Atli Harðarson
Málverk bankanna

Meðal þess sem mest var býsnast yfir um miðbik nóvembermánaðar árið 2002 var að málverkum í eigu Búnaðarbanka og Landsbanka skyldi ekki skotið undan áður en ríkið seldi þá. Nokkrir þingmenn og allstór hópur fólks sem fjallaði um málið í fjölmiðlum lét að því liggja að þetta væri reginhneyksli.
    Ég veit lítið um málverk og enn minna um einkavæðingu á bönkum og ætla þess vegna ekki að dæma um hvort betra hefði verið að bankarnir losuðu sig við einhver listaverk áður en þeir voru keyptir. Ég ímynda mér þó að það væri heldur leiðinlegt fyrir starfsfólk og viðskiptavini ef myndir sem hangið hafa uppi í húsakynnum bankanna hyrfu þaðan nú þegar þeir skipta um eigendur. En þetta er ekki viðfangsefni mitt hér heldur hugmyndir um ríkisvald og ríkisfyrirtæki sem fram komu í máli þeirra sem stórorðastir voru um málverk bankanna.
    Nokkrir sögðu blákalt að málverkin hefðu verið eign allra landsmanna og nú væru þeir sviptir þessari eign sinni. Einnig var fullyrt að tryggja bæri að almenningur gæti notið listaverkanna og til þess yrðu þau áfram að vera í eigu ríkisins eða stofnana þess. Þeir sem lengst gengu létu að því liggja að hvaðeina sem ríkið á sé til sameiginlegrar ráðstöfunar fyrir alla landsmenn og ævinlega notað í almannaþágu. Fólk ætti þó að vita að engin þessara fullyrðinga nær því einu sinni að vera hálfsannleikur.
    Víst má til sanns vegar færa að eigur ríkisins tilheyri landsmönnum sameiginlega með einhverjum hætti. En þær eru ekki sameign í skilningi eignaréttar. Landsmenn eiga ríkisfyrirtæki ekki saman á þann hátt sem nokkrir menn geta átt t.d. bát eða hjón geta átt íbúð og innbú í sameiningu. Þeir sem eiga eitthvað í skilningi eignaréttar mega jafnan ráðstafa því, nota það, selja, leigja, lána, gefa, veðsetja, eftirláta erfingjum og njóta fulltingis lögreglu og dómstóla ef aðrir meina þeim að njóta þessara réttinda (t.d. með því að spilla eignum eða stela þeim). Sé mönnum fátt eða ekkert af þessu heimilt er ástæða til að vefengja að um raunverulegan eignarétt sé að ræða. Fallist menn á þennan skilning á eignarétti þarf varla að rökstyðja sérstaklega að eigur ríkisfyrirtækja eru ekki eign allra landsmanna í bókstaflegri merkingu.
    Ég get engan veginn haldið því fram að ég eigi brot af húsbúnaði Landspítalans eða munum Þjóðminjasafnsins nema ég noti sögnina að eiga um eitthvað annað en venjulegan eignarétt. Með þessu er ég alls ekki að segja að það sé rangt að nota þetta orð um annað en eignarétt. Það er oft gert, t.d. þegar sagt er að börn eigi foreldra eða að Íslendingar eigi merkar bókmenntir. Þegar sagt er að landsmenn eigi ríkisstofnanir er sögnin að eiga líka notuð um annað en eiginlegan eignarétt. Það sem átt er við er líklega eitthvað í þá veru að: Æðstu yfirmenn ríkisstofnana eru ráðherrar í ríkisstjórn sem þjóðkjörið þing hefur samþykkt; Flestar ríkisstofnanir starfa samkvæmt lögum sem eiga að tryggja að þær þjóni almannahag; Samhugur landsmanna og tilfinning fyrir sameiginlegu þjóðerni tengist ríkinu og stofnunum þess á ýmsa vegu. Allt er þetta merkilegt og mikilsvert en ekkert af þessu gefur samt tilefni til að ætla að málverk í eigu hlutafélags, þar sem ríkið á meira en helmings hlut, séu sameign allra landsmanna í skilningi eignarréttar. Ef þau tilheyra allri þjóðinni þá tilheyra þau henni eins og hver önnur menningarverðmæti sem ýmist eru ekki háð eignarétti (tungumál, siðir, þjóðlög, þjóðsögur, gamlar bókmenntir) eða eru í eigu einstaklinga (höfundaréttur á nýlegum hugverkum, merkar byggingar, málverk o.fl.) eða hins opinbera (t.d. verk á ýmsum söfnum í eigu ríkis og sveitarfélaga).
    Þeir sem álíta að almenningur eigi eigur ríkisstofnana virðast, a.m.k. sumir, hugsa sem svo að almenningur eigi ríkið og þar með allt sem ríkið á. En þetta er álíka rökleysa og að halda að ef Nonni litli á stóra bróður og stóri bróðir á bíl þá eigi Nonni litli bílinn. Ríkið er ekki eign almennings í skilningi eignaréttar neitt frekar en stóri bróðir er eign Nonna litla. En væri réttur almennings til að njóta listaverka, sem nú eru í eigu nýseldra banka, samt ekki betur tryggður ef þau væru seld eða gefin ríkisstofnun eins og t.d. Listasafni Íslands? Við þessari spurningu er ekkert einfalt svar. Eins og nú háttar eru sum af bestu listaverkum bankanna sýnileg almenningi sem heimsækir afgreiðslustaði þeirra. Sama má segja um verk í eigu ríkisrekinna menningarstofnana. Sum eru aðgengileg öllum, sum læst inni í geymslum. Þegar haldin er yfirlitssýning á verkum einhvers stórmeistara hanga jafnan hlið við hlið verk í opinberri eigu og verk í einkaeign sem lánuð eru til sýningarinnar. Svipað gildir þegar gefnar eru út listaverkabækur. Þær eru prýddar myndum af verkum í eigu ýmissa aðila. Hér hallast því lítt á. En þegar til langs tíma er litið er varðveisla mikilvægra listaverka trúlega best tryggð með því að þeim sé dreift nokkuð víða fremur en að einn aðili eigi þau flest eða öll. Sé bestu verkum stórmeistaranna safnað á einn stað þá getur slys eða voðverk grandað þeim öllum í senn.
    Almenningur kýs fulltrúa á löggjafarsamkomu og í sveitarstjórnir. Lengra nær eiginlegt vald borgaranna yfir ríkinu ekki og það er hrein fjarstæða að hvaðeina sem gert er fyrir tilstuðlan ríkisvaldsins sé í allra þökk eða þágu. Í ríkisrekstrinum finnast ýmis skúmaskot þar sem klíkur hafa komið sér fyrir við kjötkatla sem flest venjulegt fólk fær aldrei að koma nærri. En jafnvel þótt slík spilling væri úr sögunni hlytu stofnanir ríkisins áfram að lúta sínum eigin lögmálum. Þær eru að miklu leyti undir stjórn embættismanna og sérfræðinga og í flestum tilvikum er óhjákvæmilegt að reisa skorður við möguleikum almennra borgara á að hlutast til um rekstur þeirra eða ganga um þær eins og sína eigin eign. Það er því engan veginn augljóst að hver óbreyttur almúgamaður eigi þess betri kost að njóta listaverka sem ríkisfyrirtæki eiga heldur en sams konar verka í eigu annarra fyrirtækja og stofnana.
    Ef ríkisstofnun eignast málverk, sem áður var í einkafyrirtæki, þá fer verkið úr einni stofnun, sem almenningur hefur eftir atvikum greiðan eða ógreiðan aðgang að, í aðra stofnun þar sem almenningur hefur líka eftir atvikum takmarkaðan aðgang. Sé verkið í eigu banka getum við horft á það ef stjórnendum bankans þóknast að setja það upp í afgreiðslu. Sé það hins vegar í herbergjum sem eru lokuð almenningi getum við ekki skoðað það. Sama gildir um verk sem Listasafn Íslands á. Ef stjórnendur safnsins láta setja það upp í sýningarsal þá getum við skoðað það að vild, annars ekki. Þó er munur hér á. Verk í afgreiðslusal banka getum við skoðað endurgjaldslaust en við þurfum að greiða aðgangseyri að listasafninu. Málverkið í bankanum mætir augum fólks í daglegu amstri sem notar hádegishlé og kaffitíma til að skreppa með reikninga eða sinna öðrum erindum. Það á sinn þátt í að leysa daglegt líf úr álögum lágkúrulegs hversdagsleika. Flest listasöfn standa því miður einhvern veginn til hliðar við vettvang dagsins og fjær því mannlífi sem mest þarf á listrænum töfrum að halda.