Atli Harðarson
Griðastaður þess seinlega

„Sáðmaður gekk út að sá og þá er hann sáði féll sumt hjá götunni og fuglar komu og átu það upp. Sumt féll í grýtta jörð þar sem var lítill jarðvegur og það rann skjótt upp því það hafði ekki djúpa jörð. Þegar sól hækkaði visnaði það og sökum þess að það hafði ekki rótfestu skrælnaði það. Sumt féll meðal þyrna og þyrnarnir uxu og kæfðu það. En sumt féll í góða jörð og bar ávöxt, sumt hundraðfaldan“ (Matteusarguðspjall 13:1-8).

Þegar Hermundur Sigmundsson bað mig að skrifa pistil til að birta á þessari síðu um Vísindi og menntun fór ég að hugsa um hvað skólar gætu gert og þá kom mér í hug þessi saga sem höfð er eftir Jesú. Hún fjallar, að minnsta kosti öðrum þræði, um nám og kennslu.

Hvað geta skólar gert? Geta grunnskólar til dæmis kennt börnum að lesa?

Ég held að svarið sé að hjálparlaust geti þeir ekki gert það svo vel sé. Komi sex ára börn í skóla úr bóklausum heimi þá er hætt við að lestrarkennslan falli í grýtta jörð. Öðru máli gegnir ef fullorðið fólk á heimilum og í leikskólum hefur lagt sig fram um að auka orðaforða barnanna, margoft sagt þeim sögur, kennt þeim vísur, leikið með þeim orðaleiki, lesið fyrir þau og farið með þeim á bóksöfn. Hafi þetta allt verið gert sem skyldi þá er von til að lestrarkennslan falli í góða jörð og beri jafnvel hundraðfaldan ávöxt.

Við getum spurt um fleira en lestur því skólum er ætlað að kenna fjölmargar námsgreinar. Ef vel tekst til rækta þeir líka með nemendum sínum dygðir á borð við hógværð, gætni í dómum, sanngirni, þrá eftir þekkingu og löngun til að skilja.

Um allt þetta gildir það sama og um lesturinn. Ef það sem skólinn gerir fellur í góða jörð þá ber það ávöxt. Ef ungmenni alast til dæmis upp innan um fullorðna sem eru heiðarlegir í hugsun, unna sannleika og réttlæti, eru lausir við þvermóðsku og taka því vel ef mál þeirra er leiðrétt, þá er vel vinnandi vegur að kenna þeim skynsamlega og vísindalega hugsun í skóla. Séu þessi gildi hins vegar að engu höfð í samfélaginu utan skólans er ansi hætt við að fari fyrir menntuninni eins og fræinu sem féll meðal þyrna. Það er með öðrum orðum hæpið að skólar komi miklu til leiðar nema þeir séu hluti af menningarsamfélagi þar sem menntun er í hávegum höfð.

Skólum gengur oft best að kenna það sem nemendur læra að nokkru leyti annars staðar. Ekki er þó þar með sagt að skólarnir séu óþarfir. Það er, held ég, jafn fávíslegt að gera lítið úr gagnsemi þeirra eins og að mikla hana fyrir sér og halda jafnvel að þeir geti einir og óstuddir menntað næstu kynslóð.

Þótt skólar hafi mörg hlutverk þá finnst mér ástæða til að vekja athygli á að ein meginástæða þess að við þurfum skóla í þeirri mynd sem við þekkjum er að sumt af því sem fólk þarf að læra verður ekki numið nógu vel nema taka frá tíma og stað til að æfa það og iðka.

Fólk þarf að læra notkun ritmáls, meðferð talna og tungumál. Flestir reyna líka sem betur fer að komast áleiðis í einhverjum greinum lista, fræða, vísinda, tækni, íþrótta eða handverks. Allt þetta er í eðli sínu seinlegt. Þess vegna þurfum við skóla – stað og tíma til að ná valdi á ýmsu því sem er ekki hægt að læra í neinum fljótheitum – stað þar sem má gera mistök, endurtaka, prófa sig áfram – stað þar sem fólk fær hvatningu, stuðning og hjálp þegar það kemst ekki lengra af eigin rammleik.

Þótt fólk sé sífellt að læra hefur skólinn sérstöðu. Sú sérstaða er ekki vegna þess að fólk læri hvergi nema í skólanum. Meirihlutinn af öllu námi fer fram annars staðar. Ef vel tekst til og allt er með felldu er sérstaða skólans að þar fær fólk tíma, næði, ráðrúm og hjálp til að feta nokkrar af seinförnustu brekkunum á menntabraut sinni.

----------------------------------------------------------
Atli Harðarson er dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Bók hans Tvímælis: Heimspeki menntunar og skólakerfi nútímans kom út á rafrænu formi fyrr í vetur og liggur frammi á http://netla.hi.is/serrit/2019/tvimaelis_heimspeki/01.pdf

Í eftirmála bókarinnar er meginniðurstaða hennar dregin saman þar sem segir: „Íslenska orðið skóli er komið af grísku orði (s????) sem merkir tómstundir. Andstæður þess eru orð yfir annríki, strit og vinnu. Skóli í þessum upprunalega skilningi var tími til að hugsa og rökræða, hlæja og leika sér. Skólar nútímans einkennast samt af tímapressu og kröfum um afköst og árangur. Margt sem er gagnrýnt í þessari bók eru nýjungar – eins og hæfniviðmið sem á að ljúka, samkeppni milli stofnana og árangurstenging á framlögum til skóla – sem vinna gegn því að skólar geti verið sá griðastaður þess seinlega sem við þurfum því meir á að halda því meiri sem hraðinn og æðibunugangurinn er allt í kringum okkur.“
----------------------------------------------------------

Birtist á Facebook síðunni Vísindi og menntun 14. apríl 2020. Bein slóð https://www.facebook.com/permalink.php?story_fbid=157624322454261&id=100256071524420&__tn__=K-R