Atli Harðarson
Lýðræði

Hvernig þætti fólki ef almenningur kysi Alþingismenn á fjögurra ára fresti, þar til einn tiltekinn flokkur fengi hreinan meirihluta, þá væri aldrei aftur kosið? Ég held að fáum þætti þetta lýðræðislegt. Sá sem reynir að ná völdum í kosningum og sjá svo til þess að aldrei framar verði kosið er andvígur lýðræði.
    Sennilega getur engin ein stutt eða einföld skilgreining fangað alla þá margvíslegu merkingu sem lögð er í orðið lýðræði. En þótt ekki sé einhugur um nákvæma skilgreiningu er samkomulag um sum skilyrði sem stjórnskipan verður að uppfylla til að geta talist lýðræðisleg. Þessi skilyrði sem almennt samkomulag er um eru í grófum dráttum á þá leið að alþýðu manna sé frjálst að afla stjórnmálaskoðunum sínum fylgis, almennir borgarar megi óhindrað (og með ekki alltof löngu millibili) sækjast eftir æðstu völdum í ríkinu, allir geti nokkrum sinnum á ævinni haft áhrif á hverjir hljóta þau og valdhafar eigi það á hættu að vera settir af ef þeir afla sér mikilla óvinsælda. Stjórnskipan Íslands uppfyllir þessi skilyrði því hér hefur almenningur kosningarétt og kjörgengi til æðstu valda. Sú skipan að kjósa aftur og aftur þar til einn flokkur fær hreinan meirihluta uppfyllir þau hins vegar ekki, því eftir að umræddur flokkur næði meirihluta ættu almennir borgarar þess ekki kost að hafa áhrif á hverjir færu með æðsta vald í ríkinu.
    Því er oft haldið fram að stjórnskipan þurfi að standast fleiri kröfur til að geta talist lýðræðisleg. Sumir leggja t.d. áherslu á fullt tjáningarfrelsi, aðrir telja það geta samrýmst lýðræði að banna málflutning af einhverju tagi, t.d. hatursfullan áróður eins og stundum fylgir kynþáttafordómum. Sumir segja að fulltrúalýðræði sé ófullkomið og lýðræðið verði ekki algert nema almenningur kjósi um einstök mál. Þannig má lengi telja ágreiningsefni og ólíkar skoðanir um hvað lýðræði þarf að innifela. Sjálfur kalla ég sérhverja stjórnskipan lýðræðislega sem uppfyllir lágmarksskilyrðin sem hér voru talin og þokkalegt samkomulag er um.
    Þótt mönnum sýnist sitt hverjum um þjóðaratkvæðagreiðslur held ég samt að allir séu sammála um að þar sem tvær öndverðar skoðanir takast á ættu talsmenn beggja að eiga álíka möguleika á að leggja málið aftur í dóm þjóðarinnar. Hugsum okkur t.d. að ákveðið væri að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort núverandi kvótakerfi í sjávarútvegi skuli áfram við lýði eða tekið upp kerfi eins og Færeyingar búa við. Varla þætti nokkrum manni það lýðræðislegt ef ákveðið væri fyrirfram að kjósa um þetta einu sinni á ári þar til kvótakerfið fengist samþykkt og taka málið svo af dagskrá í eitt skipti fyrir öll.
    Kveikjan að þessum hugrenningum er atkvæðagreiðsla Dana um Maastrichtsáttmálann sumarið 1992. Árið 1972, þegar Danir gengu í ESB, mátti enn hugsa sér að það væri fríverslunarbandalag og samstarfsvettvangur fullvalda ríkja. Grundvöllur samstarfsins var Rómarsáttmálinn frá 1957 sem virtist hvorki skerða fullveldi né takmarka lýðræði í aðildarríkjunum að neinu ráði. En með Einingarlögum Evrópu (1987) og Maastrichsáttmálanum (1992) voru tekin af tvímæli um að stofnanir ESB skyldu hafa löggjafarvald í mörgum málum og ekki þyrfti einróma samþykki allra aðildarríkja til að lög sambandsins öðluðust gildi. Danir höfnuðu Maastrichtsáttmálanum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Af málflutningi þeirra sem vildu að Danir dönsuðu eftir pípu valdahafa í Brussell var ljóst að þeir mundu endurtaka atkvæðagreiðsluna þar til meira en helmingur segði já. Skemmst er frá því að segja að sáttmálinn var samþykktur af dönskum kjósendum í maí 1993. Eftir það hefur ekki verið kosið um málið og stendur ekki til að gera það. Nú virðist svipuð saga vera að endurtaka sig á Írlandi þar sem landsmenn felldu Nice-sáttmálann í þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Líklegt er að á næstu árum muni talsmenn ESB á Íslandi heimta þjóðaratkvæðagreiðslur um aðild að sambandinu. Ef einhver stundarvandræði vaxa mönnum í augum og þeim virðist um skeið sem hag sínum sé betur borgið með aðild að sambandinu þá er vel líklegt að kröfur um slíka atkvæðagreiðslu verði háværar og þá skyldu menn minnast þess að ef meiri hlutinn segir einu sinni já og landið gengur í ESB þá verður ekki aftur snúið. Þegar menn hafa eitt sinn gengið í björg er engin leið til baka. Þetta er eins og ef kosið væri til Alþingis aftur og aftur, þar til einn tiltekinn flokkur fengi hreinan meirihluta og síðan aldrei framar efnt til kosninga.
    Samningarnir sem ESB byggist á hafa engin uppsagnarákvæði. Að þessu leyti eru þeir ólíkir venjulegum milliríkjasamningum eins og t.d. samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sem Ísland er aðili að. Í 127. grein hans segir: "Sérhver samningsaðili getur sagt upp aðild sinni að samningi þessum að því tilskildu að hann veiti öðrum samningsaðilum að minnsta kosti tólf mánaða fyrirvara með skriflegum hætti." Ríki getur gengið úr EES. En það er engin lögleg leið fyrir ríki að segja einhliða upp sáttmálum ESB. Ef eitt ríki vill hætta þarf það til þess samþykki hinna. Þess vegna þýðir ekkert fyrir Dani sem vilja losna undan Maastrichtsáttmálanum að efna til enn einnar þjóðaratkvæðagreiðslu. Með aðild að ESB hefur lýðræði í Danmörku og fleiri ríkjum verið skert því æðsta vald í þessu máli er hvorki hjá almenningi né kjörnum fulltrúum hans. Þetta væri ef til vill sök sér ef ESB sjálfu væri stjórnað með lýðræðislegum hætti og almennir kjósendur í aðildarríkjunum veldu löggjafa þess. En Evrópuþingið, sem almenningur kýs, hefur aðeins lítinn hluta af löggjafarvaldi í ESB. Það er að mestu í höndum ráðherraráðs og framkvæmdastjórnar og þeir sem þar sitja eru ekki valdir af almenningi heldur þröngum hópi valdamanna.
    Lýðræði í Evrópu hefur löngum átt undir högg að sækja. Víða um austanverða álfuna hefur það nú staðið í áratug; aldarfjórðung á Spáni og í Portúgal; rúmlega hálfa öld í Vestur-Þýskalandi. Hvort sem menn vilja að samvinna Evrópuríkja verði meiri eða minni hlýtur það að vera áhyggjuefni hversu mjög ESB eflir pólitískt vald sem aldrei þarf að standa almennum kjósendum reikningsskap ráðsmennsku sinnar. Ef til vill þykir einhverjum að það lýðræði sem komist hefur á í Evrópu sé hvort sem er ófullkomið og takmarkað. Og víst er margt til í því, enda engin stjórnskipan sem við þekkjum gallalaus. Þó finnst mér vert að rifja upp að í öllum þeim mannskæðu styrjöldum sem háðar voru á 20. öld gerðist það að heita má aldrei að tvö lýðræðisríki létu sprengjum rigna hvort yfir annað. Alla öldina voru stjórnvöld hér og þar að strádrepa eigin þegna. Það er þó leitun að lýðræðislega kjörnum valdhöfum sem hafa framið fjöldamorð á kjósendum í eigin ríki. Síðast en ekki síst má telja það lýðræðinu til hróss að þar sem valdhafar eiga það undir atkvæðum  almennings hvort þeir fá að sitja lengur eða skemur eru nær engin dæmi um mannskæða hungursneyð á seinni árum.
    Sagan kennir okkur að lýðræði (þ.e. stjórnskipan sem uppfyllir lágmarksskilyrðin sem hér voru talin í upphafi máls) stuðlar miklu fremur að friði og velmegun en nokkur önnur stjórnskipan. Þeir sem vilja að þessi öld verði laus við mannfelli af hungri, fjöldamorð og styrjaldir af því tagi sem settu svip á þá síðustu, ættu því að standa vörð um lýðræðið og ekki ljá máls á að það verði skert eða takmarkað.