Atli Harðarson
Vitsmunaleg auðmýkt og heiðarlegt skólastarf: Erindi fyrir Menntakviku 2020

Góðir áheyrendur. Erindi mitt nefnist Vitsmunaleg auðmýkt og heiðarlegt skólastarf. Í því fjalla ég annars vegar um hvað felst í vitsmunalegri auðmýkt og hins vegar um hvers vegna greining á hugtakinu skiptir máli fyrir þau okkar sem hugsa um námskrárgerð fyrir skóla.

Fram undir lok síðustu aldar var auðmýkt lítt til umfjöllunar meðal sálfræðinga og fræðimanna sem fjölluðu um nám og kennslu. Þá sjaldan henni voru gerð skil var henni oftast lýst sem vanmati á eigin verðleikum eða lágu sjálfsmati.

Á síðustu áratugum hefur umræðan breyst, einkum eftir að sálfræðingurinn June Price Tangney birti grein um vitsmunalega auðmýkt árið 2000 og rökstuddi að hún samrýmdist vel réttu mati á eigin mannkostum og hæfileikum. Síðan hefur hópur fræðimanna fylgt í fótspor hennar og æ fleiri lýsa nú auðmýktinni sem gullnum meðalvegi milli hroka og undirgefni. Rannsóknir Tangney og fleiri benda til að auðmýkt sé vitsmunaleg dygð í fyllsta skilningi, það er að segja eiginleiki sem hjálpar mönnum að afla þekkingar og forðast blekkingar.

Ég fjalla hér um auðmýkt sem vitsmunalega dygð en það útilokar ekki að hún sé líka siðferðileg dygð. Fleiri dygðir, eins og til dæmis hugrekki, eru í senn vitsmunalegar og siðferðilegar, stuðla bæði að réttum skoðunum og að réttri breytni.

Tangney og fræðimenn sem eru undir áhrifum frá henni leggja áherslu á að vitsmunaleg auðmýkt felist einkum í því að vera laus við ranghugmyndir sem mikla eigin vitsmuni og gera lítið úr þekkingu, áreiðanleika og vitsmunalegri getu annars fólks. Sjálfur held ég að auðmýkt innifeli fleira en rétt mat á vitsmunum, sínum eigin og annarra. Ég held að hún feli líka í sér ást á sannleikanum. Ég orða þetta svo að auðmýkt sé tvíþætt dygð þar sem annar þátturinn er réttar skoðanir og hinn er réttar langanir eða rétt forgangsröð langana.

Til að skýra þetta tvíeðli auðmýktarinnar ætla ég að segja stuttu sögu.

Um laugardagskvöld safnast hópur unglinga saman á leiksvæði við skólann sinn. Þeir hafa hljómtæki stillt hátt, dansa og skemmta sér. Dísa býr í næsta húsi. Hún er pirruð á hávaðanum og hringir í lögregluna. Þegar lögregluþjónar koma á vettvang eru krakkarnir farnir en Dísa kemur út og segir að lætin hafi verið skelfileg. Eftir að hafa rætt stundarkorn við laganna verði fullyrðir hún að krakkarnir hafi líka eyðilagt garðhliðið hjá sér og brotið framljósið á bílnum sínum. Þegar hún er spurð hvort hún hafi séð þetta með eigin augum svarar hún: „Haldið þið að ég sé blind?“

Daginn eftir tekur Dísa eftir því að málning af garðhliðinu hefur nuddast við bílinn. Hana grunar að móðir sín hafi keyrt á þegar hún kom heim dauðadrukkin. Gamla konan lognaðist út af í sófanum og þar liggur hún enn og næsta víst að þegar hún vaknar muni hún ekkert frá deginum áður.

Á mánudeginum hefur lögreglan samband við Dísu og biður hana að gefa skýrslu um skemmdarverkin. Hún er of stolt til að viðurkenna að sér hafi skjátlast svo hún ítrekar fyrri framburð, að unglingarnir hafi eyðilagt hliðið og ljósið á bílnum.

Lögreglan hefur samband við Finn skólastjóra vegna þessa. Finnur brosir breitt og segir: „Það er augljóst hverjir hér hafa verið að verki. Ég þekki mitt heimafólk og ég skal taka í lurginn á þessum vitleysingum. Það er mál til komið að þeim séu sett einhver mörk.“

Það spyrst út í skólanum hverju Dísa hélt fram og tveir nemendur, þau Jonni og Anna, koma að máli við Finn skólastjóra og segja að þetta geti ekki verið rétt, þau hafi verið þarna allan tímann og séð að enginn af skólafélögum þeirra kom nálægt garðhliðinu. Finnur rifjar upp í huganum að Anna er með hátt í tíu greiningar og Jonni fáránlega innskeifur og óttalegur slóði. Hann telur því fullvíst að ekkert mark sé á þeim takandi og segir þeim að koma sér burt og hætta þessu bulli.

Dísu og Finn skortir auðmýkt. Finnur ofmetur eigið hugboð en vanmetur vitnisburð Jonna og Önnu. Dísa kýs fremur að halda ósannindum til streitu en að brjóta odd af oflæti sínu.

Umfjöllun Tangney og eftirmanna hennar lýsir vel ágöllum Finns. Hann miklar fyrir sér eigin getu til að átta sig á hvað hefur gerst en gerir lítið úr því sem Anna og Jonni hafa til málanna að leggja. Í stuttu máli eru brestir Finns einkum fólgnir í skoðunum hans og viðhorfum, því hvað hann hefur fyrir satt um sjálfan sig og annað fólk.

Stærilæti Dísu er af allt öðru tagi. Hún gerir sér fullkomlega ljóst að hún lýgur og hún virðist ekki haldinn neinni blekkingu, hvorki um eigin vitsmuni né um vitsmuni annars fólks. Samt er hún hrokafull og skortir auðmýkt en þessi skortur felst ekki í röngum skoðunum í heldur rangri forgagnsröð. Dísa kýs fremur

p. Að fólk haldi áfram að trúa ósannindum sem hún ruglaðist til að láta út úr sér

heldur en

q. Að mistök sín séu leiðrétt og fólk viti að henni skjátlaðist.

Ef greining mín er rétt þarf fólk að læra að minnsta kosti tvennt til þess að öðlast vitsmunalega auðmýkt. Annað er rétt mat á vitsmunum og verðleikum, bæði sínum eigin og annarra. Hitt er rétt forgagnsröð langana.

Ég býst við að svipað gildi um hugrekki eins og um auðmýkt, það feli í senn í sér rétt mat og rétta forgagnsröð. Fólk sem hefur vitsmunalega auðmýkt til að bera tekur sannleikann fram yfir eigin vegsemd og vitsmunalegt hugrekki felur í sér að taka sannleikann fram yfir eigið öryggi. Báðar þessar dygðir innifela því í vissum skilningi ást á sannleikanum, að hann sé tekinn fram yfir eigin hag. Ef til vill er kjarni þeirra beggja einhvers konar ást á gildum sem eru meira virði en persónulegir hagsmunir.

Þessi hlið á auðmýktinni, sú hlið hennar sem varðar réttar langanir eða rétta forgangsröð langana, hefur áhugaverð tengsl við námsmarkmið. Þessi tengsl koma í ljós þegar við hugsum um hvort hægt sé að skilgreina hana sem hæfniviðmið í námskrá skóla. Og nú hefst seinni hluti erindisins þar sem ég reyni að útskýra hvers vegna greining á því hvað dygðin innifelur skiptir máli í námskrárfræðum.

Ríkjandi hugsun um námsskrár gerir ráð fyrir að þær snúist um hæfniviðmið og leiðir til að ná þeim. Hæfniviðmið eru hugsuð sem eiginleikar sem nemendur öðlast með námi. Þegar við hugsum um nám sem sókn að hæfniviðmiðum þá hugsum við um breytingar sem verða á nemendunum sjálfum – þau eru nemendamiðuð markmið, lýsa því hvernig nemendur eiga að verða. Ef skólastarf er skilgreint út frá hæfniviðmiðum og skólinn er heiðarlegur þá segir hann nemendum að vinna þeirra sé til þess, og til þess eins, að þeir öðlist sjálfir tiltekna eiginleika. Ást á sannleikanum – forgagnsröðin sem er innifalin í vitsmunalegri auðmýkt – beinist samt að heiminum, sannleika sem oftast varðar eitthvað annað en nemendurna sjálfa.

Hugsum okkur sem dæmi að nemendur í náttúrufræði fái það verkefni að telja tegundir fugla og blómplantna á svæði sem þeir kanna með kennara sínum. Hugsum okkur líka að þeir komi til baka með gögn sín og skrifi vandaða skýrslu og það sé fulljóst að þeir hafi öðlast þá hæfni til náttúruskoðunar og úrvinnslu gagna sem að var stefnt. Hugsum okkur enn fremur að þegar þeir skila verkinu þá renni upp fyrir þeim að þeir þekkja ekki sundur hettumáf og kríu og það sé óvíst hvort fuglar sem þeir töldu af einni tegund séu af einni eða tveimur tegundum. Hvað ætti kennarinn að segja við þessu? Ætti hann að segja að hópurinn hafi öðlast þá hæfni sem að var stefnt og verkinu sé lokið? Eða ætti hann ef til vill fremur að segja að hópurinn verði að fara aftur út í móa, nú þegar hann þekkir tegundirnar í sundur og getur gáð hvort þær séu þarna báðar eða aðeins önnur þeirra?

Frá sjónarhóli skólafólks sem álítur menntun sókn að hæfni fremur en þjónustu við sannleikann hlýtur fyrri kosturinn að teljast sá eini rétti og sá seinni tímasóun. Hverju skiptir hvað stendur í skýrslunni ef nemendur hafa öðlast þá hæfni sem að var stefnt og meira að segja lært, eftir á, að þekkja sundur hettumáf og kríu? Gangist nemendur inn á þennan þankagang og heimti þeir góða einkunn fyrir vinnu sína þótt þeir leiðrétti ekki talninguna, þá virðist samt sem þeir hafi svipaðan brest og þann sem spillir skaphöfn Dísu. Þeir virða eigin vegsemd meira en sannleikann.

Að svo miklu leyti sem vitsmunaleg auðmýkt felur í sér rétta forgagnsröð er eitthvað þverstæðukennt við að hugsa um hana sem nemendamiðaða hæfni. Til að skýra þetta nánar er hjálplegt að gera greinarmun á fyrsta stigs og annars stigs löngunum.

Annars stigs löngun er löngun til að breyta forgangsröð eða styrk sinna eigin langana. Slíkar annars stigs langanir, þar sem fólk langar til að langa eitthvað annað en það langar í raun, þær geta hjálpað fólki að bæta ráð sitt. Maður sem vegna bræði sinnar og pirrings langar til að lemja einhvern getur samtímis haft löngun til að hætta að vera svona fjári geðvondur. Mann, sem hefur mikla löngun í óhollan mat, getur langað til að hafa meiri lyst á einhverju sem er gott fyrir heilsuna. Fólk getur sem sagt langað til að breyta eigin löngunum. Þetta gæti til dæmis átt við um Dísu. Ekkert í sögunni útilokar að Dísa fyrirverði sig fyrir hégómagirndina og hana langi til að verða betri manneskja. Það virðist hins vegar útilokað að hún hafi aðeins annars stigs löngun til að bæta ráð sitt – og hætta að kjósa fremur að fólk trúi ósannindum en að mistök sín séu leiðrétt, það er taka p á glærunni fram yfir q – að hún hafi eingöngu þessa annars stigs löngun án neinnar fyrsta stigs löngunar til að segja satt – það er útilokað.

Annars stigs löngun til að losna við græðgi í óhollan mat, geðvonsku eða hégómagirnd virðist óhugsandi án þess viðkomandi búi líka yfir að minnsta kosti einhverjum vísi að fyrsta stigs löngun í heilbrigt líf, góð samskipti við annað fólk eða meiri þekkingu og minni blekkingar.

Löngun til að öðlast vitsmunalega auðmýkt er í tilviki Dísu annars stigs löngun til að breyta eigin forgangsröð. Ef hún sækist eftir þessu án þess að hafa neina fyrsta stigs löngun til að segja satt þá virðist á ferðinni sjálfhverf viðleitni til að fægja eigin geislabaug, fremur en viðleitni til að öðlast raunverulega dygð.

Til að átta okkur á þessu er ef til vill heppilegt að sjá auðmýkt sem hliðstæðu við hugrekki. Viðleitni sem er til marks um hugrekki hefur iðulega annað markmið en að sýna hugrekki. Þau sem eru að sönnu hugrökk reyna að bjarga einhverju eða hindra einhver rangindi. Viðleitnin beinist að einhverjum gæðum en ekki að því að sýna hugrekki. Að reyna að vera hugrökk án þess að láta sér annt um eitthvað sem er meira virði en eigið öryggi, það er í besta falli fífldirfska, oftar þó einfaldlega sýndarmennska. Á sama hátt er engin leið að sýna ást á sannleikanum með því að reyna að vera auðmjúk. Við erum þvert á móti auðmjúk með því að láta okkur meir annt um sannleikann heldur en það hvernig við sjálf erum vegin og metin.

Það er ekkert rangt við að skólar og kennarar segi nemendum sínum að þeim sé gott að tileinka sér auðmýkt. Það er heldur ekkert rangt við að láta þá vita að til þess þurfi þeir ef til vill að breyta löngunum sínum og forgangsröð – verða minna sjálfhverfir og láta sér meira annt um sannleikann. Það er hins vegar afar ósennilegt að þessi boðskapur hafi mikil áhrif nema kennararnir láti sér annt um sannleikann í verki. Það getur þýtt að þeir sendi bekkinn aftur út í móa til að telja fugla og segi þeim þar með að skólastarfið snúist um sannleikann um náttúruna og heiminn fremur en hæfni sem nemendur öðlast með námi sínu. Námskrá sem tekur vitsmunalegar dygðir alvarlega getur þurft að innihalda markmið sem snúast um fugla himinsins og liljur vallarins ekki síður en um hæfni nemenda.

Ef skólinn kemur heiðarlega fram þurfa þessi námsmarkmið að gilda jafnt í orði og á borði.

Ég þakka þeim sem hlýddu.