Atli Harðarson
Af vefnum - júní og júlí 2005

26. júlí: Færeyinga saga
Var að lesa Færeyinga sögu. Hún er meira listaverk en ég hélt. Saga þessi var rituð á Íslandi milli 1200 og 1220 af manni sem ekki hefur verið staðkunnugur í Færeyjum. Samkvæmt sögunni var Grímur Kamban fyrstur til að nema land í Færeyjum. Aðrar heimildir benda til að á undan honum hafi írskir munkar verið þar.
   Í upphafi sögunnar (um 970) skiptast Færeyjar í ríki Hofverja, sem réðu Suðurey og Sandey, og Götuskeggja sem réðu öllum eyjum norðan Sandeyjar. Hafgrímur í Suðurey sem er foringi Hofverja hefur ríki sitt að léni frá Haraldi gráfeldi. Bræðurnir Brestir og Beinir Sigmundssynir eru höfðingjar Götuskeggja og þeir hafa ríki sitt að léni hjá Hákoni jarli.
   Götuskeggjar voru voldugasta ættin í eyjunum. Ættmóðir þeirra var Ólöf dóttir Þorsteins rauðs sem var sonur Auður djúpúðgu. Auður gifti þetta barnabarn sitt Færeyingi áður en hún fór til Íslands.
   Aðalpersónur sögunnar eru Þrándur í götu og Sigmundur sonur Brestis Sigmundssonar. Þrándur er brögðóttur maður, slægvitur og fjölkunnugur. Hann er af ætt Götuskeggja og náskyldur Sigmundssonum, þeim Bresti og Beini. Um hann sagði Ólafur konungur Tryggvason að hann væri „hinn versti maður einn hver á Norðurlöndum“ Sigmundur er afar ólíkur frænda sínum, enginn undirhyggjumaður en íþróttamaður sem á tímabili gengur næstur Ólafi Tryggvasyni að kröftum og fimi. Þrándur er fulltrúi gamla tímans, heldur fast í forneskju og heiðinn átrúnað og stendur gegn tilraunum Noregskonunga til að skattleggja eyjarnar. Sigmundur er hins vegar kóngsmaður, boðar Færeyingum kristni að undirlagi Ólafs Tryggvasonar og styður Norska kónga í að gera eyjarnar að hluta af ríki sínu.
   Þótt Sigmundi Brestissyni sé lýst sem betri manni og meiri hetju en Þrándi í götu hafa Færeyingar túlkað söguna Þrándi í vil og látið heita að hann hafi varið sjálfstæði eyjanna. Álitamál er hversu rétt sú túlkun er. Til að verjast ásælni Noregskonunga verður Þrándur að beita heldur óþrifalegum ráðum. Hann elur hjá sér frændur sína þrjá, Sigurð, Þórð og Gaut rauða, sem eru illræðismenn en ónytjungar til vinnu og ekki til þess fallnir að auka vinsældir Götuskeggja meðal alþýðu eyjanna. Þótt Þrándur nái að losa sig við Sigmund og hnekkja þar með veldi þeirra sem gengu erinda norsku hirðarinnar lýkur sögunni á þann veg, þegar Þrándur deyr, að tengdasonur Sigmundar hefur öll völd í eyjunum og er handgenginn Magnúsi konungi, sem kallaður var góði og var sonur Ólafs helga.
   Í upphafi sögunnar er Sigmundur barn að aldri og Þrándur ungur maður og nýtekinn við Götu í Austurey í arf eftir föður sinn. Hann hefur engin völd, þau eru hjá Bresti og Beini sem eru lénsmenn Hákonar jarls og Hafgrími sem hefur syðstu eyjarnar að léni hjá Haraldi gráfeldi. Með klókindum sínum og brögðum verður Þrándur auðugur að fé og etur þeim saman Bresti og Beini frændum sínum annars vegar og Hafgrími hins vegar og lýkur svo að allir þrír falla og Þrándur verður höfðingi yfir öllum Færeyjum. Hann fóstrar Össur son Hafgríms en Sigmund Brestisson sendir hann af landi brott með kaupmanni sem tekur fé fyrir að flytja hann burt svo hann komi aldrei aftur.
   Sigmundur Brestisson vex upp í Noregi, eflist að íþróttum og kemst til metorða við hirð Hákonar jarls. Hann gengur að eiga konu þá sem Þuríður heitir. Þau áttu börn saman og kemur Þóra dóttir þeirra talsvert við sögu og einnig sonur sem Þórálfur hét. Af hreystiverkum Sigmundar eru miklar sögur.
   Össur vex upp með Þrándi og þegar hann er fulltíða lætur Þrándur hann fá ríki föður síns en réði þó öllu „því eigi voru þeir jafnslægir“ eins og segir í sögunni. Þrándur virðist annars ekkert mjög áfram um að hafa sjálfur völd yfir öllum Færeyjum. Hans aðaláhugamál er að koma í veg fyrir að eyjarskeggjar þurfi að gjalda Noregskonunum skatt.
   Sigmundur fær leyfi Hákonar jarls til að fara til Færeyja og hefna föður síns. Áður en hann fer ganga þeir Hákon og Sigmundur til blóta og Sigmundur þiggur gullhring af Þorgerði hörgabrúði sem hann skyldi bera til heilla sér. Þessi hringur er örlagavaldur í sögunni (og minnir dálítið á hringana í Hringadrottinssögu). Meðan heiðinn átrúnaður hélst var hann Sigmundi til heilla en eftir að Ólafur Tryggvason kristnaði Noreg og Sigmundur tók skírn og gerðist hans maður fór sem Ólafur spáði að þessi heiðni verndargripur varð til tómrar bölvunar. Sigmundur vildi ekki farga honum þrátt fyrir þrábeiðni Ólafs konungs og var þar með þrotin hans gæfa. Síðar komst Þrándur yfir hringinn. Hann hafði þá tekið skírn, að vísu nauðugur, svo þessi gripur sem Þorgerður hörgabrúður hafði borið varð honum til bölvunar eins og Sigmundi. Frændur hans, illræðismennirnir Sigðurður, Þórður og Gautur rauði, tóku af honum ráðin og veldi frjálsra höfðingja í Færeyjum leið undir lok.
   Sigmundur kemur til Færeyja. Drepur Össur Hafgrímsson og nær Þrándi á sitt vald. Þrándur býður Sigmundi sjálfdæmi um bætur fyrir föðurvíg en Sigmundur tekur ekki annað í mál en að Hákon jarl dæmi. Eins og svo oft fyrr og síðar í sögunni læst Þrándur fallast á afarkosti en víkur sér svo undan með brögðum eða hálfkveðnum vísum sem hægt er að túlka sem loforð um að standa við sitt þó síðar verði. Hann mætir ekki á tilsettum tíma við hirð Hákonar en lætur berast að hann hafi orðið afturreka og lest skip sitt. Sama leik leikur hann svo síðar í sögunni. Hákon dæmir í fjarveru Þrándar að Sigmundur skuli fá fern manngjöld af Þrándi og hafa allar eyjar að léni. Þrándur læst sætta sig við dóminn en fær Sigmund til að fallast á gjaldfrest til þriggja ára. Ætlar eins og venjulega að víkja sér undan.
   Sigmundur ræður nú yfir Færeyjum og Þrándur býr búi sínu í Götu. Höfðingjaskipti verða í Noregi og þegar Ólafur Tryggvason skipar Sigmundi að taka kristni og láta skíra eyjarskeggja gerir hann það. Þrándur lætur skírast þegar Sigmundur nær honum á vald sitt og hótar að drepa hann ella, en hann heldur ekki kristni frekar en von var. Ber því við (síðar í sögunni) að ekki sé tiltökumál að hann hafi sína eigin kreddu því postularnir tólf hafi haft sína kredduna hver. Aftur verða svo höfðingjaskipti þegar Ólafur fellur frá og jarlarnir Sveinn og Eiríkur taka við ríki og alltaf er Sigmundur fús til að gerast handgenginn nýjum þjóðhöfðingjum í Noregi.
   Ætíð er grunnt á því góða með þeim frændum Þrándi og Sigmundi og eftir deilur sem hér eru ekki raktar fer Þrándur með lið að Sigmundi út í Skúfey og brennir þar bæ hans. Sigmundur kemst undan á sundi og nær landi í Suðurey. Þar finnur landseti Þrándar, sem nefnist Þorgrímur illi, hann máttfarinn í flæðarmálinu, myrðir hann og hirðir hringinn Þorgerðarnaut (og auðvitað fer illa fyrir honum, vondum manni með enn verri hring).
   Þóra dóttir Sigmundar vex upp með Þuríði móður sinni í Skúfey, sem kölluð var meginekkja eftir að Sigmundur hvarf fyrir sjávarhamra og enginn vissi hvað um hann varð. Þegar Sigmundur drap Össur Hafgrímsson fóstra Þrándar lifði barnungur sonur Össurar sem Leifur hét. Hann fór í fóstur til Þrándar í Götu. Er nú leitað sátta milli Þrándar og Þuríðar og til að innsigla sættina biður Þrándur Þóru Sigmundardóttur til handa Leifi Össurarsyni. Þær mæðgur fallast á þetta með því skilyrði að Þrándur upplýsi hvað varð um Sigmund. Hann beitir fjölkynngi sinni til að seyða fram vofu Sigmundar og upplýsa að Þorgrímur illi hafi myrt hann. Er Þorgrímur tekinn höndum og festur upp en Þrándur hirðir hringinn.
   Er nú kyrrt í Færeyjum, friður innanlands og norskir kóngsmenn ónáða ekki. En sú dýrð stóð ekki lengi. Ólafur konungur Haraldsson sem ýmist er kallaður Ólafur helgi eða Ólafur digri brýst til valda í Noregi og heimtar skatt af Færeyingum. Hann nær Leifi Össurarsyni á sitt vald og Leifur lætur svo heita að hann gerist handgenginn Ólafi helga. Í tvígang sendir Ólafur skattheimtumenn til Færeyja en þeir koma ekki aftur til Noregs og veit enginn hvað af þeim verður. Eins og víðar í Færeyinga sögu er gefið í skyn að brögð séu í tafli þótt það sé ekki sagt, en lesanda látið eftir í giska á að Þrándur og hans menn hafi séð fyrir skattheimtumönnum konungs. Stendur í stappi um hríð og stefnir konungur Færeyingum á sinn fund og velst Þórálfur sonur Þuríðar og Sigmundar Brestissonar til farar. Um leið og hann siglir utan fara illræðismennirnir, Sigurður, Þórður og Gautur rauði, frændur Þrándar með kaupskip til Noregs. Ekki hafa þeir fyrr náð landi en Þórálfur er myrtur. Ekkert segir um hver það gerði. Í síðasta sinn sem Ólafur reyndi að heimta skatt af Færeyjum sendi hann þangað víking sem Kári hét. Þrándur fékk með bragðvísi sinni valdið því að hann var drepinn.
   Gerist Þrándur nú gamall en vandræðamennirnir Sigurður, Þórður og Gautur rauði troða illsakir við menn og reyna að seilast til valda með því að biðja Þuríðar meginekkju til handa Þórði. Hún notar sér heimsku þeirra og trúgirni og tekur öllu líklega með ráðahaginn en leiðir þá í gildru og lætur drepa. Þegar Þrándur frétti víg þeirra varð honum svo um að hann dó. Leifur Össurarson og Þóra Sigmundsdóttir réðu þá öllum Færeyjum og gerðist Leifur handgenginn Magnúsi konungi góða, Ólafsyni Haraldssonar. Lengi síðan höfðu niðjar Leifs og Þóru Færeyjar að léni hjá Noregskonungum.

24. júlí: Pólitísk tengsl
Ég er ekki að tala um klíkuskap eða tengsl milli áhrifamanna heldur tengsl milli stjórnmálaskoðana. Sum slík tengsl eru rökrétt og skynsamleg. Það er til dæmis rökrétt að þeir sem vilja minnka ríkisumsvif vilji líka lækka skatta og þeir sem vilja að ríkið verji meiri peningum til velferðarmála eða í millifærslur af einhverju tagi vilji hækka skatta. En fjölmörg tengsl milli skoðana eru algeng án þess að vera rökrétt.
  Árið 1809 kunngerði franski líffræðingurinn Lamarck kenningu sína um að tegundir dýra og jurta þróist og breytist í aldanna rás. Lýðveldissinnar og þeir sem vildu hnekkja veldi aðals og klerka tóku þessari kenningu tveim höndum en íhaldsmenn sem vildu helst að áhrif frönsku stjórnarbyltingarinnar gengju til baka höfðu horn í síðu hennar. Fram yfir miðja nítjándu öld þóttu kenningar um að lífríkið væri að þróast og breytast passa vel við vinstri róttækni í stjórnmálum. Svo urðu þáttaskil í sögu líffræðinnar árið 1859 þegar Uppruni tegundanna eftir Darwin kom út. Eftir það voru alls konar þróunarkenningar (sem oft voru sambland af hugmyndum Lamarcks, Darwins og fleiri) kallaðar einu nafni darwinismi og tengslin við vinstri stefnu urðu losaralegri. Þegar kom fram undir aldarlok höfðu þau snúist við og „darwinismi“ var frekar tengur einhvers konar hægristefnu. Á sama tíma færðist frjálshyggjan frá vinstri til hægri því í upphafi aldarinnar var andstaðan gegn markaðshyggju mest meðal íhaldsmanna sem túlkuðu sjónarmið aðals og kirkju en undir aldarlok voru sósíalistar orðnir höfuðandstæðingar frjálshyggjunnar. Frjálshyggjumenn byrjuðu sem sagt á að vera á móti íhaldinu og voru þess vegna til vinstri og þeir enduðu öldina á að vera á móti sósíalistum og voru þess vegna taldir til hægri. Allan tímann þótti frjálshyggja vel geta samrýmst þróunarkenningunni.
   Nú er auðvelt að sjá að darwinismi getur samrýmst bæði jafnaðarstefnu og íhaldssemi í stjórnmálum. Af því hvernig lífið á jörðinni hefur þróast verður lítið ályktað um hvernig best sé að haga löggjöf og stjórnsýslu. En margir nítjándu aldar menn höfðu sterklega á tilfinningunni að þróunarkenningar Lamarcks og Darwins pössuðu aðeins við tilteknar stjórnmálaskoðanir. Þessi hugmyndatengsl eiga sér sjálfsagt sögulegar forsendur og kannski eru líka sálfræðilegar skýringar á þeim en þau eru ekki rökrétt.
   Ætli stjórnmálahugmyndir sem nú eru efst á baugi tengist skoðunum og kenningum með einhverjum sambærilegum hætti? Mér detta nokkur dæmi í hug:
   Þeir sem vilja að eignaréttur sé tekinn alvarlega, skattar séu lágir og ríkisafskipti af atvinnulífinu sem minnst hafa víða um lönd tilhneigingu til að tengja stjórnmálaskoðanir sínar við kristna trú (sbr. Kristilega demókrata í Þýskalandi og kristna íhaldsmenn í Bandaríkjunum). Þessi tenging styðst mjög trúlega ekki við nein rök. Hún er afleiðing af sögu og kringumstæðum, því allar mögulegar skoðanir á eilífðarmálunum geta samrýmst hvort sem er háum eða lágum sköttum.
   Kratar sem vilja að ríkið haldi uppi umfangsmiklu velferðarkerfi og tryggi sem mestan jöfnuð meðal landsmanna upp til hópa fylgjandi aðild að Evrópusambandinu og „dýpri samruna“ ríkja innan þess. Þessi tenging er ekki á neinn hátt rökrétt, því ekkert bendir til að yfirþjóðlegt vald eða samruni ríkja stuðli að auknum jöfnuði eða umfangsmeira velferðarkerfi.
   Hér á landi flagga róttækir vinstrimenn grænum fána og rauðum og vilja í senn setja skorður við möguleikum fyrirtækja á að menga, umhverfið, raska því og spilla og tala máli verkafólks og allra sem standa höllum fæti í lífsbaráttunni. En þetta fólk sem tekur málstað alþjóðlegra umhverfisverndarsinna og maður skyldi líka ætla að hafi erft eitthvað af „alþjóðahyggju öreiganna“ aðhyllist hópum saman einhvers konar þjóðernisstefnu. Þetta hefur verið svona í langan tíma. Jóhannes úr Kötlum og Guðmundur Böðvarsson voru rauðgrænir þjóðernissinnar. En þjóðernisstefna er almennt og yfirleitt ekki sérstaklega vinstri sinnuð.
   Þótt þessi hugmyndatengsl sem hér hafa verið tíunduð séu ekki rökrétt er ekki þar með sagt að þau séu óskynsamleg. Kannski eru ástæðurnar fyrir þeim skynsamlegar og virðingarverðar, en kannski eru þær bara komplexar eða misskilningur. Ég ætla ekki að dæma um það núna, aðeins að benda á að líkt og á nítjándu öld eru alls konar hugmyndatengsl í stjórnmálum nútímans sem eru óháð röklegum tengslum milli skoðana. Þeir sem aðhyllast eina skoðun hafa jákvæða afstöðu til annarrar skoðunar þótt hvorug sé afleiðing af hinni. Fylgismenn einnar stefnu hafa illan bifur á annarri þótt því fari fjarri að þær séu í neinni mótsögn hvor við aðra.

23. júlí 2005: Að missa af
Það er hægt að missa af fótboltaleik, útvarpsfréttum eða sjónvarpsþætti. Til að hægt sé að missa af einhverju þarf það að vera tímasett. Það er engin leið að missa af neinu í dag sem auðveldlega er hægt að fresta til morguns. Samkvæmt þessu er sá sem hefur aldrei lesið Njálu ekki búinn að missa af neinu því Njála fer ekkert. Það er hægt að grípa í hana hvenær sem er. En hvað með þann sem þeytist gegnum allt lífið og passar að missa aldrei af fótboltaleik, fréttatíma eða Leiðarljósi en er svo einn daginn kominn undir græna torfu án þess að hafa lesið Njálu (hlustað á Mozart, gengið á Esjuna), hefur hann ekki mistt af neinu? Stundum finnst mér eins og þessi hugsun, að maður sé að missa af einhverju, verði til þess að fólk eyði tímanum í iðju sem vetir því takmarkaða ánægju og fari á mis við margt af því sem er miklu meira virði en allt þetta sem hægt er að „missa af“.

19. júlí: Hraðar erfðabreytingar - eru stórfiskaveiðar að skemma þorskstofninn?
Breytingar á lífríkinu sem verða fyrir náttúruval taka oftast langan tíma. Leiðin frá sameiginlegum forföður manna og simpansa til nútímamanns tók til dæmis milljónir ára. Miðað við að kynslóðabil sé að meðaltali 20 ár eru milljón ár 50 þúsund kynslóðir og 10 milljónir ára hálf milljón kynslóða. Virðist langt ef við hugsum í árum. En hugsum okkur að nútímamaður standi á Gufuskálum og haldi í höndina á móður sinni og hún í höndina á sinni móður og þannig í röð yfir landið allt austur í Fjarðabyggð. Við Reyðarfjörð stæði þá kona sem var uppi fyrir milljónum ára og gæti sem best verið sameiginleg formóðir mannskynsins og simpansanna sem eru okkur nánustu frændur í dýraríkinu.
   Ef tegund lendir í hremmingum vegna breytinga á umhverfinu þá getur þróunin orðið nokkuð hröð. Í New Scientist frá 9. júlí segir t.d. frá því að íkornar í Kanada hafi á fáeinum árum lagað sig að hlýnandi loftslangi með því að fæða unga fyrr á vorin. Rannsóknir á vefjasýnum úr þeim hafa leitt í ljós að tilfærsla gots um einn dag að meðaltali er vegna arfgengra breytinga. Í blaðinu eru rakin fleiri dæmi um talsvert hraðar breytingar á dýrum. Meðal annars er því haldið fram að rannsóknir sýni að þorskur undan strönd Nýfundnalands hafi orðið smávaxnari með hverju ári þar til veiðum var hætt á svæðinu á tíunda áratug síðustu aldar. Þar sem veiðimenn hirtu stærsta fiskinn og sá smæsti annað hvort slapp gegnum möskvana eða var hent lifandi fyrir borð urðu veiðar til þess að lífslíkur þorsks urðu því meiri því horaðri og smávaxnir sem hann var. Útvegsmenn ræktuðu því beinlínis upp smávaxinn stofn. Eftir að þorskurinn þarna var friðaður hefur stofninum gengið fremur illa að ná sér og rekja greinarhöfundar það til þess að smáþorskur eignast fremur fá afkvæmi miðað við stóran þorsk sem er með miklu stærri hrognabelgi.
   Jafnframt því að segja frá þessum rannsóknum á þorski hér fyrir vestan okkur gera blaðamenn New Scientist grein fyrir tilraun sem unnin var við Stony Brook háskólann í New York. Þar voru fiskar hafðir í eldi og líkt eftir veiðum með því að slátra stórvöxnustu 90% af fiskunum. Í annarri kví var smávöxnustu 90% slátrað. Eftir aðeins 4 kynslóðir var arfgengur stærðarmunur orðinn mjög mikill, því fiskarnir í síðarnefnda hópnum voru orðnir tvöfalt stærri en hinir þar sem líkt var eftir hegðun fiskimanna.
   Af þessu öllu saman draga höfundar þá ályktun að það sé afar vitlaust veiðipólitík að hlífa smáfiski. Betra væri að þyrma þeim stærstu. Vonandi eru þeir sem stjórna þorskveiðum hér við land kunnugir rannsóknunum sem er sagt frá í þessari grein sem er á blaðsíðu 28 til 31 í blaðinu.

18. júlí: Maynard Smith og þróun lífsins
Árið 1999 kom út (hjá Oxford University Press) bók sem heitir The Origins of Life eftir enska líffræðingin John Maynard Smith og ungverskan starfsbróður hans sem heitir Eörs Szathmáry. Um þann síðarnefnda veit ég ekki neitt en ég þykist vita að Maynard Smith, sem lést á síðasa ári 84 ára að aldri, sé með merkustu líffræðingum síðustu aldar. Í bókinni kynna höfundar fræði sín fyrir lesendum sem ekki eru innvígðir í lífvísindi nútímans og segja á alþýðlegu máli frá niðurstöðum eigin rannsókna og annarra á sviði þróunarlíffræði. Þeir tala um átta megináfanga í þróun jarðlífsins og telja þá alla felast í því að fram hafi komið nýjar aðferðir til að varðveita upplýsingar, túlka þær og miðla. Ég veit lítið um líffræði en hef aðeins rekið nefið ofan í rökfræði og tölvufræði og þykir þess vegna merkilegt að upplýsingar, túlkun og miðlun skuli vera lykilhugtökin í líffræði þeirra Maynard Smith og Szathmáry.
   Stigin átta sem þeir tala um eru: 1. Einstakar kjarnasýrusameindir sem framleiða afrit af sjálfum sér mynda sambýli margra sameinda innan afmarkaðs rýmis (eins og himnu úr fitusýrum); 2. Afritanlegar kjarnasýrur (eða gen) tengast saman og mynda litninga með þeim afleiðingum að þegar gert er afrit af einu geni er gert afrit af öllum. 3. Kjarnsýrur sem verka sem hvatar að eigin afritun taka að framleiða prótín sem verka sem hvatar (ensím) og ýta undir afritun kjarnasýranna. Við þetta skref fá niturbasaraðirnar í kjarnasýrunum „merkingu“ því þær segja til um framleiðslu prótína en ekki aðeins um gerð afrita af sjálfum sér. Við lok þessa áfanga í þróun lífsins eru orðnir til dreifkjörnunar sem svipar til baktería og blágrænuþörunga nútímans. 4. Drefikjörnungar þróast í einfrumunga þar sem erfðaefnið (DNA) er lokað innan frumukjarna og æxlun fer fram með mítósuskiptingu. Við þetta skref varð mögulegt fyrir hverja frumu að hafa marga litninga og miklu meira af erfðaefni (og þar með miklu fleiri gen) en dreifkjörnunar. Fyrir vikið varð mögulegt að auka stórlega upplýsingamagnið í erfðaefni einnar lífveru svo til urðu mun flóknari skepnur (dæmigerður einfrumungur með frumukjarna hefur svona 10.000 sinnum meira rúmmál en dreifkjörnungur og margfalt flóknari byggingu); 5. Kynæxlun tekur við af kynlausri æxlun; 6. Fjölfrumungar verða til (þ.e. dýr og jurtir sem hafa margar frumur); 7. Dýr (eins ot t.d. maurar) mynda samfélög með verkaskiptingu; 8. Upp úr ættbálkum fremdardýra þróast samfélag manna sem nota tungumál.
   Höfundar láta þess getið að ef til vill væri réttara að tala um níu stig en átta, því tilurð miðtaugakerfis sé ekki síður merkur áfangi en þeir sem um er rætt í bókinni. En þeir fjalla ekki sérstaklega um það efni.
   Maynard Smith og Szathmáry draga saman það sem vitað er um þessi átta skref og benda á hvar eyður eru í þekkingu manna á þróunarsögunni og nefna helstu tillögur sem fram hafa komið um hvernig fylla má í þær. Með því að bæta nútíma efnafræði, stræðfræði og hugmyndum úr upplýsingatækni við kenningu Darwins um náttúruval eru líffræðingar langt komnir með að skýra að fullu tilurð og þróun lífisns á jörðinni, talsvert lengra en ég hélt áður en ég las þessa ágætu bók.

15. júlí: Vinstri grænir, Angela Merkel og atvinnuleysi
Á síðasta Alþingi lögðu þingmenn Vinstri grænna fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla. Samkvæmt frumvarpinu skulu þær skorður setar við uppsögn starfsmanns að „Uppsögn skal vera skrifleg, rökstudd og málefnaleg og miðast við mánaðamót.“ Ekki kemur fram hvernig úrskurða skal hvort uppsögn er nógu vel rökstudd en í greinargerð með frumvarpinu segir: „Rökin verða fyrst og fremst að varða hæfni eða framgöngu starfsmanns eða rekstrarlegar ástæður.“ Helst er að skilja þetta svo að sönnunarbyrðin skuli vera hjá atvinnurekanda, hann þurfi að gera sýnt fram á að uppsögn styðjist við rök af tilteknu tagi.
   Í Þýskalandi sitja flokkar í stjórn sem samsvara Samfylkingu og Vinstri grænum hér á landi. Þar er atvinnuleysi um 12% og fer vaxandi, ríkisfjármál í ólestri og kjósendur almennt hundóánægðir með ríkisstjórnina. Skoðanakannanir benda til að í næstu kosningum fái hægri flokkarnir meirihluta. Eitt af því sem Angela Merkel, leiðtogi hægribandalagsins (CDU og CSU), hyggst breyta nái hún völdum er vinnulöggjöf sem gerir atvinnurekendum of erfitt að segja upp fólki. Hún ætlar sem sagt að nema úr gildi lög af svipuðu tagi og Vinstri grænir reyndu að fá sett hér á síðasta þingi, enda eru góð rök til að ætla að slík lög leiði beinlínis til atvinnuleysis.
   Það kann að hljóma fallega að setja skorður við rétti atvinnurekenda til að segja upp starfsmönnum. Við fyrstu sýn getur jafnvel virst sem reglur til að „tryggja atvinnuöryggi“ manna vinni gegn atvinnuleysi— þeir sem eru í vinnu verða varla atvinnulausir nema þeim sé sagt upp og ef það er bannað að segja þeim upp þá er engin hætta á að þeir verði atvinnulausir. Eða hvað? Hér er ekki allt sem sýnist. Hugsum okkur að atvinnurekandi sjái leið til að bæta við reksturinn og hann hafi á tilfinningunni að það séu svona helmings líkur á að viðbótin skili arði. Við getum t.d. hugsað okkur að Jói, sem á dekkjaverkstæði, hugsi með sér að húsnæðið sem hann er í sé ekki fullnýtt og það væri sniðugt að innrétta hluta af því sem bílaþvottastöð og bjóða viðskiptavinum að láta þvo og bóna ökutækið um leið og gert er við dekk eða skipt um þau. Það þarf ekki að ráða nema einn mann í viðbót og fjárfestingin er frekar lítil svo það er vel áhættunnar virði að fara út í þetta og Jói lætur vaða, því hann hugsar með sér að ef þetta floppar þá fækki hann bara aftur um einn í starfsliðinu hjá sér. En hvað ef Jói, sem hefur aldrei verið neitt sérstaklega góður í skriflegum fræðum, má ekki segja upp starfsmanni nema hann geti sýnt fram á með rökum sem lögfræðingar telja góð og gild að uppsögnin sé málefnaleg? Trúlega heldur hann þá að sér höndum og lætur duga að reka bara dekkjaverkstæði eins og hann hefur gert.
   Nýsköpun í atvinnulífi er oftast áhættusöm. Menn fara af stað með eitthvað því þeir halda að það geti kannski gengið, en vilja eiga útgönguleið ef það gengur ekki. Hluti af þessari útgönguleið er að segja upp starfsfólki og oft er það svo að menn hafa á tilfinningunni að best sé að hætta einhverjum rekstri löngu áður en hægt er að setja fram borðleggjandi rök fyrir að það sé óhjákvæmilegt. Reglur af því tagi sem Vistri grænir vilja setja hér á landi og Angela Merkel vill afnema í Þýskalandi stuðla að atvinnuleysi vegna þess að þær gera það lítt fýsilegt að hefja rekstur eða umsvif þar sem getur brugðið til beggja vona um hvort hægt er að halda honum áfram. Þar sem þetta á við um flesta nýbreytni í atvinnulífi valda reglur sem tryggja ráðningarfestu því að atvinnutækifærum fjölgar hægar en ella.

12. júlí: Hlæjandi glæpa hljóp ég stig - trúarþörf á villigötum
Með einhverjum hætti sem ég kann ekki að skýra eru trúarþörf og trúarvitund margra manna nátengd einhvers konar sektarkennd og sjálfsásökun. Við sjáum þetta í ótal trúarljóðum og helgiritum, t.d. hjá Hallgrími Péturssyni sem kennir sjálfum sér um þjáningar Krists og eignar sér um leið syndafall heimsins og allar hörmungar sem því fylgdu. Hann ávarpar Jesú í fyrsta Passíusálmi og segir: „Hlæjandi glæpa hljóp ég stig. / Hefur þú borgað fyrir mig.“ Í öðrum sálmi heldur Hallgrímur áfram að ásaka sjálfan sig og segir m.a. „Aví, hvað hef ég, aumur þræll, / aukið þér mæðu, drottinn sæll.“ og „Mér virðist svo sem mín misgjörð / sé meiri að þyngd en himinn og jörð.“
   Nú er ég ekki maður til að gagnrýna Hallgrím Pétursson og vel má vera að í vísuorðunum sem hér eru höfð eftir honum sé fólgin einhver speki sem ég ekki skil. Mér finnst þó eins og ég skilji í aðra röndina að menn hafi þörf til að áfellast sjálfa sig— svona kannski eins og hundur hefur hneigð til að velta sér ýlfrandi á bakið og sýna þannig æðri hundi tilhlýðilega virðingu og tjá uppgjöf sína á þeim endalausu slagsmálum, stressi og valdabaráttu sem sem gera líf hundsins erfitt og armæðusamt. Það eru annars til alls konar kenningar um sektarkennd manna og þörf fyrir að kenna sjálfum sér um illt ástand heimsins þótt ekki sé hægt að skilja það neinum jarðlegum skilningi að þeir hafi náð að koma svo miklu illu til leiðar. Nietzsche fjallar til dæmis um þetta í 2. hluta Sifjafræði siðferðisins (Zur Genealogie der Moral) og heldur því fram að í siðmenntuðu samfélagi fái þörf manna til að meiða og kvelja enga útrás og hún beinist því inn á við— grimmdin sé lokuð inni í hug hvers og eins og ráðist að honum sjálfum því henni séu allar aðrar bjargir bannaðar. Kannski þarf engar svona hátimbraðar skýringar. Kannski er bara átakaminna að kenna sjálfum sér (og þar með öllum mönnum) um einhverjar allsherjarhörmungar heldur en að reyna að laga það sem er í raun og veru rangt og heimskulegt í eigin hegðun. Kannski er auðveldara að saka sjálfan sig um að níðast á Kristi og láta það yfirskyggja allt annað en að venja sig af að koma illa fram við sína nánustu.
   Á síðustu árum hefur þessi undarlega þörf manna til að rækta upp samviskubit og kenna sér um allt það vonda í heiminum fundið nýja útrás. Fólk fær sig ekki til að trúa því að það sé í raun og veru að auka á þjáningar frelsarans en reynir í staðinn að kenna sér um eitthvað annað. Fyrir nokkrum dögum skrifaði ég til dæmis um þá kenningu Jóns Gnarr að fátæktin í þriðja heiminum sé okkur að kenna. Fjöldinn allur af umhverfisverndarsinnum trúir því líka að hversdagslegir lifnaðarhættir sínir muni valda álíka yfirgengilegum hörmungum (mengun, loftslagsbreytingum, auðlindaþurrð) og erfðasyndin kom til leiðar að áliti kristinna manna. Kannski er þetta grimmd sem beinist inn á við eins og Nietzsche hélt. En kannski er bara auðveldast að kenna sjálfum sér um hörmungar heimsins sem eru svo stórar að í samanburði við þær sýnist allt sem aflaga fer í eigin ranni vera smámunir og engu skipta. Tekur því að vera trúr yfir litlu, vanda sig í daglegu lífi og vera góður við þessar fáu manneskjur sem ég umgengst dags daglega ef ég er hvort sem er búinn að umturna öllum heiminum? Er ekki að sumu leyti bara ósköp þægilegt að trúa því að „mín misgjörð / sé meiri að þyngd en himinn og jörð“?

7. júlí: Hagfræðikenning Jóns Gnarr
Jón Gnarr skrifar bakþanka í Fréttablaðið í dag. Oftast finnst mér töluvert vit í því sem hann segir en nú sýnist mér hann fullyrða talsvert meira en hann getur staðið við. Hann heldur því fram að þeir sem kaupa ódýrar vörur frá þriðja heiminum séu þrælahaldarar og eigi sök á fátæktinni þar. „Fátækt verður ekki til af sjálfu sér, hún verður til út af græðgi“ segir hann.
   Sjálfsagt má finna dæmi þess að græðgi eins valdi búsifjum hjá öðrum en ef ástæðan fyrir fátækt t.d. í Afríku væri einkum græðgi Vesturlandabúa í ódýrar vörur þaðan þá ætti að vera hægur vandi fyrir Afríkumenn að útrýma fátækt hjá sér einfaldlega með því að hætta öllum viðskiptum við Vesturlönd. Þetta er auðvitað ekkert annað en firra. Það er líka firra að fátækt stafi ævinlega af því að aðrir beiti þá fátæku rangindum.
   Fyrir einni öld voru Íslendingar fátæk þjóð. Fátækt þeirra stafaði eftir því sem ég best veit ekki af græðgi. Hins vegar varð „græðgi“ sumra nágrannaþjóða okkar í ódýrt lýsi, saltfisk, sauðaket, síld og fleira sem fátæklingar hér strituðu við að framleiða til þess að eyjarskeggjar á landinu bláa réttu loks úr kútnum. Þótt bændur, sjómenn og verkafólk hér hafi búið við erfið kjör fyrir hundrað árum finnst mér fjarstæða að kalla enska borgarbúa og aðra sem keyptu íslenskar afurðir þrælahaldara. Hví skyldi annað eiga við um þá sem nú kaupa ódýrar afurðir frá þriðja heiminum en þá sem keyptu íslenskar útflutningsvörur meðan hér bjó fátækt fólk?
   Helsta von þeirra þjóða sem búa við fátækt er að aðrir kaupi meira, en ekki minna, af vörum sem þær falbjóða á lágu verði. Það kann að hljóma fallega að segja að við ættum að greiða hærra verð fyrir þessar vörur. En ef verðið á skóm sem eru búnir til í fátæku landi er hækkað um helming verða þeir dýrari en skór sem eru búnir til í ríkara landi og fyrir vikið seljast þeir ekki, verksmiðjur í fátæka landinu draga saman seglin og verkafólk þar missir vinnuna. Við styðjum að öllu jöfnu fátækasta fólkið með því að vera sjálf hagsýn og kaupa af þeim sem býður lægsta verðið. Með því móti fer peningurinn þangað sem mest þörf er fyrir hann, þ.e. til landa þar sem laun eru lág.
   Vandi þriðja heimsins er ekki eftirsókn okkar ríku Vesturlandabúanna eftir ódýrum vörum enda blasir við að kjör þar versna ef við kaupum minna af þeim og batna ef við kaupum meira. Með þessu er ég ekki að segja að Vesturlönd séu alsaklaus af því sem aflaga fer í öðrum heimshlutum. Þau mættu t.d. leggja niður tolla og viðskiptahindranir sem koma í veg fyrir að menn eins og ég og Jón Gnarr fái að kaupa mat á því verði sem Afrískir bændur bjóða.
   Ég held að misskilningur af því tagi sem fram kemur í bakþönkum Jóns Gnarr sé nokkuð algengur. Svo virðist sem margir álíti að ríkidæmi og fátækt verði ekki til með öðru móti en því að einn féfletti annan eða beiti bolabrögðum í viðskiptum. En hversu trúlegt er þetta? Ætli Vesturlönd mundu hætta að vera rík ef þriðji heimurinn rétti úr kútnum? Væntanlega mundu einhverjar vörur frá þriðja heiminum hækka í verði ef laun þar hækkuðu en á móti kæmi að launþegar þar keyptu þá meira frá okkur. Að jafnaði er meira á því að græða að eiga ríka viðskiptavini en fátæka og betri kjör í einu landi hafa yfirleitt góð áhrif á efnahag annarra landa. Við erum ekki rík vegna þess að Afríka er fátæk, enda verðum við líklega enn ríkari þegar Afríkumenn efnast (alveg eins og við auðguðumst þegar Austur-Asíuþjóðir réttu úr kútnum). Og trúlega er greiðasta leiðin til að þeir verði bjargálna sú sama og Íslendingar fóru, nefnilega að selja vörur sínar hverjum sem kaupa vill á lægra verði en samkeppnisaðilar.
   Við gerum fátækum mönnum engan greiða með því að uppnefna þá sem kaupa af þeim vinnu, vörur eða þjónustu og kalla þá þrælahaldara. Hins vegar getum við sem erum aflögufær hjálpað öðrum á fleiri vegu en með verslun og viðskiptum, til dæmis með því að gefa peninga til Unicef eða annarra stofnana og félaga sem hlaupa undir bagga með þeim sem basla við erfið kjör.

6. júlí: „Naturfag som allmenndannelse“
Einn af fyrirlesurunum á þingi raungreinakennara á Akureyri (sjá færslu frá 2. júlí) var Svein Sjøberg prófessor í kennslufræði raungreina við Oslóarháskóla. Hann hefur ritað ágæta bók sem heitir Naturfag som allmenndannelse (Gyldendal 2. útg. 2004). Þar fjallar hann meðal annars um rökin fyrir því að allir læri náttúrufræði og segir (í 5. kafla) að þau séu einkum ferns konar:

  1. Efnahagsleg rök í þá veru að atvinnulífið þurfi á raungreinamenntuðu fólki að halda og að möguleikar nemenda á að fá góða vinnu aukist ef þeir eru vel að sér í náttúruvísindum.
  2. Nytjarök sem ganga út á að kunnátta í raungreinum hjálpi fólki að takast á við hversdagsleg verkefni þar sem nota þarf tækni sem er engin leið að skilja hvernig virkar án þess að kunna talsvert í raunvísindum.
  3. Lýðræðisrök sem byggjast á þeim forsendum að þekking á náttúrufræði sé forsenda upplýstrar umræðu og skynsamlegrar ákvarðanatöku um fjölmörg pólitísk mál eins og til dæmis heilbrigðismál, nýtingu náttúruauðlinda og umhverfisvernd.
  4. Menningarleg rök sem gera ráð fyrir að raunvísindin séu hluti af þeim menningararfi sem skólarnir eiga að miðla frá einni kynslóð til annarrar— þau séu með því dýrmætasta sem mannkynið á og lágmarksþekking í náttúrufræði ætti að vera aðalsmerki allra menntaðra manna.

Svein Sjøberg bendir á að þótt efnahagslegu rökin og nytjarökin séu fyrirferðamikil í málflutningi þeirra sem mæla með aukinni kennslu í raungreinum séu þessi rök í rauninni afar veik. Efnahagslegu rökin standast ekki, því þótt atvinnulífið þurfi fáeina vel menntaða sérfræðinga á ýmsum sviðum raunvísinda og tæknigreina kemst það ágætlega af þótt meirihluti fólks hafi ekkert vit á náttúrufræði og fjöldi fólks fær vel launuð störf án þess að kunna neitt í raunvísindum. Nytjarökin standast ekki heldur því með hverju ári sem líður verður hvers kyns tækni auðveldari í notkun fyrir fólk sem botnar ekkert í hvernig hún virkar og jafnframt verður hún flóknari í þeim skilningi að það verður erfiðara að útskýra hana í ljósi þeirra vísinda sem er raunhæft að þorri fólks læri í grunn- og framhaldsskólum.
   Jafnframt því sem Sjøberg bendir á að efnahagslegu rökin og nytjarökin standist ekki gagnrýni segir hann að lýðræðisrökin og menningarlegu rökin séu góð og gild. Ég held að rök Sveins Sjøberg fyrir þessu séu umhugsunarefni fyrir þá sem móta náttúrufræðikennslu í grunn- og framhaldsskólum. Hafi hann lög að mæla ætti kennslan að miða að almennri upplýsingu og skilningi á heimsmynd vísindanna og lögmálum náttúrunnar fremur en að snúast um einfalt nytjagildi eða undirbúning undir sérhæft háskólanám í einstökum greinum tækni- og raunvísinda.

5. júlí: Áframhald hugleiðinga um raungreinakennslu
Í framhaldsskólum eru náttúrufræðigreinar eins og eðlisfræði, efnafræði og líffræði oftast kenndar með það fyrir augum að búa nemendur undir sérhæft háskólanám í raunvísindum eða verkfræði. Ég held að í ýmsum öðrum námsgreinum eins og t.d. sögu eða móðurmáli eða tungumálum sé meiri áhersla lögð á almenna menntun sem nýtist öllum hvort sem þeir ætla að sérhæfa sig í viðkomandi grein eða ekki.
   Aðeins lítill hluti nemenda fer í háskólanám þar sem beinlínis er byggt ofan á það sem þeir læra í náttúruvísindum á framhaldsskólastigi svo búast má við að raungreinakennsla sem miðar einkum að því að undirbúa fólk undir slíkt nám laði að sér fremur fáa nemendur. Litlar líkur eru á að þetta breytist á næstunni því þær greinar atvinnulífsins sem vaxa hraðast um þessar mundir eru á sviðum viðskipta og þjónustu sem krefjast fremur lítillar kunnáttu í raunvísindum. Skilaboðin sem skólafólk fær frá vinnumarkaðnum eru á þá leið að það borgi sig að læra viðskiptafræði, upplýsingatækni, tungumál, sálfræði, eða lögfræði. Fyrir vikið velur stór hluti framhaldsskólanema að taka stúdentspróf af námsbrautum þar sem náttúrufræði er aðeins 9 einingar og lítil þjálfun er veitt í raunvísindalegum vinnubrögðum og hugsunarhætti. Afleiðing þessa er að stór hluti af menntuðu fólki hefur ósköp takmarkaðan skilning á lögmálum náttúrunnar og er fyrir vikið berskjaldaður fyrir furðufræðum, bábiljum og hindurvitnum og á erfitt með að sjá í gegnum gylliboð skottulækna og annarra sem spila á fáfræði samborgara sinna.
   Vera má að þörf sé að bregðast við þessu með því að laga raungreinakennslu á framhaldsskólastigi að aðstæðum og miða hana í auknum mæli við þarfir þeirra sem munu ekki sérhæfa sig í svipuðum greinum í háskóla. Þetta er hægt að gera með því að leggja minni áherslu á undirbúning fyrir sérhæft nám og aukna áherslu á viðfangsefni sem hafa almennt menntagildi eins og megindrættina í heimsmynd vísindanna, tengsl þeirra við heilsufræði, umhverfisvernd, daglegt líf, pólitísk úrlausnarefni og tækni sem nemendur þekkja og nota.
   Skilningur á: gangi sólkerfisins; varðveislu orkunnar; lotukerfinu; sambandi raf og segulkrafta; þróunarkenningunni; byggingu lífvera, erfðum og æxlun; heimi öreindanna og tvíeðli ljóssins; jarðsögu; heimsfræðikenningum um uppruna og þróun alheimsins. Allt ætti þetta að vera hluti af almennri menntun— sameign upplýstra manna en ekki séreign þeirra sem stunda raunvísindi á háskólastigi.

2. júlí: Þing norrænna raungreinakennara
Ég sat þing norrænna raungreinakennara sem haldið var á Akureyri dagana 27. til 30. júní. Um það bil 100 manns voru skráðir á þingið, þar af 33 Íslendingar. Af íslensku þátttakendunum var, að mér virtist, ekki nema um helmingur starfandi kennarar. Mér þótti þetta undarlegt. Hvers vegna fjölmenntu raungreinakennarar við grunn- og framhaldsskóla ekki á þingið? þarna gafst gott tækifæri til að hitta fólk sem er í fararbroddi í raungreinakennslu á Norðurlöndum og hlýða á fjölda vandaðra erinda. Mér hefur líka þótt undarlegt hve fáir kennarar hafa komið á aðrar ráðstefnur um fagleg mál eins og t.d. þær sem Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands heldur á hverju hausti. Er einhver deyfð yfir kennarastéttinni eða hafa menn aðrar leiðir til að fylgjast með í sínu fagi en að koma saman, hlýða á frásagnir af rannsóknum og þróunarstarfi og ræða málin við aðra sem eru að fást við sömu viðfangsefni.
   Ég er enn að melta sumt af því sem ég heyrði og sá á þinginu á Akureyri. Það sem hér fer á eftir eru nokkur þankabrot.
   Náttúruvísindin, eins og þau hafa þróast frá dögum Galileos Gelilei, eru leit að hlutlægum sannleika og skilningi á því hvernig heimurinn er í raun og veru. Þessi leit er frjáls og skapandi að því leyti að andæfa má hvaða kennivaldi sem er og setja fram alls konar kenningar og hugmyndir svo aðrir megi prófa þær og gagnrýna. En sannir náttúruvísindamenn eru ekki aðeins frjálshuga, þeir temja sér líka rökvísi og gagnrýna hugsun og venja sig á strangar kröfur um vandaðar rannsóknir og nákvæma framsetningu. Árangur þessa starfs er vægast sagt stórkostlegur. Vísindunum fleygir fram. En samt eiga blind trú, furðufræði og agalaust fimbulfamb sér ekkert minni hljómgrunn nú en á tímum Galileos þegar fjöldi fólks trúði á galdra, ára og púka. Það er eins og heimskan vaxi jafn hratt og þekkingin.
   Fjöldi menntamanna á Vesturlöndum aðhyllist um þessar mundir „póstmóderníska“ rökleysishyggju sem gengur út á að hvorki séu til staðreyndir né hlutlæg þekking og raunvísindin séu aðeins ein orðaræða af mörgum sem hvítir karlmenn hafi mótað til að styrkja völd sín — svokölluð vísindi séu ekkert annað en valdsorðaskak. Til viðbótar við þessa bullukolla er svo allt nýaldar- og furðufræðiliðið sem heldur að vestræn vísindi séu byggð á tómum misskilningi og þeir sem ná að lifa í sátt við náttúruna eða sitt eigið innra sjálf sjái sannleikann betur en vísindamenn. Þriðji andskotaflokkurinn er svo bókstafstrúarmenn sem halda að afgömul helgirit gefi mönnum réttmætt tilefni til að hafna vel grunduðum vísindakenningum á borð við þróunarkenningu Darwins.
   Málflutningur þessa fólks er í undarlegu ósamræmi við lifnaðarhætti þess. Þeir sem hafna því að vísindin afli hlutlægra sanninda nota farsíma og horfa á sjónvarp. Þeir hafa enga hugmynd um hvernig á því getur staðið að þessi tæki virka eins og þau gera ef kenningar eðlisfræðinga um rafsegulbylgjur eru ekki langleiðina í samræmi við raunveruleikann. Bókstafstrúarmenn byggja afkomu sína á tæknivæddri matvælaframleiðslu sem aftur byggist á líffræði og líftækni sem ekki er nokkur leið á fá vit í án þess að gera ráð fyrir þróunarkenningunni. Nýaldarrugludallur sem þykist hafa betri ráð við sjúkdómum en læknavísindin hringir á sjúkrabíl en ekki andalækni ef barnið hans slasast eða fær botnlangabólgu.
   Í ljósi alls þessa er freistandi að afgreiða andstæðinga vísindalegrar hugsunar sem illa upplýsta minnipokamenn sem eru í besta falli hlægilegir. En þeir hafa því miður of mikil áhrif til að það sé hægt. Það er sótt að vísindunum úr ýmsum áttum og talsmenn þeirra þurfa að verjast þessum árásum.
   Raungreinakennarar í framhaldsskólum eru flestir með hugann við að búa nemendur undir sérhæft háskólanám. Þeir ganga að því sem gefnu að vísindaleg rök og vísindaleg aðferð hafi yfirburði yfir trúarlegt kennivald, póstmódernískt fimbulfamb og alls konar furðufræði. Í samræmi við þetta er áherslan í raungreinakennslu í skólum á að þjálfa þá sem munu hvort sem er verða handgengir vísindunum. En þarf ekki líka að kenna raungreinar með það í huga að allir (líka þeir sem ekki ætla að verða raunvísindamenn) átti sig að einhverju marki á gildi vísindalegrar hugsunar og verði færir um að sjá í gegnum hindurvitni og ruglbornar tískuhugmyndir? Ættu raungreinakennarar ekki að taka „pólitíska“ köllun sína alvarlega og huga að mikilvægi þess að vísindaleg hugsun nái til allra, ekki bara þeirra sem munu sérhæfa sig í raungreinum?

26. júní: Enn um fjárlög og ríkisrekstur
Ég er enn hugsi yfir greinargerð Ríkisendurskoðunar sem ég skrifaði nokkrar línur um 23. júní. Þar virðist gert ráð fyrir að ákvarðanir forstöðumanna ríkisfyrirtækja skuli byggðar á rekstrarlegum forsendum eins og ákvarðanir stjórnenda hjá einkafyrirtækjum. En nú er ríkisrekstur í raun sósíalískur rekstur og rökin fyrir því að sum fyrirtæki (eins og t.d. skólar og spítalar) séu reknir af ríkinu eru á þá leið að á vissum sviðum eigi pólitík að ráða ferðinni fremur en markaðsöfl og arðsemissjónarmið. Það er fjarri mér að reyna að réttlæta stjórnendur ríkisfyrirtækja sem eyða meiri peningum en þeir hafa heimild til. En ég held að það þurfi að vera skýrara og ótvíræðara hvað þeir hafa heimild til að eyða miklu.
  Síðasta sumar var ljóst að fjárveitingar til framhaldsskóla dugðu ekki til að taka við öllum umsækjendum um skólavist. Þá ákvað menntamálaráðherra að gefa ríkisreknum framhaldsskólum fyrirmæli um að taka við öllum þeim sem luku tíunda bekk grunnskóla um vorið. Þessu hlýddu skólastjórnendur þótt þeir vissu að fjárveiting til skólanna dygði ekki til að kenna öllum þessum fjölda. Kostnað við kennsluna var lítið hægt að skera niður því hann ákvarðast að mestu af kjarasamningum Kennarasambandsins við fjármálaráðherra. Fyrirmæli ráðherra um að skólarnir tækju við öllum voru vissulega ekki nein lög og því má kannski segja að skólastjórendur hefðu fremur átt að óhlýðnast þeim en að eyða meiru en fjárlögin leyfðu. Samt er það óljóst í mínum huga hvort ráðherra gaf skólastjórnendum einhvers konar heimild til að reka framhaldsskóla með halla á árinu 2004. Hér þurfa að vera skýrari línur. Hvenær vega pólitískar ákvarðanir ráðherra, t.d. um að veita öllum unglingum skólavist, þyngra en fjárlög og rekstrarlegar forsendur?
   Eigi að krefjast þess að stjórnendur ríkisfyrirtækja reki þau án halla þarf að finna einhverja leið til að stjórnvöld geti gefið þeim pólitísk fyrirmæli um að bregðast við samfélagsvanda án þess að neyða þá um leið eyða um efni fram. Ef til vill er best að gera þetta með því að ráðherrar semji við ríkisfyrirtæki um viðbótarverk sem greitt yrði fyrir á fjárlögum næsta árs. Vilji ráðherra t.d. veita fleiri nemendum skólavist en skólarnir hafa efni á að taka við getur hann gert formlegan samning við einhvern skóla um að bæta við námshópum og fá kostnaðinn greiddan að ári. Með þessu móti yrðu línur skýrar þannig að rekstarleg ábyrgð yrði hjá skólameistara en pólitísk ábyrgð hjá ráðherra.
  Eins og nú er taka stjórnendur framhaldsskóla (og trúlega líka annarra ríkisfyrirtækja þótt mig skorti þekkingu til að fullyrða um það með vissu) við fyrirmælum um að redda málum án þess að hafa neina tryggingu fyrir hvenær fáist greitt fyrir það og hversu mikið. Eigi stjórnendur ríkisfyrirtækja að bera sams konar rekstrarlega ábyrgð og forstjórar hlutafélaga gengur ekki að þeir hlýði pólitískum fyrirmælum án þess að samið sé við þá um upphæð greiðslu og gjalddaga. Hvernig ætli matvörukaupmanni gengi að reka verslun sína ef félagsmálaráðherra gæfi honum við og við fyrirmæli um að bjarga fólki sem ekki á fyrir mat um nokkrar innkaupakerrur og segðist mundu reyna að kría út einhvern pening fyrir þessu seinna? Ég hugsa að kaupmanninum þætti heldur súrt að vera dreginn á greiðslu von úr viti og auk þess skammaður fyrir að reka búðina með tapi.

23. júní: Brot á fjárlögum
Í gær birtist á vef Ríkisendurskoðunar Greinargerð um framkvæmd fjárlaga árið 2004. Í greinargerðinni kemur fram að fjölmargar ríkisstofnanir eyða meiri peningum en þær hafa heimild til í fjárlögum. Meðal stofnana sem er fjallað um í skýrslunni eru nokkrir framhaldsskólar (sem betur fer þó ekki Fjölbrautaskóli Vesturlands þar sem ég starfa).
   Í lok greinargerðarinnar eru niðurstöður dregnar saman og lagt til að forstöðumenn sem ekki fara að fjárlögum verði látnir sæta ábyrgð. Orðrétt segir á bls. 46: „Mikilvægt er að ráðuneyti áminni forstöðumenn sem ekki fara að lögum og reglugerð um framkvæmd fjárlaga og lagt er til að tekið verði tillit til fjármálastjórnar þegar fimm ára starfssamningur forstöðumanna er endurnýjaður.“ Vel mætti taka undir þetta ef forstöðumenn ríkisstofnana hefðu jafn frjálsar hendur og forstöðumenn annarra fyrirtækja. Þar sem ég þekki til, í framhaldsskólum, vantar töluvert á að svo sé. Sumarið 2004 var t.d. ljóst að skólarnir gætu ekki tekið við öllum nemendum sem óskuðu eftir skólavist án þess að kostnaður við kennsluna yrði meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Um tíma leit út fyrir að nokkur hópur unglinga kæmist ekki að. Skólameistarar fengu þá fyrirmæli frá menntamálaráðuneytinu um að innrita fleiri. Þessu fylgdu fyrirheit um að kostnaður vegna umframnemenda yrði borgaður með aukafjárveitingu eftir áramótin. Þegar sú fjárveiting kom vantaði talsvert á að hún dygði fyrir viðbótarkostnaði sem skólarnir voru skikkaðir til að taka á sig með fyrirmælum frá æðstu stöðum. Hvern á að kalla til ábyrgðar þegar stofnanir fara fram úr fjárlögum af þessum og þvílíkum ástæðum?
   Í greinargerð ríkisendurskoðunar kemur raunar fram að ráðuneytin gera sér þetta ljóst. Þar segir á bls. 6: „Helstu ástæður sem ráðuneytin gefa fyrir erfiðleikum við framkvæmd fjárlaga eru að ekki sé vilji til að hækka útgjöld í fjárlögum þrátt fyrir að sýnt sé að rekstur stofnana rúmist ekki innan heimilda og fyrir liggi að ekki eigi að draga úr starfsemi þeirra í sparnaðarskyni. Þetta á ekki síst við um stofnanir menntamálaráðuneytis og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis sem búa við mikinn þrýsting um meiri þjónustu og útgjöld. Þá hafi kjarasamningar einstakra hópa og stofnana hækkað meira en samþykktur rammi fjárheimilda leyfir.“ Vandinn er sem sagt ekki fyrst og fremst ábyrgðarlausir yfirmenn ríkisstofnana heldur stjórnmálamenn sem lofa að gera allt fyrir alla og gefa fyrirheit um meiri opinbera þjónustu en nokkur leið er að borga og velta vandanum við að standa við stóru orðin yfir á skóla, spítala og aðrar stofnanir.
   Mér finnst margt vel athugað og skynsamlega sagt í greinargerð Ríkisendurskoðunar. En ég held að sá vandi sem þar er fjallað um verði ekki leystur að öllu leyti með betri fjármálastjórn í stofnunum og fyrirtækjum ríkisins. Þeir sem móta opinbera stefnu og setja lög um mál eins og menntun og heilbrigðisþjónustu þurfa líka að gæta hófs og hafa hemil á tilhneigingu sinni til að lofa almennum borgurum að ríkið geri meira fyrir þá en fjárlögin leyfa.

20. júní: Um ríka karla, fagrar konur og kynbundinn launamun
Í gær, 19. júní, var kvenréttindadagurinn. Þann dag var fjallað nokkuð um kynbundinn launamun í ríkisútvarpinu og fleiri fjölmiðlum. Flestir sem tjá sig um málið eru sammála um að atvinnutekjur karla séu talsvert hærri en kvenna og þó munurinn minnki gerist það undarlega hægt. Jafn lagalegur réttur virðist ekki hafa dugað til að útrýma mismun á launatekjum.
  Þegar um þetta er fjallað er stundum látið að því liggja að karlaveldi á vinnumarkaði sé um að kenna– stjórnendur hygli körlum fremur en konum vegna þess að þeir séu sjálfir karlar. Mér finnst ótrúlegt að þetta sé öll sagan, því ef valið stendur á milli þess að láta konu vinna verk fyrir þúsundkall og að láta karl vinna það fyrir tólfhundruð krónur hljóta fyrirtæki sem velja ódýrari kostinn að blómstra og hin að fara á hausinn. Þótt karlrembur í forstjórastólum vilji kannski borga strákum betur en stelpum hlýtur sá vilji að lúta í lægra haldi fyrir beinhörðum hagkvæmnisrökum, a.m.k. ef fyrirtæki eiga í harðri samkeppni og þau sem ekki velja arðvænlegustu kostina verða gjaldþrota. (Það væri spennandi að skoða hvort kynbundinn launamunur er minni í þeim greinum atvinnulífs þar sem samkeppni er hörðust.)
  Ef vinna karla er dýrari en vinna kvenna hvers vegna er hún þá keypt? Ofangreindar ástæður valda því að ég efast um að skýringin geti legið að öllu leyti í viðhorfum eða hegðun kaupendanna. Getur kannski verið að karlkyns launþegar séu aðgangsharðari en konur og grípi fremur tækifæri til að auka tekjur með aukavinnu eða bitlingum af einhverju tagi? Getur verið að skýringin sé fremur hjá launþegunum en launagreiðendunum?
  Ég ætla að leyfa mér að setja fram tilgátu sem gæti skýrt hluta af launamun karla og kvenna. Tilgátan er einfaldlega sú að konur sem eru í sambúð með karli geri upp til hópa kröfur um að hann skaffi vel. Konur vilja ríka karla. Karlar gera miklu síður slíkar kröfur til kvenna. Hjá flestum körlum snýst lífið að miklu leyti um að gera kvenfólki til hæfis og karlar láta undan þrýstingi frá eiginkonum og kærustum og hafa allar klær úti til að afla fjár svo konan geti státað af að eiga ríkan mann. Ef karlinn er vel giftur reynir konan í staðinn að vera sæt og falleg því alveg eins og það er stolt konunnar að eiga ríkan karl er það karlinum metnaðarmál að eiga fallega konu. Auðvitað er þetta ekki alveg svona einfalt. Sumt fólk er sem betur fer vaxið upp úr að hugsa á þennan veg. En ég held samt að þessi viðhorf séu enn til og hafi áhrif á hegðun fólks, þótt það sé misviljugt að gangast við því. Mér finnst til dæmis að svona þankagangur (að strákurinn eigi að skaffa og stelpan að vera sæt) sé nokkuð algengur hjá nemendum við Fjölbrautaskólann á Akranesi þar sem ég starfa. Þeir sem vilja að konur hafi sömu laun og karlar ættu kannski að reyna að fá fólk til að hætta að hugsa svona fremur en að skammast yfir karlaveldi á vinnumarkaði.
  Sé tilgáta mín rétt ættu karlar sem ekki búa með konu (t.d. piparsveinar og hommar) að hafa lægri tekjur en hinir. Ég veit ekki til að þetta hafi verið rannsakað hér á landi en vorið 2003 birtust niðurstöður rannsókna við Cornell háskóla í New York sem sýna að hommar hafa að jafnaði mun lægri laun en gagnkynhneigðir karlar en lesbíur hins vegar svipuð laun og gagnkynhneigðar konur. (Heimild: http://www.gaycitynews.com/gcn234/gayformuchlesspay.html) Rannsóknir í Bandaríkjunum sýna líka að þar í landi hafa giftir karlar að jafnaði hærri laun en ógiftir en hjá konum er þetta öfugt, þær giftu hafa lægri laun en þær ógiftu. (Heimild: http://clinton4.nara.gov/WH/EOP/CEA/html/gendergap.html)
  Getur verið að launamunur karla og kvenna skýrist að einhverju leyti af því að karlar reyna að þóknast konum sínum með því að hafa allar klær úti í vinnunni meðan konur láta nægja að lakka á sér neglurnar?

17. júní: Michel Houellebecq
Michel Houellebecq er rithöfundur sem kemur við kviku samtímans. Tvær bækur hans hafa verið þýddar á íslensku af Friðriki Rafnssyni og komið út hjá Máli og menningu. Þetta eru skáldsögurnar Öreindirnar (Les particules élémentaires) og Áform (Plateforme). Báðar hafa vakið ofsafengin viðbrögð og reiði en þeim hefur líka verið vel tekið og þær þýddar á fjölmörg tungumál.
  Mér þykja sögur Houellebecq með merkilegustu skáldverkum sem ég hef lesið eftir núlifandi höfunda. Fyrir þessu eru margar ástæður en sú helst að hann tekst á við markaðsvæðingu kynlífsins og hvernig hún læðist að okkur úr ýmsum áttum og breytir mannlífinu.
   Umfjöllun Houellebecq um kynlífsiðnaðinn minnir um sumt á klám en er samt ekki klám heldur tilraun til að lýsa áhrifum þess á fólk. Michel sem er aðalpersónan í sögunni Áform er stórneytandi kláms og vændis og einangrast fyrir vikið og myndar ekki nein tengsl við aðrar manneskjur. Hann eignast að vísu unnustu og meðan þau eru saman hefur lífið tilgang. En þegar hún er myrt af íslömskum hryðjuverkamönnum sækir aftur í sama farið og á endanum er Michel algerlega einn og með ógeð á sjálfum sér og allri tilverunni. Í stað innilegra samskipta koma tilraunir til að kaupa ást. En hún verður ekki keypt vegna þess að hún hættir að vera til um leið og hún er gerð að söluvöru. Saman við þessa frásögn blandast býsna róttækar efasemdir um að markaðsvæðing og algerlega sjálfstætt líf hvers og eins leiði til farsældar. Sama má segja um Öreindirnar. Þar fær sögumaður lesanda til að trúa því að gamla samfélagið þar sem hver var öðrum háður en ekki algerlega frjáls að haga lífi sínu að vild hafi veitt mönnum meiri hamingju en nútímamenn njóta, a.m.k þeir sem búa einir í sinni íbúð og kaupa allt sem þeir þurfa, líka kynferðislega fullnægingu.
   Sýn Houellebecq á tilveruna er líffræðileg og í anda þess Darwinisma sem er nú aftur tekinn að móta umræðu um mannlífið eftir að hafa legið í láginni um áratuga skeið. En öfugt við flesta sem skoða heiminn undir þessu vísindalega sjónarhorni boðar hann, að því mér virðist, íhaldssemi í siðferðisefnum. Í Öreindunum fá 68—byltingin, hipparnir og frjálslyndi í ástarmálum a.m.k. heldur ömurleg eftirmæli.
   Í viðtali sem tekið var við Houellebecq árið 2002 (http://www.houellebecq.info/english) sagðist hann ekki munu gefa út fleiri bækur, því fylgi of mikil vandræði. Hann bjó þá á afskekktum stað á Írlandi til að vera óáreittur því íhaldsmenn hötuðu hann fyrir bersöglina og vinstrimenn lögðu fæð á hann fyrir aðdróttandir í þá veru að einstaklingsréttindi, velferð og samfélag sem gerir hverjum og einum kleift að standa á eigin fótum leiði í raun af sér einsemd og örvæntingu.

16. júní: Hengisteinar, Magna Carta og gluggar samviskufanganna
Á ferð með fjölskyldunni til Englands um síðustu helgi lá leiðin að Stonehenge sem ætti að heita Hengisteinar á íslensku, því nafnið „Stonehenge“ er úr máli Saxa sem álitu að þetta mannvirki væri helst nothæft til að hengja menn. Þeir spöruðu sér ómakið að smíða gálga en brugðu í staðinn snæri um steinana sem liggja láréttir ofan og hinum og hnýttu snöru á enda þess. Ekki finnst mér þó trúlegt að steinaldarmennirnir sem röðuðu þessum björgum í hring 3000 árum fyrir búsetu Saxa á svæðinu hafi gert það í þeim tilgangi að hengja hver annan.
   Rétt hjá Hengisteinum er bærinn Salisbury. Þar er stór kirkja frá miðöldum. Í henni er safn þar sem meðal annars er eitt fárra eintaka af samningi þeim sem kallaður er Magna Carta og enskir barónar neyddu Jóhann konung landlausa til að undirrita þann 15. júní árið 1215. Með samningi þessum var stjórnmálaþróun á Englandi mörkuð stefna í átt til réttarríkis því Magna Carta takmarkaði vald konungs með því að skilgreina réttindi til handa þegnunum. Þótti mér merkilegt að sjá þetta skjal sem er ritað smáu letri á skinn. Mér fannst líka fara vel á því að fyrir altari í kirkjunni sem geymir Magna Carta eru steindir gluggar með myndum sem minna á hlutskipti samviskufanga og þeirra sem eru ofsóttir fyrir skoðanir sínar og þar hjá merki Amnesty International.

6. júní: Tyack, Cuban og Múmínpabbi
Ég var að ljúka við merkilega bók um skólaþróun í Bandaríkjunum. Hún heitir Tinkering toward Utopia - A Century of Public School Reform og er eftir David Tyack og Larry Cuban (Harvard University Press 1995). Ég heyrði prófessor Jón Torfa Jónasson fara lofsamlegum orðum um þessa bók í fyrirlestri sem hann flutti á ársfundi Nordiskt Skolledar Forum sem haldin var í Reykjavík í mars. (Nordiskt Skolledar Forum er samtök skólastjórnendafélaga á Norðurlöndum og á ársfundi þess mæta stjórnir aðildarfélaganna.) Eftir að hafa lesið bókina get ég tekið undir það með Jóni Torfa að hún er umhugsunarefni öllum sem beita sér fyrir umbótum í skólamálum. Höfundar rekja heillar aldar sögu tilrauna til að umbylta skólastarfi í Vesturheimi og hvernig hefðbundnir kennsluhættir hafa staðið þær allar af sér. (Með hefðbundnum kennsluháttum er m.a. átt við að nemendum sé skipað í bekki eftir aldri, kennarar loki sig af með einn hóp eða bekk og kenni sama fag í svona 40 til 60 mínútna lotum nokkrum sinnum í viku, nemendur mæti eftir stundatöflu þar sem er tiltekið hvaða fag fær hvaða tíma og fái í lok annar eða skólaárs einkunn fyrir frammistöðu í hverju fagi.)
   Höfundar tíunda fjölmargar byltingartilraunir og reyna að skýra hvers vegna byltingamönnum hefur gengið svo erfiðlega að breyta skólastarfinu. Meðal þess sem þeir benda á er að kennarar tileinka sér auðveldlega alls konar nýjungar (t.d. notkun myndvarpa, segulbanda, tölva og fleiri tækja) sem falla að skipulagsrammanum sem þeir vinna eftir en byltingartilraunirnar hafi jafnan verið gerðar utan frá af sérfræðingum eða stjórnmálamönnum sem hafa flestir litla reynslu af að kenna nemendum. Niðurstaðan er sú að það sé miklu flóknara og erfiðara að breyta skólum en flestir umbótamenn hafa álitið og grasrótarstarf og hægfara umbætur innan frá gefist yfirleitt betur en valdboð og stórar breytingar sem er miðstýrt eða keyrðar í gegn eftir einhverri allsherjarforskrift eða hugmyndafræði. Sumt sem þeir segja um þetta efni á erindi við okkur hér og nú þegar yfirvöld reyna í auknum mæli að miðstýra skólastarfi (t.d. með allt of ítarlegri námskrá og fleiri samræmdum prófum).
    Tyack og Cuban ræða nokkuð um tilraunir til að laga skólastarf að venjum í rekstri annars konar fyrirtækja, t.d. með gæðamati og launabónus eftir afköstum eða gæðum starfa. Sagan sem þeir segja af þessum tilraunum bendir ekki til að auðvelt sé að heimfæra aðferðir sem reynast vel við rekstur iðnaðar- eða þjónustufyrirtækja upp á menntastofnanir. Athyglisverðust þótti mér frásögn þeirra af því (bls. 126 o. áf.) hvernig yfirvöld menntamála víðsvegar í Bandaríkjunum hafa reynt að nota hvetjandi launakerfi og greiða kennurum því betri laun því betur sem þeir vinna. Skemmst er frá því að segja að þessar tilraunir hafa orðið skammlífar og víðast hvar hefur verið horfið frá því að nota launabónus eða það sem höfundar kalla „merit pay“ innan fárra ára eftir að slíkt kerfi hefur verið tekið upp: „The history of performance-based salary plans has been a merry-go-round. In the main, districts that initillay embraced merit pay dropped it after a brief trial.“ (bls. 130)

Fyrst ég er að tala um bækur sem ég er með í kringum mig þessa dagana get ég ekki stillt mig um að setja hér lýsingu á hemúlum úr Muminpappans Bravader Skrivna av honom Själv (Gebers, Helsingfors 1961 bls. 16): „En hemul har hemskt stora fötter och ingen humor, ... Näsan är lite tillplattad och håret växer i obestämda tottar. En hemul gör ingenting därför att det är roligt, utan bara för att det borde göras, och berättar hela tiden för en vad man själv börde ha gjört ...“

4. júní: Akureyri - kennaramenntun - Friðrik V.
Ég var á Akureyri frá miðvikudegi til föstudags í þessari viku. Á fimmtudaginn var aðalfundur Félags íslenskra framhaldsskóla og stjórnin fór norður daginn áður til að undirbúa fundinn. Á föstudeginum var svo aðalfundur Félags stjórnenda í framhaldsskólum. Allmargt bar til tíðinda á þessum fundum sem ekki verður rakið hér. Fyrir sjálfan mig er það mikilvægast að ég var í stjórnum beggja þessara félaga og hafði verið nógu lengi svo ég gaf ekki kost á mér til endurkjörs og hef því frí frá félagsmálum.
   Það var fallegt við Eyjafjörð þessa daga, svalt og bjart og snjór niður í fjallahlíðar. Fundarmenn skruppu í skemmtisiglingu um fjörðinn, stigu á land í Hrísey og skoðuðu borgarísjaka (sem er mun merkilegra náttúrufyrirbæri en ég hafði gert mér í hugarlund). Við skoðuðum líka Háskólann á Akureyri og hlýddum á tölu Þorsteins Gunnarssonar rektors. Hann ræddi um styttingu námstíma til stúdentsprófs og lét þess meðal annars getið að vegna tilfærslu á námsefni frá framhaldsskóla til grunnskóla þurfi að lengja skólagöngu kennara á unglingastigi. Einkum taldi hann þörf á að auka menntun þeirra í kennslugreinunum eða fögunum sem þeir ætla að kenna. Kvað hann best að gera þetta með því að krefjast MEd gráðu af þeim, þ.e. framhaldsnáms við kennaraháskóla eftir að þeir ljúka þriggja ára námi til BEd gráðu. Vel get ég tekið undir það með Þorsteini að kennarar sem kenna t.d. ensku, íslensku, náttúrufræði, sögu eða stærðfræði á unglingastigi þurfi meiri menntun í þessum greinum en innifalin er í venjulegu kennaranámi til BEd gráðu. Hins vegar efast ég um að MEd nám við kennaraháskóla sé besta leiðin til að mæta þessari þörf.
   Öflugustu fagmannahóparnir við kennaraháskóla eru uppeldis- og menntunarfræðingar en ekki fræðimenn í greinunum sem kennararnir eiga að kenna þegar þeir ljúka námi. Í kennaranámi er megináherslan á kennslufræði en kennslugreinarnar í öðru sæti. Þessi áhersla er eðlileg og skynsamleg þegar verið er að mennta leikskólakennara og kennara fyrir neðri bekki grunnskóla. Ef byggt verður upp MEd nám fyrir kennara á unglingastigi innan kennaraháskóla verður væntanlega einhver togstreita um hvaða námsefni skuli bætt við þá kennaramenntun sem nú er í boði og mér finnst trúlegt að öflugasti hópurinn hafi sigur og aukningin verði aðallega í uppeldis- og menntunarfræðum svo nemendur læri enn meira um kennslu án þess mikið bætist við efnið sem þeir ná tökum á að kenna. (Vart þarf að taka það fram að menn geta vitað heil ósköp um kennslu án þess að geta kennt— alveg eins og hægt er að vita heil reiðinnar býsn um fótbolta án þess að geta neitt úti á vellinum.)
   Eigi að bæta menntun kennara í unglingadeildum ætti e.t.v. að huga að leiðum til að fjölga þar kennurum sem hafa BA eða BS próf í kennslugrein og ársnám í kennslufræði til viðbótar. Þegar hugað er að menntun þeirra sem kenna lykilgrinar eins og ensku, íslensku, náttúrufræði, sögu og stærðfræði í efstu bekkjum gunnskóla ættu námsgreinarnar að vera í fyrsta sæti og kennslufræðin að þjóna þeim en ekki öfugt eins og hætt er við að verði ef öll menntun kennaranna fer fram við kennaraháskóla.
   Áður en ég segi skilið við Akureyri ætla ég að hrósa veitingastaðnum Friðrik V. Fráfarandi stjórn Félags íslenskra framhaldsskóla snæddi þar á miðvikudagskvöldið. Ekki var nóg með að maturinn væri frábær heldur var þjónustan það líka og kokkurinn alveg einstaklega skemmtilegur þegar hann kom stökkvandi fram og talaði um matinn sem var allt frá súpu úr mysingi, maltöli og fuglakjöti yfir í pönnukökur með flamberuðum ávöxtum.

Í tilefni af niðurstöðum
í þjóðaratkvæðagreiðslum
í Frakklandi og Hollandi