Atli Harðarson

Upplýsingatækni og friðhelgi einkalífsins

Margir hafa áhyggjur af því að friðhelgi einkalífsins sé ógnað af söfnun og vélrænni úrvinnslu persónulegra upplýsinga. Öðrum þykja þessar áhyggjur kannski ástæðulausar og hugsa sem svo að það hafi alltaf verið hægt að afla upplýsinga um fólk og upplýsingatæknin breyti litlu þar um. Þetta held ég að sé hæpið. Fyrir nokkrum áratugum var nánast óvinnandi að njósna um fjölmenna hópa fólks með þeim hætti sem nú er hægt. Ef upplýsingum sem liggja fyrir á tölvutæku formi hjá fyrirtækjum og opinberum stofnunum væri safnað saman væri til dæmis vel hægt að skrifa út nokkurn veginn rétta lista yfir íbúðarhús þar sem veruleg verðmæti eru geymd og enginn verður heima næstu viku eða yfir heimilisföng innflytjenda frá Asíu.
     Við sem erum of saklaus til að láta okkur hugkvæmast nein not fyrir svona upplýsingar og auk þess of venjuleg til að nokkrum detti í hug að ofsækja okkur höfum kannski litlar áhyggjur af þessu. En sumir hafa samt áhyggjur og það ekki alveg að ástæðulausu. Nú til dags gerir það manni lítið til þó allir viti að hann sé gyðingættar. Fyrir 60 árum höfðu gyðingar í Evrópu tilefni til að  leyna uppruna sínum. Hvað verður eftir önnur 60 ár veit enginn. Fyrir fáeinum áratugum höfðu hommar og lesbíur ástæður til að fara leynt í ástarmálum. Nú er þeim nokkurn veginn óhætt að játa ást sína á almannafæri. Hvort svo verður enn að 10 árum liðnum veit enginn. Öfgar, fordómar og múgæsingar spretta stundum upp þar sem minnst varir og upplýsingar sem virðast sakleysislegar geta verið vopn í höndum glæpamanna eða ranglátra yfirvalda.
     Þetta ættu svo sem að vera nægar ástæður til að vera á varðbergi þegar upplýsingum um fólk er safnað í gagnagrunna að því fornspurðu. Mér finnst þó rétt að nefna líka að það er mönnum mikils virði að geta skammtað öðrum upplýsingar um sig jafnvel þótt þeir þurfi ekki að óttast neinar eiginlegar ofsóknir. Slík skömmtun á upplýsingum skilgreinir að miklu leyti stöðu manns gagnvart öðru fólki og gerir honum mögulegt að koma fram sem sjálfstæður einstaklingur.
     Stundum þurfa menn að segja meira en þeir kæra sig um. Þeir þurfa t.d. að segja lækni frá heilsuspillandi ósið sem þeir skammast sín fyrir, skattstjóra eða lánadrottnum frá tekjum sínum og afkomu. En spyrji skattstjórinn mann hvort hann sé latur að stunda líkamsrækt og vilji læknirinn kíkja á launamiða er hægt að svara þeim báðum að málið komi þeim ekki við. Við sýnum líka á okkur ólíkar hliðar, gefum ólíkar upplýsingar eftir því hvort við erum að tala við maka okkar, vini eða vinnufélaga. Menn bjóða öðrum vináttu með því að trúa þeim fyrir einhverju, segja þeim meira en hinum sem þeir ætla bara að umgangast sem vinnufélaga eða viðskiptavini. Menn játa ást sína með því að opinbera tilfinningar sem þeir segja öðrum ekki frá. Og síðan lifa ástin og vináttan á því að menn opni hug sinn umfram það sem þeir gera fyrir öðrum mönnum. Maður stendur ekki almennilega á eigin fótum sem sjálfstæður einstaklingur nema hann geti sjálfur skammtað upplýsingar um sig þannig að ástvinir fái mest, kunningjar minna, þeir sem eiga fagleg og formleg samskipti við hann það eitt sem þeim kemur við og sumt fái ef til enginn að vita.
      Ýmiss konar laumuspil er eðlilegur hluti af lífinu. Þess vegna þarf hver maður að geta stjórnað því, a.m.k. að einhverju marki, hvað aðrir fá að vita um hann og komist hjá því að persónulegar upplýsingar um hann séu skráðar og þeim dreift.
     Þetta var önnur hlið málsins. Hin hliðin er að þróuð upplýsingatækni vinnur gegn hnýsni og afskiptum af einkahögum fólks. Í umræðum um upplýsingatækni og friðhelgi einkalífsins er þessari hlið málsins yfirleitt gefinn minni gaumur en þeim ógnum sem stafa af söfnun og vélrænni úrvinnslu persónulegra gagna.
     Í öllum viðskiptum er þörf fyrir upplýsingar um einstaklinga. Menn þurfa að vita hverjum er treystandi og hverjum ekki, hverjir hafa áður boðið svikna vöru og hverjir hafa alltaf staðið við sitt. Í litlum steinaldarættflokki, þar sem allir þekkjast, er auðvelt að afla nauðsynlegra upplýsinga um náungann. Í flóknara samfélagi verða til stofnanir, siðir eða venjur til að koma þeim til skila.
     Í miðaldasamfélaginu sem lýst er í Íslendingasögum höfðu menn mikinn áhuga á ættfræði og fróðleik um fólk. Að einhverju leyti hefur þessi fróðleikur gegnt hagnýtu hlutverki, menn hafa t.d. notað hann til að forðast viðskipti við svikahrappa. Persónum fornsagna er mjög annt um orðspor sitt. Heiður er þeim meira virði en gull og gersemar. Þetta er skiljanlegt í ljósi þess að menn hafa hikað við að eiga viðskipti við ókunnuga nema fyrir lægju upplýsingar um heiðarleika, sannsögli og aðra siðferðilega verðleika. Nú til dags getur maður hins vegar farið á bílaleigu í útlöndum þar sem hann er öldungis ókunnugur og fengið bíl sem kostar meira en árslaun gegn tryggingu sem aðeins er brot af verði bílsins. Afgreiðslumaðurinn kallar ekki á óljúgfróð vitni og spyr hvort viðskiptavinurinn sé heiðursmaður eins og gert hefði verið á miðöldum. Hann lætur sér duga að biðja um persónuskilríki og greiðslukort. Í stað siðadóma, frásagna, ríkulegra og e.t.v. hlutdrægra upplýsinga framvísa menn korti eða skilríki með lágmarksupplýsingum sem staðfesta að þeir séu þeir sem þeir segjast vera og uppfylli skilyrði kortafyrirtækja.
     Kröfur um friðhelgi einkalífsins eru afsprengi tæknivædds borgarsamfélags. Fyrr á öldum fylgdust húsbændur ekki aðeins með að vinnufólk ynni verk sín, heldur öllu einkalífi þess. Prestar og hreppstjórar litu til með fólki, ekki bara að það gerði skyldur sínar eins og þær voru skilgreindar í lögum heldur að það hagaði sér á allan hátt „skikkanlega“. Sumir gátu að vísu búið einir að sínu án afskipta annarra. En menn gátu ekki stundað viðskipti og eða búið við flókna verkaskiptingu án þess að vera með nefið hver í annars koppi. Það var ekki til sú stjórnsýsla, skriffinnska og tækni sem þarf til að halda nauðsynlegum upplýsingum um menn til haga án þess að fylgjast með þeim í smáu og stóru. Nú til dags geta tæknivædd fyrirtæki hins vegar haldið skrá yfir það sem aðra varðar um en látið einstaklinga í friði með hvaðeina sem kemur öðrum ekki við. Ástæðan fyrir því að sá sem leigir mér bíl þarf ekki að hnýsast í einkalíf mitt er sú að hann treystir þeim knöppu og ópersónulegu upplýsingum sem lesa má af Visa kortinu mínu.
     Í tölvuvæddu nútímasamfélagi koma sértækar, stuttorðar og nánast stærðfræðilegar upplýsingar á prófskírteinum, greiðslukortum, vegabréfum og í gagnasöfnum af ýmsu tagi í staðinn fyrir almannaróm sem veit allt sem gerist og meira til og sífellt eftirlit nágranna, húsbænda og sálnahirðis. Friðhelgi einkalífsins er þannig á vissan hátt háð tilveru allþróaðrar upplýsingatækni.
     Þótt mikilvægt sé að verja rétt manna til að skammta sjálfir upplýsingar um sig og stjórna því að einhverju marki hvar þær lenda er ástæðulaust að sjá draug í hverju horni þótt gögnum um fólk sé haldið til haga. Það stuðlar ekki að friðhelgi einkalífs að banna eða takmarka mjög umsýslu með upplýsingar þegar þeir einstaklingar sem í hlut eiga eru henni samþykkir og láta gögnin í té af fúsum og frjálsum vilja. Best er að hver maður ráði því að sem mestu leyti sjálfur hvað aðrir fá að vita um hagi hans og hugðarefni.