Atli Harðarson
Stúdentspróf 18 ára

Hér á landi tekur nám til stúdentsprófs að jafnaði 14 ár, þar af 10 í grunnskóla og 4 í framhaldsskóla. Þeir sem hefja skólagöngu á sjötta aldursári og fylgja straumnum ljúka því stúdentsprófi á tuttugasta ári. Í flestum nágrannalöndum okkar, beggja vegna Atlandshafs, mun algengast að menn ljúki námi sem veitir rétt til inngöngu í háskóla á átjánda eða nítjánda aldursári. Af þessu skyldu menn þó ekki álykta að íslenskir nemendur séu einu eða tveim árum á eftir jafnöldrum sínum í öðrum löndum. Sé skólakerfi hér t.d. borið saman við Bandaríkin kemur í ljós að tvítugur íslenskur stúdent hefur að jafnaði lokið meira námi en sá sem klárar bandarískan „high school“ átján ára. Hér munar mest um hvað Íslendingurinn hefur lært mikið meira í erlendum tungumálum. Þegar í háskóla kemur tapar bandaríski neminn gjarna hálfu forskoti sínu á þann íslenska því hér á landi er algengast að nám til B.A. eða B.S. prófs taki 3 ár en í Bandaríkjunum tekur það að jafnaði 4 ár og þar í landi stunda flestir háskólanemar á fyrsta ári nám sem svipar til lokaáfanga á stúdentsbrautum við íslenska framhaldsskóla.
    Á vegum menntamálaráðuneytisins er nú unnið að tillögum um styttingu námstíma til stúdentsprófs. Þótt það sé mikil einföldun að halda því fram að íslenskir stúdentar séu heilu ári eða jafnvel tveim árum á eftir jafnöldrum sínum í öðrum löndum finnst mér rétt að fagna þessari viðleitni ráðuneytisins. Það getur ekki verið markmið okkar að átján ára stúdentsefni hér á landi kunni næstum jafn mikið og jafnaldrar þeirra í öðrum löndum. Við hljótum að setja markið hærra og ætla þeim að standa upp úr meðalmennskunni. Sá sem ekki keppir að efsta sæti í fyrstu deild endar á botninum í þeirri þriðju eða fjórðu áður en hann veit af.
    Þótt ég sé sammála því að stytta skuli nám til stúdentsprófs finnst mér rétt að vara við þeirri leið að markinu sem hvað mest hefur verið rætt um síðan menntamálaráðuneytið hélt ráðstefnu um efnið í febrúar á þessu ári. Þessi leið er að hafa grunnskólann nokkurn veginn óbreyttan en stytta framhaldsskólann um eitt ár.
    Síðan 1986 hef ég starfað við Fjölbrautaskólann á Akranesi sem tekur við afar sundurleitum hópi unglinga og býður bæði upp á bóknám til stúdentsprófs, iðnnám, nám á ýmsum starfstengdum brautum og almenna námsbraut fyrir þá sem hafa ekki náð tökum á námsefninu í efri bekkjum grunnskólans. Skólinn veitir nemendum mjög mikið frelsi til að velja bæði um samsetningu náms og hversu mikið þeir nema á hverri önn. Sumir nýta þetta frelsi til að taka yfir 20 einingar af erfiðu námi á hverri önn. Aðrir byrja á áföngum sem eru fyrst og fremst upprifjun á efni grunnskólans og klára þetta 9 til 12 einingar á önn.
    Stúdentsbrautirnar eru 140 einingar og þær eru settar upp sem fjögurra ára brautir (þótt nokkrir ljúki þeim á skemmri tíma og nokkrir séu lengur með þær). Þetta þýðir að stúdentsefni ljúka að meðaltali 17,5 einingum á önn. Aðrar námsbrautir eru styttri. T.d. eru margar iðnbrautir þrjú ár í skóla, þótt nemendur ljúki ekki sveinsprófi fyrr en eftir fjögur ár, því eftir nám í skóla þurfa þeir að starfa við iðn sína áður en þeir taka sveinspróf. Þótt stúdentsbrautirnar séu lengstar eru stúdentarnir að jafnaði heldur yngri en þeir sem útskrifast af öðrum brautum. Skýringin á þessu er að þeir sem taka stúdentspróf ljúka að jafnaði fleiri námseiningum á hverri önn en hinir. Þeim er eðlilegt að hafa afköst sem eru talsvert meiri en í meðallagi.
    Þegar nemendur, sem hafa haldið hópinn í grunnskóla í heilan áratug, koma í framhaldsskóla dregur mjög hratt í sundur með þeim - svo hratt að það getur alls ekki verið að þeir hafi allir átt samleið í námi á síðustu árum grunnskólans.
    Þegar sextán ára unglingum er leyft að velja hve mikið þeir læra á hverri önn kýs stór hluti þeirra af fúsum og frjálsum vilja að læra tvöfalt meira en aðrir ráða við þótt þeir leggi sig alla fram. Hvað var þetta fólk að gera saman í efstu bekkjum grunnskóla? Það gefur auga leið að námsefni fyrir áttunda, níunda og tíunda bekk sem miðar við einhvers konar meðalungling er í senn allt of létt fyrir þá sem fljúga á fullri ferð eftir bóknámsbrautum til stúdentsprófs, þegar þeir koma í framhaldsskóla, og allt of þungt fyrir þá sem eiga í basli með upprifjunaráfanga á almennri námsbraut.
    Fyrir miðjan áttunda áratug síðustu aldar var ekki talað um grunnskóla heldur barnaskóla (fyrir 7 til 12 ára) og miðskóla eða unglingadeildir (fyrir þá sem voru orðnir 13 ára). Hægt var að ljúka þriggja ára miðskólanámi með samræmdu prófi sem kallaðist landspróf. Einnig var hægt að ljúka miðskóla á fjórum árum og taka þá gagnfræðapróf. Á árunum upp úr 1970 veittu bæði þessi próf rétt til inngöngu á stúdentsbrautir framhaldsskóla. Á þessum árum hófu flestir stúdentsnám eftir 9 (þ.e. 6 + 3) ára skólagöngu en þó nokkrir eftir 10 (þ.e. 6 + 4) ár. Eftir því sem ég kemst næst gafst þetta fyrirkomulag nokkuð vel og ég held að þeir sem leggja á ráðin um styttingu náms til stúdentsprófs ættu að hyggja vel að reynslunni frá upphafi áttunda áratugarins.
    Grunnskólakrakkar taka samræmd próf í sjöunda bekk. Hugsum okkur að niðurstöður þeirra prófa verði notaðar til að skipta hópnum í tvennt: Annar hlutinn (sem e.t.v. verður um þriðjungur af árgangi) gengst undir samræmd lokapróf eftir níunda bekk og fer í framhaldsskóla á fimmtánda aldursári; Hinn tekur samræmd lokapróf eftir tíunda bekk og byrjar í framhaldsskóla á sextánda aldursári. Verði þetta gert er trúlegast að þorri stúdentsefna byrji í framhaldsskóla ári yngri en nú. Á síðustu árum grunnskólans venjast verðandi stúdentar þá við nokkuð hraðari yfirferð námsefnis og agaðri vinnubrögð en hægt er að koma við þar sem öllum er blandað saman eins og nú er gert. Mér finnst því ekki fráleitt að þessi hópur nái að jafnaði að ljúka 20 einingum á hverri önn í framhaldsskóla. Sé þetta rétt þyrfti að minnka námsefni til stúdentsprófs úr 140 einingum í 120 til að þorri þeirra sem klárar grunnskóla á 9 árum ljúki stúdentsprófi á 3 árum (þ.e. 6 önnum) í viðbót eða á átjánda aldursári.
    Verði farið að tillögu minni munu flest stúdentsefni stunda nám á hraða sem þeim er eðlilegur í 5 ár (2 í grunnskóla og 3 í framhaldsskóla). Með öðrum orðum má segja að vinnutími þeirra nýtist að fullu í 5 ár í stað 4 ára nú. Verði hins vegar anað út í þá ófæru að stytta framhaldsskólann um ár án þess að breyta grunnskólanum mun vinnutími þessara nemenda nýtast með eðlilegum hætti í 3 ár í stað 4 ára nú. Þetta gæti orðið til þess að námsefnið sem þeir tileinka sér í framhaldsskóla minnki um fjórðung, þeir verði sem því nemur verr undirbúnir fyrir háskólanám og tíminn sem vinnst með styttingu framhaldsskóla tapist að mestu við að fleiri þurfi að tvítaka fyrstu námsár í háskóla.