Atli Harðarson

Ein hugleiðing um hrísgrjónagraut með rúsínum og kanelsykri

Það er varla hægt að hugsa sér neitt öllu þjóðlegra en saltfisk með soðnum kartöflum og hrísgrjónagraut með rúsínum og kanelsykri í eftirmat? Samt er kartaflan amerísk jurt og saltið innflutt og varla hægt að ímynda sér margt sem er öllu fráleitara að framleiða hér á landi heldur en hrísgrjón, kanel og rúsínur. Fiskurinn er þó íslenskur að svo miklu leyti sem sjávardýr geta tilheyrt nokkru landi.
     Hvað fleira er annars þjóðlegt en saltfiskur og grjónagrautur? Kvæði Jónasar sem voru ort í Kaupmannahöfn undir ítölskum bragarháttum og áhrifum frá þýskri rómatík? Heiðlóan sem hann orti um er þó íslensk og huldukonan sem kallaði og bað hann að kveða. Og þó. Lóan er víst farfugl og huldukonan að hálfu í ætt við gyðjuna sem kvað fyrir Hómer. Kannski er Hallgrímur Pétursson enn þjóðlegri en Jónas. Sú guðfræði sem hann færði í ódauðleg ljóð er þó jafnfjarri því að vera íslensk eins og rómantíkin og kanelsykurinn. Innsýn Hallgríms í mannlegar þjáningar byggist kannski að nokkru á kynnum hans af kaghýddum og langsoltnum fátæklingum á þeim hrjóstrugu Suðurnesjum. En hún er ekki síður mótuð af helgisögnum austan úr Asíu.
     Hvað þá með Íslendingasögurnar, bækur Snorra Sturlusonar, eddukvæðin og önnur fornrit? Er þetta ekki eins þjóðlegt og vera má? Jú, rétt eins Hallgrímur, Jónas, Bach í Skálholti, Englar alheimsins og allt annað sem er dýrmætt og sérstakt í íslenskri menningu eru fornritin þjóðleg með því að vera annað og meira en bara þjóðleg. Sköpunargleðin og gróskan í þjóðmenningunni verða mest þar sem ólíkar hefðir mætast, heimamenn sjá sjálfa sig speglast í augum gestsins, nýr mælikvarði er lagður á kunnuglegan veruleika og gamalgróin hugtök takast á við nýjar aðstæður.
     Þessi skilningur á þjóðlegri meningu er ekki nýr. Hann birtist til dæmis milli línanna í ljóðabók sem heitir Fagra Veröld og kom út árið 1933. Þar sýnir skáldið Tómas okkur ekki kyrrstæðar myndir af lífi í sveit- og því síður segir hann þjóð sinni að leika „ein á hörpu íss og báls“- heldur yrkir um höfnina í Reykjavík:

Hér streymir örast í æðum þér blóðið,
ó, unga, rísandi borg!
Héðan flæðir sá fagnandi hraði,
sem fyllir þín stræti og torg.

Það býr mikil lífsgleði í þessu ljóði. En það flutti líka hollan boðskap og alvarleg umhugsunarefni á tímum þegar þjóðernishyggja og kommúnismi sóttu í sig veðrið og þeir sem töldu sig standa nær miðju í íslenskum stjórnmálum héldu fram öfgafullu andófi gegn borgarmenningu, þéttbýlismyndun og alþjóðlegum áhrifum.

Í huganum fjarlægar hafnir syngja.
Það hvíslar með lokkandi óm.
Rússland, Asía, England og Kína,
Afríka, Spánn og Róm. ?

Enn eiga kvæði Tómasar erindi við okkur, nú þegar sumir þeir sem telja sig málsvara menningarinnar andæfa alþjóðahyggju, innflutningi fólks og áhrifum frá siðum framandi landa. Sumt af þessu fólki er hægt að afgreiða sem frústreraða minnipokamenn, litla karla sem ná sér hvergi á strik. Það er kannski von að þeim finnist betra að kenna öðrum um en horfast í augu við eigin vesöld. Einu sinni bölsótuðust svona menn út í kapítalismann, heimsvaldastefnuna, þjóðfélagið. Nú er það alþjóðavæðing, útlendingar, stórfyrirtæki- allt sem er nógu framandi og allt sem þeir vita nógu lítið um til að geta notað það í trölla- og grýlusögur.
     En sumir málsvarar einangrunarstefnu og afdalamennsku virðast, að minnsta kosti við fyrstu kynni, vera af öðru sauðahúsi en dæmigerðir minnipokamenn. Í þessum hópi eru gáfumenn og spekingar sem passa sig að segja ekkert ljótt um innflytjendur frá þriðja heiminum en hafa þess stærri orð um Hollywoodmyndir, alþjóðleg stórfyrirtæki og skemmtanaiðnað. Fyrr á þessari öld var skammast út í amerískan djass. Því svartagallsrausi var svarað með eftirminnilegum hætti af konu sem ólst upp hér á Akranesi og hét Hallbjörg Bjarnadóttir.

     Upp á síðkastið hefir í blöðum og tímaritum einkum verið ráðist á djasstónlist og sýnir það að minnsta kosti að hún er orðin svo vinsæl hér á landi að hún er talin hættulegur keppinautur sígildrar tónlistar.
     En komast ekki báðar þessar tegundir tónlistar fyrir hér á landi? Skilja andstæðingar djassins ekki að hann er hingað kominn til dvalar og þroska, ekki sem andstæðingur heldur sem félagi og bróðir? …
     Er það nokkuð óeðlilegt að djassinn og flugvélin fylgist að eins og valsinn og rokokkóstíllinn fyrr meir?
(Tilv. í grein í Alþýðubl. frá sept. 1943 tekin úr bókinni
Hallbjörg - eftir sínu hjartans lagi eftir Stefán Jökulsson,
Rvk.  1989. Bls. 126-7)
    Söngur Hallbjargar varð frægur víða um lönd og telst nú með perlum íslenskrar tónlistar. Það þarf ekki að hlusta á hana nema einu sinni til að skilja að djass er ekkert síður þjóðlegur en rúsínugrauturinn og kvæði Jónasar. Þegar hún syngur „Björt mey og hrein“ rennur gamalt íslenskt lag saman við ameríska dægurtónlist og trumbuslátt sem hefur borist okkur eftir krókaleiðum sunnan frá Afríku. Og landinn hefur engu tapað. Það hefur bara aukist við þá auðlegð sem við getum kallað okkar og verið stolt af.
     Norðmennirnir sem fluttu hingað fyrir meira en þúsund árum glötuðu heldur ekki menningu sinni þótt þeir blönduðust Keltum, örðu nær, þessi blanda varð til þess að sögur og ljóð Norðurlandabúa urðu efniviður í heimsbókmenntir sem eru lesnar enn þann dag í dag. Við vitum ekki hvaða áhrif innflutningur fólks frá öðrum heimshlutum mun hafa hér á landi næstu áratugi en mér þykir miklu trúlegra að innflytjendur stuðli að varðveislu og eflingu „þjóðlegrar“ menningar heldur en að þeir eyði henni og spilli.
     Það er jafnmikilvægt fyrir menninguna eins og fyrir atvinnulífið að hingað komi fólk frá öðrum löndum hvort sem þau lönd heita Rússland, Asía, England og Kína eða Afríka, Spánn og Róm. Við vitum ekki hvað innflytjendur munu taka með sér af hugsun og háttalagi en trúlegt er að innan tíðar verði eitthvað af því orðið álíka þjóðlegt og rúsínugrauturinn, jafnvel komið á bekk með kvæðum Jónasar.