Atli Harðarson

Nokkur orð um skírteini fyrir nemendur sem ljúka framhaldsskólaprófi

Á fundum með fólki úr mennta- og menningarmálaráðuneyti hafa stjórnendum framhaldsskóla verið kynntar hugmyndir um að nemendur sem ljúka framhaldsskólaprófi fái prófskírteini með umsögn um almenna hæfni auk einkunna. Á blaði frá ráðuneytinu hef ég séð tillögur um að slíkar umsagnir verði dómar eins og:

  1. Er verklega sjálfbjarga í daglegu lífi.
  2. Hefur skýra sjálfsmynd.
  3. Tekur ábyrga afstöðu til eigin velferðar.
  4. Ber virðingu fyrir náttúru og umhverfi í alþjóðlegu samhengi.
  5. Getur verið virkur og ábyrgur borgari.

Af þessum dæmum má ætla að umsögn eigi að lýsa sjálfsmynd, lífsskoðunum og siðferðilegum mannkostum. Ég hef efasemdir um að rétt sé að gera þetta. Þessar efasemdir eru einkum af þrennu tagi.

1. Erfiðleikar við að afla áreiðanlegra gagna

Hefðbundin skírteini innihalda lítið annað en einkunnir sem nemandi hefur fengið í ein-stökum áföngum. Upplýsingar á þeim eru traustar og sanngirni tryggð þar sem:

Það er hins vegar vandséð hvernig skóli getur komið sér upp traustum gögnum um sjálfs-mynd hugsunarhátt eða siðferði nemenda. Gögn um lífsskoðanir eru líka viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi laga um persónuvernd (77/2000) og því óvíst að skólum sé heimilt að sýsla með þau.

2. Umsagnir af þessu tagi verða annað hvort innihaldslausar eða hæpnar

Flestar umsagnirnar (a til e) hér að ofan eiga, í einhverjum skilningi, við svo gott sem allt fólk og því vandséð hvaða upplýsingar þær gefa um námsárangur.

Sé fullyrðingum af þessu tagi hins vegar gefið ákveðið innihald með því að tilgreina nánar hvernig þankagangur nemanda er, þarf gögn sem er afar erfitt að komast yfir og sannreyna. Til að neita einhverjum um umsögn á borð við að hann geti „verið virkur og ábyrgur borgari“ þarf t.d. meiri vitneskju um innræti hans en hægt er að afla með góðu móti – enda hlýtur sönnunarbyrðin að vera á þeim sem undirritar skírteinið. Ef nemandi segist víst geta þetta þá verður líklega bara fullyrðing á móti fullyrðingu.

3. Dómar af þessu tagi eru siðferðilega rangir

Umsagnir af því tagi sem hér um ræðir eiga aðeins að standa á skírteinum þeirra sem ljúka framhaldsskólaprófi en ekki á stúdentsskírteinum og prófskírteinum þeirra sem ljúka t.d. iðnnámi. Það stendur semsagt til að skólar úrskurði um almenna mannkosti þeirra sem útskrifast með minni skammt af námi úr framhaldsskóla en sleppi slíkum palladómum um þá sem klára lengra nám. Þetta er svolítið eins og sagt sé við þá sem fara styttra eftir menntabrautinni að þeir geti fengið vottorð upp á að vera nokkurn veginn húsum hæfir en alvöruskírteini séu fyrir þá sem geta lært eitthvað meira. Er líklegt að nemandi með snefil af sjálfsvirðingu kæri sig um slíka umsögn og verði stoltur af skírteini sínu?

Burtséð frá þessari mismunun er siðferðilega hæpið að stofnanir ríkisins felli dóma um þankagang, sjálfsþekkingu, sjálfsmynd og siðferði fólks. Ríkisstarfsmenn sem fullyrða af og á um hverjir bera virðingu fyrir réttum gildum og geta verið ábyrgir borgarar setja sjálfa sig á ansi háan hest.

(Birtist á vef Félags framhaldsskólakennara í janúar 2014)