Atli Harðarson
Af vefnum - apríl og maí 2005

31. maí: Veruleikasjónvarp og sjónvarpsveruleiki
Það er gömul íslensk speki að einhvers staðar verði vondir að vera. Nú um stundir eiga helstu óvinir mannlífsins, sem eru heimskan og leiðindin, sér fastan samastað í sjónvarpinu og leka þaðan inn í stofu hjá fólki. Ég horfi ekki á sjónvarp nema þegar ég fer í íþróttahúsið á Jaðarsbökkum og hamast þar á þrekhjóli eða stigmyllu. Þá horfi ég á fjóra skjái samtímis og hef þannig náð að sjá Idol, Extreme makeover, Formula 1, ensku knattspyrnuna, Ophru Winfrey, ameríska heilagsandahoppara, Sveppa og Audda, Fear factor og allt heila klabbið. Ég er semsagt með á nótunum.
   Ég get ekki að mér gert að glotta út í annað heimskunni til samlætis þegar fólk lætur hafa sig að algeru fífli í veruleikasjónavarpsþáttum þar sem það fær borgað fyrir að éta maðk eða pissa í buxurnar. Starfsemi af þessu tagi virðist í töluverðum vexti og ég velti því fyrir mér hvort ekki hljóti að gilda einhverjar reglur fyrir þá sem halda henni úti. Þeir sem ráðnir eru til að pissa í sig fyrir framan sjónvarpsmyndavél eru væntanlega einhvers konar verktakar. Stöðvar sem kaupa þjónustu af þessu tagi í stórum stíl ættu því að bjóða hana út þannig að sá sem býðst til að pissa í sig fyrir minnstan pening fái djobbið. Það gengur ekki að lykilþættir í efnahags- og menningarlífi séu fyrir utan öll lög og fjölmiðlar velti kostnaði af óhagkvæmni við þáttagerð yfir á saklausa neytendur sem verða fyrir vikið bæði að borga há afnotagjöld og horfa á allt of margar auglýsingar milli þess sem þeir fá að njóta þess að fylgjast með hinum eina sanna veruleika. Ætti Samkeppnisstofnun ekki a.m.k. að fylgjast með því hvernig útboðum og gerð verksamninga er háttað í þessari ört vaxandi atvinnugrein?

28. maí: Ameríska auðvaldið
Á síðasta ári kom út hjá Herper Collins forlaginu bók eftir John Steel Gordon sem heitir An Empire of Wealth (það mætti kalla hana Heimsveldi auðsins á íslensku). Þetta er rúmlega 400 blaðsíðna yfirlitsrit um hagsögu Bandaríkjanna frá því Virgíníufélagið flutti enska sveitarómaga til Jamestown í byrjun sautjándu aldar þar til Bill Gates var orðinn ríkasti maður í heimi. Lesandinn fræðist um tóbakssölu, akuryrkju og þrælahald, veiðar á þorski og hval, spunamyllur og verksmiðjuvæðingu, skipaskurði, járnbrautir, olíuvinnslu, rafvæðingu, verkalýðsfélög og stéttabaráttu, kauphallarviðskipti, heimskreppu og „New Deal“ Roosevelts. Hann kynnist líka stjórnmálamönnum og athafnamönnum á borð við Vanderbilt, Carnegie, J. P. Morgan, Rockefeller, Edison og Ford.
  Þetta er vel skrifuð saga og höfundinum tekst að tengja efnið með því að teygja sömu þræðina gegnum alla kafla. Þessir meginþræðir eru annars vegar stjórn banka- og peningamála og hins vegar uppfinningasemin og sköpunarkrafturinn sem hefur einkennt bandarískt hagkerfi frá upphafi.
   Gordon rekur efnahagskreppur og ýmis áföll til þess hvað stjórn peningamála var veik frá því Andrew Jackson (sem var forseti frá 1829 til 1836) lagði niður ríkisbanka (eða seðlabanka) þangað til ríkisvaldið tók að sér stjórn bankamála með „The federeal Reserve Act“ á 4. áratug 20. aldar. Ég get ekki að því gert að mér finnast þessar skýringar ekki nema rétt mátulega trúlegar. Kreppur gengu líka yfir lönd þar sem bankamálum var stjórnað af ríkinu og kreppan mikla sem hófst 1929 varð miklu verri en kreppur 19. aldar vegna þess að stjórnarherrar iðnríkjanna, með Herbert Hoover Bandaríkjaforseta í broddi fylkingar, brugðust við niðursveiflu með verndartollum og þjóðernissinnuð einangrunarstefna, sósíalískir órar og oftrú á ríkisafskipti voru í tísku á Vesturlöndum. Hefðu frjálshyggjumenn eins og þeir sem höfðu tögl og hagldir öldina á undan enn haldið um stjórnartauma hefði þetta hugsanlega ekki orðið neitt meira en stutt niðursveifla eins og þær urðu á fyrri gullöld kapítalismans (sú seinni er núna). Sem dæmi um áhrif verndartollanna má nefna að árið 1929 voru milliríkjaviðskipti talin nema um 36 milljörðum dala en 1932 voru þau komin niður í 12 milljarða. Á sama tíma dróst útflutningur Bandaríkjanna saman úr 5,2 milljörðum í 1,2 milljarða dala.
   Talandi um dali (dollara) þá rekur Gordon sögu þess gjaldmiðils (sem upphaflega var skilgreindur sem únsa af hreinu silfri) frá því byrjað var að slá dali í Jóakmisdal í Bæheimi á 16. öld þar til bandaríski dollarinn gekk næstur guði almáttugum að völdum á árunum eftir seinna stríð. Í millitíðinni segir frá því að Spánarkonungur gerði gjaldmiðil bæverskra dalamanna að opinberri mynt og Thomas Jefferson, sem síðar varð forseti, ákvað að þessi gjaldmiðill skyldi notaður í nýlendunum þrettán sem mynduðu Bandaríki Norður Ameríku. Ótal fleiri skemmtilegir fróðleiksmolar eru í ritinu. T.d. segir frá því þegar Virgíníufélagið flutti fyrsta skipsfarminn af konum til Jamestown og þær voru seldar fyrir 125 pund af tóbaki hver. En þetta var útúrdúr. Ég var að segja frá því sem tengir hagsögukaflana saman og annað var stjórn peninga- og bankamála. Hitt var uppfinningasemin. Gordon hefur ýmsar skýringar á henni en sú sem dugar honum best er einfaldlega skortur á vinnuafli. Á fyrstu öldum byggðar hvítra manna í Bandaríkjunum höfðu þeir endalaus náttúrurauðæfi en allt of fáar vinnandi hendur. Þrautalendingin var að finna upp leiðir til að koma hlutunum í verk með lágmarksfyrirhöfn og til varð menningarheimur sem gat af sér fleiri tækninýjungar en nokkur annar fyrr eða síðar. Þessi skýring dregur þó ekki nema hálfa leið því ef hún væri öll sagan þá ættu Argentína og Brasilía að hafa framleitt jafnmikið af tækni eins og Bandaríkin. Gordon gerir sér þetta ljóst og bendir á að ensk stjórnmálahefð og frelsi í atvinnumálum hafi átt sinn þátt í að skapa það efnahagsundur sem Bandaríkin eru, því víst er það undur að land sem byggðist mest af fátæklingum og flóttamönnum skuli búa við miklu meira ríkidæmi en aðrir hlutar heimsins.
   Fyrir stuttu las ég aðra bók um efnahagsmál í Bandaríkjunum. Hún heitir Cowboy Capitalism og er eftir þýska blaðamanninn Olaf Gersemann (útgefandi Cato Institute). Sú bók fjallar ekki um söguna heldur samtímann og ber saman kjör almennings og efnahagsástand í Bandaríkjunum annars vegar og Þýskalandi, Frakklandi og Ítalíu hins vegar. Gersemann er gagnrýninn á stjórnvöld beggja vegna Atlantshafs en samanburðurinn á hagstjórn og almennum lífskjörum er Bandaríkjunum þó mjög í hag.
   Stór hluti textans er umfjöllun um tölfræðilegar upplýsingar en Gersemann tekst samt að skrifa afar læsilega bók. Hann fjallar í nokkuð löngu máli um ýmsar goðsagnir um Bandaríkin, sem hann álítur að séu útbreiddar í Evrópu, eins og að þar sé ekkert velferðarkerfi, fólk eigi aldrei frí, verkafólk sé undir hælnum á kapítalistum, almenningur hafi ekki efni á læknisþjónustu og að það sem Þjóðverjar kalla Amerikanische Verhältnisse sé martröð fyrir alla alþýðu. Allt þetta segir Gersemann vera ýkjur. Víst sé margt að í Norður Ameríku en þegar gögn séu borin saman sé afkoma venjulegs alþýðumanns þar þó skárri en í Þýskalandi, Frakklandi og á Ítalíu og það sem meira er, í Vesturheimi fari ástandið heldur skánandi en í hagkerfum Evrópulandanna þriggja sem um er fjallað sé lítið um batamerki. (Sjálfur skrifaði ég fyrir stuttu smá pistil um hugmyndir okkar við austanvert Atlantshaf um Bandaríkin og fólkið sem þar býr. Hann snýst ekki um efnahagsmál heldur aðra þætti mannlífsins. Þeir sem vilja lesa hann geta smellt hér.)
   Bók Gersemanns var skrifuð á síðasta ári. Síðan hún kom út hefur atvinnuleysi í Þýskalandi enn aukist og tilburðir kratanna þar til að fjölga atvinnutækifærum lofa ekki góðu. Í Spiegel frá síðustu viku (Nr. 21 23/05/05) eru þeir kallaði „Die totol verrükckte Reform“ og bent á að nú sé hlutfall atvinnulausra í Þýskalandi tvöfalt hærra en í Bandaríkjunum og að í Þýskalandi séu 50% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá búnir að vera án vinnu í ár eða lengur en aðeins um 12% atvinnulausra í Bandaríkjunum hafi verið án vinnu í heilt ár eða lengur. Gögnin sem Spiegel tíundar benda til þess að það sé töluvert til í þeirri kenningu Gersemanns að fyrir venjulegt alþýðufólk, sem ekki fæddist með silfurskeið í munninum, sé betra að búa við ameríska frjálshyggju en þýska jafnaðarstefnu.

26. maí: Sex myndir

22. maí: Árni Björnsson, Stalín og Bangsapabbi
Ýmislegt lætur fólk út úr sér. Í smágrein á blaðsíðu 44 í Morgunblaðinu 21. maí heldur Árni Björnsson þjóðháttafræðingur því fram að Stalín hafi ekki verið kommúnisti þótt vera megi að hann „hafi á yngri árum hnusað af hinni fallegu hugsjón kommúnismans.“ Fyrir þessu færir Árni þau rök að Stalín haf látið myrða marga kommúnista og geti því ekki hafa verið í sama liði og þeir. Með svona hundalógik er hægt að sanna nánast hvað sem er, t.d. að Hitler hafi ekki verið þjóðernissinni því hann hafi látið myrða marga einlæga ættjarðarvini. Nú bíð ég spenntur eftir að Árni skrifi meira og sanni að Lenín, Hoxa, Maó, Pol Pot og Chaucescu hafi ekki heldur verið kommúnistar.
   Getur hugsast að Árni rugli saman kommúnisma og stjórnspeki Bangsapabba í Hálsaskógi sem lagði til að pólitísk vandamál í skógarsamfélaginu yrðu leyst með því að öll dýrin yrðu vinir? Ætli hann hafi alveg gleymt að það er hluti af kenningunni, eins og Marx setti hana fram, að einstaklingshyggja væri aðeins hluti af lífslygi (hugmyndafræði) borgarastéttarinnar og eignaréttur, borgaraleg mannréttindi og annar einstaklingsréttur væru stundlegt yfirvarp sem yrði dregið til hliðar þegar alþýðan tæki völdin? Sér hann ekkert samband milli þessara kenninga og manndrápanna í Rússlandi á valdatíma Stalíns?

21. maí: Tvær greinar
Í dag birtist grein eftir mig í Lesbók Morgunblaðsins. Hún fjallar um Nietzsche og leikritið Dínamít eftir Birgi Sigurðsson. Greinin liggur hér frammi. Í nýútkomnum Stefni (tímariti ungra Sjálfstæðismanna) er grein eftir mig sem heitir Lýðræði og almannvilji. Hún liggur hér frammi.

17. maí: Fótboltahöll og óvænt ríkidæmi
Fyrir nokkrum mánuðum síðan var Akranes í hópi sveitarfélga sem ekki höfðu efni á að hækka laun grunnskólakennara. Nú hefur bærinn allt í einu efni á að byggja knattspyrnuhöll fyrir mörg hundruð milljónir (þ.e. íþróttahús sem er svo risastórt að fótboltavöllur kemst fyrir innan í því).
   Ég get ekki að mér gert að efast um að bærinn hafi eignast svona mikla peninga á svo stuttum tíma? Raunar óttast ég að þeir sem ráða ferðinni í bæjarmálum telji allt í lagi að eyða um efni fram í fótbolta, hann sé svo miklu mikilvægari en allt annað. Vonandi er þessi ótti þó ástæðulaus. Vonandi vita þeir sem stjórna okkar ágæta bæ að samkeppni sveitarfélaga um dugmesta fólkið og framsæknustu fyrirtækin vinnst ekki á knattspyrnuvellinum, en góðir skólar og góð þjónusta við börn getur átt verulegan þátt í að gefa Skaganum forskot í þessari samkeppni, sem líklega fer enn harðnandi á næstu árum.

14. maí: Boðorðin átta og minningargreinar framtíðarinnar
Meðan ég drakk morgunkaffið í morgun las ég Morgunblaðið. Þar er á blaðsíðu 34 grein eftir Ágústu Johnson sem heitir Heilsuboðorðin átta. Þessi boðorð hefjast öll á orðunum „þú skalt“ og tíunda allt sem fólk, einkum þó kvenfólk, skal gera skilyrðislaust. Önnur boðorð er sjálfsagt að hafa til hliðsjónar ef og þegar aðstæður leyfa en þessi átta má aldrei brjóta því þá verður fólk bæði feitt og ljótt og líkamsfita er sem kunnugt er versta farg sem hægt er að leggja á samvisku nokkurs manns. Í framhaldi af lestri þessara góðu boðorða hætti ég við að fá mér annan disk af Cocoa Puffs og fór að velta því fyrir mér hvernig minningargreinar verði eftir svosem eins og aldarfjórðung.
    Meðan skorti allt til alls og alþýðufólk átti fullt í fangi með að uppfylla brýnustu þarfir barna sinna og annarra skjólstæðinga fengu bestu menn og konur gjarna þau eftirmæli að þeim hefði aldrei fallið verk úr hendi eða verið einhverjum stoð og stytta. Skorturinn gerir iðjusemi að dyggð en þar sem fólk býr við ofgnótt er meiri ástæða til að hampa sjálfsaga og hófsemi. Kannski sjáum við bráðum minningargreinar þar sem sagt verður um fólk sem skaraði fram úr í lifanda lífi: „Hún hafði fullkomna stjórn á líkamsþyngd sinni“ eða „Aldrei fékk hann sér tvisvar á diskinn“.

10. maí: Lygasagan um áttatíuprósentin og ræða Halldórs Ásgrímssonar
Í svari Davíðs Oddsonar utanríkisráðherra við fyrirspurn Sigurðar Kára Kristjánssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um innleiðingu EES-gerða kemur fram að samkvæmt upplýsingum EFTA-skrifstofunnar hafa 2527 tilskipanir, reglugerðir og ákvarðanir verið teknar inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið á síðasta áratug. Er það um 6,5% af heildarfjölda Evrópusambandsgerða á tímabilinu.
   Það er semsagt komið á daginn að klisjan um að Íslendingar þurfi að taka upp 80% af löggjöf Evrópusambandsins er lygi, líklega margendurteknasta lygi í stjórnmálaumræðu undanfarinna tíu ára. Þetta hefur hver étið upp eftir öðrum: „Sérfræðingar“ um Evrópumál, Samfylkingarþingmenn, talsmenn Brusselvaldsins og meira að segja Halldór Ásgrímsson sem var utanríkisráðherra mestallan tímann sem þessu var logið hvað ákafast. Í ræðu sem Halldór flutti við Háskólann á Akureyri þann 18. mars 2003 sagði hann:

Höfuðmarkmið þessarar ráðstefnu er að ræða möguleikana á aukinni þátttöku almennings í ákvarðanatökuferli ESB. Í spurningunni felst ákveðin afstaða og hún er því gildishlaðin: Með spurningunni gefum við okkur að þörf sé á að auka þessa þátttöku, enda fáir sem vilja minnka möguleika almennings á þátttöku í ákvarðanatöku. Og víst er um það að ákvarðanatökuferli ESB er bæði flókið og fjarlægt fyrir hinn almenna borgara í aðildarríkjum sambandsins. Það er enn flóknara og fjarlægara fyrir hinn almenna borgara á Íslandi, sem samt sem áður þarf að búa við meira en 80% af löggjöf Evrópusambandsins í sínu daglega lífi. (Tilvitnun tekin af vef utanríkisráðuneytsins: http://brunnur.stjr.is/interpro/utanr/utanrad.nsf/pages/wpp2329)

   Nokkrar álíka tilvitnanir í Samfylkingarmenn og „sérfræðinga“ má finna í Vef-Þjóðviljanum í dag 11. maí 2005 (131. tbl. 9. árg.)
   Þessi klisja um áttatíu prósentin hefur verið notuð sem rök fyrir því að Íslendingar sæktu um aðild að Evrópusambandinu. Rökfærslan var hjá flestum eitthvað á þá leið að fyrst við þyrftum hvort sem er að taka upp mestallt regluverk sambandsins væri okkur eins gott að fá aðild svo við gætum haft einhver áhrif á mótun þessa regluverks. Að baki virðist hafa búið sú hugmynd að íslensk stjórnvöld hefðu lítið sem ekkert um það að segja hvaða ákvarðanir væru teknar fyrir Evrópska efnahagssvæðið nema landið fengi fulla aðild að Evrópusambandinu. Samkvæmt því sem núverandi utanríkisráðherra segir er ekki nóg með að þetta um áttatíu prósentin sé hreinn þvættingur heldur er blaðrið um áhrifaleysi landsmanna líka lygi og þvæla. Í umræðu um málið á þingi sagði hann meðal annars að raunar væri það þannig með þessi 6,5%, sem Íslendingar hefðu tekið inn í sitt regluverk, að þeir hefðu mikið um málið að segja á öllum stigum þess nema á lokastiginu sem væri oftast nær hreint formsatriði.
   Ætli „sérfræðingarnir“, sambandssinnarnir, Samfylkingarmennirnir og Halldór Ásgrímsson hafi allan tíman trúað því að við værum í raun og veru að taka upp 80% af öllu reglugerðaruglinu frá Brussel? Ef svarið er já er fáviska þeirra sem þykjast geta haft vit fyrir okkur í utanríkismálum mikið undrunarefni. Ef svarið er nei þá verður þeim a.m.k. ekki fyrirgefið á þeim forsendum að þeir vissu ekki hvað þeir gjörðu.

10. maí: Inntökuskilyrði í háskóla
Í dag var ég á fundi í Háskóla Íslands þar sem meðal annars var fjallað um inntökuskilyrði í ýmsar deildir skólans. Meðal þeirra sem töluðu var Stefán B. Sigurðsson sem sagði frá inntökuskilyrðum í Læknadeild. Í máli hans kom fram að meðan deildin notaði „numerus clausus“ (þ.e. samkeppnispróf á fyrsta ári) var erfitt fyrir þá sem voru að byrja í fyrsta sinn að ná jafngóðum árangri og þeir sem voru að gera aðra eða þriðju tilraun. Árangurinn var sá að flestir sem komust á annað ár höfðu farið oftar en einu sinni gegnum fyrsta árið og mikill fjöldi nemenda eyddi tíma í að sitja aftur og aftur á fyrsta ári án þess að komast neitt lengra en það. Þetta var sóun á dýrmætum tíma mjög margra nemenda. Læknadeild er enn með samkeppnispróf en nú eru þau haldin í júní og prófað úr námsefni framhaldsskóla. Meira en 200 nemendur þreyta prófið og þeir 48 sem standa sig best fá að hefja nám í deildinni að hausti. Að sögn Stefáns er reynslan af þessu góð og liðin tíð að stórir hópar nemenda sitji á fyrsta ári í deildinni án þess að komast upp á annað ár.
   Í framhaldi af erindi hans fór ég að hugsa um hvað gerist þegar þessi próf verða haldin með svipuðu sniði ár eftir ár og þeir sem ekki eru með þeim 48 efstu í vor fara aftur í prófið að ári. Endar ekki með því að þeir sem eru að þreyta það í fyrsta sinn eiga litla möguleika í samkeppni við þá sem hafa farið í það einu sinni eða oftar og notað tímann á milli til að læra enn betur þau fræði sem prófað er úr? Verður útkoman ekki aftur sú að læknanám hjá efnilegum nemendum dregst ári eða tveim lengur en þörf er á? Liggur vandinn sem fylgdi „numerus clausus“ ekki í eðli samkeppnisprófa sem má taka aftur og aftur?
   Ég hef svo sem ekkert svar við því hvernig best er að velja milli umsækjenda um háskólanám þar sem færri komast að en vilja. Það er tæpast hægt að nota einkunnir úr framhaldsskólum því skólar hafa misjafnar aðferðir við námsmat og misþung próf svo einkunnir úr ólíkum skólum eru ekki sambærilegar. Ef til vill eru inntökupróf skásta leiðin en mér finnst að þá ætti að tryggja að þeir sem fá sæmilega einkunn í þriðju tilraun fari ekki sjálfkrafa fram fyrir þá sem fá næstum jafngóða einkunn í fyrstu tilraun. (Kannski ætti að lækka einkunn um 10% í hvert sinn sem próf er endurtekið þannig að sá sem svarar 70% rétt í annað sinn sem hann tekur prófið fái bara 6,3 en ekki 7,0.) Svo má hugsa sér að háskólar noti einkunnir á samræmdum stúdentsprófum til að velja milli nemenda en til þess þyrftu þau líklega að vera í fleiri greinum en bara ensku, íslensku og stærðfræði. Kannski ættu samræmdu stúdentsprófin að vera 5 eins og heimild er til í lögum (þ.e. í ensku, íslensku, náttúruvísindum, samfélagsgreinum og stærðfræði).
   Sumir skólar nota flóknari aðferðir en þær sem hér hefur verið minnst á. Til dæmis gefur Kennaraháskólinn hverjum umsækjanda stig þar sem tekið er tillit til margs konar verðleika. Þessi aðferð virðist sanngjörn (því vissulega er dapurlegt ef hæfileikaríkur maður sem hefur sannað sig með ýmsum verkum fær ekki skólavist vegna þess að honum gekk illa á einu fjandans prófi meðan bjáni sem ekkert kann nema bara það sem var spurt um á þessu eina prófi flýgur inn). Aðferð Kennaraháksólans hefur þó svipaðan galla og „numers clausus“ í læknadeild hafði og mig grunar að inntökupróf sem má þreyta oft geti haft, nefnilega að gera þeim sem eru um tvítugt og nýkomnir með stúdentspróf erfitt fyrir, þeir hafa einfaldlega ekki haft tíma til að gera allt sem inntökukerfið gefur punkta og prik fyrir. Vel heppnaðar reglur um inntöku nemenda þurfa að vera sanngjarnar og velja úr þá sem eru líklegastir til að standa sig vel í námi án þess að hafa þá hliðarverkun að nám tefjist svo misserum skipti.

9. maí: Mýrarljós
Fór í Þjóðleikhúsið í gær ásamt nokkrum vinnufélögum og sá Mýrarljós eftir írska leikskáldið Marinu Carr. Hef sjaldan séð jafnfrábært leikrit og þetta er það besta sem ég hef séð í Þjóðleikhúsinu síðan ég fór á Með fulla vasa af grjóti eftir Marie Jones, sem vel að merkja er líka Íri. Kannski írsk menning höfði sérstaklega til okkar Skagamanna sem búum í bæ þar sem írar námu land, Jónas Árnason bjó, haldnir eru írskir dagar á hverju sumri og starfrækt þjóðlagasveit við tónlistarskólann sem spilar eins og hverjir aðrir Írar.
   Mýrarljós er stórmerkileg smíð. Þetta er öðrum þræði forngrískur harmleikur þar sem herfileg örlög eru óumflýjanleg frá fyrsta atriði (söguþráðurinn er nokkurn veginn eins og í Medeu eftir Evrípídes). Sviðsetningin minnir líka um sumt á forngrískt leikrit (sumir leikendur t.d. með grímur) en framvindan á sviðinu samt fullkomlega raunsæ - allt sem er sýnt getur gerst í venjulegri sveit og er nánast óumflýjanlegt að gerist undir þessum kringumstæðum. Leikritið fylgir formúlunni: Hverfist um einn atburð, á einum stað, á einum degi. Kona, lítils metin af samborgurum sínum, var sjö ára gömul yfirgefin af drykkfelldri móður, á dóttur með unnusta til margra ára sem nú hefur yfirgefið hana, býr ein úti í Mýri og á nú að hrekjast af jörð sinni eftir að hún hefur verið véluð til að skrifa undir afsal. Dagurinn sem óhorfendur sjá er brúðkaupsdagur unnustans fyrrverandi. Hann hefst á illum fyrirboða og áður en hann er liðinn hefur aðalpersónan brennt bæ sinn - drepið dótturina - fyrirfarið sér.
   Svona harmleikur hefur eðli málsins samkvæmt ekki siðferðilegan boðskap. Hann er harmleikur og því utan við allt sem hægt er að dæma með því að segja að einhver breyti rétt eða rangt. Hann lýsir aðstæðum þar sem ekki er neinnar undankomu auðið - fólk gerir hræðilega hluti vegna þess að það hefur gengið í gildru þar sem veilur þess og mannleg takmörk smella in í vélar umhverfisins og snúast með án þess að neinn fái rönd við reist. Vitaskuld var einhvern tíma gengið í gildruna en þá var ekki hægt að vita að hún væri gildra.

7. maí: Friedrich Nietzsche og Dínamít eftir Birgi Sigurðsson
Í gærkvöldi fór ég í Þjóðleikhúsið og sá Dínamít eftir Birgi Sigurðsson. Það fjallar um ævi þýska heimspekingsins Friedrichs Nietzsche sem uppi var frá 1844 til 1900. Þetta er vel heppnuð leiksýning. Mér fannst uppfærslan flott og leikararnir hver öðrum betri. Þó má finna að því að síðasta atriðið fyrir hlé, þar sem Nietzsche er að sturlast, er heldur langdregið og mætti stytta það.
   Í upphafi sýningarinnar höfðu áhorfendur kynnst Nietzsche sem hláturmildum eldhuga sem hefur lag á að orða glannalegar hugmyndir með eftirminnilegum hætti. Eftir hlé er hugsuðurinn hins vegar mállaus og að því er virðist meðvitundarlaus og lamaður meðan Elísabet systir hans misnotar rit hans og hugmyndir í þágu þýskrar þjóðernisstefnu.
   Með leikritinu leggur Birgir Sigurðsson áherslu á að skilningur þýskra þjóðernissinna á Nietzsche sé útúrsnúningur og það held ég að sé vissulega rétt hjá honum. Ofurmennið sem hann skrifaði um er miklu líkara Línu langsokk en Hitlersæskunni. Mér finnst Birgir þó ganga fulllangt í að hvítþvo Nietzsche. Þar sem heimspeki hans ber á góma er áherslan öll á einn þátt í margflókinni kenningasmíð. Þessi eini þáttur er andófið gegn þrúgandi trúarkreddum sem blanda hverja jarðneska gleði seyrnum keimi og kveða öllu varða að búa sig undir eilíft líf eftir dauðann. Birgir tínir upp þá hluta af verkum Nietzsche sem snúast um að gjalda jákvæði við jarðlífinu, þroska hæfileikann til að gleðjast yfir því sem er hér og nú og sigrast á hleypidómum, hugsunum og tilfinningum sem hindra að menn fái notið sín hver á sinn hátt.
   Af leikritinu mætti ráða að kenningar Nietzsche snúist einkum um boðskap af svipuðu tagi og finna má í kvæðum Stephans G. Stephanssonar. Þetta er fullmikil einföldun. Boðskapurinn sem Birgir leggur áherslu á er aðeins hluti af því sem Nietzsche hafði til málanna að leggja. Hann ritaði sínar frægustu bækur á níunda áratug nítjándu aldar, rétt áður en hann sturlaðist af völdum sárasóttar. Í þessum bókum fer hann ekki aðeins hamförum gegn trúarlegum naglaskap og siðavandri meinfýsi. Hann lætur einnig gamminn geisa móti kristnu siðferði, lýðræði, skynsemishyggju og hugsjónum upplýsingarinnar um frelsi, jafnrétti og bræðralag allra manna.
   Nietzsche var afburða penni. Bækur hans hafa í meira en hundrað ár heillað menn og dáleitt. Í þeim ægir saman fræðilegum kenningum um siðferði og gildismat, skarpri gagnrýni á sjálfsblekkingu og hleypidóma, róttækri einstaklingshyggju og glannalegum stjórnmálaskoðunum sem eru einhvers konar blanda af hetjudýrkun og hugmyndum um að forréttindi til handa afburðamönnum skapi vaxtaskilyrði fyrir æðri menningu. Hætt er við að flestum sem snobba fyrir Nietzsche nú á dögum þyki þessi hugmyndablanda beisk í munni ef þeir reyna að sulla henni í sig óþynntri.

5. maí: Adrían Leverkühn
Var að ljúka við að lesa skáldsöguna Doktor Fástus efir Thomas Mann (1875–1955). Í sögunni, sem út kom árið 1947 gerir Mann upp við ógnvaldinn Friedrich Nietzsche (1844–1900). Þótt hann sé ekki nefndur í sögunni er ævisaga Nietzsche svo sláandi lík ævi söguhetjunnar, tónskáldsins Adríans Leverkühn, að lesandinn hlýtur að skoða þennan ímyndaða listamann sem hliðstæðu heimspekingsins. En ævisagan er líka spegilmynd af sögu Þýskalands á fyrri hluta 20. aldar og segir frá siðferðilegri upplausn sem endaði með valdatöku Nazista og hörmungum seinni heimstyrjaldarinnar. Í sögulok er Adrían Leverkühn ósjálfbjarga skar og sturlaður af völdum sárasóttar (eins og Nietzsche var síðasta áratuginn sem hann lifði) og þá er Þýskaland líka lamað og ósjálfbjarga. Líkt og Nietzsche og Leverkühn féll Þýskaland saman eftir að hafa hamast gegn hefðbundnu siðferði og gildismati, Nietzche með heimspeki sem boðaði umturnun allra gilda, Leverkühn með hinni djöfullegu Opinberunaróratóríu og Þýskaland með hervirkjum sem áttu engan sinn líka.
    Í sögu Thomasar Mann birtist hin siðferðilega upplausn meðal annars í samræðum menntamanna. Til dæmis þar sem þeir ræða um „að útrýma hinum sjúku í stórum stíl, einfaldlega drepa þá, sem vanfærir væru um að lifa eða geðveikir og … snúa bakinu í alla þessa mannúðarbleyðimennsku, sem væri leifar hins borgaralega tímaskeiðs.“ (Bls. 462–463 í þýð. Þorsteins Thorarensen sem Fjölvi gaf út árið 2000 ). Nokkru síðar (bls. 466) segir sögumaður frá því að Adrían Leverkühn semji tónverk „í furðulegu samræmi — næstum nákvæmlega sama anda“ og þessar samræður. Mann segir ekki berum orðum að Nietzsche hafi verið talsmaður Nazisma enda væri það ekki rétt. Nietzsche var ekkert sérstaklega illa við Gyðinga og hann fyrirleit þýska þjóðernisstefnu og virðist hafa skammast sín fyrir að vera Þjóðverji, a.m.k. segir sagan að hann hafi stundum logið því að hann væri pólskur. En Thomas Mann hefði ekki látið sama mann vera í senn spegilmynd Nietzsche og Nazismans nema hann hafi álitið heimspeki Nietzsche hluta af sama menningarástandi eða talið einhvern skyldleika með henni og hugmyndafræði Þriðja ríkisins.

1. maí
Í dag er frídagur verkamanna. Ætli fólk, jafnvel gott fólk, álpist ekki enn eitt sinn í göngu með rauðu fánadrusluna sem blakti hvað glaðast þegar herir „alþýðunnar“ skutu niður námsmenn á Togi hins himneska friðar, verkamenn í Berlín og vorið í Prag. En hvað sem líður þessum fíflagangi með fánann er þetta dagurinn sem fólk notar til að ræða um hagsmuni alþýðu, stefnu og starf launþegasamtaka og málefni sem þau beita sér fyrir. Sjálfur er ég í meðlimur og stjórnarmaður í stéttarfélagi stjórnenda í framhaldsskólum sem er fámennast og minnst af aðildarfélögum Kennarasambands Íslands. Einhverjum finnst því e.t.v. að ég ætti að vera í kröfugöngu, en því er til að svara að ég kann ekki við að ganga undir rauðum fána og slagorðum frá nítjánhundruðþrjátíuogeitthvað. Vil ég þó gjarna vinna fyrir félagið mitt og gera því það gagn sem ég get— og það eins þótt ég sé allt annað en ánægður með sumt í starfsháttum Kennarasambandsins eins og t.d. þá áráttu að koma í veg fyrir að kennarar við einstaka skóla geri vinnustaðasamninga sem eru aðeins öðru vísi en miðstýrði aðalkjarasamningurinn og öll málaferlin sem það etur mönnum út í til þess eins að tapa þeim.
   Ég held að ég sé ekki sá eini sem tek virkan þátt í stöfum stéttarfélags, vil gjarna vinna í þágu réttmætra hagsmuna launafólks og bættra kjara fyrir þá sem eru hafðir út undan í allsnægtaþjóðfélaginu en kann engan veginn við þann anda sem svífur yfir kröfugöngum verkalýðsfélaga þann fyrsta maí ár hvert. Er ekki kominn tími til að breyta þessum hátíðahöldum, t.d. á þann veg sem Iðnnemasambandið hefur stungið upp á?

30. apríl: Ísland í Öryggisráðið?
Íslensk stjórnvöld hafa nú um nokkurt skeið beitt sér fyrir því að fá fulltrúa í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Þessi áform hafa verið gagnrýnd nokkuð vegna þess að kosningabaráttan og þátttakan í störfum ráðsins mun kosta talsverða peninga. Utanríkisráðherra hefur nýlega upplýst að kostnaðurinn sé áætlaður um 600 milljónir króna.
   Mér skilst að markmiðin með framboði til Öryggisráðsins séu einkum að Íslendingar hafi aukin áhrif og geri sig gildandi sem fullburða aðilar að alþjóðlegu valdatafli. Mig grunar að til viðbótar við þessi yfirlýstu markmið búi að baki framboðinu löngun eftir athygli og frægð, að nafn landsins verði oftar í fréttum. Hversu eftirsóknarvert ætli þetta sé? Er ekki betra að rækta garðinn sinn? Getum við ekki unnið heiminum meira gagn með öðru móti?
   Vera má að menn verði seint á eitt sáttir um svör við þessum spurningum enda erfitt að fullyrða um slík efni að óreyndu máli. Hins vegar held ég óhætt að fullyrða að vopnlaus þjóð sé komin út á ansi hálan ís ef hún lætur atkvæði sitt ráða úrslitum um stríð og frið. Í Öryggisráðinu eru teknar ákvarðanir um beitingu hervalds og slíkum ákvörðunum þarf að fylgja eftir með því að senda hermenn í ferðir þar sem sumir hljóta örkuml og sumir koma aldrei til baka. Ríkisstjórn sem styður slíka ákvörðun hlýtur að vera siðferðilega skuldbundin til að tefla fram sínum eigin her.
   Það er ekki verjandi að ríki hafi úrslitaáhrif í þá veru að senda heri annarra þjóða á vígvöllinn án þess að samþykkja að sínir eigin menn gangi við hlið þeirra alla leið. Hvernig ætlar íslenska ríkið að gera skyldu sína í þessum efnum? Ef stjórnvöld geta ekki svarað því ættu þau að hætta við framboð sitt til Öryggisráðsins.
   Þótt athyglin og „frægðin“ yrðu kannski eitthvað minni yrði heiður landsmanna miklu meiri ef peningarnir sem ævintýrið á að kosta yrðu notaðir til að kaupa sjúkragögn og læknishjálp fyrir fólkið sem lendir í eldlínunni næst þegar þeir sem helst gera sig gildandi í alþjóðlegu valdatafli ákveða að farið skuli í stríð.

28. apríl: Flatur skattur
Nýlega fjallaði tímaritið The Economist um flatan skatt, þ.e. það fyrirkomulag sem tekið hefur verið upp í nokkrum löndum Austur Evrópu að leggja sama skatthlutfall á allar tekjur, hvort sem þær eru háar eða lágar og hvort sem þær eru laun fyrir vinnu, hagnaður af sölu, arður af fjarfestingum eða vextir af bankabók. Einu sinni skrifaði ég pistil um skatta og benti á að með flötum skatti sé kostur á að gera skattheimtu lýðræðislegri en hún er nú. Ýmis fleiri rök mæla með flötum skatti. Ein þau veigamestu eru að mishátt skatthlutfall dregur úr almennri hagsæld. Ástæðan fyrir þessu er einföld:
   Hugsum okkur að lagður sé 20% skattur á tekjur sem aflað er með aðferð (eða af aðila af tegund) A og 30% á tekjur sem aflað er með aðferð (eða af aðila af tegund) B. Þessi flokkun í A og B getur verið af ýmsu tagi. Sumir hafa t.d. stungið upp á að fyrirtæki á landsbyggðinni greiði lægri skatt en fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og ef menn vilja hafa eitthvert tiltekið dæmi huga gæti flokkur A verið fyrirtæki í dreifbýli sem borga 20% skatt og flokkur B verið fyrirtæki í þéttbýli sem borga 30% skatt.
   Hugsum okkur að einhver (maður, hópur eða fyrirtæki) geti grætt 1.000.000 kr. með því að skipa sér í flokk B (t.d. með því að hafa fyrirtæki sitt í þéttbýli) en aðeins 900.000 kr. ef hann skipar sér í flokk A (flytur t.d.í dreifbýli). Tapið af að velja flokk A er þá 100.000 kr. En ef sá sem um ræðir heldur sig við flokk B greiðir hann 30% af 1.000.000 sem er 300.000 í skatt og heldur eftir 700.000 til ráðstöfunar. Flytji hann sig í flokk A borgar hann 20% af 900.000 sem er 180.000 í skatt og heldur eftir 720.000. Hann græðir 20.000 á flutningunum en ríkið tapar 120.000. Ójöfn skattheimta ýtir því undir að sá sem hefur þetta val velji óhagkvæmari kostinn. Hann græðir á að velja óskynsamlega en samfélagið sem heild tapar.
   Ef einstaklingar eða fyrirtæki geta einhverju um það ráðið hvernig tekjur þeirra flokkast þá leiðir ójafnt skatthlutfall til þess að þeir hafa hag af að velja kosti sem eru óhagstæðir fyrir heildina. Þeir eru því ekki leiddir af ósýnilegri hönd svo þeir bæti almannahag um leið og þeir leitast við að efla sinn eigin. Þess í stað er brugðið ósýnilegum fæti fyrir samfélagið allt svo það veltur á hausinn þegar einstaklingar reyna að hreyfa sig í eigin þágu.

26. apríl: Það vantar færri námsbrautir
Þegar rætt er um námsframboð framhaldsskóla heyrist æði oft sagt að það vanti fleiri námsbrautir svo allir geti fundið nám við sitt hæfi. Þetta held ég að sé ekki nema í mesta lagi hálfur sannleikur og hitt sé sönnu nær að fækka þurfi námsbrautum. Það var a.m.k. framfaraskref þegar iðnbrautum var fækkað um eina og nám í hárskurði og hárgreiðslu sameinað á eina námsbraut í hársnyrtiiðn og ákveðið að þeir sem ljúka henni mættu klippa bæði karla og konur. Á sama hátt yrði það framför ef einhverjar af þeim sex mismunandi námsleiðum í málm- og véltæknigreinum sem skilgreindar eru í Aðalnámskrá framhaldsskóla yrðu sameinaðar. Munurinn á námi vélvirkja og rennismiða er t.d. svo lítill að það mætti sem best láta þessar tvær brautir renna saman í eina. Sama má segja um sjö mismunandi námsleiðir í bygginga- og mannvirkjagreinum og líka um fimm mismunandi námsleiðir í uppeldis- og tómstundagreinum. Þannig mætti lengi telja.
   Eins og er skilgreinir Aðalnámskrá framhaldsskóla um 100 mismunandi námsbrautir. Margar þessara brauta eru alltof sérhæfðar. Samruni námsbrauta og fækkun yrði til bóta. Fyrir þessu eru einkum þrjár ástæður:
1) Unglingar á framhaldsskólaaldri eru yfirleitt ekki tilbúnir til að velja sér þrönga sérgrein. Þeir vilja að margar leiðir standi opnar. Nám sem býr þá undir stóran flokk starfa (t.d. öll störf innan málm- og véltæknigreina) höfðar því líklega til fleiri en nám sem veitir mjög þröngt afmörkuð réttindi.
2) Sé einhverju sviði skipt niður í margar sérgreinar verða nemendur í hverri grein fáir. Framhaldsskólar búa við takmörkuð fjárráð og geta því ekki haldið úti kennslu í mjög fámennum hópum svo þeir loka þessum mörgu fámennu deildum. Ef fimm nemendur í skóla velja námsbraut í rennismíði og sjö nemendur velja námsbraut í vélvirkjun þá er hætt við að kennsla á báðum brautunum falli niður. Væru þær hins vegar sameinaðar í eina braut þá væru tólf nemendur á henni og þeir fengju allir að nema fagið sem þeir völdu sér.
3) Það er í flestum tilvikum óraunhæft að hægt sé að kenna mjög þröngt afmarkað starf í skóla. Þröng sérhæfing hlýtur að eiga sér stað í fyrirtækjum þar sem menn læra á vélar og framleiðsluferli sem eru kannski til í einu eintaki á landinu og krefjast kunnáttu sem gengur þvert yfir smásmugulega skiptingu í einstakar undirgreinar.
   Sumt af því sem menn éta upp hver eftir öðrum þegar talað er um skólamál er meinlaus vaðall. Klisjan um að það vanti fleiri námsbrautir er vaðall en ekki alveg meinlaus. Hún beinir athyglinni frá því sem raunverulega kemur í veg fyrir að allir finni nám við sitt hæfi innan framhaldsskólakerfisins.

23. apríl: Forborðnir ávextir
Í mestallan dag hef ég setið á ráðstefnu í húsakynnum Háskóla Íslands. Hún bar yfirskriftina Forboðnir ávextir og fjallaði um trú og vísindi. Ráðstefnan var haldin að undirlagi Steindórs J. Erlingssonar vísindasagnfræðings.
   Sumt sem þarna var sagt þótti mér merkilegt. Til dæmis fannst mér töluvert varið í erindi Guðmundar Inga Markússonar trúarbragðafræðings þar sem hann sagði frá tilraunum til að nota þróunarkenningu Darwins og nýjustu kenningar í hugfræði til að útskýra hvers vegna trú og trúarlegar hugmyndir eiga sér svo mikinn hljómgrunn hjá mannfólkinu. Sjálfur flutti ég erindi þarna sem bar yfirskriftina Synir Mörtu. Það liggur hér frammi.

21. apríl: Heiðarlegt strit
Þann 8. mars síðastliðinn sat ég Nordiska Skolledarkongressen í Svenska Mässan í Gautaborg. Þarna voru flutt mörg merkileg erindi en það sem mér þótti helst umhugsunarefni var fyrirlestur Astrid Søgnen frá Utdanningsetaten í Osló. Í máli hennar kom fram að kannanir bendi til að norska skólakerfið sé mjög gott, börnunum liði vel í skólunum, foreldrar ánægðir, skólar vel búnir, mikið þróunarstarf í gangi og allt til fyrirmyndar sem kannanir ná til nema námsárangur í undirstöðugreinum eins og lestri og reikningi, hann sé lakari en í nágrannalöndum þar sem umbúðirnar um starfið eru ekki eins glansandi fínar.
   Ekki veit ég með neinni vissu hvers vegna norsk börn hafa að jafnaði lakari kunnáttu í lestri og reikningi heldur en t.d. finnsk börn en sem kennari hef ég samt mínar hugmyndir um hvað skiptir máli í skólastarfi, hvað raunverulega stuðlar að árangri. Aðalatriðið er að nemendur vinni mikið, leggi sig fram, fari að ystu mörkum þess sem þeir geta eða skilja og einu hænufeti lengra. Ég held að þetta gildi um alla þjálfun. Hugsum okkur að maður þjálfi hlaup eða lyftingar eða sund. Góð aðstaða er að sjálfsögðu til bóta og það er líka til bóta að hann hafi vel menntaðan þjálfara sem kann sitt fag. En sá sem hleypur á eftir rollum nokkra klukkutíma á dag verður samt á endanum betri hlaupari en sá sem mætir hjá einkaþjálfara í flottu íþróttahúsi og dregur lappirnar til málamynda gegnum prógrammið sem þjálfarinn hefur sett saman. Flottustu umbúðir í heimi koma ekki í staðinn fyrir heiðarlegt strit.
   Undanfarið hefur mikið verið rætt um það meðal skólamanna hvers vegna finnsk börn standi sig miklu betur en börn frá öðrum Norðurlöndum í reikningi, lestri og náttúrufræði. (Niðurstöður Pisa könnunarinnar sem gerð var 2003 sýna að Finnar hafa verulegt forskot í þessum greinum.) Þann 2. apríl á þessu ári birtist merkileg grein í Lesbók Morgunblaðsins eftir tvo prófessora við rannsóknarstofnun skólamála í Jyvaskyla í Finnlandi þá Pirjo Linnakyla og Jouni Valiarvi. Í greininni segja þeir frá rannsóknum á ástæðunum fyrir góðum námsáragri finnskra barna. Það einstaka atriði sem þeir tíunda sem mestu veldur er að finnsk börn lesa meira en börn í nágrannalöndunum og lestur er helsta tómstundaiðja um helmings finnskra námsmanna. Þetta kemur svo sem ekki á óvart. Sá sem les mikið í frístundum hlýtur að öðru jöfnu að vera betur fær um að tileinka sér bókleg fræði en sá sem hefur minni æfingu í lestri. Lykillinn á árangri í námi hefur verið þekktur, a.m.k. frá dögum Hallgríms Péturssonar sem ráðlagði ungum mönnum að „vinna, lesa, iðja.“
   Þegar talað er um skólaþróun snýst umræðan ansi oft um fallegar umbúðir og kennarar eyða margir tíma sínum í að búa til sífellt fínni glærusýningar, margmiðlunarefni, glósur og fleira sem á að spara nemendum vinnu og gera þeim námið auðveldara. En sé grunur minn réttur ætti vinna kennara að snúast um það fyrst og fremst að fá nemendur til að vinna meira og vinna erfiðari verk. Raunverulegt nám er seinlegt og erfitt og sé reynt að gera það fljótlegt og auðvelt er hætt við að útkoman verði ekki betri árangur heldur bara umbúðir utan um ekki neitt.

19. apríl: Um vonda menn
Fréttir eru bókmenntagrein sem lýtur sínum eigin frásagnarlögmálum. Í vel heppnuðum fréttatíma er einhver skúrkur, einhver vondur. Oftast er sá sami hafður vondur nokkra fréttatíma í röð, sjaldan þó lengur en svona tíu daga. Ég held að Auðun og Markús Örn hafi verið lengst vondir allra íslendinga í fréttum þessa árs. En í fyrra var Davíð Oddson vondur nokkuð lengur þegar hann reyndi fá sett fjölmiðlalög.
   Ég hef stundum velt því fyrir mér af hverju ráðist hver er skúrkur vikunnar á fréttastofum ljósvakamiðla og ekki fundið neina aðra reglu en þá að honum er lýst þannig að fáir hlustendur samsama sig honum. Hann er einhver sem á takmarkaða samúð og flestir líta ekki á sem "einn af okkur". Hann getur verið glæpamaður eins og t.d. Steingrímur Njálsson eða valdamaður eins og t.d. ráðherra. Stundum hefur hann gert eitthvað af sér í raun og veru en oftast er sök hans einhvers staðar á gráu svæði. Sök sem er algerlega borðleggjandi er ekki sérlega gott söguefni til að spinna kringum dag eftir dag.
   Einu sinni fyrir löngu var Guðmundur Árni vondur vikunnar. Ég held hann hafi ekki brotið neitt af sér. Hann lenti bara inni í framhaldssögu sem varð að halda áfram til að fréttatímarnir yrðu eitthvað meira en bara leiðinleg upptalning staðreynda. Margir aðrir þekktir menn og lítt þekktir hafa lent í hlutverki skúrksins án þess að hafa svo sem gert neitt sérstakt. Nú er t.d. reynt að búa til sögu um að þeir sem stjórnuðu einkavæðingu bankanna hafi óhreint mjöl í pokahorninu. Engin rök eru nefnd fyrir þessu, en sagan er einhvern vegin komin af stað og þá er það a.m.k. frétt að einhver haldi að hún gæti verið sönn og spennan magnast þar til nýtt drama er spunnið upp úr einhverri frétt eða ekki-frétt og skúrkur gærdagsins gleymist. Já frétt þarf ekki að vera um að eitthvað hafi gerst, hún getur líka sagt frá því að einhver álíti að eitthvað hafi gerst. Það getur jafnvel verið frétt að einn maður haldi að eitthvað hafi e.t.v. ekki átt sér stað. Til dæmis var það heilmikil frétt hjá Rúv þegar einn prófessor (eða var það dósent) í félagsfræði kvaðst álíta að fréttamenn hefðu ekki farið yfir strikið þegar þeir drógu eigið fag ofan í svaðið í nafni fagmennsku og breyttu fréttatímunum í baráttutæki fyrir eigin hagsmunum í stóra Auðunarmálinu. En ég ætlaði ekki að skrifa um stóra Auðunarmálið heldur um skúrkana sem gera fréttirnar spennandi. Í nafni hlutleysis er orðalagið að sjálfsögðu slétt og fellt og ekki í neinum æsingastíl en það breytir ekki því að vel gerður fréttatími er þáttur í spennandi framhaldssögu þar sem flett er ofan af vondum og svona verður þetta sjálfsagt svo lengi sem fréttir eru skrifaðar fyrir mennska áheyrendur.
   Þótt alvörufréttamiðlar fari fínt í þetta (og slái ekki upp fyrirsögnum um að Halldór Ásgrímsson sé í slagtogi við mannætur eins og DV á til að gera) hlýtur að vera erfitt að vera vondur meðan á því stendur, sérstaklega ef maður lendir í þessu af litlu eða engu tilefni. Kannski ætti að skrifa sjálfshjálparbók fyrir vonda þar sem mönnum er bent á að ef þeir lenda í að vera vondir sé ekkert annað að gera en bíða rólegur. Enginn sé vondur að ráði lengur en í tvær vikur nema hann reyni að svara fyrir sig. Við eigin vonsku er ekkert ráð annað en að þegja og halda sig til hlés.

17. apríl: Gáta

Danskar ganga grundirnar.
Gyðings niðji mundi þar.
Telur stóri stundirnar.
Stundum köllum undirnar.

16. apríl: Þjóðsögur og innrömmun mannlífsins
Hér til hægri er smáræði um Genspejlet eftir Svend Åge Madsen, vísindaskáldsögu þar sem eru pælingar um innrömmun mannlífsins, hvað taki við ofan við mannfólkið eins og það er og neðan við það. Í sögunni er stillt upp möguleikum á meiri og minni vitund. En kostirnir á að draga mörk mannaheima eru fleiri, kannski óteljandi. Í íslenskum þjóðsögum eru mennirnir milli óheflaðra og hömlulausra trölla og siðfágaðs og fíngerðs huldufólks.
   Þjóðsögur um álfa, huldufólk, tröll og drauga eru meira en tóm spenna og dægradvöl. Þær eru einhvern veginn samofnar tilveru Íslendinga. Sumir halda kannski að það sé vegna þess að þær segi frá sönnum atburðum. En um leið og menn fara að rugla þjóðsögum saman við veruleikann eru þeir komnir út í hreina og klára þvælu sem eyðileggur sögurnar. Þjóðsögur eru bestar þegar þær eru sagðar í hálfkæringi og sögumaður sameinast áheyrendum í að sópa allri náttúruvísindalegri rökvísi til hliðar og láta liggja milli hluta hvað er satt og hvað ósatt.
   Þjóðsagnaverurnar eru svipir sem bregður fyrir í mannlífinu. Það er svolítill þurs í sumum körlum og álfur í öðrum. Þótt björgin séu massíft grjót í gegn eru skessur í sjávarplássum, meira að segja hér á Skaganum. Hér bregður líka fyrir álfum og huldufólki - ég er ekki frá því að ég hafi meira að segja séð það sjálfur og ég held að þjóðsögurnar haldi áfram að höfða til okkar meðan við höfum smekkvísi til að sjá huldumey í ásjónu fallegrar stúlku frekar en bara efnilegt módel.
   Vitið í þjóðsögunum er kannski hvernig þær sýna okkur ystu mörk mannlífsins og spottakorn út fyrir þau í allar áttir. Þær fjalla um mannlífið hvort sem sögupersónurnar eru galdrakarlar, aflraunamenn og ákvæðaskáld eða huldukonur, draugar og tröll. Þeir sem ímynda sér eitthvað annað vaða held ég í svipaðri villu og menn gerðu ef þeir héldu að Andrésblöðin væru aðallega um endur, gæsir og annað fiðurfé.

15. apríl: Svend Åge Madsen
Var að klára Genspejlet eftir Danann Svend Åge Madsen. Hafði ekki lesið neitt eftir hann áður en á örugglega eftir að ná í fleiri bækur eftir hann. Þetta er vísindaskáldsaga eins og þær gerast bestar. Byrjar á ást við fyrstu sýn milli Helenu og Just Helled sem er nemandi föður hennar. Just á seinna eftir að uppgötva hvernig er hægt með rannsóknum á DNA að para fólk saman, finna hverri þessi eða hinn hlýtur að falla fyrir, hver er hans „eneste ene“. Þegar Helena deyr veit hann ekki að hún á fjórar tvíburasystur, engar tvær jafngamlar og allar búnar til, að frumkvæði prófessorsins föður hennar, með því að klóna Helenu.
   Áður en sögunni lýkur er Just (af líffræðilegum ástæðum sem hann skilur manna best) ómótstæðilega ástfanginn af þeim öllum. Þá er hann líka búinn að átta sig á líffræðinni á bak við vitund mannsins og tvöfalda sína eigin og finna leið fyrir aðra til að losna við óþægilegar hugsanir. Það er frásagnargleði, hraði og kímnigáfa í sögunni. (Skopið minnir svolítið á Douglas Adams.) Í henni eru líka flottar pælingar um manninn sem lífveru og hvað það þýðir að vera næstum mennskur eða meira en mennskur. Þessar pælingar minna á skrif Nietzsche og sumt í sögunni er sótt beint til hans og stundum nær Svend Åge að orða hugmyndir Nietzsche betur en flestir sem skrifa fræðirit um heimspeki hans. Hér er eitt dæmi:
   „I naturen findes der inted behov for godhed. Det gode menneske vil utvivlsomt være dårligere udrusted til at klare sig end mennesket som vi finder det. Udviklingsmæssigt gives der en helt indlysende fordel ved at være klog og gennemskuende. Men at stræbe efter en endelig sandhed vil uden tvivl være uhensigtsmæssigt. At forestille sig at man skal indføre sandhed som det endelige ideal, vil nærmest være ødelæggende.
   Derfor er hverken Det gode eller det sande efterstræbelsesværdigt. Men det smukke menneske er inden for rækkevidde og ønskeværdigt. For skønhed er ensbetydende med harmoni med omgivelserne, effektivitet i bevægelser og tanker.“ (Bls. 340)
   Bókin kom fyrst út 1999 og árið eftir fékk höfundurinn bæði Boghandlernes Gyldne Laurbær og Radioens Romanpris fyrir hana.

12. apríl: Stytting framhaldsskólans
Í dag fór ég á málþing í Verzlunarskóla Íslands um styttingu námstíma til stúdentsprófs. Þetta var fínt málþing með vönduðum og vel hugsuðum framsöguerindum. Flestir sem til máls tóku lýstu sig sammála því að stytta námstíma til stúdentsprófs úr 14 árum í 13 ár en nokkrir bentu á að best sé að gera þetta með því að stytta grunnskólann úr 10 árum í 9.
   Það er undarlegt að þótt helstu rök í málinu mæli með styttingu grunnskóla fremur en framhaldsskóla þá ætla stjórnvöld að stytta framhaldsskólann. Þegar Þorbjörg Helga Viggósdóttir, sem var fulltrúi menntamálaráðuneytisins á þinginu, var innt eftir því hvers vegna ráðuneytið vildi endilega stytta framhaldsskólann en ekki grunnskólann var eina svarið að það ætti að gera það vegna þess að tekin hefði verið um það pólitísk ákvörðun. Ég hef heyrt þessi „rök“ nokkrum sinnum áður og undrast að menn skuli í alvöru telja það vera rök fyrir pólitískri ákvörðun að hún hafi verið tekin. (Efast raunar um að Ömur og Fárán í Fjörðum gætu sett saman öllu vitlausari röksemdafærslu þótt þau legðu sig öll fram.) Þetta voru einu rökin sem fram komu fyrir því að stytta framhaldsskólann fremur en grunnskólann.
   Þetta er ekki neitt sérhagsmunapot í starfsmönnum framhaldsskóla að telja heppilegra að stytta grunnskólann. Hanna Hjartardóttir, formaður Skólastjórafélags Íslands, sem var meðal frummælenda á þinginu var sama sinnis. Það eru einnig nýstofnuð hagsmunasamtök nemenda.
   Flestir skólamenn sem ég þekki (og þeir eru nokkuð margir þar sem ég hef sæmileg tengsl: Hef verið í stjórnum kennarafélaga og er í stjórn Félags íslenskra framhaldsskóla og í stjórn Félags stjórnenda í framhaldsskólum og sit auk þess í skólamálaráði Kennarasambands Íslands) telja að það sé farsælast að stytta nám til stúdentsprófs úr 14 árum í 13 með því að leyfa (a.m.k. stórum hluta af) nemendum að fara beint í framhaldsskóla eftir 9. bekk. Sjálfur held ég að ef sú breyting tekst vel geti alveg komið til greina að stytta meðalnámstíma í framhaldsskólum líka. Um þetta skrifaði ég grein, sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1. júní 2002, þegar umræðan um styttingu náms var að hefjast. Sú grein ber yfirskriftina Stúdentspróf 18 ára. Ég veit að það er ekki fallegt að monta sig en get þó ekki alveg leynt því að ég er svolítið upp með mér að hafa skrifað þessa grein um mitt ár 2002 því mér virðast flest rök sem fram hafa komið síðan styðja það sem ég segi í henni.

11. apríl: Bókablaður
Las um daginn Náðakraft eftir Guðmund Andra sem kom fyrst út 2003. Flott saga og sérstaklega gaman að lesa hana í framhaldi af nýju sögunni eftir Auði Jónsdóttur, Fólkið í kjallaranum. Guðmundur Andri og Auður eru með svipaðar pælingar að sumu leyti (þótt sagan hjá Auði tengist alkóhólisma og meðvirkni með nokkuð öðrum hætti en hjá Guðmundi Andra). Þau lýsa fólki sem ætlar að frelsa heiminn en kúgar í staðinn börnin sín; fólki sem telur sig vita hvað er alþýðunni fyrir bestu en kann ekki sínum eigin fótum forráð. Báðar bækurnar eru einhvers konar uppgjör við drykkfellda, sjálfumglaða íslenska allaballa sem vita allt sem er og meira til, telja sig hafna yfir fölsk gæði sem markaðssamfélagið heldur að fólki en eru samt sjálfir alveg jafn falskir.
   Fékk stóra bók með safni rita eftir Þorstein frá Hamri (Ritsafn Þorsteins frá Hamri, Mál og Menning, 2004) í afmælisgjöf frá Hörpu. Hef verið að glugga í hana við og við síðan. Ljóðin hans eru seinlesin en það er fyrirhafnarinnar virði. Þau nýjustu í í safninu (úr ljóðabókinni Það talar í trjánum frá 1995) búa yfir göldrum sem eru engu líkir og ég kann ekki að lýsa. Hér er smá dæmi:

Það sem ekki varð
er í veðrinu síðan
og gefur löngum
lífsmark sitt í skyn.

Sú bók Þorsteins sem ég hef mestar mætur á (og er í safninu) er þó ekki ljóðabók heldur saga sem gerist að mestu leyti hér á Akranesi og heitir Hallgrímur smali og húsfreyjan á Bjargi. Hún kom fyrst út árið 1990 og segir frá Kristrúnu Hallgrímsdóttur, sem var efnalítil ekkja í koti sem hét Bjarg og stóð þar sem Laugabrautin er núna. En þrátt fyrir lítinn veraldarauð stóð heimili hennar alla daga opið sjúkum og vegalausum, fátækum og þurfandi. Góðvild hennar og þolgæði virtust engin takmörk sett. Látlaus og hógvær frásögn Þorsteins af þessum dýrlingi okkar Skagamanna er ekki bara mikið listaverk heldur líka tímabært svar við kaldhæðninni og öllum þeim fíflalegu sniðugheitum sem hola innan menningu samtímans.
   Les annars nokkuð mikið af ljóðum. Blaðaði í ljóðasafni Rudyards Kipling um páskana. Mér fannst ég verða að lesa Kipling upp á nýtt því ég var að setja saman fyrirlestur þar sem ég legg út af ljóði hans um syni Mörtu (The Sons of Martha). Lesturinn verður fluttur á ráðstefnu um trú og vísindi sem fram fer í Háskóla Íslands þann 23. apríl. Ljóðið um syni Mörtu er að mínu viti eitt af betri ljóðum Kiplings. Það er til í íslenskri þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar. Annað ljóð eftir hann sem ég held upp á er um lögmál frumskógarins (The Law of the Jungle). Frasinn sem er notaður í umræðum um stjórnmál er tekinn úr þessu ljóði.
   Kipling var mikið skáld. Það þótti T.S. Eliot sem valdi ljóðin í safnritið sem ég hef verið að blaða í og það hefur Magnúsi Ásgeirssyni vafalaust líka þótt, því hann þýddi fleiri ljóð eftir hann er Syni Mörtu. En Kipling hefur ekki verið metinn að verðleikum vegna þess að á sínum tíma átti hann það til að mæla bót enskri heimsvaldastefnu. Það er annars ljóta vitleysan að vera að erfa það við skáld þó þau hafi haft rangt fyrir sér. Eigum við að hætta að lesa Jóhannes úr Kötlum vegna þess að hann lofsöng Jósef Stalín sem var nú talsvert meiri ruddi en Viktoría drottning? Auðvitað ekki. Grýlukvæði hans og jólasveinavísur eru ekkert lakari þótt karlinn hafi verið með pólitískar meinlokur. Það eru allir takmarkaðir og vitlausir hver á sinn hátt og það er hægt að breyta öllu mannlífinu í einn allsherjardrulluslag með því að einblína á það óþarfa, vonda og vitlausa sem aðrir menn segja og gera.
    Á náttborðinu mínu eru líka dönsk ljóðasöfn sem ég keypti í fornbókasölu við Fiolstræde í Kaupmannahöfn þegar ég var á leið á Nordiska Skolledarkongressen í Gautaborg í byrjun mars. Veit lítið um danska ljóðagerð en í þessum skruddum hef ég staðnæmst hvað lengst við ljóð eftir „den danske nationaldigter“ Benny Andersen og er ákveðinn í að ná í meira eftir hann. Þar sem danskar bækur eru hættar að fást í bókabúðum (sem er óskiljanlegt þar sem hér á landi eru mörg þúsund manns sem hafa dvalið í Danmörku auk allra þeirra sem eru læsir á dönsku vegna þess að þeir voru duglegir að læra þegar þeir voru í skóla) er líklega best að leita í bókasafni Norræna hússins. Talandi um ljóðabækur má ég til með að minnast á gersemi sem ég fann í norskri bókabúð síðasta haust og hef lesið mikið í allan vetur. Þetta er Dikt fra Antiken til vår tid – Vestens lyrikk gjennom 2700 år (Tekið saman af: Jon Haarberg og Hans H. Ski. Útgefandi: Gyldendal Akademisk, 2002 Oslo). Þetta er safn af gersemum eftir ljóðskáld Vesturlanda frá Arkhilokhosi til samtímans. Hvert ljóð er birt á frummálinu ásamt þýðingu á Norðurlandamál (nema það sé ort á ensku eða Norðurlandamáli). Þetta er sérstakt og vandað ljóðasafn.

10. apríl: Spencer and the Limits of the State
Undanfarin 25 eða 30 ár hefur talsvert verið talað um „nýfrjálshyggju“ og alls konar nýjar vinstristefnur eins og „þriðju leiðina“ hans Tony Blair (sem er nú kannski ekkert mjög langt til vinstri, frekar svona einhvers staðar í miðju) og hvað þetta nú allt heitir. Mestöll umræðan um þessar stjórnmálstefnur er endurtekið efni frá því fyrir 100 árum. Áður en fasistar og kommúnistar náðu völdum í stórum hluta heimsins var rökrætt um svipaða kosti og nú eru til umræðu, frjálshyggju annars vegar og ríkisafskipti hins vegar. Bókin Herbert Spencer and the Limits of the State – The Late Nineteenth-Century Debate between Individualism and Collectivism (ritstjóri: M. Taylor. Útgefandi: Thoemmes Press, Bristol 1996) er skemmtileg upprifjun á þessari rökræðu einsog hún fór fram í Englandi á árunum 1880 til 1900. Þarna eru greinar eftir stórlaxa úr hugmyndasögunni eins og Herbert Spencer og Henry Sidgwick og marga aðra sem nú eru flestum gleymdir. Maður sér þrætur nútímans í öðru ljósi eftir að hafa lesið þessa bók vegna þess hvað rökin eru að miklu leyti þau sömu. Ég held að allir sem lesa þessar greinar ættu a.m.k. að geta orðið sammála um að hætta að nota orðið „nýfrjálshyggja“. Boðskapur Miltons Friedmanns er ekki nýr og miklu réttara að kalla hann bara frjálshyggju. Tilraunir til að sameina jafnaðarstefnu og markaðsbúskap (hin svokallaða þriðja leið) eru heldur ekki nýjar. Sumum finnast þessar stefnur nýjar vegna þess að stjórnmálaumræða í okkar heimshluta er loksins aftur að verða jarðbundin og yfirveguð eins og hún var fyrir 100 árum áður en öfgastefnur 20 aldar (fasisminn og kommúnisminn) lögðu heilu samfélögin undir sig og skildu eftir sviðna jörð.

10. apríl: Tvær gátur

Ætum hlaðnar ávöxtum,
einnig sjást í dagblöðum.
Nautn og yndi námfúsum,
nálgast má í lögbókum.

Fundust þar sem gaukar gólu.
Greina beiskt og líka sætt.
Niðri í moldu aldur ólu.
Ágæt prýði smárri ætt.