjötraður heldur frjáls. En í pólitískum eða lagalegum skilningi er honum samt ekki frjálst, heldur þvert á móti bannað, að lemja annað fólk - og það eins þótt ekkert hindri hann í að brjóta lögin.
    Nú er tvennt talið. En frelsi getur þýtt enn fleira, því menn geta í vissum skilningi verið ánauðugir þótt enginn leggi svo mikið sem einn stein í götu þeirra eða gefi þeim fyrirmæli af nokkru tagi. Slík ánauð getur verið margs konar: fíkn, þráhyggja, fælni, stjórnleysi og alls konar óhemjuskapur. Það frelsi sem menn njóta þegar þeir eru lausir við ósköp af þessu tagi er stundum, með dálítið villandi orðalagi, kallað frelsi viljans. Þetta orðalag er villandi því það gefur í skyn að innan í manni sé önnur persóna, sem kallast vilji, og getur eftir atvikum verið frjáls eða ófrjáls.
    Venjulega snýst frelsi um að maður megi eða fái að gera eða geti óhindrað gert það sem hann vill. Ferðafrelsi felur t.d. í sér að menn megi fara þangað sem þeir vilja og málfrelsi að þeir megi segja það sem þeir vilja. Þessi hversdagslegu sannindi um frelsi er engin leið að heimfæra upp á frelsi viljans því ekki er átt við að menn megi vilja, eða geti viljað hvað sem þeir vilja. Þetta frelsi er af einhverju öðru tagi og við getum kannski nálgast skilning á því með því að spyrja okkur hvað það er sem frjáls maður fær áorkað en sá sem t.d. er „þræll“ einhverrar fíknar ekki. Þegar málið er lagt upp með þessum hætti blasir svarið að nokkru leyti við: Þeim frjálsa gengur að jafnaði betur að haga sér í samræmi við það sem hann sjálfur álítur vera rétt og skynsamlegt. Þetta er þó ekki nema hálf saga því stundum veldur innri ánauð á borð við fíkn sjálfsblekkingum og ranghugmyndum þannig að menn fara að álíta eitthvað rétt og skynsamlegt þótt öll vitleg rök mæli gegn því. Þegar þannig er ástatt er ánauðin enn verri en þegar menn eiga í innri baráttu sem endar með að þeir gera annað en þeir sjá og skilja að muni vera fyrir bestu. Þetta innra frelsi, sem stundum er kallað frelsi viljans og stundum sjálfstjórn, inniber því meira en það eitt að geta hagað sér í samræmi við eigið gildismat. Menn þurfa líka að haga gildismati sínu í samræmi við skynsamleg rök.
    Ég held að hugmyndin um frelsi af þessu tagi sé náskyld því sem stundum er kallað að maður vinni sigur á sjálfum sér. Slíkur sigur getur verið í því fólginn að ná tökum á hræðslu, þráhyggju, öfund, smásálarskap eða ólund. Oft þarf meiri manndóm til að vinna slíka sigra heldur en til að hafa betur í stælum við náungann. En sigur manns á sjálfum sér getur verið meira en bara þetta. Þeir sem vinna slíkan sigur með afgerandi hætti losna ekki aðeins undan sínum öfgafyllstu duttlungum, heldur líka fordómum og eigingirni og öðru sem kemur í veg fyrir þá fölskvalausu sýn á veruleikann sem kallast réttsýni á góðri íslensku. Að láta stjórnast af skynsemi, réttlæti eða góðvild er einhvern veginn ópersónulegt. Sá sem það gerir horfir fram hjá eigin hagsmunum. Ekki er þó svo að skilja að slíkur maður hætti endilega að beita sér í eigin þágu, en hann lætur enga síngirni lita mynd sína af tilverunni heldur fellir jafn hlutlæga dóma um sjálfan sig og aðra.
    Gildismat manna verður ef til vill aldrei algerlega ópersónulegt en því meir sem það stjórnast af hlutlægum rökum og því réttsýnni sem maður er þeim mun síður er það bundið hans eigin smæð og takmörkunum. Að maður sigrist á sjálfum sér í þessum skilningi og að hann sé frjáls, þannig að verk hans stjórnist af því hvað hann álítur rétt og það hvað hann álítur rétt stjórnist af hlutlægum rökum, þetta er ef til vill eitt og hið sama þegar öllu er á botninn hvolft. Ég veit svo sem ekki frekar en aðrir hvað Jesú var að fara þegar hann sagði „sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa“ en ég get mér þess til að það hafi verið eitthvað í þessa veru, að réttsýni væri ein af forsendum frelsisins.
    Nú kann að virðast harla undarlegt að nota sama orðið yfir það að leika lausum hala og vera leyft að gera hvaðeina sem hugurinn girnist og um stillingu og réttsýni af því tagi sem sumir kenna við frjálsan vilja. Hvað tengir þetta saman? Ef til vill er mikilvægasta tengingin sú að menn upplifa bæði boð og bönn og þá ánauð hugans, sem kemur í veg fyrir að þeir stjórni sjálfum sé með vitlegum hætti, líkt og þetta væru hindranir eða fjötrar. Trúlega er fríháls eldri mynd orðsins frjáls. Sé þessi orðskýring rétt hefur frjáls upphaflega merkt að vera ekki með hlekki um hálsinn. Síðan hefur merkingin víkkað svo orðið nær nú einnig yfir að vera laus við hlekki og fjötra í myndhverfri eða óeiginlegri merkingu.
    Þessar ólíku gerðir frelsis tengjast einnig á annan veg, því þær standa allar í nánu sambandi við sjálfsvirðinguna. Henni er misboðið ef fólk fær ekki að stjórna sér sjálft heldur býr við endalausa afskiptasemi. Greiðasta leiðin til að sætta sig við ofríki er að temja sér einhvers konar þýlyndi eða undirlægjuhátt. Sjálfsvirðingunni er líka misboðið ef menn göslast áfram af drambsemi og óbilgirni og geta ekki séð hvað satt er og rétt og hagað sér í samræmi við það. Nú koma Kattahryggirnir enn í hug, því sjálfsvirðingin liggur um einstigi þar sem er gil á báðar hendur, þýlyndið á aðra og hrokinn á hina. Eitt af því sem þessar ólíku gerðir frelsis eiga sameiginlegt er að venjulegt fólk þarf að láta sér annt um þær allar til að halda jafnvægi á þeim tæpa stíg.