Atli Harðarson

Hvernig væri að kjósendur veldu skatthlutfall?

Oft er fundið að því að Alþingi sé of háð framkvæmdavaldinu og hafi lítið frumkvæði. Að baki þessu býr sú skoðun að valdinu skuli skipt þannig að kjörnir fulltrúar setji lög og standi vörð um almannahag en ríkisstjórnin vasist í alls konar framkvæmdum og hafi umsjón með að farið sé eftir lögunum.
     Þessar hugmyndir um skiptingu valdsins eru afsprengi frjálslyndrar stjórnspeki sem rekja má til enska heimspekingsins John Locke undir lok 17. aldar. Hún gerir ráð fyrir að samfélagið með félög sín og fyrirtæki sé að mestu óháð ríkinu. Það þurfi þó á ríkisvaldi, lögreglu og dómstólum að halda til að fólk fái frið fyrir ofbeldismönnum og deilur leiði ekki til stigvaxandi átaka. Ríkisvald sem er nógu öflugt til að stemma stigu við ofbeldi er líka nógu öflugt til að beita almenning ofríki og alltaf er hætta á að valdhafar freistist til þess. Til að bægja slíkum freistingum frá áttu kjörnir fulltrúar að setja stjórnvöldum reglur og ákveða hvað þau mættu leggja mikla skatta á landsmenn.
     Þessar kenningar eru hornsteinar þeirrar lýðræðislegu stjórnskipunar sem þróast hefur í Vestur Evrópu og Norður Ameríku. Það er því eðlilegt að menn hafi áhyggjur af óljósum skilum milli þings og ríkisstjórnar.
     Að minni hyggju helst samþætting löggjafar og framkvæmdavalds í hendur við það sem kalla mætti stjórnmálavæðingu samfélagsins. Það samfélag sem við byggjum er ekki óháð ríkisvaldinu í þeim mæli sem John Locke og aðrir upphafsmenn frjálshyggjunnar hugsuðu sér. Alla 20. öld hafa ríkisumsvif farið vaxandi. Ríkið rekur skóla, fjölmiðla, sjúkrahús, samgöngumannvirki og alls konar eftirlitsstofnanir. Stór hluti af löggjöf fjallar um starfsemi þessara stofnana svo löggjafinn verður að hafa verulegt samráð við þá sem bera ábyrgð á rekstri þeirra. Þetta þýðir ekki að Alþingi sé valdalaust. Þingmenn geta samþykkt vantraust á ríkisstjórn eða sett lög sem stjórnarráðinu eru lítt að skapi. En þeir geta ekki sett skilvirk lög um framkvæmdir og rekstur á vegum ríkisins án samvinnu við ráðherra, embættismenn og sérfræðinga. Þarna vinna þing og stjórnarráð því hlið við hlið með þeim afleiðingum að þingmennirnir koma ekki fram sem fulltrúar almennings gagnvart framkvæmdavaldinu heldur miklu fremur sem samverkamenn þess. Við þessar aðstæður liggur það nánast í hlutarins eðli að löggjafinn lítur ekki á það sem hlutverk sitt að takmarka opinber útgjöld heldur snúa framkvæmda- og löggjafarvald bökum saman í þeirri viðleitni að afla ríkinu sem mestra tekna.
     Nú kann sumum að þykja þetta gott og blessað en ég held að skattheimta sé komin á það stig að draga úr sköpunarmætti og aðlögunarhæfni samfélagsins auk þess að spilla efnalegri afkomu þorra fólks. En hér er við ramman reip að draga. Þingið sem upphaflega átti að standa gegn ásælni ríkisvaldsins er í liði með því.
     Ég býst við að flestir þingmenn sinni starfi sínu af lífi og sál. Sé starfið í því fólgið að stuðla að opinberum framkvæmdum í eigin kjördæmi eða styrkja einhver málefni þá mun þeim ætíð þykja þörf á meiri peningum. Dugmiklu fólki sem langar til að gera eitthvert gagn finnst alltaf að það þurfi meiri peninga. Þetta verður svo auðvitað til þess að venjulegir borgarar sem vilja verða ágætir af verkum sínum hafa minna fé handa á milli.
     Önnur ástæða fyrir háum sköttum er að þegar kosningar snúast um opinberar framkvæmdir og rekstur, ríkisstyrki og því um líkt fremur en almennar leikreglur reyna kjósendur að skara eld að eigin köku með því að styðja stjórnmálamenn sem lofa þeim sérstökum sporslum. Og frambjóðendur ganga á lagið. Þeir gefa kosningaloforð sem eru óhagstæð fyrir þorra fólks en mjög hagstæð fyrir einhvern hóp. Frambjóðandi sem lofar þúsund manna hópi hundrað milljón krónum tryggir sér atkvæði þeirra þúsund. Ef hundrað þúsund manna hópur þarf að borga kostnaðinn við uppátækið tapa þeir kannski 1.200 krónum hver. Það er of lítið til að ráða neinu um hvernig þeir greiða atkvæði. En margt smátt gerir eitt stórt og við búum nú við flókið kerfi styrkja, millifærslna, niðurgreiðslna og ívilnana. Ef stjórnmálaflokkur reynir að hrófla við einhverju af öllu þessu rísa þeir þúsund sem tapa upp á afturlappirnar með írafári og látum. Hinir 100.000 sem græða kannski 1.200 krónur hver segja ekki neitt. Það eru svo mörg svona kerfi í gangi að sennilega borga næstum allir meira en þeir fá til baka. Samt getur stjórnmálaflokkur ekki aukið fylgi sitt með því að lofa að afnema neitt eitt. Lýðræðið er lokað inni í vítahring.
     Þótt almenningur geti kosið milli ólíkra verkefna sem frambjóðendur lofa að styðja ráða kjósendur skelfing litlu um hvað þeir borga fyrir herlegheitin. Við erum komin óralangt frá þeirri upphaflegu hugmynd að skattheimta sé aðeins heimil að því marki sem almenningur samþykkir.
     Hvað er til ráða. Sumir hafa reynt að draga einhver mörk milli nauðsynlegra og þarflausra ríkisumsvifa. Þetta held ég að sé vonlaust verk. Mannlegar þarfir eru að mestu leyti óskrifað blað sem við fyllum út jafnóðum og við lifum lífinu. Það er hvergi hægt að draga nein mörk og segja, þetta er það sem við raunverulega þurfum, hitt er óþarfi. Það sem setur innkaupum og eyðslu okkar mörk eru ekki rök fyrir því hvað er nauðsynlegt og hvað ekki heldur takmörkuð auraráð. Um opinber útgjöld gegnir svipuðu máli og um einkaneysluna að því leyti að ekki er hægt að draga nein glögg mörk milli þess nauðsynlega og þess óþarfa. En þau eru ólík útgjöldum venjulegra heimila að því leyti að þeir sem ákveða þau þurfa ekki sjálfir að vinna fyrir peningunum.
     Það er engin leið að ákveða fyrirfram hvað stjórnvöld eiga að gera. En það er hægt að ákveða hvað þau fá mikla peninga og mér virðist réttast að kjósendur geri þetta sjálfir í almennum kosningum. Það mætti til dæmis hugsa sér að samhliða alþingis- og sveitarstjórnarkosningum yrði boðið upp á val milli óbreyttra skatta, 5% hækkunar og 5% lækkunar. Til að mæta óvæntum aðstæðum eða breyta skatthlutfalli hraðar en þessi tillaga gerir ráð fyrir ætti kannski að heimila meirihluta Alþingis eða sveitarstjórnar að setja fram fjórðu uppástunguna.
     Ef sveitarstjórn leggur á 10% útsvar velja kjósendur þá milli lækkunar í 9,5% (þ.e. um 5% af 10% sem er 0,5%), óbreytts hlutfalls og hækkunar upp í 10,5%. Við þingkosningar gætu menn á sama hátt kosið um tekjuskatt og virðisaukaskatt. Fái einn kostur meirihluta atkvæða er hann framkvæmdur. Erfiðara er að ákveða hvað gera skal ef enginn einn kostur fær hreinan meirihluta. Kannski er þá best að reikna vegið meðaltal.
     Þetta fyrirkomulag nýtur sín best þar sem skattareglur eru einfaldar og skatthlutfall það sama á allar tekjur (eða öll viðskipti ef um virðisaukaskatt er að ræða). Séu skattareglur flóknar og mikið um undanþágur er hætt við að niðurstöður verði aðrar en meirihluti manna ætlar. Þá verður líka hætta á að kjósendur reyni að finna leiðir til að verja atkvæði sínu þannig að þeirra eigin skattar lækki en aðrir borgi meira. En með einföldu skattakerfi þar sem allir greiða sama hlutfall af tekjum sínum er þetta trúlega besta leiðin til að færa almenningi eitthvað af þeim völdum sem ætlunin var að tryggja honum þegar tekið var að kjósa þjóðþing með lýðræðislegum hætti.