Atli Harðarson

Um bankamenn og frambjóðendur til stjórnlagaþings

Fyrir rúmlega tveim árum síðan vorum við minnt á að dramb er falli næst. Þá höfðu allmargir landsmenn talað um það mjög digurbarkalega að þeir hefðu meira viðskiptavit en fyndist annars staðar á byggðu bóli. Sumir létu næstum eins og þeir hefðu fundið upp bankann og að reynsla bankamanna frá fyrri tíð væri að engu hafandi. Það fór sem fór.

Þótt áminningin væri nokkuð hörð og lexían kunn frá í fornöld virðist fólki ganga misvel að meðtaka hana. Nú heyrist að vísu lítið í gleiðgosum sem telja sig hafna yfir gamalreynd ráð í rekstri banka. Meira ber á þeim sem hreykja sér enn hærra og þykjast geta fundið upp ríkið eða að minnsta kosti nýja stjórnskipan fyrir það.

Rúm fimm hundruð hafa gefið kost á sér til setu á stjórnlagaþingi og mér heyrist að sumir þeirra telji sig þess umkomna að galdra fram miklu betri stjórnarskrá en þá sem við fengum í arf frá Dönum og hefur síðan verið lagfærð nokkrum sinnum með fremur hóflegum breytingum.

Við búum að norrænni stjórnlagahefð. Hún hefur reynst vel um langan aldur. Ef frá eru talin árin sem Danmörk og Noregur voru hersetin af Þjóðverjum held ég að fá eða engin ríki hafi haft betra stjórnarfar en Norðurlönd síðan þau tóku upp stjórnarskrár af því tagi sem enn eru í gildi og verða vonandi áfram. Mér þykir trúlegt að farsæld þeirra megi að nokkru þakka þessari stjórnlagahefð. Ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferð ætti að láta sér annt um hana.

Það er engin leið að sjá fyrir allar afleiðingar af stjórnarskrárbreytingum. Sumar þeirra koma ef til vill ekki í ljós fyrr en að löngum tíma liðnum. Áhrif stjórnarskrárbreytinga á gildi og merkingu annarra laga kunna líka að vera flókin og lítt fyrirsjáanleg. Þess vegna á að fara varlega í að breyta stjórnarskránni. Ef til vill á alls ekki að breyta henni. Líklega yrði til meira gagns að hvetja fólk til að virða hana, kynna sér hana og reyna að skilja til hvers hún er og hvað hún þýðir.

Ég vona að af þeim mikla fjölda sem gefur kost á sér til stjórnlagaþings séu að minnsta kosti 25 sem lýsa yfir að þeir vilji litlar breytingar gera á stjórnskipaninni. Kjósendur geta þá valið að halda í hefðina. Sjálfur ætla ég að kjósa þann sem ég treysti best til að fara varlega og víkja lítt eða ekki frá því sem hingað til hefur reynst vel á Norðurlöndum. Nógu margt er þegar á hverfanda hveli.

Að ætla sér að töfra fram nýja stjórnskipan, og það á fáeinum vikum, minnir mig óþægilega mikið á stórbokkaskapinn í ólánsmönnunum öllum sem þóttust hér fyrir nokkrum árum hafa fundið upp bankann.

(Birtist í Morgunblaðinu 16. nóvember 2010)