Atli Harðarson
Halur er heima hver

Árið 1999 kom út bók sem heitir Property and Freedom (Eignir og frelsi) eftir Richard Pipes. Höfundur er Bandaríkjamaður, prófessor í sagnfræði við Harvard háskóla og hefur m.a. ritað merkar bækur um sögu Rússlands.
    Pipes hefur viðað að sér miklum fróðleik um þróun eignarréttar og tengsl hans við samfélagsgerð og stjórnskipan. Frá fyrstu tíð hafa veiðimenn og safnarar helgað sér staði og hlunnindi. Frumstætt eignarhald af því tagi á sér sögu sem er eldri en mannkynið því mörg dýr merkja svæði til yfirráða. Með akuryrkju, verslun og borgamyndun þróaðist eignarréttur og var bundinn í lög. Fornir lagatextar sem þekktir eru allt frá tímum Hammurabi (um 1750 f. Kr) snúast að miklu leyti um eignarrétt og viðurlög við brotum gegn honum. Jarðneskar eigur hafa frá fyrstu tíð verið undirstaða velmegunar, gagnlegrar iðju og friðsamlegrar samvinnu. Sá skilningur að eignir styðji við sjálfstæði manna og sjálfsvirðingu er líka afgamall. Hans sér stað í ritum Aristótelesar frá fjórðu öld f. Kr. og í Hávamálum þar sem segir:

Bú er betra
þótt lítið sé,
halur er heima hver.
Blóðugt er hjarta
þeim er biðja skal
sér í mál hvert matar.
Mestur hluti af bók Pipes fjallar um hvernig þróun eignarréttar í Evrópu varð hornsteinn réttarríkis, almennra borgarréttinda og síðar lýðræðis. Á hámiðöldum naut borgarastétt í mörgum Evrópulöndum eignarréttar sem var óháður geðþóttavaldi landeigenda og aðals. Í krafti þessa höfðu borgarbúar samningsrétt, verslunar- og ferðafrelsi. Þeir voru undanþegnir kvaðavinnu og herskyldu og aðalsmenn gátu ekki refsað þeim án dóms og laga eins og alþýðu sveitanna. „Stadtluft macht frei“ („borgarloftið frelsar“) sögðu Þjóðverjar á miðöldum og það voru orð að sönnu, því borgarbúar nutu frelsis langt umfram sveitamenn og ánauðarbóndi sem bjó í eitt ár og einn dag innan borgarmarka var upp frá því frjáls maður. Hafi samkomulag lénsherra við landseta verið frækorn stjórnarskrárfestu og stjórnlaga í ríkjum nútímans þá voru réttindi borgara á miðöldum vísir að einstaklingshyggju, mannréttindum og réttarríki á seinni öldum.
    Þegar aukin miðstýring og einveldi komust í tísku í Vestur-Evrópu á sextándu og sautjándu öld reyndu kóngar að eigna sér lönd og fjármuni þegnanna. Jafnvel var látið svo heita að heilu þjóðirnar væru beinlínis eign konungs. Þessar nýjungar rákust á sterka hefð fyrir eignarrétti, frelsi og sjálfstjórn borgarbúa. Þróun réttarríkis og borgarlegra samfélagshátta var komin hvað lengst á Englandi og þar lyktaði stjórnmálaátökum sautjándu aldar svo að komið var á vísi að þingræði, borgarleg réttindi treystust í sessi og stór hluti þjóðarinar fékk notið þeirra. Hinu megin í álfunni, austur í Rússlandi, þróuðust mál á allt annan veg. Frá því Svíar stofnuðu Garðaríki á níundu öld var eignarréttur kaupahéðna þar skilgreindur og varinn af lögum en í Moskvuríkinu var vald þjóðhöfðingja algert bæði yfir fólki og fé. Þegar Ívan mikli sameinaði Rússland í eitt ríki seint á fimmtándu öld var komið á sömu skipan í Garðaríki og í Moskvu, þar sem stórfurstinn átti þegna sína og hafði nær ótakmarkað vald bæði yfir löndum þeirra og lausum aurum.
    Þeir sem vörðu sjálfstæðan eignarrétt borgara vestast í Evrópu höfðu betur í glímunni við kónga sem kröfðust alræðis og aðalsmenn sem vildu ótakmörkuð yfirráð yfir lægri stéttum. En í stað þess að bændur og sveitamenn í Rússlandi fengju smám saman hluta af þeim rétti sem borgarar höfðu notið varð staða borgarbúa eins og ánauðarbænda og sveitafólk glataði því litla sjálfstæði sem það hafði og varð eins og hverjir aðrir þrælar. Þarna álítur Pipes að sé upphafið að pólitískri ógæfu Rússa.
    Merkasti heimspekingur Englendinga á sautjándu öld var John Locke (1632-1704). Hann varð manna fyrstur til að skilja þær breytingar á eignarrétti sem fylgdu auknum viðskiptum og eflingu borgarastéttar. Í bók sinni, Ritgerð um ríkisvald, notar Locke hugtökin eign og eignaréttur yfir hvaðeina sem einstaklingur getur með réttu kallað sitt eigið, þ.á.m. líf sitt og hvers kyns réttindi. Locke áleit að eignarréttur sé eldri en ríkisvald og hann sé ekki skapaður af yfirvöldum, heldur séu yfirvöld sett á fót til að verja eignir og réttindi borgaranna. Samkvæmt skilningi hans er eignarréttur líka nátengdur frelsi manna, því ráði hver og einn sjálfur hvað hann gerir við uppskeru af akri sínum vegna þess að hann á akurinn, þá hlýtur sá sem á sjálfan sig eins að ráða hvernig hann ráðstafar lífi sínu. Þessar hugmyndir eru hluti af burðarvirkjum einstaklingshyggju og frjálslyndis sem hefur mótað samfélög Vesturlanda undanfarnar aldir og andmæli gegn þeim eru grunntónninn í málflutningi þeirra sem vilja kollvarpa borgaralegri samfélagsskipan.
    Ég hygg að ekki sé á neinn hallað þó sagt sé að Jean Jacques Rousseau (1712-1778) hafi átt mestan þátt í að snúa almenningsálitinu gegn eignarrétti. Hugmyndir hans um að séreign sé þrándur í götu fagurs mannlífs náðu útbreiðslu næstum heilli öld áður en Marx og Engels skrifuðu Kommúnistaávarpið. Stjórnmál nútímans búa enn að arfinum frá Locke og Rousseau. Annars vegar eru borgaraflokkar sem fylgja Locke og verja rétt einstaklinga til að komast yfir eignir og ráðstafa þeim að vild. Hins vegar eru eftirmenn Rousseau á vinstrivæng stjórnmálanna. (Vinstriflokkar í lýðræðisríkjum nútímans sækja mun meira til Rousseau en til Karls Marx). Lýðræðis- og velferðarsamfélög nútímans eru einhvers konar málamiðlun milli þessara flokka. Stór hluti allra verðmæta er í einkaeign og yfirvöld verja rétt einstaklinga yfir eignum sínum. Eignarréttur er þó takmarkaður í vaxandi mæli bæði af skattheimtu, sem hirðir víða helftina af því sem fólk aflar sér, og reglum um hvað menn mega gera við eignir sínar (t.d. hvernig þeir mega gera upp gömul hús, með hvaða skilmálum þeir mega kaupa og selja hluti eða í hvaða vistarverum þeim leyfist að nota reyktóbak).
    Undir lok bókar sinnar veltir Pipes því fyrir sér hvernig eignarrétti, frelsi og forræði manna yfir eigin lífi reiði af þegar ríkið ber í vaxandi mæli ábyrgð á velferð og afkomu almennings og skiptir sér meira og meira af því hvernig menn ráðstafa fé sínu. Um leið og hann skýrir þennan vanda og bendir á leiðir til að treysta eignarrétt almennra borgara varar hann við einföldum lausnum og segir að öfgafull frjálshyggja, sem ætlar ríkinu ekki að sjá um neitt, sé litlu nær því að vera raunhæfur kostur en kommúnismi þar sem ríkið sér um allt (bls. 284). Pipes lýkur umræðunni svo á orðum sem má þýða eitthvað á þessa leið (á bls. 291): „Þorri borgara í ríkjum nútímans hefur enga hugmynd um hverju þeir mega þakka frelsi sitt og velsæld. Þeir vita ekki að þessi lífsgæði eru afsprengi réttindabaráttu sem hefur staðið lengi og einkum snúist um rétt manna yfir eignum sínum. Það er því varla von að almenningur geri sér mikla grein fyrir því hvaða áhrif skerðing á eignarétti mun hafa á líf fólks þegar til langs tíma er litið.“