Atli Harðarson
„Konrólfrík“

Þegar Maastrichtsáttmálanum frá 1992 gekk í gildi breyttist Efnahagsbandalag Evrópu í Evrópusamband. Áratugina á undan, eða frá 1970, var aukning landsframleiðslu á mann í ríkjunum fimmtán sem mynda Evrópusambandið vel yfir 2% á ári. Þau drógu ört á Bandaríkin þar sem meðaltal fyrir árin 1970 til 1990 var milli 1,6% og 1,7%. Eftir stofnun Evrópusambandsins hægði á hagþróun í ríkjum þess og aukning landsframleiðslu á mann dróst töluvert aftur úr Bandaríkjunum. Á árunum 1990 til 1997 var hún áfram um 1,6% á ári í Bandaríkjunum en í Evrópusambandsríkjum fór hún niður í 1,2%. Til samanburðar má geta þess að meðaltal fyrir allan heiminn frá 1950 til loka tuttugustu aldar er rúm 2% á ári.*
    Með dýpri samruna Evrópusambandsríkja og upptöku sameiginlegs gjaldmiðils seig enn á ógæfuhliðina. Joseph E. Stiglitz, sem fékk Nóbelsverðlaunin í hagfræði 2001, segir í grein sem birtist í Morgunblaðinu 6. september 2003: „Hagvöxturinn í Evrulandi frá því að gjaldmiðillinn var tekinn upp fyrir hálfu fimmta ári hefur verið sáralítill og skammtímahorfurnar eru litlu betri. Samt var evrunni ætlað að örva hagvöxtinn með því að stuðla að lægri vöxtum og auknum fjárfestingum. Þótt þetta kunni að hafa gerst í nokkrum löndum hefur það ekki orðið raunin á evru-svæðinu í heild.“
    Eins og Stiglitz bendir á hefur efnahagur sumra landa í Evrópusambandinu batnað nokkuð eins og t.d. Írlands. Batnandi kjör þar í landi má að nokkru rekja til mikilla skattalækkana. (Tekjuskattur á Írlandi var milli 35% og 40% á flestar tekjur árið 1989 og var kominn niður í 22% til 24% árið 2000.) En þegar á heildina er litið hefur aukinn pólitískur samruni ekki orðið til að bæta kjör almennings í sambandslöndunum, öðru nær. Ekki er nóg með að hægt hafi á hagþróun í flestum ríkjum Evrópusambandsins. Þeim gengur líka illa að vinna á atvinnuleysi og fleiri félagslegum vandamálum.
    Í fjölmennustu ríkjum sambandsins hefur atvinnuleysið lengi verið nálægt 10% og um 40% þeirra sem eru atvinnulausir í þessum löndum hafa verið án vinnu í meira en ár. Sambærilegar tölur fyrir Bandaríkin eru um 5% atvinnuleysi og um 6% atvinnulausra þar hefur verið án vinnu í ár eða lengur. Síðan 1970 hafa orðið til um 57 milljónir nýrra starfa á almennum vinnumarkaði í Bandaríkjunum. Á sama tíma hefur fjöldi starfsmanna hjá einkafyrirtækjum í Evrópusambandslöndum nánast staðið í stað. Sú litla fjölgun starfa sem orðið hefur er að mestu hjá því opinbera.**
    Talsmenn Evrópusambandsins tala gjarna fjálglega um allar þær miklu efnahagslegu framfarir sem fylgja landamæralausum innri markaði, sameiginlegum gjaldmiðli og samræmdum reglum um viðskipti. En þótt þeir slái ný og ný met í sjálfshóli dragast ríki sambandsins æ lengra aftur úr Bandaríkjunum og fleiri iðnríkjum í efnahagslegu tilliti. Fjölmennustu ríkin í Evrópusambandinu bjuggu við ýmislegan hagstjórnarvanda fyrir stofnun þess. Pólitískur og efnahagslegur samruni sem fylgdi stofnun sambandsins átti að leysa þennan vanda. En hann hefur ekki minnkað heldur þvert á móti aukist. Þarna er eitthvað meira en lítið að. Þeir sem staldra við og reyna að átta sig á ástæðum þessa eru ekki sammála um neina eina skýringu. Sumir skella skuldinni á umfangsmikil velferðarkerfi. Aðrir benda á ósveigjanlegan vinnumarkað og reglugerðafargan og enn aðrir á að mennta- og rannsóknarstofnanir búi við fjársvelti og þröngan hag.
    Meðan sérfræðinga um efnahagsmál greinir á ættu leikmenn ef til vill að fullyrða sem minnst. Ég ætla samt að leyfa mér að giska á hvers vegna þetta basl er á efnahag Evrópusambandsins. Tilgáta mín er sú að þeir sem þar ráða ferðinni séu það sem heitir á vondu máli „kontrólfrík“, þ.e. menn sem mega hvergi sjá óreiðu, eða hömlulausa sköpun án þess að reyna strax að koma böndum á hana. Hvar sem fólk gerir eitthvað öðru vísi, víkur frá stöðlum eða fer inn á eitthvert svið sem engar reglur ná yfir finnst þeim að hið opinbera verði að gera eitthvað í málinu. Fyrir vikið fitnar regluverkið sem heyrir undir acquis communautaire eins og púkinn á fjósbitanum og er nú um hundraðþúsund blaðsíður. (Já, án gamans, löggjöf sambandsins fyllir um það bil eitt hundrað þúsund blaðsíður.) Sumar þessar reglur eru nógu vitlausar til að vera þokkalegt spaugstofuefni, t.d. bananareglugerðin sem hvað mest hefur verið skopast að. Hún er númer 2257 frá árinu 1994 og hægt að finna á vef sambandsins á http://europa.eu.int/eur-lex/en/search/search_lif.html. (Þegar síðan kemur upp þarf að slá ártalið 1994 og númerið 2257 inn í reitina sem merktir eru „Year“ og „Number“). Texti reglugerðarinnar er rúmar 5 blaðsíður og þar er meðal annars kveðið á um að bananar sem seldir eru ferskir í verslunum skuli ekki vera óhóflega bognir (í enskum texta reglugerðarinnar er notað orðalagið „free from ... abnormal curvature“). Bananar sem notaðir eru til iðnaðarframleiðslu, svo sem í aldinmauk, munu undanþegnir ákvæðinu.
    Nú kann mönnum að virðast sem reglugerð, um að bananar skuli ekki vera óhóflega bognir, sé harla léttvæg og ólíkleg til að hafa mikil áhrif til eða frá á efnahag heilla þjóða. En hvað ef bananabóndi kemst að því að ein plantan hjá honum ber bragðbetri og hollari banana en hinar en jafnframt töluvert bognari? Ætli hann reyni að nota hana til að kynbæta plöntustofninn hjá sér? Líklega ekki ef hann veit af reglugerðinni og sér ekki fram á að geta selt þessa bragðgóðu og hollu banana nema til iðnaðarframleiðslu. Ef bóndinn býr hins vegar í landi þar sem ekki hafa verið settar neinar bananareglugerðir er mun líklegra að hann fái líffræðinga og búsvísindamenn í lið með sér og reyni að hafa sem mest gagn af plöntunni góðu.
    Ef til vill er ósennilegt að nákvæmlega þetta gerist. En þegar komnar eru hundrað þúsund blaðsíður af reglum um alla skapaða hluti er næstum öruggt að eitthvað þessu líkt gerist og það dögum oftar. Drifkraftur efnahagslegra framfara er hjá fólki sem hefur augun opin og grípur ófyrirsjáanleg og óvænt tækifæri. Þéttriðið net reglugerða og smásmugulegs eftirlits dregur kjark og dug úr slíku fólki og veldur stöðnun, deyfð og drunga þar sem annars væri skapandi og fjörugt atvinnulíf.
    Hvort sem þessi tilgáta dugar til að skýra hversu illa gengur að bæta efnahag Evrópusambandslanda er ljóst að þýskir og franskir sósíaldemókratar og miðflokkar ráða að verulegu leyti ferðinni í sambandinu, og munu fá enn meiri ítök ef þau drög að stjórnarskrá sem liggja fyrir verða samþykkt. Það er einnig ljóst að þeim hefur gengið illa að leysa efnahagsleg vandamál í heimalöndum sínum. Mér finnst því fyrirkvíðanlegt í meira lagi ef þeir fara í enn auknum mæli að troða sinni mislukkuðu hagstjórn upp á restina af álfunni.

* Heimild: „Economic Development in OECD Countries during the 20th Century“ eftir G. M. Carmen og C. M. Teresa við háskólann í Santiago de Compostela á Spáni. Liggur frammi á www.usc.es/economet/eaa.htm.
** Heimild: „EU Enlargement - Costs, Benefits, and Strategies for Central and Eastern European Countries“ eftir M. L. Tupy. Liggur frammi á www.cato.org.