Atli Harðarson
Sjálfbær þróun

Upphafleg skilgreining á hugtakinu sjálfbær þróun (á ensku „sustainable development“) er í skýrslu sem heitir Our Common Future og var samin árið 1987 undir forystu Gro Harlem Brundtland, sem eitt sinn var formaður norska Verkamannaflokksins og forsætisráðherra í Noregi. Skilgreiningin er á þá leið að sjálfbær þróun sé í því fólgin að uppfylla þarfir núlifandi fólks án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á að uppfylla sínar þarfir.
    Sé þessi skilgreining tekin bókstaflega hlýtur hver heilvita maður að vera fylgjandi sjálfbærri þróun. Enda segir skilgreiningin að sjálfbær þróun sé nokkurn veginn það sama og efnahagsleg uppbygging sem bætir kjör núlifandi fólks og býr í haginn fyrir komandi kynslóðir. Við njótum betri kjara en foreldrar okkar afar og ömmur vegna þess að þau byggðu þorp og bæi, þurrkuðu mýrar, ræktuðu tún, lögðu vegi, smíðuðu brýr og hafnir, virkjuðu fallvötn, reistu verksmiðjur o.s.frv. Þessi uppbygging uppfyllti þarfir þeirra og stórbætti afkomumöguleika okkar sem á eftir komum. Samkvæmt skilgreiningu Brundtland hlýtur hún því að hafa verið sjálfbær í hæsta máta og vel það. En samt eru þeir sem tala mest um sjálfbæra þróun lítt hrifnir af efnahagslegri uppbyggingu, tæknivæðingu og hagvexti. Þeir virðast nota orðalagið í annarlegri merkingu sem er talsvert ólík þeirri sem felst í upphaflegu skilgreiningunni.
    Stundum virðast orðin „sjálfbær þróun“ helst notuð um atvinnuhætti sem hafa lítil eða engin áhrif á umhverfið eða hægt er að stunda öld fram af öld án þess aðföng klárist eða aðstæður breytist á einhvern sambærilegan hátt. Vart þarf að taka fram að slíkir atvinnuhættir eru í mörgum tilvikum hvorki líklegir til að uppfylla þarfir núlifandi fólks né komandi kynslóða. Að baki þessari notkun orðanna leynast oftar en ekki pólitískar kröfur um að menn raski hvergi neinu jafnvægi sem er til er í náttúrunni, breyti engu. Þessar kröfur eru vitaskuld eins óraunhæfar og mest getur verið. Allt líf setur mark sitt á umhverfið og þar er mannlífið engin undantekning. Lífsbarátta mannanna, fjölgun þeirra og sókn til betri kjara raskar óhjákvæmilega ýmislegu jafnvægi sem fyrir er. (Það hefur útbreiðsla annarra tegunda líka gert. Á mælikvarða jarðsögunnar er t.d. stutt síðan grasið gerbreytti ásýnd jarðarinnar.)
    Ef til vill trúa einhverjir því í hjartans einlægni að náttúran hafi verið í réttum skorðum fyrir daga mannsins eða fyrir daga iðn- og tæknivæðingar, að öll breyting á náttúrunni spilli henni, færi hana úr réttum skorðum og skerði þar með afkomumöguleika komandi kynslóða. En allt er í heiminum hverfult og náttúran og lífið á jörðinni hafa aldrei verið í neinum réttum skorðum, heldur sífelldum breytingum undirorpin. Sjálfbær þróun samkvæmt upphaflegri skilgreiningu Gro Harlem Brundtland hlýtur að fela í sér að menn reyni að hafa áhrif á þessar breytingar þannig að þær stuðli að batnandi hag fyrir þá sjálfa og afkomendur þeirra fremur en að gæta þess að grípa aldrei fram fyrir hendur á ómennskum náttúruöflum. Ef við viljum í fullri alvöru stuðla að sjálfbærri þróun, samkvæmt upprunalegri merkingu orðanna, þá eigum við ekki að forðast öll áhrif á umhverfið heldur gera greinarmun á jarðarbótum og umhverfisspjöllum. Jarðarbætur, eins og skógrækt eða gerð flóðvarnargarða, geta breytt umhverfinu mjög mikið og umhverfisspjöll geta stafað af aðgerðaleysi ekkert síður en stórframkvæmdum. Stundum spilla höfuðskepnurnar umhverfinu, t.d. með sandfoki eða vatnsflóðum án þess menn eigi þar hlut að máli. Það ætti að vera í anda sjálfbærrar þróunar að reyna hvað hægt er til að koma í veg fyrir slíkt.
    Hjá sumum býr ef til vill ekkert annað að baki en bláeyg trú á að ljótt sé að breyta sköpunarverkinu þegar þeir nota orðin „sjálfbær þróun“ í annarlegri merkingu um efnahagsstefnu sem getur ekki leitt af sér neitt nema eymd og örbirgð. En hjá öðrum hangir fleira á spýtunni: Ótti við hraða nútímans; óánægja með samfélag sem setur efnaleg gæði og hagvöxt ofar flestu öðru; spámannleg reiði yfir lýð sem sækist aðeins eftir hóglífi, munaði og auði sem mölur og ryð fá grandað. Á bak við málflutning þeirra sem tala hæst um sjálfbæra þróun, en eru samt á móti flestu því sem bætir kjör manna í bráð og lengd, býr oftar en ekki, að ég held, pólitísk sannfæring í þá veru að markaðshagkerfi, hagvöxtur og aukin efnaleg velsæld séu ekki eftirsóknarverð gæði. Það sé betra fyrir menn að lifa einföldu lífi við fábreyttan kost. Þeir sem hugsa á þessa leið eru sundurleit hjörð: Íhaldsmenn sem vilja varðveita gamalgróna lífshætti, nýaldarsinnar, græningjar og fólk sem elur með sér drauma um að lifa einföldu lífi í skauti náttúrunnar. Málflutningur þeirra snertir streng í brjósti margra sem dreymir um eitthvað blárra og eitthvað skírra en veruleikinn hefur upp á að bjóða. Samt greiða fáir atkvæði með stefnu þeirra. Þorri fólks vill allsnægtir og góðan efnahag og hafnar stjórnmálastefnum sem leiða af sér fátækt, basl og bágindi.
    Hvað gera pólitískir áróðursmenn þegar stefna þeirra á ekki upp á pallborðið ef henni er lýst opinskátt og heiðarlega? Oftar en ekki dulbúa þeir hana með því að nefna eitthvað sem þorri fólks hefur velþóknun á og sveigja merkingu orðanna að sinni eigin stefnu, trú eða skoðun. Ósamræmi milli þess hvernig hugtak eins og sjálfbær þróun er skilgreint og hvernig það er svo notað í reynd ætti því ekki að koma á óvart. Í pólitísku orðaskaki hafa menn löngum leikið þennan leik, að skilgreina hugtak þannig að það lýsi einhverju sem flestir telja gott og eftirsóknarvert, nota það svo á annan hátt en skilgreiningin segir og laða fólk þannig til fylgis við málstað sem fáum hugnast ef hann er borinn fram umbúðalaust.
    Stjórnmálasaga 20. aldar ætti að hafa kennt okkur að þótt við höfum mætur á einhverjum verðmætum eða teljum einhver markmið eftirsóknarverð er ekki þar með sagt að við eigum að fylgja þeim sem lofa þau með mestri mælgi og fagurgala eða þykjast jafnvel hafa einhvers konar pólitískan einkarétt á þeim. Á fyrri hluta aldarinnar töluðu þjóðernissinnar t.d. um varðveislu menningararfs og samfélagslegra gilda en meintu allt annað. Þeir notuðu sér að flestir hafa mætur á þessu erfðagóssi til að afla fylgis sem þeir notuðu til að grafa undan því dýrmætasta í menningu þjóða sinna eins og umburðarlyndi, friðsamlegum leiðum til að leysa ágreining og háttvísi á opinberum vettvangi.
    Það er ef til vill ósanngjarnt að líkja þeim sem nú tala mest um sjálfbæra þróun við öfga- og óaldaflokka frá fyrri helmingi 20. aldar. En það er samt grunsamlegt og lítt traustvekjandi hvernig þeir nota sér að flestir eru sammála um að uppfylla beri þarfir núlifandi fólks, án þess að skerða möguleika komandi kynslóða, til þess að afla fylgis við stefnu sem er hreint ekki líkleg til að uppfylla neinar mannlegar þarfir?