Atli Harðarson
Samkeppni milli framhaldsskóla

Markmið framhaldsskóla er að auka sem mest hæfni og kunnáttu nemenda í námsgreinunum sem kenndar eru. Með þessu er ekki útilokað að skólarnir hafi líka önnur hlutverk, aðeins fullyrt að þetta sé einn helsti tilgangur þeirra.
    Þó samkeppni milli fyrirtækja sé að öllum jafnaði til hagsbóta fyrir almenning er hægt að hugsa sér aðstæður þar sem samkeppni milli skóla vinnur beinlínis gegn því markmiði sem hér var tilgreint. Þessum aðstæðum má lýsa í fimm liðum:

  1. Hver skóli fær greitt eftir „afköstum“ þannig að því fleiri áföngum sem nemendur ljúka því meiri peninga fær skólinn.
  2. Nemendur geta sótt um inngöngu í hvaða skóla sem er og skipt um skóla.
  3. Þeim sem stjórna kennslu og námsmati í skólunum þykir eftirsóknarvert að sinn skóli fái sem mesta peninga.
  4. Hver skóli stjórnar sjálfur námsmati (t.d. hvað próf eru þung) og hefur vald til að ákvarða hvaða námsáföngum nemandi telst hafa lokið.
  5. Nemendur sækjast eftir að ljúka sem flestum námsáföngum með sem minnstri fyrirhöfn.
Undir þessum kringumstæðum vinnur samkeppni milli skóla gegn því að þeir reyni að auka hæfni eða kunnáttu nemenda með því að láta þá hafa mikið fyrir því að ljúka hverjum námsáfanga. Af öðrum og fimmta lið leiðir að nemendur sækja í skóla sem gera litlar kröfur; Af fjórða lið leiðir að skólar geta slegið af námskröfum; Af fyrsta og þriðja leiðir að þeir sem stjórna kennslu og námsmati sjá sér hag í að draga úr kröfum til að auka „afköst“.
    Það hlýtur að vera keppikefli þeirra sem ráða ferðinni í menntamálum að koma í veg fyrir að samkeppni milli skóla hafi þessar afleiðingar. En eru líkur á því? Er raunveruleg hætta á að veruleikinn álpist til að koma heim við öll þessi fimm atriði?
    Það sem nefnt er í fyrsta og öðrum lið er einfaldlega lýsing á veruleikanum eins og hann er. Nemendum er frjálst að sækja um skólavist í hvaða framhaldsskóla sem er og flakka milli skóla. Þeir geta meira að segja verið skráðir í einn skóla en tekið samt einn eða tvo áfanga við annan skóla. Skólarnir fá fé frá ríkinu eftir „afköstum“, þ.e. ríkið borgar þeim í hlutfalli við magn en ekki gæði. Reglan um úthlutun fjár til framhaldsskóla er í grófum dráttum á þá leið að skólarnir fá ákveðna fjárhæð fyrir hvern nemanda sem gengur til prófs í áfanga. Fjárhæðin er mishá eftir áföngum (t.d. hærri í verklegum greinum en bóklegum) en hún er óháð því hve vel efninu er komið til skila og hvað nemandinn nær góðu valdi á því.
    Lítum nú á þriðja lið. Laun flestra framhaldsskólakennara eru að mestu leyti óháð fjárhagslegri afkomu skólans sem þeir starfa við. Þeir fá greitt eftir kjarasamningi og laun þeirra hækka hvorki né lækka þó skólinn græði eða tapi. Þetta er þó að breytast, því frá og með upphafi árs 2001 hafa a.m.k. sumir framhaldsskólar samið við kennara um laun umfram taxta í kjarasamningi Kennarasambandsins. Haldi þróun frá miðstýrðum kjarasamningi (þ.e. samningi sem er eins fyrir alla skólana) til vinnustaðasamninga áfram má búast við að afkoma kennara verði í auknum mæli háð því að skólinn sem þeir starfa við sé þokkalega stæður. Jafnvel þótt haldið verði áfram að greiða laun eftir miðstýrðum kjarasamningi má ætla að kennarar hafi ýmsan hag af rúmum fjárráðum skóla. Peningar sem ekki fara í að hækka laun nýtast væntanlega til að bæta vinnuaðstöðu og aðbúnað á ýmsan hátt. Það má því ætla að skilyrðið í þriðja lið sé þegar uppfyllt að nokkru leyti og að það verki með auknum þunga jafnóðum og vinnustaðasamningar taka við af miðstýrðum kjarasamningum. Faglegur metnaður kennara og traustar hefðir í skólum geta e.t.v. enn um sinn staðið gegn því að þeir slái af námskröfum í von um fjárhagslegan ávinning. En þótt við trúum kennurum betur til þess en flestum mönnum öðrum að reisa sér vígi úr háleitum hugsjónum, skulum við ekki gleyma að enginn borgarveggur er svo hár að asni klyfjaður gullpeningum komist ekki yfir hann á endanum.
    Fjórði liður er fljótafgreiddur. Samkvæmt reglugerð um framhaldsskóla bera kennarar ábyrgð á námsmati og reyndin er víðast sú að kennarar, ýmist einir sér eða í hóp, ráða því hvaða kröfur nemendur þurfa að standast til að ljúka áfanga. Frá þessu eru þó undantekningar þar sem eru sveinspróf í iðngreinum. Þau eru samræmd og ekki á valdi kennara í einstökum skólum. Ennfremur er ráðgert að taka upp samræmd stúdentspróf í íslensku, ensku og stærðfræði á næstu árum. Ef haldið verður áfram að greiða skólum eftir afköstum, flakk nemenda milli skóla heldur áfram óhindrað og kennarar sækjast í auknum mæli eftir því að bæta fjárhagsstöðu skólanna kann að vera ástæða til að hafa samræmd próf í fleiri greinum en þessum þrem til að koma í veg fyrir að samkeppni grafi undan námskröfum og viðleitni til að auka kunnáttu og hæfni nemenda. Ég segi að þetta kunni að vera, enda hæpið að fullyrða meira fyrr en kannaðir hafa verið kostir á að forðast aðstæðurnar sem nefndar eru í hinum liðunum fjórum.
    Snúum okkur þá að fimmta lið. Trúlega eru sumir nemendur til í að slá slöku við þar sem þeir komast auðveldlega upp með það. Ég treysti mér ekki til að alhæfa um hvor  tilhneigingin vegur þyngra, löngun nemenda til að finna kröftum sínum viðnám í bröttustu brekkunum eða þreytan, letin, andleysið og annað sem dregur menn niður og fær þá til að þræða dalina. Nemandi sem býst við að taka inntökupróf í háskóla (eins og ráðgert er að taka upp við læknadeild Háskóla Íslands) eða hefja erfitt framhaldsnám sækist varla eftir að komast sem léttast gegnum áfangana sem búa hann undir það. Sama má segja um nemanda sem álítur meira virði að standast samræmt próf í námsgrein en að klára sem flesta áfanga í henni. Nemandi sem býst við að hefja störf í grein, þar sem kjarasamningar umbuna mönnum fyrir að hafa lokið miklu námi, óháð því hversu vel þeir kunna námsefnið, er hins vegar líklegri til að vilja ljúka hverjum áfanga með lítilli fyrirhöfn. Að hve miklu leyti þetta fimmta skilyrði er uppfyllt veltur semsagt á ýmsum aðstæðum.
    Ég held að það sé afar hæpið fyrir þá sem ráða ferðinni í skólamálum að treysta á að nemendur kjósi fremur brekkur en dalbotna. Þeir ættu frekar að einbeita sér að því að koma í veg fyrir að skilyrðin sem talin voru upp undir liðum 1 til 4 verði að veruleika öll í senn. Að minni hyggju hafa atriði númer 2 og 3 mikilvæga kosti. Frelsi nemenda til að velja skóla verður trúlega til þess fleiri fá kennslu sem hentar hæfileikum þeirra og áhugamálum. Með því að tengja hag kennara við afkomu skóla og flytja gerð kjarasamninga að einhverju leyti inn í stofnanirnar er hægt að umbuna þeim sem vinna vel og skapa hvetjandi umhverfi sem stuðlar að því að menn nýti hæfileika sína sem best. Til að víkja frá því sem lýst er í lið númer 4 þarf róttækar breytingar á starfi skólanna sem erfitt er að koma í kring. Það er því freistandi að leita leiða fram hjá þeim aðstæðum sem lýst er í lið 1 og finna aðra aðferð til að deila út fé til skóla en þá að borga aðeins fyrir magn en ekki gæði.