Atli Harðarson
Áfanganúmer í námskrá framhaldsskóla

Í Námskrá handa framhaldsskólum sem menntamálaráðuneytið gaf út árið 1986 eru áfangar merktir samkvæmt kerfi sem mótast hafði við áfangaskóla á áttunda áratugnum. Í þessu kerfi hefur hver áfangi þriggja stafa skammstöfun og þriggja stafa númer, þar sem skammstöfunin segir hvaða fagi eða grein hann tilheyrir og fyrsti stafurinn í númerinu segir hvar hann er í afangakeðju og sá þriðji hvað hann er margar einingar. Miðstafurinn í númerinu hafði ekki sérstaka merkingu en gegndi því hlutverki að aðgreina ólíka áfanga á sama stað í röðinni.
   Sem dæmi má taka að skammstöfunin STÆ merkir stærðfæði og áfanginn STÆ403 er þrjár einingar og til að innritast í hann þarf nemandi að ljúka stærðfræðiáfanga með númeri sem hefst á 3 (þ.e. áfanginn er í fjórða sæti í röð stærðfræðiáfanga og til að skrá sig í hann þarf nemandi fyrst að ljúka áfanganum STÆ303). Áfanginn STÆ413 hefur annað innihald en STÆ403 en er samt líka númer fjögur í röð stærðfræðiáfanga og gefur þrjár einingar.
Þetta kerfi er einfalt og auðskiljanlegt. Mér finnst því miður að í Aðalnámskrá framhaldsskóla sem tók gildi árið 1999 er vikið frá því og númerakerfið gert ruglingslegra en vera þarf. Hér fara á eftir nokkur dæmi um þetta:
   Í sumum áföngum er fyrsta talan ekki notuð á hefðbundinn hátt til að segja hvar áfangi er í röðinni. Til dæmis eru frönskuáfangarnir FRA503, FRA603 og FRA703 allir með sama undanfara sem er FRA403. Þessir áfangar eru því allir í fimmta sæti í röð frönskuáfanga. Væri kerfinu fylgt ættu þeir fremur að heita FRA503, FRA513 og FRA523.
   Rugl með fyrsta tölustafinn kemur líka upp í skólanámskrám einstakra skóla sem hafa almenna braut. Þótt áfangalýsingar fyrir almennu brautina séu ekki í Aðalnámskrá eru þar ákvæði um að áfangar brautarinnar skuli hafa millitöluna 9.* Þetta þýðir að ef skóli býður t.d. upp á tvo þriggja eininga áfanga í stærðfræði á almennri braut verða þeir að heita STÆ193 og STÆ293. Sé nemendum sem hafa fengið lága einkunn í stærðfræði í tíunda bekk grunnskóla gert að ljúka báðum þessum áföngum áður en þeir hefja nám í STÆ102 eða STÆ103 þá er áfangi með númeri sem byrjar á 2 orðinn undanfari áfanga með númeri sem byrjar á 1.
   Sú regla að miðtalan í áföngum á almennri braut skuli vera 9 hefur þá afleiðingu að ef skóli vill t.d. bjóða nemendum á almennri braut upp á tvo ólíka þriggja eininga byrjunaráfanga í upplýsingatækni verða þeir að heita UTN193 og UTN293 og þar með er vikið frá þeirri reglu að byrjunaráfangar séu með númer sem byrjar á 1.
   Af fyrirmælum Aðalnámskrár mætti ætla að allir áfangar með millitöluna 9 tilheyri almennri braut og telji ekki til eininga á öðrum brautum. En þetta er ekki svona einfalt. T.d. er áfanginn ÍÞR391 sundáfangi og fullgildur sem hluti af íþróttum á hvaða námsbraut sem er.
Samkvæmt Aðalnámskrá eiga áfangar sem eru boðnir fram í frjálsu vali að hafa millitöluna 7.** Hvað ef skóli vill bjóða upp á tvo ólíka valáfanga sem báðir hafa sama undanfara (t.d. tvo ólíka valáfanga í upplýsingatækni sem báðir hafa UTN103 fyrir undanfara)? Ef fyrirmælum Aðalnámskrár er fylgt verða þeir að heita UTN273 og UTN373 og þá er áfangi númer 373 með undanfara númer 103!
   Þetta rugl á númerakerfinu er ástæðulaust og vandalaust að laga það. Ýmsar leiðir eru færar. Til dæmis mætti láta „númer“ áfanga á almennri braut hefjast á bókstaf. Skóli sem vill bjóða upp á tvo ólíka byrjunaráfanga fyrir nemendur á almennri braut getur gefið þeim númerin A03 og A13 eða A03 og B03. Einnig væri hægt að skapa rúm fyrir marga ólíka valáfanga á sama stað í röðinni með því að setja þá reglu að númer áfanga sem ekki eru skilgreindir í Aðalnámskrá, heldur aðeins í skólanámskrám einstakra skóla, hafi bókstaf í öðru sæti. Þetta er nú þegar gert í íþróttum.*** Skóli sem býr til tvo ólíka valáfanga í upplýsingatækni sem báðir hafa undanfarann UTN103 getur þá t.d. látið þá heita UTN2A3 og UTN2B3. Rugl sem stafar einfaldlega af vitlausri notkun á númerakerfinu, eins og að láta áfanga með undanfarann FRA403 heita FRA703, er vandalaust að laga með því einu að breyta einkennisstöfum áfangans og kalla hann t.d. FRA523.
   Verði farið að þessum tillögum munu áfangar sem einstakir skólar skilgreina þekkjast frá áföngum sem skilgreindir eru í Aðalnámskrá á því að „númer“ þeirra innihalda a.m.k. einn bókstaf en „númerin“ í Aðalnámskrá eru mynduð úr tómum tölustöfum.
    Ef Aðalnámskrá framhaldsskóla verður hvort sem er endurskoðuð í tengslum við styttingu náms til stúdentsprófs þá legg ég til að númerakerfið verði lagfært þannig að fyrsti stafur í númeri gefi til kynna hvað áfangi hefur marga undanfara.

* Sjá Aðalnámskrá framhaldsskóla ? Almennur hluti, Menntamálaráðuneytið 2004, bls. 13.
** S. r. bls. 13.
*** Sjá Aðalnámskrá framhaldsskóla ? Íþróttir, Menntamálaráðuneytið 1999, bls. 59?62.