Atli Harðarson
Jón Prímus og Jón í Brauðhúsum

Kristnihald undir Jökli eftir Halldór Laxness kom út árið 1968. Þar segir frá séra Jóni Prímus, sem er íslenskur sveitaprestur undir Snæfellsjökli. Í upphafi sögunnar fær lesandi að vita að biskup landsins er ekkert ákaflega hrifinn af því hvernig Jón rækir embætti sitt. Hann kvað ekki hirða neitt um helgisiði og formsatriði og láta kirkjuna drabbast niður. Þegar líður á söguna kemur í ljós að stofnanir og valdakerfi kirkjunnar koma honum ekki við og hann gerir grín að guðfræðilegum lærdómi og fræðikenningum um yfirnáttúrulegan veruleika. Í stað þess að sinna venjulegum prestverkum gerir hann við prímusa, bilaðar skrár og jafnvel heilu frystihúsin. Hann járnar líka hross- neglir undir stóð fyrir utansóknarmenn.

Séra Jón:  Margir finna mér til foráttu að ég skuli bera moð fyrir ókunnuga gaddhesta og járna utansóknarstóð. Ég spyr: hvað er utansóknarstóð og hvað er innansóknarstóð? (Kristnihald undir Jökli, 1968 bls. 81)
Við fyrstu sýn virðist séra Jón bara dálítið skrýtinn íslenskur sveitakarl. Manni dettur jafnvel í hug að hann sé eitthvað ruglaður. En við nánari kynni verður lesanda ljóst að í öllum þeim fjölskrúðuga mannsöfnuði sem Halldór lýsir í Kristnihaldinu er enginn jafn laus við að vera ruglaður og Jón Prímus.
    Mér skilst að fólk sem þekkt hefur ágæta presta í Ólafsvík og víðar um land sjái ýmis líkindi með þeim og aðalpersónu Kristnihaldsins. Vel má vera að Jón Prímus eigi sér að einhverju leyti íslenskar fyrirmyndir. Ég held samt að hans helsta fyrirmynd hafi alið aldur sinn í Galíleu fyrir 2000 árum og Kristnihaldið sé, eins og söngleikurinn um Jesus Christ Superstar (sem var frumfluttur 1970) tilraun til að túlka söguna um Jesú fyrir blómabörn af „68-kynslóðinni“.
     Fjórum árum áður en Kristnihaldið kom út sendi Halldór frá sér smásagnasafn sem heitir Sjöstafakverið. Í þeirri bók er sagan um Jón í Brauðhúsum. Bæjarnafnið Betlehem merkir brauðhús og sá Jón sem sagt er frá átti lærisveina sem hétu Filpus og Andris. Sagan gerist eftir að meistarinn er látinn. Lærisveinarnir hittast á förnum vegi og taka tal saman.
Andris: Hvernig stendur á því að þetta skyldi koma fyrir okkur? Hefur heimurinn ekki staðið í meira en þúsund ár og á hann ekki eftir að standa lengi enn? Samt hefur einginn lifað neitt merkilegt nema við þessir nauðaómerkilegu menn. ... Nú langar mig að spyrja þig um dálítið sem ég hef svo oft verið að reyna að muna, Filpus: Hvernig voru lit í honum augum? Voru þau ekki áreiðanlega blá?
Filpus: Nú geingur fram af mér Andris, hvernig getur þér dottið í hug að segja að augun í honum hafi verið blá! ... Manstu ekki lengur hvað augun í honum voru hlý og djúp ? og brún?
Andris: En svart var þó á honum hárið.
Filpus: Svart? ... Hann sem hafði þetta mikla rauða hár! (Sjöstafakverið, 1964 bls.  165-6.)
Eitthvað gengur lærisveinunum erfiðlega að sjá meistarann í sama ljósi. Það eina sem þeir virðast sammála um er að kynni sín af honum séu það merkilegasta sem nokkru sinni hefur gerst.
Andris: Heldurðu Filpus að það sé nokkuð hæft í því að eitthvert fólk sé að hugsa um að stofna félag í minníngu hans? Ég mundi vilja ganga í svoleiðis félag. Hvaða fólk ætli þetta sé?
Filpus: Ekki mundi ég ganga í það félag. Þeir sem hvorki sáu hann né heyrðu skulu ekki koma til mín að fræða mig um hann. Sá maður sem aldrei las bók meðan hann lifði og gerði sér ekki aðeins óskrifandi menn að félögum, heldur einhverja þá mestu asna sem sögur fara af, einsog okkur, hann trúði hvorki á bækur né félög. (Bls. 167). ...
Andris: Þú ert þó ekki búinn að gleyma hvað hann sagði þegar hún Mæa þar sem við leigðum fór að halda framhjá kallinum sínum.
Filpus: Já og hvað sagði hann?
Andris: Hann sagði henni að syndga ekki framar.
Filpus: Þessu hefur áreiðanlega einhver logið upp. ... Um ekkert held ég honum hafi staðið jafnmikið á sama og það, með hvaða fyrirkomulagi fólk yki kyn sitt. ... Hann hló með þessari léttu skríkju að öllum hégóma. (Bls. 168-9)
Jón Prímus er svo nauðalíkur þeim Jóni sem Filpus man eftir að það getur ekki verið nein tilviljun. Ættarmót hans og Jesú frá Nasaret er líka augljóst og væri það jafnvel þótt við hefðum ekki Jón í Brauðhúsum til að brúa bilið milli þeirra. Eins og Jón Prímus gaf Jesú formsatriðum og guðfræðilegri þrætubók langt nef. Báðir tilheyra þeim fámenna hópi manna „sem eru svo ríkir að þeir hafa efni á að vera fátækir“ (bls. 302). Báðir lifa á fiski og brauði sem þeim er gefið og geta þrátt fyrir allsleysi sitt ævinlega miðlað öðrum af þessum kræsingum. Jón Prímus mettar að vísu ekki þúsundir manna en þegar hungrið sverfur að Umba (umboðsmanni biskups) á presturinn pottbrauð (bls. 86), lúðurikling (bls. 163) eða hákarl (bls. 293) að gefa honum með sér.
    Kenningar og fræðilegar útlistanir eru jafn fjarri Jóni Prímus og meistaranum frá Nasaret. Það litla sem þeir segja um himnaríki og almættið þræðir eitthvert einstigi milli ljóðrænu, kímni og djúprar speki. Í aðra röndina finnst manni að enginn heilvita maður geti tekið fullt mark á þeim en hefur samt eins og grun eða hugboð um að þetta sé ef til vill það eina sem er þess virði að vera tekið alvarlega. Það er haft eftir Jesú að himnaríki sé eins og mustarðskorn. Jón Prímus sagði að almættið sé eins og snjótittlingur sem öll veður hafa snúist gegn. (Bls. 112).
Umbi: Hvernig vitið þér að fuglinn sé almættið en ekki vindurinn?
Séra Jón: Af því frostbylur er sterkasta afl á Íslandi en snjótittlingur vesalastur af öllum hugdettum guðs. (Bls. 113)
Í Kristnihaldinu er fulltrúum ýmissa trúarkenninga stillt upp kringum Jón Prímus. Við kynnumst Dr. Sýngmann, sem hefur, eins og Dr. Helgi Pjeturss, búið til hátimbraðar kenningar um sálnaflakk í himingeimnum. Hann er málpípa spíritisma og annarra furðufræða og mesti spjátrungur og grautarhaus. Umbi er ímynd lúterskrar guðfræði. Guðrún Sæmundsdóttir (öðru nafni Úa) er brúður klerksins og persónugervingur kaþólsku kirkjunnar (sem er brúður Krists). Hún er öruggari með sig en Umbi og ekki eins ráðvillt. Samt fór hún á flakk með furðufræðingnum Sýngmann og villtist frá Jóni sínum. Þetta fólk sem þykist vita eitthvað meira um almættið en að það sé eins og snjótittlingur á það sammerkt að botna ósköp lítið í Jóni. Hann gerir góðlátlegt grín að ruglinu í því og heldur áfram að aðstoða nágranna sína við hversdagslegt amstur, eins og að járna hross og dytta að biluðum tækjum.