Atli Harðarson
Rökin með styttingu

Undanfarið hafa allmargir mótmælt áformum stjórnvalda um styttingu á námstíma til stúdentsprófs. Tvennt er einkum fundið styttingunni til foráttu. Annað er að hún feli í sér „skerðingu“ á námi. Hitt er ekki beinlínis andmæli gegn því að stytta námið, heldur gegn stefnu sem var tekin með aðalnámskránni frá 1999 og er fram haldið í plöggum frá menntamálaráðuneytinu þar sem lýst er námsskipan á bóknámsbrautum eftir styttingu. Þessi stefna felur í sér að valfrelsi nemenda er miklu meira en var fyrir 1999. Þeir sem andæfa halda því fram að þetta leiði til þess að nemendur læri minna í lykilgreinum eins og stærðfræði og íslensku en þeir gerðu á árum áður.
   Með námskránni frá 1999 fækkaði einingum í stærðfræði og íslensku í brautarkjarna bóknámsbrauta. Stærðfræðin fór t.d. úr 15 í 6 einingar á félagsfræðibraut og úr 21 í 15 á náttúrufræðibraut. Íslenskan er nú 15 einingar á öllum brautum en var áður ýmist 17 eða 20. Á móti minna skyldunámi kom að nemendur gátu valið að taka þessar greinar sem hluta af kjörsviði. Um leið og skyldunámið var minnkað var þannig gefinn kostur á að læra mun meira í þessum greinum en áður var hægt.
   Við skólann þar sem ég starfa hafa verið tekin saman gögn um hvað útskrifaðir stúdentar hafa lokið mörgum einingum í stærðfræði og í ljós kom að á raungreinabrautum var meðaltalið 23 einingar fyrir breytingu á námskrá og er 23 enn þann dag í dag. Nemendur sem búa sig undir háskólanám þar sem þörf er á að nota stærðfræði læra semsagt jafnmikið í henni nú og áður. Einnig nýtir stór hluti nemenda við skólann hluta af kjörsviði til að bæta við áföngum í íslensku. Ég veit ekki hvort þetta er svona við aðra skóla. Meðan ekki liggja fyrir gögn um það þykir mér hæpið að fullyrða að aukið valfrelsi nemenda leiði til lakari menntunar í undirstöðugreinum.
   Hin aðfinnslan, að styttingin feli í sér skerðingu á námi, held ég að sé hreinn og klár misskilningur. Ef stúdentar verða búnir með 1 ár í háskóla á sama aldri og þeir eru nú að ljúka stúdentsprófi verður það sjálfsagt til þess að þeir kunni að meðaltali dálítið minna þegar þeir setja á sig stúdentshúfu. En ekkert bendir til að þetta valdi því að 19 ára námsmenn verði verr að sér og ekki heldur að þeir tvítugu verði minna menntaðir. Ef eitthvað er ætti menntunin að verða meiri ef nemendur eru búnir með 3 ára framhaldsskóla og 1 ár af háskóla um tvítugt heldur en nú þegar þeir eru búnir með 4 ár í framhaldsskóla en ekkert háskólanám á þeim aldri.
   Í umræðum um styttinguna er stundum látið eins og til standi að klippa fjórðung af bóknámsbrautum. En þegar fyrirhuguð lenging skólaársins er tekin með í reikninginn kemur í ljós að tillögur um styttingu námstíma fela í sér að framhaldsskólanám stúdenta minnki um sjöunda hluta, eða því sem næst. Rúman helming af þessum sjöunda hluta á að flytja niður í grunnskóla, enda er rúm fyrir meira efni þar því kennslustundum í grunnskólum hefur fjölgað talsvert á undanförnum árum. Það er því af og frá að til standi að minnka námsefni til stúdentsprófs um fjórðung. Ætli fjórtándi hluti sé ekki nær lagi.
   Háværustu rökin gegn styttingunni eru ekki mjög burðug. Hins vegar þykja mér rökin sem mæla með henni talsvert veigamikil. Hér ætla ég að segja lítillega frá 3 ástæðum til að fagna framkomnum hugmyndum um 3 ára bóknámsbrautir.
   Fyrst vil ég nefna þau rök að eins og stúdentsbrautir eru nú skilgreindar er duglegri hluti nemenda búinn með talsvert meira en 3/4 af þeim eftir 3 ár og fjórða árið fer að allt of miklu leyti í gauf eða vinnu með skóla. Stíf keyrsla í 3 ár er þessum nemendum trúlega hollari en að mævængja í framhaldsskóla heilt ár í viðbót.
   Í öðru lagi nefni ég að menntastefna fyrir nútímasamfélag ætti að greiða fyrir aukinni menntun á háskólastigi. Ég veit ekki hvað ræður mestu um hvenær nemendur hætta í háskóla en ég þykist vita að því eldri sem þeir eru þegar þeir byrja í framhaldsnámi því meiri líkur séu á að þeir hverfi úr skóla án þess að ljúka því. Sé þessi grunur minn réttur mun það eitt að útskrifa stúdenta ári fyrr valda því að fleiri ljúki masters- og doktorsgráðum.
   Þriðju rökin eru að stytting stúdentsnáms mun að öllum líkindum greiða fyrir því að fleiri gangi menntaveginn. Til að skilja þessi rök þurfum við að átta okkur á hvers vegna skólakerfinu er skipt í skólastig: Grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla.
   Hugsum okkur hóp 6 ára krakka sem hefja nám í sama skóla. Af þeim verður kannski einn læknir, einn rafvirki og einn kennari. Öll þessi börn geta verið saman í bekk nokkur ár. En þar kemur að leiðir skilja. Sá sem ætlar að verða rafvirki fer skóla þar sem er safnað saman úr mörgum grunnskólum, því í hverjum grunnskóla eru verðandi rafvirkjar svo fáir að það yrði dýrt að halda uppi kennslu fyrir þá eina. Skil milli grunn- og framhaldsskóla verða þegar leiðir jafnaldra greinast vegna ólíkrar sérhæfingar. (Ef aðeins væri einn grunnskóli í landinu þá þyrfti ekki að aðgreina grunn- og framhaldsskólastig. Allir verðandi rafvirkjar væru hvort sem er á sama stað allan tímann.)
   Fjögurra ára stúdentsnám mótaðist þegar aðeins 1 eða 2 skólar í landinu brautskráðu stúdenta. Þá voru nemendur sem ætluðu í háskóla saman í örfáum bekkjum og þorri þeirra á leið í akademískt nám. Nú er stór hluti þeirra á leið í háskólanám í greinum sem þá voru kenndar að öllu leyti á framhaldsskólastigi. Hópurinn sem tekur stúdentspróf nú er miklu sundurleitari en hann var þegar sú hefð mótaðist að stúdentsnám tæki 4 ár.
   Á næstu árum verður stúdentahópurinn vonandi enn sundurleitari, því það hlýtur að vera keppikefli að stærri hluti hvers árgangs fari í háskóla. Og rétt eins og háskólar nútímans eru margvíslegri en háskólar voru, þegar 68 kynslóðin var ekki orðin alveg eins íhaldssöm og hún er í dag, verða háskólar framtíðarinnar væntanlega enn sundurleitari en háskólar nú eru.
   Andstaða gegn áformum um styttingu náms til stúdentsprófs er mest í bekkjaskólum sem mótuðust meðan stúdentsnám var enn á svo fáum stöðum að skil milli framhaldsskóla og háskóla skiptu minna máli en nú. Mér sýnist að þeir sem andmæla styttingunni hvað ákafast vilji halda til streitu að sérhæfa stúdentsefni þannig að þau séu sérstaklega búin undir nám í nokkrum háakademískum háskóladeildum. Sá undirbúningur hentar aðeins litlum hluta af þeim sem útskrifast með stúdentspróf og það hlutfall fer lækkandi jafnframt því sem stúdentum fjölgar. Hann á því einfaldlega að flytjast úr framhaldsskólum í umræddar háskóladeildir. Þetta hefur nágrannaþjóðum okkar skilist og þetta ættu íslenskir skólamenn líka að geta skilið.
   Þessi þriðju rök fyrir því að stytta námið má draga saman á þá leið að stúdentsefni mynda margbreytilegri hóp nú en þegar fjögurra ára stúdentsnám mótaðist og því sundurleitari sem nemendur eru því fyrr skilja leiðir þeirra í náminu.
   Sá tími er löngu liðinn að allir verðandi háskólaborgarar séu saman í 1 eða 2 menntaskólum. Þeir sem vilja halda í námsskipan frá þeim tíma og sjá eftir liðinni „gullöld“ eru í raun að biðja um að menntamenn verði, eins og þá, aðeins lítill hluti af hverjum árgangi.