Atli Harðarson

Hvernig væri að selja inn í framhaldsskólana?

Ég hef kennt við framhaldsskóla síðan haustið 1986. Með árunum hefur sú hugsun orðið áleitnari hvort það sé ekki óttaleg vitleysa af ríkinu að reka  framhaldsskóla og láta þá bjóða þjónustu sína endurgjaldslaust eða því sem næst.
     Til að fyrirbyggja misskilning er rétt að taka það fram í upphafi máls að ég álít að flestir íslenskir framhaldsskólar séu nokkuð góðir. Frumkvæði og dugnaður kennara og annarra starfsmanna fær að njóta sín og unglingar sem hafa áhuga á að læra finna flestir nám við sitt hæfi enda er skólakerfið hér á landi fremur sveigjanlegt og miðstýring minni heldur en í mörgum nálægum löndum. En það er samt hægt að gera betur.
     Í „ókeypis“ framhaldsskóla líta nemendur yfirleitt ekki á kennsluna sem verðmæti. Þetta leiðir bæði til þess að mörgum unglingum þykir sjálfsagt að skrá sig í nám án þess að ætla sér í raun og veru að fullnýta þjónustu skólans og þess að nemendur gera heldur litlar kröfur til skólanna. Stundum fást t.d. ekki nógu vel menntaðir og hæfir kennarar og þá eru einhverjir fengnir til að redda málunum þótt þeir ráði ekki almennilega við það. Og nemendur sætta sig við að þjónusta skólans sé slök á einhverjum sviðum, vegna þess að þeim finnst þeir ekki kosta neinu til.
     Allir sem hafa fengist við kennslu vita að það er hægt að komast miklu lengra með hóp sem er ákveðinn í að læra og fullnýta þá kennslu sem býðst heldur en með hóp þar sem sumir vilja læra en sumir vilja heldur slugsa og slóra og reyna jafnvel að tefja fyrir hinum. Ef nemendur greiddu fyrir kennsluna er ólíklegt að margir tímdu að láta hana verða til einskis gagns og hætt er við að þeir sem stæðu í að trufla hana öfluðu sér lítilla vinsælda í hópi jafnaldra sinna. Það yrði að öllum líkindum betri vinnuandi í skólunum.
     Það er mikið talað um brotthvarf nemenda úr framhaldsskólum. Á hverju hausti innritast fjöldi unglinga sem lýkur aðeins broti af þeim áföngum sem þeir skrá sig í og hætta í skóla eftir eina, tvær eða þrjár annir. Sumt þetta fólk á einfaldlega erfitt með nám. En ég held að þeir séu að minnsta kosti jafn margir sem ná engum árangri vegna þess að þeir eru að þvælast í skóla án þess að ætla sér í raun og veru að læra. Þeir eru þarna bara til að gera eins og hinir, eða til að þurfa ekki að vinna, eða vegna þess að þetta er ódýrasta og auðveldasta leiðin til að sljóvgast árekstralítið gegnum tilveruna. Kjörorð þessara nemenda gæti verið: „þræðum dalina“ og ef helst er hægt að forðast brekkur með því að hanga í skóla gera þeir það. Það kostar þá ekki mikið. Þeir borga ekki sína skólagöngu og það bitnar ekki á þeim heldur á hinum sem vilja læra ef „standardinn“ í skólunum lækkar.
     Nú veit ég ekki hvað eitt námsár í framhaldsskóla kostar en það hljóta að vera nokkur hundruð þúsund. Ef menn þyrftu að borga þetta úr eigin vasa þá yrðu sumir að neita sér um menntun vegna blankheita svo ef til vill hugsa einhverjir sem svo að betra sé að búa við ókostina sem fylgja „ókeypis“ skólum heldur en að hætta á að menntun verði aðeins fyrir börn efnamanna. En það er hægt að sameina kosti „ókeypis“ skóla og venjulegra viðskipta þar sem menn reyna að fá sem mest fyrir peningana. Leiðin til að gera þetta er stundum kölluð „ávísanakerfi“. Hér á landi hefur þessi hugmynd m.a. verið kynnt af Guðmundi Heiðari Frímannssyni forstöðumanni kennaradeildar Háskólans á Akureyri.
     Ein möguleg útfærsla gæti verið á þessa leið. Hver nemandi sem lýkur grunnskólanámi fær 9 ávísanir frá ríkinu sem hver um sig dugar til að greiða fyrir eina önn í framhaldsskóla. Til að byrja með gæti ríkið skrifað ávísanir upp á álíka upphæð og nú kostar að reka framhaldsskólana, þetta þyrfti því hvorki að auka né minnka útgjöld þess. Unglingarnir geta svo notað peningana til að mennta sig. Þeir sem ljúka framhaldsskóla á 7 önnum eiga tvær ávísanir eftir þegar þeir útskrifast. Þeir sem fara alls ekkert í skóla eða hætta eftir fáar annir eiga ávísanir sem er eðlilegast að þeir geti skipt í venjulega peninga að einhverjum árum liðnum, t.d. við 20 eða 25 ára aldur. Þeir sem hefja lífsbaráttuna án prófa og pappíra fá þá ofurlítið forskot. En þeir sem eru meira en 9 annir að ljúka námi þurfa sjálfir að borga hluta af skólagöngunni með öðru fé en ávísunum frá ríkinu.
     Við þessar aðstæður mun þeim sem setjast á skólabekk í framhaldsskóla finnast þeir hafa tekið mikilvæga ákvörðun. Menn hika væntanlega við að eyða mörg hundruð þúsundum bara til að fljóta með straumnum. Nemendur munu líka forðast það í lengstu lög að slugsa svo heilu annirnar fari til ónýtis og þeir endi með að þurfa að borga lok skólagöngunnar úr eigin vasa.
     Ætli sú hagsýni sem flestum mönnum er í blóð borin verði ekki til þess að unglingar reyni að fá sem mest fyrir ávísanirnar sínar og skólar sem bjóða góða menntun laði til sín marga nemendur en hinir lakari hverfi? Ríkið mundi ef til vill reyna að selja skólana sem það á. Það gæti líka breytt þeim í sjálfseignarstofnanir eða átt þá áfram en þeir yrðu þá í samkeppni við skóla í eigu annarra.
     Trúlega skilar þessi leið kennurum meiru í budduna heldur en þref við fjármálaráðuneytið? Samkeppni milli skóla verður nær óhjákvæmilega að samkeppni um kennara og mér finnst mjög trúlegt að við slíkar aðstæður verði kennarahæfileikar metnir til talsvert meira fjár en ríkið borgar starfsmönnum sínum.
     Það er engin leið að sjá fyrir allar afleiðingar þess að taka upp svona ávísanakerfi. Kannski fara að birtast auglýsingar frá skólum: Borgið 7 annir fyrirfram og fáið 8. önnina frítt; Innritist í trésmíði hjá okkur og fáið rafsuðunámskeið í kaupbæti. Kannski munu sumir skólar taka hærri skólagjöld en svo að ávísanirnar frá ríkinu dugi og aðrir veita afslátt. Kannski munu sumir bjóða upp á samvinnu við fyrirtæki sem veita starfsþjálfun, aðrir einbeita sér að því að búa fólk undir hefðbundið stúdentspróf og einhverjir taka upp á nýbreytni sem engum hefur enn komið til hugar.
     Á svona markaði, eins og alls staðar þar sem sköpunarkraftur stjórnleysisins fær að njóta sín, má búast við óvæntum nýjungum, uppfinningasemi og djörfum tilraunum svo líklega uppskerum við ekki bara skóla sem eru betri samkvæmt hefðbundnum mælikvörðum heldur líka enn meiri fjölbreytni og sveigjanleika en við höfum notið til þessa.