Atli Harðarson
Græningjaháttur

Árið 1962 kom út bók eftir bandaríska líffræðinginn Rachel Carson. Í íslenskri þýðingu (1965) kallast hún Raddir vorsins þagna. Með þessari bók urðu þáttaskil í stjórnmálum því síðan hafa áhrif græningja vaxið hröðum skrefum. Í bókinni hélt Carson því fram að notkun skordýraeiturs (einkum DDT) mundi útrýma mörgum fuglategundum (t.d. þröstum) og valda óbætanlegum skaða á umhverfinu. Græningjasamtök af ýmsu tagi tóku undir þennan málflutning og mæltu fyrir banni við notkun DDT. Einn fyrsti stórsigur þeirra á vettvangi stjórnmálanna vannst 1972 þegar DDT var bannað í Bandaríkjunum. Notkun þess hefur einnig verið bönnuð eða takmörkuð stórlega í mörgum öðrum löndum.
    Síðan 1972 hefur mönnum orðið ljóst að DDT var ekki eins hættulegt og Carson hélt fram. Hins vegar tókst víða að bæta heilsufar fólks og auka matvælaframleiðslu með notkun efnisins, enda er það ódýrt og auðvelt að nota það til að drepa skordýr sem breiða út sjúkdóma og eyðileggja akra. Áður en Indverjar hófu að nota DDT þjáðust tugmilljónir manna þar í landi af mýrarköldu (malaríu). Árið 1970 var næstum búið að útrýma mýrarköldu á Indlandi. Með notkun DDT tókst að bjarga ótölulegum fjölda manna víða um heim frá því að deyja úr sjúkdómum sem smitast með skordýrum.
    Síðan Raddir vorsins þagna hratt af stað fyrstu stórsókn græningja hafa þeir hvað eftir annað blásið í herlúðra og haldið í heilagt stríð. Þeir hafa t.d. knúið fram bann við hvalveiðum og bann við notkun freons sem var samþykkt í Bandaríkjunum upp úr 1990 því sumir töldu að það eyddi ósoni úr efri lögum gufuhvolfsins. Stærsta mál græningja fyrr og síðar eru þó tilraunir þeirra til að fá þjóðir heims til að draga úr brennslu á kolum, olíu og jarðgasi. Þessar tilraunir fengu fyrst byr undir báða vængi árið 1988. En þá hélt James Hansen, sem starfar hjá bandarísku geimvísindastofnuninni (NASA), því fram að það væri 99% öruggt að notkun manna á eldsneyti yki svo magn koldíoxíðs í andrúmsloftinu að hitastig á jörðinni mundi stórhækka með herfilegum afleiðingum.
    Nú 30 árum eftir að græningjum tókst að takmarka notkun DDT er mýrarkalda víða í sókn og þörf bænda, einkum í þriðja heiminum, fyrir ódýrt skordýraeitur hefur ekkert minnkað. Sigur græningja veldur fólki, einkum fátæku fólki, ansi þungum búsifjum. Þetta á ekki bara við um bannið við notkun DDT. Freon var m.a. notað á ísskápa og í loftkælikerfum húsa. Bann við notkun þess hækkar verð á ísskápum og dregur úr möguleikum fátækra þjóða til að eignast slík tæki og þess vegna deyja fleiri úr matareitrun og magakrabbameini en ella væri.
    Þegar saga þessa pólitíska hernaðar er skoðuð kemur á daginn að atburðarásin er yfirleitt svipuð. Fyrst kemur fram tilgáta um eitthvert efni. Í þeim dæmum sem hér hafa verið til umræðu eru þetta tilgátur um að DDT valdi því að skurn á eggjum fugla þynnist; Að hvalir séu viti gæddir og "söngur" þeirra sé mál af svipuðu tagi og menn tala; Freon eyði ósonlaginu og eyðing þess ógni lífi á jörðinni; Bruni á kolum, olíu og jarðgasi valdi því að hitastig á jörðinni hækki til muna.
    Þegar tilgáta er komin fram taka græningjasamtök af ýmsu tagi hana upp á sína arma og heimta að "náttúran njóti vafans". Vísindamenn svara gætilega þegar þeir eru spurðir álits, enda hæpið að fella afdráttarlausa dóma um nýlegar tilgátur. Svo er blásið í herlúðra beggja vegna Atlantshafs og bumbur barðar og safnað saman fólki sem hefur gaman af að mótmæla: gömlum hippum; uppgjafakommum; fólki sem hefur horn í síðu Vesturlanda, hvítra karlmanna, alþjóðlegra viðskipta, stórfyrirtækja eða kapítalisma.
    Mótmæli eru ein grein alþjóðaviðskipta og mótmælasamtök eiga hagsmuna að gæta eins og önnur stórfyrirtæki. Þegar þau hafa eitt sinn náð að fylkja liði og safna fé fyrir einhvern málstað þá halda þau honum fram löngu eftir að rök þrýtur (svona rétt eins og sumir tóbaksframleiðendur láta enn heita að sígarettur séu hvorki eitraðar né vanabindandi).
    Í sumum tilvikum sjá öflug fyrirtæki og ríkisstjórnir sér hag í að taka undir kröfur græningjaflokka. Eigendur stórfyrirtækja sem nota mikið af olíu, kolum og gasi mundu vafalaust fagna því að settar yrðu reglur sem takmörkuðu notkun slíks eldsneytis ef útblásturkvóti yrði seljanlegur og honum úthlutað í hlutfalli við brennslu eldsneytis á einhverju árabili. Slíkar hömlur á eldsneytisnotkun gætu í senn fært fyrirtækjum sem nú starfa mikil auðæfi og gert nýgræðingum í atvinnurekstri erfiðara að koma undir sig fótunum og þar með dregið úr líkum á að þeir sem fyrir eru þurfi að óttast samkeppni. Þeir sem á endanum tapa mestu á hömlum gegn eldsneytisnotkun eru væntanlega sams konar fólk og tapaði mestu á banni við notkun DDT og freons, óbreyttir almúgamenn.
    Þótt ný vísindaleg þekking bendi til að tilgáta sem græningjar hentu á lofti og gerðu að hugmyndfræðilegum grundvelli einhverra herferða séu í besta falli hálfsannleikur þá bakka þeir ekki. Það eru of miklir hagsmunir í húfi og í sumum tilvikum hafa þeir líka fengið öfluga hagsmunaaðila úr ýmsum áttum í lið með sér. Eftir því sem ég kemst næst gerir skynsamleg notkun DDT meira gagn en skaða. Þetta með eyðingu ósonlagsins var víst frekar hæpin tilgáta - "gatið" yfir suðurpólnum hefur líklega verið þar frá örófi alda og stækkað og minnkað eftir því hvernig vindurinn blés. Þeir sem gerst þekkja eru hættir að trúa því að stórhveli séu einhver sérstök gáfnaljós. Það hafa jafnvel komið fram rök fyrir því að full þörf sé að grisja suma hvalastofna til að koma í veg fyrir að þeir gangi of nærri öðru lífi í hafinu.
    Fyrir fjórtán árum var erfitt að andmæla fullyrðingum um að notkun á olíu, kolum og jarðgasi hækkaði hita á jörðinni. Rök sem hafa komið fram síðan benda þó til þess að áhrif manna á veðurfar séu hverfandi í samanburði við áhrifin af mismikilli útgeislun frá sólinni. Litla ísöld náði hámarki um 1700 og síðan hefur hiti á jörðinni farið hækkandi vegna aukinnar virkni sólar. Hugmyndir um að hitaaukning síðustu árin sé einkum vegna bruna á olíu, kolum og gasi gera ráð fyrir að frá 1700 og fram yfir 1900 (þegar menn tóku að nota þetta eldsneyti í stórum stíl) hafi jörðin hitnað af náttúrulegum orsökum en síðan hafi hitnun af mannavöldum tekið við. Þegar á það er litið að breytingar á hitastigi á seinni árum eru nokkurn veginn í takt við breytingar á útgeislun sólar er þetta ekki mjög trúlegt. Hins vegar er verulegt áhyggjuefni að tilraunir til að draga úr orkunotkun munu líklega hafa miklu verri afleiðingar fyrir efnahag manna og lífskjör en hvalveiðibann eða skorður við notkun DDT og freons.
    Allir sæmilega skynsamir menn vilja koma í veg fyrir að vatnsból séu eitruð, ræktarlandi og fiskimiðum spillt eða andrúmsloft mengað þannig að skaðað geti heilsu fólks. Flestum þykir líka rétt að vernda náttúruperlur og ég er ekki einn um að telja mikils virði að koma í veg fyrir gróðureyðingu og uppblástur. Skynsamleg náttúruvernd er í þágu almannahagsmuna. En stór hluti af pólitískum bægslagangi græningja þjónar engum réttmætum hagsmunum og maður spyr sig hvort það sé ef til vill mál til komið að þeir sem taka mannúðarstefnu og mannlega hagsmuni fram yfir blinda náttúrudýrkun og græningjahátt setji hnefann í borðið.