Atli Harðarson
Af vefnum - ágúst og september 2005

29. september: Fréttir og stórlygar
Í íslenskum þjóðsögum segir frá mönnum sem skemmtu sér við stórlygar. Víst geta lygisögur verið miklu skemtilegri en eintóm sannindi, sem eru eins og menn vita oft frekar litlaus. Samt held ég að ég sé ekki einn um að vilja að fréttirnar sem ég les í blöðunum og heyri í útvarpinu séu að minnsta kosti nokkurn vegin sannleikanum samkvæmar. Undanfarin misseri finnst mér þó sífellt oftar ástæða til að vantreysta fréttum og þá er ég ekki bara að tala um DV heldur líka fréttir hjá alvöru fréttamiðlum. Eitt dæmi kom upp eftir fellibylinn í Louisiana. Fjölmiðlar heimsins kjömsuðu heil ósköp á sögum um ofbeldi, gripdeildir og vígaferli. Meðal annars áttu vopnaðir ribbaldar að hafa myrt fólk sem leitaði skjóls í Superdome íþróttahöllinni í New Orleans. Þetta át hver eftir öðrum en þegar var svo farið að kanna málið mörgum dögum seinna kom á daginn að þetta var tóm lygi. Morgunblaðið og Ríkisútvarpið mega bæði eiga það að þau birtu leiðréttingar á röngum fréttum um stórfelld ofbeldisverk í New Orleans. Morgunblaðið segir frá því (27. sept.) að „sögur sem sagðar voru af ofbeldi og jafnvel morðum á íþróttaleikvanginum ... voru stórlega ýktar eða jafnvel uppspuni frá rótum.“ Samkvæmt sömu frétt munu þeir sem könnuðu málið hafi orðið þess vísari að „sex lík fundust á leikvanginum. Í fjórum tilvikum var um að ræða dauðsfall af eðlilegum orsökum, í einu tilviki var um sjálfsvíg að ræða og eitt tilvik mátti rekja til of stórs skammts af fíkniefnum.“
   Fréttin um vargöld í kjölfar fellibylsins var að líkindum stórlygi sem kjaftagleiðustu þjóðasagnapersónur hefðu verið fullsæmdar af— of stór lygi til að hægt væri að gleyma henni og halda áfram að skrifa nýjar fréttir eins og ekkert væri. En hvað með smálygar? Nennir nokkur að leiðrétta þær og hlýtur ekki að vera talsvert af þeim á kreiki í fréttum ef fréttamenn skrifa upp stórtíðindi án þess að kanna málið og rannsaka hvort þau séu sannleikanum samkvæm?

26. september: Rétturinn til að gera mannamun
Fólki dettur margt í hug og misgáfulegt. Sumt af því er framkvæmt. Í síðustu viku og vikunni þar áður var þess nokkrum sinnum getið í Ríkisútvarpinu að í nágrannalöndum okkar væru lög gegn mismunum á vinnumarkaði, en hér á landi væru engin slík lög. Ef ég skil þetta rétt þá banna lög gegn mismunun á vinnumarkaði að vinnuveitendur láti kyn, þjóðerni, trúarbrögð eða annað í þeim dúr ráða úrslitum um hvaða umsækjandi um starf er ráðinn. Ef slík lög væru í gildi hér þá væri Vigga í dömuskóbúðinni lögbrjótur ef hún réði eingöngu stelpur til að afgreiða hjá sér. Hún gæti ekki látið þau rök duga að starfsmannaaðstaðan á bak við sé þröng og hún geti ekki hugsað sér að einhverjir karlar séu að troðast þar og ekki heldur að sér finnist óviðkunnanlegt að karlar séu að hjálpa dömum að máta skó, hvað þá að hún gæti borið við því sem henni raunverulega finnst að karlar séu leiðinlegir og vísir til að svína út klósettið með því að pissa út fyrir. Svona sjónarmið væru einfaldlega bönnuð. Li sem er með kínverska núðlustaðinn í sama húsi og dömuskóbúðin mætti ekki ráða Han af þeirri ástæðu að hún er frá Kína eins og hann og það þýddi ekkert fyrir hann að gefa upp sem ástæðu að hann verði vitlaus ef hann getur ekki haft einhvern hjá sér sem hægt er að tala við á máli sem hann skilur almennilega. Ég gæti fabúlerað óteljandi dæmi af svipuðu tagi um gistihúseiganda sem vill aðeins ráða náttúruverndarsinna, bílaverkstæði þar sem allir halda með Arsenal, skrifstofu stéttarfélags þar sem er ótækt annað en starfsmenn trúi á málstaðinn og banka þar sem ætlast er til að starfsmenn gangi í jakkafötum frekar en Che-bol. Rétturinn til að gera mannamun er óaðskiljanlegur frá réttinum til að skapa andrúmsloft sem hæfir vinnustað, halda í sérstöðu, vera öðru vísi. Vonandi halda Íslendingar áfram að vera öðru vísi en sú flatneskja heimsins sem heldur að það sé framfaramál að banna mismunun á vinnumarkaði.

24. september: Fjarkennsla, rétt svör og sjálfstæð hugsun
Undanfarin ár hef ég haldið úti fjarkennslu í heimspeki á framhaldsskólastigi. (Allar upplýsingar um áfangana sem ég kenni eru á þessum vef). Kennslan gengur þannig fyrir sig að nemendur fá verkefni í hverri viku og skila skrifuðum svörum í tölvupósti sem ég fer yfir. Flest verkefnin snúast um að lesa bókakafla, skýra einhverja hluta hans og setja fram rökstutt álit á innihaldinu. Nemendur fá næstum enga aðstoð. Eina vinna kennarans er að leggja verkefnin fyrir og fara yfir úrlausnir nemenda (sem tekur svo sem góða stund í hverri viku því þetta eru heil ósköp af lesmáli sem nemendur senda mér). Mér virðist þessi aðferð, að kenna næstum ekki neitt en láta nemendur eina um að lesa og skrifa, gefast nokkuð vel og árangurinn almennt vera betri en þegar ég kenndi svipað efni með því að hitta nemendur í kennslustundum fjóra klukkutíma í viku hverri.
   Mér dettur ekki í hug að þessi kennsluaðferð henti jafn vel í öllum námsgreinum. Ég vildi t.d. ekki nota hana í stærðfræði þar sem nemendur þurfa oftast að fá aðstoð kennara, ábendingar og stuðning með stuttu millibili til að komast áfram. Kannski hentar hún hvergi betur en í heimspeki enda er sú námsgrein ólík öðrum greinum að því leyti að hún snýst ekki nema að mjög litlu leyti um miðlun eiginlegrar þekkingar. Nemendur kynnast vissulega fjölda hugmynda (frummyndakenningu Platons, tvíhyggju, hughyggju og efnishyggju o.s.frv.) og sjá mörg dæmi um mótsagnir og rökfærslur sem þeir geta haft sem fyrirmynd þegar þeir greina og gagnrýna hugmyndir og skoðanir. En það er engin heimspeki að geta romsað upp úr sér sögulegum staðreyndum um kenningar og rök fyrri tíðar manna. Það er hugmyndasaga. Til að læra heimspeki þarf maður að meðtaka hugmyndir, rökfærslur og þankagang á þann hátt að hann noti þetta til að skoða sína eigin hugsun; finna þverbresti og mótsagnir í viðhorfum sem hann þekkir; gagnrýna, og prófa skoðanir sem hann hneigist til að trúa. Kjarni heimspekinnar er viss tegund af sjálfstæði og frelsi í hugsun sem felst bæði í leikni og æfingu í að greina skoðanir og hugrekki til að vefengja þær.
   Ég held að það sé heppilegt fyrir nemendur að taka fyrstu skrefin í heimspekinámi sjálfir. Þegar ég reyndi að kenna þetta með venjulegum kennsluaðferðum fyrir nokkrum árum síðan fór yfirleitt á sama veg, að nemendur vildu glósur frá mér, ábendingar og leiðbeiningar um hvernig ætti að vinna verkefni og hvernig ætti að skilja textana sem voru lesnir (þ.e. þeir vildu máta það sem þeir lásu við hugsun kennarans en ekki sína eigin). Þótt ég léti ekki beinlínis í ljós neina skoðun á efninu sem var til umræðu áttuðu nemendur sig yfirleitt á því hvað mér fannst og álitu að það væru réttu svörin. En jafnvel þótt þetta hefðu verið réttu svörin hefðu þau ekki komið að miklu gagni. Rétt svör við spurningum um hvernig á að hugsa sjálfstætt hjálpa manni ekki að hugsa sjálfstætt. Vitlaus svör sem leiða hann í ógöngur þannig að hann neyðist sjálfur til að snúa við gera miklu meira gagn. Blindgötur hugsunarinnar eru þeirrar náttúru að enginn getur vitað að þær eru blindgötur nema hafa sjálfur gengið þær til enda.

21. september: Skóli og skholé
Á mánudagskvöldið var foreldrafundur í Fjölbrautaskóla Vesturlands. Áður en foreldrar nýnema héldu til fundar við umsjónarkennara barna sinna ávarpaði Hörður skólameistari samkomuna og minnti meðal annars á að nám er vinna. Í eyrum flestra nútímamanna virðast það ef til vill sjálfsögð sannindi að nemendur fari í skóla til að vinna og taki jafnvel heimavinnu með sér úr skólanum. Menn taka skóla ekki eins alvarlega ef þeim er sagt að nám sé leikur eða skemmtun. En ef vel tekst til er samt leikur að læra og nám skilar bestum árangri ef nemendum þykir það skemmtilegt.
   Á bak við þessa einföldu fullyrðingu að nám sé vinna felst kannski stór hluti af lífssýn og gildismati nútímamanna. Sumir mundu jafnvel bæta því við að nám sé vinna sem menn inna af hendi til að verða hæfari til að stunda aðra og enn alvarlegri vinnu síðar. En ekki hafa allir hugsað á þessa leið og það sjáum við meðal annars af hvernig orðið „skóli“ er til okkar komið. Það er dregið af forngrísku orði, en á því máli voru kviður Hómers, leikrit Sófóklesar, samræður Platons og Nýja testamentið rituð. Í þá gömlu daga merkti orðið „skholé“ frí eða tómstundir— það sæla ástand sem menn búa við ef þeir þurfa ekki að strita og hafa því tóm til að auðga andann og gera eitthvað skemmtilegt eins og að ræða saman og læra hver af öðrum.
   Það er allmikill munur á því að vilja komast í álnir til að geta menntast og lifað menningarlífi og að vilja ekkert læra nema til þess eins að geta grætt meiri peninga. Þetta síðarnefnda kallaðist víst einu sinni að hafa asklok fyrir himin. Það gera skólamenn ekki.
   Ég neita því auðvitað ekki að nám er í vissum skilningi vinna. Það er að minnsta kosti tímafrekt og krefst oft töluverðrar áreynslu, svo ef við köllum alla iðju sem krefst þess að menn leggi sig fram vinnu þá er það sem Hörður sagði við foreldrana alveg satt. En ég held að það sé líka satt að góður skóli er að minnsta kosti í aðra röndina skholé í upprunalegri merkingu þess orðs.

17. september: Sigurður Nordal og bókmenntasagan
Árið 1924 kom út Íslensk lestrarbók Sigurðar Nordal. Ég efast um að nokkur önnur bók hafi haft viðlíka áhrif á hugmyndir núlifandi Íslendinga um hérlenda menningarsögu. Síst vil ég gera lítið úr Sigurði. Hann var frumlegur hugsuður og ég dáist að mörgu hjá honum, ekki síst einstaklingshyggjunni og áherslu hans á að menn fari sínar eigin leiðir fremur en að apa eftir tískunni. Það er því heldur kaldhæðnislegt hvað margir sem á eftir komu og vildu taka Sigurð til fyrirmyndar sáu menningararfinn af sjónarhóli hans fremur en sínum eigin. Enn þann dag í dag eru nemendur í framhaldsskólum látnir lesa sömu texta og Sigurður valdi í lestrarbók sína fyrir meira en 80 árum. Mér dettur í hug það sem Hallgrímur Pétursson segir um Pílatus í 27. Passíusálmi að það „sem helst nú varast vann, varð þó að koma yfir hann.“ Þeir sem hafa, á seinni árum, gefið úr sýnisbækur íslenskra bókmennta til nota í skólum hafa, að því mér virðist, ekki lagt sjálfstætt mat á menningarsöguna heldur apað eftir Sigurði.
   Lestrarbók Sigurðar og skrif hans um íslenska menningarsögu opnuðu augu landsmanna fyrir því að hér byggi upplýst þjóð sem hefði tekið fullan þátt í þúsund ára samræðu evrópskra gáfumanna. Á þessum tíma þurftu Íslendingar kannski að sanna það fyrir sjálfum sér að helstu stefnur í andlegu lífi Norðurálfu ættu sína fulltrúa hér á landi. Í lestarbókinni eru fulltrúar píetisma og upplýsingar, rómantíkur og raunsæis og annarra skóla sem mótuðu viðhorf háskólamanna sunnar í álfunni. Íslendingar voru menningarþjóð– það voru menntamenn í torfkofunum– þeir fylgdust með og lögðu ýmislegt til málanna– sönnunin stóð þarna svart á hvítu í lestrarbókinni góðu. Þar fer minna fyrir þjóðsögum, þjóðkvæðum, barnagælum, lausavísum, bænum, sálmum, alþýðlegum skrifum af því tagi sem stundum er kennd við neftóbaksfræði og öðru sem var í raun og veru andlegt fóður allrar alþýðu (þótt vissulega séu slíkar bókmenntir þarna innan um).
   Nú til dags þarf ekki að sanna fyrir landsmönnum að menning þeirra sé hluti af menningu heimsins. Við höfum meiri þörf á að rifja upp það sem við eigum og er sérstætt og öðru vísi og kannski er það tímanna tákn að fólk er aftur farið að kveða rímur. Kveðskapur af því tagi sem Ólafur Davíðsson safnaði saman í bókinni Íslenskar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur (útg. 1887) eða Einar Ólafur Sveinsson í Fagrar heyrði ég raddirnar (útg. 1942) á hljómgrunn meira að segja hjá börnum sem vilja láta lesa fyrir sig Gamlar vísur handa nýjum börnum (Guðrún Hannesdóttir valdi vísurnar, útg. 1994) og það aftur og aftur.
   Ég hef á tilfinningunni að sjónarhóll Sigurðar Nordal (ágætur og merkilegur eins og hann var) sé ekki sá sem best er að leiða þorra skólakrakka upp til að vekja áhuga þeirra á bókmenntum. Íslenskir fulltrúar upplýsingar og raunsæis skrifuðu ekki texta sem tala til margra unglinga nú um stundir. Kannski er tími til kominn að safna í öðru vísi lestrarbók þar sem alþýðumenningu er gert hærra undir höfði og minna lagt upp úr að sanna að Íslendingar hafi átt sína fulltrúa í öllum þessum „ismum“ sem sagt er frá í veraldarsögunni. Eigi að kynna stefnur í heimsbókmenntum fyrir nemendum í grunn- og framhaldsskólum væri líka nær að lesa þýðingar á bestu fulltrúum þeirra fremur en glefsur úr því illskásta sem frumsamið var undir sömu merkjum hér á landi eða af íslenskumælandi Kaupmannahafnarbúum.

15. september: Lýðræði
Í tengslum við það sem ég er að læra um mat á skólastarfi fór ég að hugsa dálítið um lýðræði. Hugmyndir um lýðræði eru af margvíslegu tagi en stóran hluta af þeim má þó flokka í tvær gerðir. Aðra gerðina má kenna við samráð og hina við samkeppni.
   Samráðshugmyndir um lýðræði gera ráð fyrir að rökræða sé kjarni lýðræðisins. Það sé einkum í því fólgið að fólk hafi samráð á jafnréttisgrundvelli, ræði málin og komist að sameiginlegri niðurstöðu sem allir fallast á (eða gera sér grein fyrir) að er sanngjörn og rétt. Hugmyndum af þessu tagi fylgir gjarna áhersla á að allir taki þátt í opinberu lífi og almannavaldið endurspegli sameiginlegan vilja allra. Þeir sem lengst ganga í að halda fram hreinræktuðum samráðshugmyndum líta svo á að ákvörðun fyrir hóp sé réttmæt ef hún endurspeglar sameiginlaga vilja sem hefur orðið til í yfirvegaðri rökræðu.
   Þeir sem halda fram samkeppnishugmyndum eru ekki eins bjartsýnir á að hægt sé að finna niðurstöður sem allir fallast á (eða gera sér grein fyrir) að séu sanngjarnar og réttar. Þeir telja að atkvæðagreiðsla sé kjarni lýðræðisins og skásti kosturinn sé yfirleitt að leyfa öllum að halda fram sínum sjónarmiðum og reyna að afla þeim fylgis og greiða svo atkvæði þar sem meirihlutinn vinnur og minnihlutinn tapar. Hugmyndum af þessu tagi fylgir oftast áhersla á mikilvægi þess að hafa fastar formlegar leikreglur (um atkvæðagreiðslur og ákvarðanatöku) og takmarka almannavaldið svo meirihlutinn valti ekki yfir minnihlutann. Þeir sem lengst ganga í að halda fram hreinræktuðum samkeppnishugmyndum líta svo á að ákvörðun fyrir hóp sé réttmæt ef leikreglum er fylgt (fundir boðaðir með réttum fyrirvara, fundarsköp virt, atkvæði rétt talin o.s.frv.)
   Þessi tvö hreinræktuðu afbrigði af lýðræði eru bæði takmörkuð. Þau þurfa hvort á öðru að halda. Samkeppnissjónarmiðin eru nauðsynleg, því þar sem mikilvægir hagsmunir eru í húfi og menn skiptast í flokka og er heitt í hamsi er nauðsynlegt að hafa ákveðnar leikreglur svo hægt sé að binda enda á deilur og taka réttmæta ákvörðun (jafnvel þótt sumir séu ósáttir við hana). En ef menn hugsa aðeins á samkeppnisnótum og reyna ekki að ræða saman með yfirveguðum hætti og leita skynsamlegra málamiðlana þá aukast sárindi og illdeilur og röngum og óheppilegum ákvörðunum fjölgar.

11. september: Mat á skólastarfi og ameríkuslagsíða
Fyrr á þessu ári fékk Fjölbrautaskóli Vesturlands styrk úr þróunarsjóði framhaldsskóla til að endurskoða starfshætti við innra mat. Stjórnendur skólans ákváðu að leita liðsinnis doktors Sigurlínu Davíðsdóttur sem er lektor við félagsvísindadeild Háskóla Íslands og kennir þar m.a. námskeið um mat á skólastarfi. Til þess að geta betur nýtt ráðgjöf hennar skráði ég mig í þetta námskeið og er því aftur orðinn nemandi við Háskóla Íslands eftir nokkurra ára hlé.
   Mér líst heldur vel á námskeiðið og hlakka til að glíma við verkefnin sem þar munu lögð fyrir. Ég er byrjaður að lesa námsbækurnar og rekst á það sama og olli mér töluverðum heilabrotum þegar ég var að læra uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda á sínum tíma, nefnilega að námsefnið er að langmestu leyti frá Bandaríkjunum og miðast við þarlenda menningu og skólahefð. Trúlega er þetta að nokkru leyti vegna þess að á tungumálum sem íslenskir háskólanemar geta lesið búa Bandaríkjamenn til betri kennslubækur en aðrir. Kannski er skýringin líka að einhverju leyti sú að margir af okkar bestu fræðimönnum á sviði skólamála hafa sjálfir numið í Vesturheimi. Þótt mér sé heldur vel til Bandaríkjanna og hafi góða reynslu af að vera í námi við háskóla þar, held ég að þessi ameríkuslagsíða á námsefni í kennslu- og menntunarfræðum sé dálítið óheppileg. Menntahefð og skólamenning hér á landi sem og löggjöf, stjórnsýsla og fleira er hluti af menningu Norðurlanda og ekki víst að það henti að skoða þetta mest og jafnvel eingöngu af amerískum sjónarhóli.
   Um þessi efni fór ég að hugsa í fyrradag þegar ég var að aka upp á Skaga eftir að hafa sótt kennslustundir hjá Sigurlínu þar sem hún fjallaði um sögu og þróun mats á skólastarfi. Að nokkru leyti fylgdi hún því sem segir um efnið í einni af kennslubókum námskeiðsins (Program Evaluation – Alternative Approaches and Practical Guidelines eftir Fitzpatrick, Sanders og Worthen). Af kennslubókinni mætti ætla að saga skipulegra tilrauna til að meta fræðslu- og skólastarf hafi að langmestu leyti gerst í Bandaríkjunum og áður en byrjað var að meta skóla með skipulegum hætti þar í landi hafi fátt verið gert af viti í þessum efnum. En við hér á Norðurlöndum vitum að á 18. öld lét Danakonungur meta alþýðufræðslu í ríki sínu. Ofurlítill hluti þeirrar sögu er vel sagður í bókinni Saga Alþýðufræðslunnar á Íslandi eftir Gunnar M. Magnúss sem Samband íslenskra barnakennara gaf út árið 1939.
   Árið 1741 sendi danska ríkisstjórnin Ludvig Harboe hingað til lands til þess að meta ástand fræðslumála. Helsti samstarfsmaður Harboes hér á landi var Jón Þorkelsson sem hafði m.a. verið rektor Skálholtsskóla. (Jón er einnig þekktur undir nafninu Thorcillius og við hann er Thorkillisjóður kenndur en fé úr honum var notað til að kosta menntun fátækra barna.) Um þá segir í bók Gunnars M. Magnúss:

Ferðuðust þeir um landið á sumrum, en sátu um kyrrt á vetrum, lengst af á Hólum. Hvar sem þeir komu, stefndu þeir til sín börnum og unglingum, líklega mest á aldrinum 12–17 ára, en prestar og djáknar voru látnir yfirheyra unglingana í viðurvist Harboes og Jóns. Sumstaðar voru fullorðnir einnig spurðir.
   Skýrslur Harboes, að þessu rannsóknarstarfi loknu, eru hinar merkilegustu. ... Skal hér minnst á einstök atriði, sem sýna ástandið: Á Tjörn á Vatnsnesi og Kirkjuhvammi voru 19 börn, aðeins 8 læs. Þess er getið að presturinn sé nær bókalaus, átti ekki Biblíuna. – Vesturhópshólar: Presturinn talinn hafa vanrækt barnafræðslu. 18 börn illa að sér, 7 læs. ... (Bls. 31.)

Harboe og Jón könnuðu hvernig prestar sinntu fræðsluhlutverki sínu og hvernig var háttað lestrarkunnáttu og menntun barna í hverri einustu sveit á Íslandi. Gefum Gunnari M. Magnúss aftur orðið:

Að rannsókn lokinni héldu þeir félagar, Harboe og Jón Þorkelsson, aftur til Hafnar. Þeir gerður margar tillögur til umbóta, og komust sumar þeirra strax í verk. Harboe lét sér einkum annt um kristindómsfræðsluna og lestrarkunnáttuna. (Bls. 39.)

Þetta var um miðja 18. öld, löngu áður en saga skipulegs mats á fræðslu- og skólastarfi hófst í Norður Ameríku.

10. september: Mat á skólastarfi
Eitt þeirra verkefna sem mér ber að vinna í starfi mínu sem aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands er að halda utan um og stýra mati á starfi stofnunarinnar. Samkvæmt 23. grein laga um framhaldsskóla (nr. 80 frá 1996) skal hver „framhaldsskóli ... innleiða aðferðir til að meta skólastarfið, þar á meðal kennslu- og stjórnunarhætti, samskipti innan skólans og tengsl við aðila utan skólans.“ Þetta mat er kallað „innra mat“ vegna þess að það er framkvæmt innan stofnunar og ákvarðanir um fyrirkomulag þess teknar af starfsmönnum sjálfum.
   Suma þætti þessa mats er fremur vandræðalaust að framkvæma. Ég tek til dæmis saman yfirlit um nýtingu á kennslu í hverri deild skólans, þ.e. hvort námshópar séu nógu stórir til að peningarnir sem ríkið greiðir með hverjum nemanda dugi fyrir launum kennara og öðrum kostnaði. Þetta eru fremur einfaldir útreikningar, en samt gagnlegir því þeir hjálpa til við að skipuleggja kennsluna þannig að skólinn sé rekinn hallalaust. Svipaða sögu má segja um mat á ýmsum öðrum þáttum, t.d. hvort nemendur eru ánægðir með þjónustu bókasafns, mötuneytis og annarra starfseininga sem þeir eiga viðskipti við. Þetta er fremur auðvelt að kanna með spurningalistum. Þessi atriði sem er auðveldast að kanna og meta varða fjárhag, ánægju nemenda og starfsfólks, aðbúnað, tækjakost og fleira í þeim dúr. Vissulega skipta þessi atriði heilmiklu máli og vissulega er mikilvægt að þau séu öll í góðu lagi. Þau ráða þó ekki úrslitum um hvort skólinn er góður skóli. Það sem ræður úrslitum er hvort nemendur þroskast og menntast, verða hæfari, flinkari, færari eða betri í þeim efnum sem skólinn á að miðla þeim. Það er alveg sama hvað aðbúnaður er góður og hvað nemendur og starfsmenn eru ánægðir— ef nemendur verða ekki færari, hæfari eða á einhvern hátt betri en þeir hefðu orðið er þeir hefðu ekki gengið í skólann þá er hann varla góður skóli.
   Það er hægt að meta gæði þjónustu með spurningalistum og könnunum af ýmsu tagi. En skóli er ekki beinlínis þjónustustofnun. Hve vel honum tekst hlutverk sitt veltur ekki á því hvort „viðskiptavinirnir“ eru ánægðir heldur hversu mikið skólavistin hefur aukið kunnáttu þeirra, hæfni og getu og þetta er erfitt að mæla. Erfiðleikarnir stafa að nokkru af því að árangurinn verður ekki ljós fyrr en reynir á hvernig nemendur standa sig í frekara námi og störfum og þá er oftast svo langur tími liðinn að kennsluaðferðir og námsefni hafa breyst. Að nokkru stafa erfiðleikarnir af því að markmið skólagöngunnar eru svo víðfeðm að það er erfitt að henda reiður á hvers konar hæfni, geta eða mannkostir skuli metnir. Síðast en ekki síst er þrautin þyngri að henda reiður á hvernig nemendur hefðu orðið ef þeir hefðu ekki gengið í skólann. Kannski er hægt að bera þá saman við nemendur úr öðrum skólum. Með því fæst samanburður milli framhaldsskóla sem segir einhverja sögu en ef skólarnir eru allir svipaðir erum við litlu nær um kosti skóla í samanburði við aðrar leiðir til að verja æsku- og unglingsárunum.
   Það er erfitt að meta kjarna skólastarfsins, kennsluna og námið, svo vel sé og mér hefur stundum dottið í hug að formlegt mat á þessum lykilþáttum skólastarfsins snúist mest um óttaleg aukaatriði og þegar verst lætur stuðli það beinlínis að því að kennarar fari að sóa kröftum í þau í stað þess að einbeita sér að því sem raunverulega skiptir máli.

2. sept: Dreifkjörnungarnir
Þegar ég læri líffræði í skóla var lífverum stundum skipt í frumbjarga og ófrumbjarga, þar sem plöntur tilheyra fyrrnefnda flokknum og dýr þeim síðarnefnda. Frumbjarga lífverur hafa hæfileika til ljóstillífunar og geta nýtt orku sólarinnar beint, þ.e. breytt orku ljóssins í efnaorku. Í grænukornunum (chloroplast) í frumum jurta er ljósið sem fellur á þær notað til að breyta koldíoxíði og vatni í sykur. Efnaorkan geymist svo í sykrinum þangað til hann gengur í samband við súrefni og varmi losnar við brunann. Frumbjarga lífverur mynda að sjálfsögðu undirstöðu fæðupíramídans. Ef þær byggju ekki til sykur og önnur efni sem hægt er að brenna hefðu dýrin ekkert til að nærast á. Jurtir gætu semsagt verið til án dýra, en dýr gætu ekki verið til án jurta.
   Þessar velþekktu staðreyndir um hvernig lífið á jörðinni nýtir orku sólarinnar gefur tilefni til að ætla að jurtaríkið sé undirstaða alls lífs. Málið er þó ekki alveg svona einfalt. Jurtir eru ekki fullkomlega sjálfbjarga um næringu. Þær geta ekki unnið köfnunarefni (nitur) úr loftinu af eigin rammleik og ef enginn gerði það fyrir þær ætu þær upp það sem er af nýtilegum köfnunarefnissamböndum í jarðvegi og vatni og dæju svo úr skorti á þessum nauðsynlega áburði. Einu lífverurnar sem geta bundið köfnunarefni úr loftinu og matreitt svo það nýtist jurtum eru nokkrar gerðir af bakteríum, einfaldir og frumstæðir dreifkjörnungar (procaryote).
   Í líffræðinni sem ég lærði í skóla var talsvert fjallað um frumur og líffærin inni í þeim eins og litninga, ríbósóm, hvatbera (mitochondrion) og grænukorn. Frumurnar sem mest rúm fengu í kennslubókunum voru samkjörnungar (eucaryote) eins og líkamar dýra og jurta eru myndaðir úr, þ.e. frumur með frumukjarna (sem hýsir litningana með erfðaefninu) og flókinni líffæraskipan. En flestar lífverur á jörðinni eru dreifkjörnungar eins og bakteríur og blágrænuþörungar, þ.e. einfrumungar sem hafa engan frumukjarna, eru miklu einfaldari að allri gerð en samkjörnungarnir og yfirleitt nokkur þúsund sinnum minni.
   Í bráðskemmtilegri bók eftir Andrew H. Knoll sem heitir Life on a young planet - the first three billion years of evolution on earth (Princeton University Press 2003) er fjallað um elstu menjar um líf á jörð. Það sem hér fer á eftir er mest glefsur úr þessari bók. Höfundur segir frá rannsóknum sem benda til að lífið á jörðinni hafi kviknað fyrir meira en þrjúþúsund og fimmhundruð milljónum ára. Ríflega helming þess tíma sem liðinn er síðan voru aðeins til dreifkjörnungar. Þeir höfðu fjölmargar leiðir til að afla sér orku. Sumir notuðu jarðvarma, sumir virkjuðu sólarljós, sumir nýttu útvermin efnahvörf af ýmsu tagi. Svona er þetta enn, að efnaskipti dreifkjörnunganna eru æði margvísleg en samkjörnungar styðjast einkum við þrjár leiðir til orkuöflunar: Ljóstillífun (sem fram fer í grænukornum) bruna (sem fram fer í hvatberum) og gerjun.
   Bakteríur eru ef til vill þekktastar fyrir að valda alls konar sjúkdómum og víst eru sumar þeirra heldur erfiðar fyrir dýr og jurtir. Heilbrigður mannslíkami inniheldur þó fjöldann allan af bakteríum sem eru nauðsynlegar til að hann fái þrifist og það sama á við um aðra fjölfrumunga. (Í mörgum þeirra eru bakteríurnar miklu fleiri en frumur eigin líkama.) Samkjörnungarnir þurfa á dreifkjörnungum að halda til fleiri verka en að vinna köfnunarefni úr loftinu. Þessi minnstu bræður sjá um mestalla þá efnavinnslu sem lífríkið byggist á og í vissum skilningi mata þeir hverja einustu frumu í líkömum samkjörnunganna.
   Árið 1905 setti rússneski grasafræðingurinn Konstantín Merezhkowskí fram þá tilgátu að grænukornin í frumbjarga samkjörnungum hefðu upphaflega verið dreifkjörnungar sem komu sér fyrir inni í annarri frumu. Samkvæmt þessari tilgátu er frumbjarga „einfrumungur“ eins konar sambýli tveggja fruma þar sem önnur býr innan í hinni og sér henni fyrir efnaorku. Flestir líffræðingar skelltu skollaeyrum við tilgátu Merezhkowskí þar til hún var endurvakin af Lynn Margulis árið 1967. (Lynn tók síðar upp eftirnafnið Sagan - hefur trúlega gifst manni með því nafni.) Nú er haft fyrir satt að grænukornin hafi komist inn í ættir samkjörnunga sem mynda jurtaríkið með því að forveri þeirra hafi leyft litlum blágrænuþorungi að búa innan í sér og framleiða sykur í skiptum fyrir prótín. Ekki er nóg með það. Hvatberarnir sem eru í öllum samkjörnungum eiga sér svipað upphaf sem lífvísindi nútímans hafa staðfest með því að greina erfðaefnið sem í þeim er fólgið (já hvatberar og grænukorn eru að ýmsu leyti eins og sjálfstæðar frumur t.d. með eigið erfðaefni). Sú greining sýnir skyldleika við bakteríur.
   Það lífríki sem við sjáum eru aðallega stórir fjölfrumungar (dýr, jurtir, sveppir). Nokkrir samkjarna einfrumungar eru líka nógu stórir til að við getum séð þá. En allt þetta sýnilega líf hvílir á undirstöðu sem er ósýnileg berum augum, nefnilega dreifkjörnungunum. Meðal þeirra eru til tegundir sem eru sjálfum sér nægar og geta verið til án samkjörnunga en enginn samkjörnungur fær þrifist án dreifkjörnunga.

27. ágúst: Stífni íslenskunnar
Kristján G. Arngrímsson ritar athyglisverða grein um mannréttindi og siðfræði Kants í Lesbók Morgunblaðsins í dag. Grein sína kallar hann Um göfgi mannsins og ræðir þar meðal annars merkilega ráðgátu sem er hvort vísinda-, veraldar- og efnishyggja útiloki algild mannréttindi. Þarf að trúa því að maðurinn sé eitthvað annað og meira en jarðnesk lífvera til að taka hugmyndina um göfgi hans og algild réttindi alvarlega? Þetta er efni í löng skrif sem verða að bíða betri tíma. Hér ætla ég að hnýta dálítið í athugasemd um meinta stífni íslenskunnar sem Kristján gerir í framhjáhlaupi, þar sem hann er að ræða hugtökin Vorstellung og Idee í heimspeki Kants.
   Í þýðingu Guðmundar Heiðars Frímannssonar á Grundvelli að frumspeki siðlegrar breytni er „Idee" þýtt með orðinu „Hugmynd" (með stórum upphafsstaf en) „Vorstellung" sem „hugmynd" (með litlu hái). Um þýðingu þessara orða segir Kristján: „Þýðandinn [...] hefur viðurkennt að þetta, stór og lítill stafur, sé ,vandræðaleg lausn’, og segja má að hún sýni vel hvernig stífni íslenskunnar getur beinlínis sett hugsunina í hlekki.“
   Ég hef allvíða rekist á svipaðar athugasemdir um að íslenska sé stíf, óþjál eða fjötri hugsunina. Víst er oft erfitt að þýða flókinn texta og fyrir þá sem hafa numið öll sín fræði á öðrum málum er töluvert átak að koma þeim til skila á íslensku. En þetta vitnar ekki um neina sérstöðu íslenskunnar. Sama á við um allar þýðingar og mér er til efs að það sé neitt erfiðara að snúa þýskum texta á íslensku heldur en á ensku eða frönsku eða hvaða annað tungumál sem vera skal.
   Dæmið sem Kristján tekur er raunar ekki sérlega heppilegt því þýsku orðin „Vorstellung" og „Idee" má sem best þýða með íslensku orðunum „hugmynd" og „hugsjón". Það sem Kant (og Hegel) áttu við með „Idee" er einhvers konar viðmið sem stýrir hugsunum manna, setur þeim markmið og gerir þeim kleift að sjá einingu og
samhengi í reynslu, sem annars væri sundurlaus tætingur. Íslenska orðið „hugsjón“ er oft notað um eitthvað í þessa veru.
   Sjálfur nam ég heimspeki á ensku og rak mig oft á hve auðvelt er að renna ofan í hjólför sem klisjur og vani hafa grafið og festast þar. Þegar efni hefur verið rætt lengi og af mörgum á sama málinu verða til föst orðasambönd, venjubundinn talsmáti sem menn verða of handgengnir til að gagnrýna. Þegar verst lætur komast þeir ekki upp úr hjólförunum en finnst samt sem hugsunin sé algerlega frjáls vegna þess hve þeir renna greiðlega fram og aftur sama troðninginn. Þá er gott að geta hugsað á íslensku þar sem ekki er búið að setja viðfangsefnin í fastar skorður. Mál sem virðist þjált og auðvelt getur fjötrað hug manns og glíma við erfiðar þýðingar gefið honum vængi.  

25. ágúst: Kim og allífið
Í skáldsögunni Kim eftir Rudyard Kipling segir frá munaðarlausum dreng af írskum ættum sem elst upp á Indlandi. Kim vex að mestu upp innan um múslimi og hindúa og gengur síðan í þjónustu bresku yfirstéttarinnar sem notar sér kunnáttu hans í tungumálum og siðum innfæddra til að láta hann njósna fyrir sig. Sagan er að nokkru um samskipti Breta og Indverja undir lok nítjándu aldar en mest fjallar hún um samband aðalpersónunnar við lama eða búddamunk frá Tíbet sem er í pílagrímsferð um láglendið í suðri.
   Munkurinn leitar að elfi ódauðleikans og undir lok sögunnar kemst hann svo langt að sál hann sameinast allífinu. Þá hafði Kim um árabil ferðast með honum og litið á sig sem lærisvein og þjón. Þótt lamann hafi alltaf boðað að tilfinningar fjötri sálina við hjól verðandinnar og komi í veg fyrir að hún öðlist frelsi og sælu snýr hann aftur í sinn jarðneska líkama vegna þess að hann getur ekki hugsað sér að skilja Kim einan eftir.
   Kim lifir á mörkum margra heima. Hann umgengst menn af ólíkum þjóðum og trúarbrögðum og hann tekur í senn þátt í njósnum fyrir breska heimsveldið og leitinni að veruleika sem kvað vera miklu merkilegri en allt sem jarðneskt er. Valdabrölt Englendinganna er andstæða við leit búddamunksins að endanlegum og yfirskilvitlegum friði. Það er eins og Kipling geri góðlátlegt grín að hvoru tveggja en í sögulok er lesandinn þó á bandi búddamunksins sem stjórnast af einlægri hjartagæsku þegar hann tekur vináttuna fram yfir það sem kenningar hans og fræði sögðu vera æðstu gæði.
   Pælingarnar í þessar sögu eru um sumt líkar þeim sem finna má í nokkrum af kvæðum Kiplings, þar sem hversdagsleg góðvild er tekin fram yfir háfleygar hugsjónir eða trúarlegar kennisetningar. Í ljóðinu um syni Mörtu er vinna þeirra sem leggja vegi og vatnsveitur til dæmis lofsungin: „Ekki sem stigi í himinhćđir, né heldur trúarjátning djörf, / - en einföld ţjónusta af heilum huga heimi goldin í allra ţörf“ svo vitnað sé í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar.
   Kipling hefur stundum verið legið á hálsi fyrir fylgispekt við enska heimsvaldastefnu og vafalaust hefur hann, a.m.k. í aðra röndina, litið á sig sem dyggan þegn Victoriu drottningar. En í sögunni um Kim er betlimunkur frá Tíbet samt ímynd visku og manngæsku en fulltrúar ensku kirkjunnar fremur grunnhyggnir og ekki sérlega aðdáunarverðir. Þeir komast aldrei svo langt að þurfa að velja milli himneskra fjársjóða og mannlegra tilfinninga.

21. ágúst: Enn um traust
Hversu vel við getum treyst ókunnugu fólki veltur að nokkru á því hvort það hefur orð á sér fyrir heiðarleika. En það veltur samt miklu meira á tilveru alls konar stofnana, skrifstofu- og samskiptatækni, lögum og réttarkerfi.
   Ég get hringt í verslun í öðru landi og beðið um að dýr hlutur sé sendur til mín og fólkið í versluninni pakkar hlutnum inn og setur hann í hendurnar á bláókunnugum vörubílstjóra sem fer með hann. Það eina sem seljandi hefur í höndum er númer á kreditkorti sem ég gaf upp í símanum. Hann treystir því að flutningafyrirtæki fari með vöruna rétta leið, ég borgi reikninginn í banka í öðru landi og peningarnir berist sér. Þetta traust byggist ekki á neinni vitneskju um að ég sé heiðarlegur heldur á því að risastórt og flókið kerfi (sem inniheldur flutningafyrirtæki, tollgæslu, banka og kreditkortafyrirtæki, lögreglu, dómstóla o.fl.) virki. Ef vörubílstjórar ættu það til að fara með farminn á flóamarkað og selja fyrir slikk, löggan væri vís til að þiggja hluta af hagnaðinum fyrir að látast ekkert finna þegar málið er kært, enginn gæti haft upp á þeim sem gefa upp stolin kreditkortanúmer og pósturinn fengist til að fara með valda pakka annað en sendandi óskaði eftir þá væri traust af þessu tagi óhugsandi.
   Ég get farið á bílaleigu og ekið burt á bíl sem er milljóna virði og eigandinn treystir því að fá bílinn aftur þótt hann viti ekkert hvort ég er heiðarlegur og skilvís. Honum nægir að sjá kreditkort og persónuskilríki. Þetta dugar til að hann sé nokkurð öruggur um að kerfið hafi upp á mér ef ég reyni að stela bílnum. Stundum er talað um þetta „kerfi“ (banka og kreditkortafyrirtæki sem geyma upplýsingar um fjármálaferil manna, yfirvöld sem lúra á alls konar persónuupplýsingum, símafyrirtæki sem geta þefað uppi hvaðan er hringt úr farsímum o.s.frv.) sem einhvers konar ógn við frelsi manna. Vissulega er hægt að nota háþróaða skrifstofutækni, þar sem upplýsingar um einstaklinga berast greiðlega milli ríkisstofnana og fyrirtækja, til að kúga fólk. En í reynd er hún samt mest notuð til að skapa traust sem eykur möguleika fólks á að fara sínar eigin leiðir og gera fjöldamargt sem ekki væri hægt að öðrum kosti eins og t.d. að panta vörur í síma eða fá bílaleigubíl í útlöndum og eiga margvísleg önnur viðskipti við ókunnuga án þess að taka með því meiri áhættu en hægt er að sætta sig við.

19. ágúst: Fornbókasalan í Þórshöfn
Reyði krossurin (Rauði krossinn) í Færeyjum rekur fornbókaverslun við smábótahöfnina í Þórshöfn. Ég kom þar inn í sumar. Búðin var full af bókum og dyrnar stóðu opnar en þarna var enginn að afgreiða. Eftir að hafa litast um dálitla stund rakst ég á miða sem hékk á hurð inni í búðinni. Á honum stóð að maður ætti að greiða fyrir bækurnar með því að setja peninga í rifu við dyrnar. Þeir sem reka þessa búð treysta greinilega samborgurum sínum. Mér varð hugsað til þessarar merkilegu bókabúðar þegar maður frá Kenýa kom í kvöldmat heima hjá mér nokkrum dögum eftir að ég kom úr Færeyjaferðinni. Hann sagði margt frá landi sínu, meðal annars að í Nairobi væri óráðlegt fyrir útlendinga að taka leigubíl frá flugvellinum inn í borgina, því leigubílstjórar ættu það til að ræna ferðamenn. Hann bætti því við að lögreglan væri líka vís til að ræna fólk. Af frásögn hans mátti ráða að menn skyldu fara varlega í að treysta ókunnugu fólki þarna suður frá.
   Hvað við getum gert veltur að miklu leyti á hve vel við getum treyst öðru fólki. Hér á landi geta menn tekið leigubíl og leigubílstjórar geta vænst þess að fá viðskiptavini vegna þess að það þykir fremur fjarlægur möguleiki að leigubílstjóri ræni farþega sína. Hér á landi geta menn hins vegar ekki sleppt því að hafa afgreiðslufólk í verslunum því það verður að teljast fremur líklegt að þá mundu allmargir viðskiptavinir sleppa því að borga fyrir vöruna.
   Hagkerfi sem heldur uppi þokkalegum lífskjörum er óhugsandi nema hægt sé að veita lán og taka lán, gera samninga, ferðast um þjóðvegi og senda vörur með flutningafyrirtækjum. Ef menn geta treyst hver öðrum er allt þetta vandræðalaust. Því minna sem traustið er því meira þarf af öryggisgæslu, varúðarráðstöfunum, tryggingum og eftirliti og ef ekki er hægt að reiða sig á neinn, ekki einu sinni að lögreglan vinni vinnuna sína, þá verður þetta vesen svo yfirgengilegt að það er ekki nokkur leið fyrir venjulegt fólk að reka fyrirtæki eða standa í viðskiptum.
   Það er vel þekkt að náttúruauðlindir hafa lítil áhrif á lífskjör þjóða. Í mörgum löndum sem eru rík af olíu, málmum og öðrum auðlindum búa fátækar þjóðir og sums staðar þar sem landgæði eru lítil og rýr búa menn við ríkidæmi. Ætli það hafi verið kannað hvaða áhrif traust hefur á afkomu manna? Mér kæmi ekki á óvart ef slík könnun leiddi í ljós að ríkidæmi, velmegun og farsæld þjóða ráðist einkum af því hvort treysta megi ókunnugu fólki, að það ráðist hvorki á mann, ræni né svíki heldur komi heiðarlega fram og standi við orð sín.

12. ágúst: Hittust Adam og Eva einhvern tíma?
Undanfarin 10 ára hefur breytileiki í Y litningum karlmanna víðs vegar um heiminn verið kortlagður. Ýmsir hafa unnið að því verki. Þeirra frægastur er líklega Ítalinn Luca Cavalli-Sforza. Rannsóknir hans hafa leitt ýmislegt í ljós um skyldleika þeirra þjóða sem jörðina byggja og hvernig mannkynið hefur dreift sér um heiminn. Frá þessu segir í bráðskemmtilegri bók sem heitir The Journey of Man og er eftir bandaríska erfðafræðinginn Spencer Wells. Hann gerir skilmerkilega grein fyrir aðferðunum sem hann sjálfur, Cavalli-Sforza og fleiri hafa notað til að sýna fram á að fyrir 60.000 árum bjó allt mannkynið í Afríku. Á næstu 10.000 árum dreifðist fólk með ströndum Indlandshafs allt til Ástralíu (það var hægt að ganga mestalla leiðina því á jökulskeiðinu var sjávarborð mun lægra en nú).
   Fyrir um 45.000 árum var fólk komið um Arabíuskaga og Suðvestur-Asíu. Afkomendur þess voru komnir til Mið-Asíu fyrir 35.000 árum og þaðan dreifðist ein grein til Evrópu, önnur til Norðaustur-Asíu fyrir 20 til 30 árþúsundum. Löngu seinna eða fyrir milli 10 og 20 þúsund árum fóru afkomendur Mið-Asíumanna svo yfir Beringsund til Ameríku.
   Allt þetta er leitt í ljós með því að skoða breytileika í kjarnasýrum sem geymdar eru í Y-litningi. Sá litningur erfist aðeins í beinan karllegg (konur hafa engan Y litning heldur tvo X-litninga en karlmenn hafa einn kynlitning af hvorri gerð). Sameiginlegt frávik í niturbasaröð í Y litningi bendir til sameiginlegs forföður og með því að skoða breytileika í öðrum hlutum erfðaefnis í hópi þeirra sem bera þetta frávik er hægt að áætla hvað langt er síðan þessi sameiginlegi forfaðir var uppi. Sameiginlegur forfaðir flestra frumbyggja Ameríku í beinan karllegg arfleiddi þá að fráviki sem kallað er M3. Hann var uppi fyrir um það bil 10.000 árum. Hins vegar þarf að leita um 50.000 ár aftur í tímann að sameiginlegum forföður Ástralíumanna í beinan karllegg.
   Í bókinni skýrir Spencer Wells hvernig stór hluti af sögu mannkynsins er skráð í litninga okkar en hann bendir á að nú sé hver að verða síðastur að lesa þessa sögu því ólíkar þjóðir blandist býsna hratt nú um stundir og það verði sífellt erfiðara að finna menn sem eiga allar ættir innan sama svæðis.
   Ef karlar heimsins rekja ætt sína í beinan karllegg þarf hver að telja upp um 2500 forfeður þar til komið er að karli sem bjó í Afríku fyrir um 60.000 árum og er sameiginlegur forfaðir okkar allra. Við höfum allir fengið Y-litning í arf frá honum, þótt kynkvíslirnar hafi í aldanna rás hnikað til einum og einum niturbasa og þannig skilið eftir sig slóð sem hægt er að nota til að rekja vegferð mannkynsins og útbreiðslu á svipaðan hátt og hægt er að nota lesbrigði í handritum til að ákvarða aldursröð þeirra og hvað er skrifað upp eftir hverju.
   Hugsum okkur að karlinn sem allir menn rekja ættir til í beinan karllegg hafi heitið Adam. Hver var þá Eva? Í frumu sem myndar hluta af líkama konu er ekkert erfðaefni í frumukjarnanum sem erfist eingöngu í kvenlegg (konur þiggja einn kynlitning frá hvoru foreldri og allir hinir litningarnir eru líka hrærigrautur úr báðum ættum). Því er erfitt að nota kjarnasýrur í litningum til að hafa upp á Evu með sama hætti og Cavalli-Sforza og félagar höfðu upp á Adam. En hvatberar (sem eru eins konar bakteríur inni í hverri frumu og nýta súrefni og sykur til að sjá frumunni fyrir orku sem hún hefur tök á að virkja) erfast aðeins frá móður og innan hvatbera er dálítið erfðaefni svo hægt er að leika nokkurn veginn sama leik með þá og með Y-litninginn. Í ljós er komið að konan sem allir jarðarbúar rekja ættir til í beinan kvenlegg var uppi meira en 80.000 árum á undan Adam. Það er miklu styttra í sameiginlegan forföður en í sameiginlega formóður sem skýrist trúlega af því að miklu færri karlar en konur eiga afkomendur. Sumir karlar hafa átt börn með mörgum konum en flestir hafa ekki átt nein börn sem komust á legg (og svo eru menn að tala um að misrétti hafi aðallega bitnað á kvenfólki). Adam gæti t.d. sem best hafa barnað tíu konur sem voru nógu fjarskyldar til að sameiginleg formóðir þeirra hefði kvatt þennan heim árþúsundum fyrr en hann sjálfur var af konu fæddur.

11. ágúst: Líffræðin og sjálfsmynd mannfólksins
Saga líffræðinnar er merkilegur hluti hugmyndasögunnar meðal annars fyrir þá sök að í líffræðinni mætast mannvísindi og raunvísindi. Skilningur á því hvers konar skepna maðurinn er hlýtur að vera, a.m.k. öðrum þræði, líffræðilegur. Þess vegna hafa rannsóknir og kenningar líffræðinga haft ómæld áhrif á hugmyndir fólks um stjórnmál, siðferði og alla okkar tilveru.
   Á 19. öld varð sú skoðun viðtekin meðal líffræðinga að hver fruma hefði öll megineinkenni lífveru (nærist, æxlast o.s.frv.), allar lífverur væru annað hvort einfrumungar eða samsettar úr mörgum frumum og frumum fjölgaði með því að þær skiptu sér. Um leið og þessi hugmynd var komin á kreik fóru af stað vangaveltur um þjóðarlíkamann, hvort samband einstaklings við þjóð sína væri ekki svipað sambandi frumu við líkamann sem hún tilheyrir. Á sama tíma höfðu kenningar um þróun lífsins ómæld áhrif á stjórnmálahugsun og heimspeki. Sumir álitu að líffræðileg rök sýndu að framfarir væru náttúrulögmál, aðrir að framfarir yrðu því aðeins að samkeppni ríkti þar sem þeir hæfustu lifa en hinir ekki. Nú meira en öld síðar eru sumar ályktanirnar sem stjórnspekingar 19. aldar drógu af þróunarkenningu Darwins og kenningum líffræðinga um frumur dálítið broslegar. En við erum samt enn að mörgu leyti í sömu sporum því líffræðin er uppspretta líkinga og myndhverfinga sem setja svip á það sem sagt er um stjórnmál og fleiri efni. Mörgum finnst líka enn að þróunarkenningin hafi afleiðingar fyrir stjórnmál og siðferði— að af því hvernig menn hafi þróast megi álykta eitthvað um hvernig er best eða réttast fyrir þá að haga sér og skipulegga samfélagið.
   Í sumar hef ég blaðað dálítið í bókum um sögu líffræðinnar. Þær eru misgóðar eins og gengur. Þær sem mér hefur þótt mest á að græða eru Evolution, The History of an Idea eftir Peter J. Bowler (University of California Press 1983) og Genesis, The Evolution of Biology eftir Jan Sapp (Oxford University Press 2003). Af skrifum um áhrif þróunarkenningarinnar á stjórnmál og stjórnmálahugsun er óhætt að mæla með Social Darwinism in European and American Thought 1860-1945 eftir Mike Hawkins (Cambridge University Press 1997).

7. ágúst: Kardínálinn í Vín, George Bush og þróunarkenning Darwins
Christoph Schönborn kardínáli og erkibiskup í Vínarborg er talinn hægri hönd Benedikt XVI. páfa. Þann 7. júlí síðastliðinn birtist grein eftir hann í New York Times þar sem hann segir að „þróunarkenningin kunni að vera sönn í þeim skilningi að ólíkar lífverur eigi sér sameiginlegan forföður, en darwinismi í nútímaskilningi- þ.e. sú kenning að þróunin verði fyrir náttúruval sem verki á handahófskenndar breytingar án þess neinn stýri henni eða skipuleggi- geti ekki verið sönn kenning.“ Fyrir stuttu hélt George Bush Bandaríkjaforseti svipuðum sjónarmiðum fram opinberlega. Báðir virðast fallast á að lýsing náttúruvísindamanna á þróun lífsins geti verið rétt en neita því að kenningar raunvísindanna skýri þessa þróun til fulls. Þeir telja að ástæðurnar fyrir því að lífið hefur þróast eins og raun er á orðin séu að einhverju leyti yfirnáttúrulegar. Mér er ekki ljóst hvort þeir telja að þróun lífsins sé hvað þetta varðar á sama báti og önnur náttúruleg framvinda (þ.e. að guð almáttugur stjórni beinlínis öllu sem gerist og þar með líka æxlun og vexti lífvera) eða hvort þeir telja að máttarvöldin láti náttúruleg ferli almennt og yfirleitt afskiptalaus en séu við og við með puttana á því sem gerist þegar frumur skipta sér. Orðalag þeirra er of loðið og óljóst til að hægt sé að átta sig á hvernig þeir hugsa sér að yfirnáttúruleg íhlutun fari fram og fyrir vikið er engin leið að færa rök með eða á móti hugmyndum þeirra. Sama má, eftir því sem ég kemst næst, segja um aðra sem halda fram kenningum um sköpun eða skynsamlega stýringu (itelligent design) og vilja að þær komi að einhverju leyti í stað þróunarkenningar Darwins.
   Ég býst við að flestir sem á annað borð trúa á æðri máttarvöld séu sammála hugmyndum sem eru a.m.k. eitthvað í dúr við þá skoðun sem Schönborn og Bush hafa nýlega haldið fram. Mér vitanlega eru hvorki til nein verulega góð rök með né á móti henni, a.m.k. ekki meðan hún er aðeins ónákvæm og losaralega orðuð hugmynd í þá veru að æðri máttarvöld stjórni heiminum með einhverjum hætti. Fljótt á litið er það engin frétt að tveir menn sem segjast trúa á þann guð sem sagt er frá í Biblíunni segist líka trúa því að hann skipti sér af gangi heimsins. Samt eru yfirlýsingar þeirra alvörumál vegna þess að þær eru túlkaðar sem innlegg í umræðu um hvernig eigi að kenna náttúrufræði í skólum. Ég hef ekkert á móti því að menn trúi á æðri máttarvöld. (Ég held þó að þeir sem kjósa að gera það ættu að fallast á að þeir hafi engar sannanir fyrir trú sinni heldur velji sér þessa lífsafstöðu og taki með því þá áhættu að hún kunni að vera röng. það sama má svo segja um þá sem kjósa að trúa ekki, þeir ættu líka að hafa í huga að þeim gæti skjátlast.) En ég held að það sé afar varhugavert að blanda kenningum um yfirnáttúrulega íhlutun saman við kennslu í náttúrufræði og raunvísindum eins og margir þeir sem fagna boðskap Bandaríkjaforseta og kardínálans í Vín vilja gera.
   Raunvísindin eru leit að veraldlegum og náttúrulegum skýringum sem hægt er að prófa, og hrekja ef þær eru rangar. Ef illa gengur að skýra eitthvert fyrirbæri er leitinni haldið áfram og þegar vísindamenn setja fram tilgátu reynir fjöldi annarra vísindamann að hrekja hana. Oft líður langur tími án þess að mönnum takist að finna neina skýringu á fyrirbæri sem er rannsakað. En þótt hver tilgátan af annarri um hvernig regnbogi myndast eða býflugur haldast á flugi sé hrakin gefast vísindin ekki upp. Leitinni er haldið áfram af þrákelkni og seiglu sem hefur skilað stórkostlegum árangri bæði í skilningi á gangi náttúrunnar og tækni af ýmsu tagi sem hefur gerbreytt lífskjörum fólks. Læknisfræði nútímans, stóraukin matvælaframleiðsla, fjarskipti, vélar og tæki sem við notum dags daglega eru ávextir þessarar seiglu og þrákelkni.
   Þeir sem leggja til að það verði gert að kennslubókaratriði að sum fyrirbæri náttúrunnar eigi sér yfirnáttúrulegar orsakir (t.d. að menn hafi augu, eyru og heila vegna þess að guð hafi viljað að þeir sjái, heyri og hugsi) eru um leið að leggja til að menn slaki á kröfum um að leita veraldlegra og náttúrulegra (eða efnishyggjulegra) skýringa og slík tillaga er ekki meinlaus áherslubreyting heldur árás á vísindalega hugsun. Það er því von að fólki sem ann vísindunum sé um og ó þegar áhrifamenn eins og æðstu prestar kaþólikka eða leiðtogar stórvelda ýja að stuðningi við þá sem vilja umturna raungreinakennslu í skólum og breyta henni að hluta til í einhvers konar predikanir sem ganga þvert gegn anda og viðleitni vísindanna. Ef illa gengur að finna skýringu á náttúrufyrirbæri halda vísindamenn áfram að leita. Ef þeir segja bara að hér séu yfirnáttúruleg öfl að verki hafa þeir gefist upp á að vera vísindamenn og raungreinkennarar ættu ekki að fallast á að taka þátt í slíkri uppgjöf.

4. ágúst: Lundadráp og landvernd í Færeyjum
Í lok júlí var ég á ferð um Færeyjar með fjölskyldunni. Við þvældumst svolítið um Straumey og Austurey og sigldum fyrir Vestmannabjörgin sem eru stórbrotin náttúrusmíð, sjávarhamrar sem rísa lóðrétt í 400 metra hæð. Siglingin var ekki aðeins meðfram hömrunum heldur líka inn í gjár og hella sem ganga inn í þá og þótt báturinn tæki næstum 30 farþega og hafi virst myndarlegasta far þegar lagt var úr höfn sýndist mér hann ósköp lítill þarna undir þverhnípinu.
   Skipstjórinn á bátnum, sem jafnframt var leiðsögumaður, sagði frá náttúrufari og bjargnytjum á fyrri tíð þegar eyjarskeggjar sigu eftir eggjum og hífðu sauðfé upp á grösugar klettasyllur til að fita það. Frásögn hans minnti á harða lífsbaráttu Íslendinga fyrr á árum enda bjuggu þessar tvær eyþjóðir í norðurhöfum lengst af við svipuð kjör. Eitt af því sem ég hjó eftir í máli kafteinsins er að bændur þarna sunnan til á Straumey eyða lundabyggðum þriðja hvert ár: drepa fuglana í þar sem þeir liggja í holum sínum. Þetta gera þeir til að vernda náttúruna.
   Stórfellt lundadráp er dálítið einkennileg náttúruvernd. Fljótt á litið þykir manni sök sér að veiða fugl til matar en hrein og klár villimennska að eyða öllum hreiðrum og kála hverjum unga. Nú hef ég ekki kannað hvort fleiri heimildum ber saman við orð skipstjóra en hann skýrði þessa heldur leiðinlegu framkomu við lundann þannig að fuglarnir græfu sundur jarðveginn á bjargbrúninni og ef þeir næðu að fjölga sér yrðu holurnar til þess að jarðvegurinn fyki á haf út og veður og vindar næðu að blása burt því þunna moldarlagi sem grös og aðrar jurtir ættu líf sitt undir. Hafi ég skilið hann rétt stunda Færeyingar sem sagt lundadráp í stórum stíl til að koma í veg fyrir uppblástur og jarðvegseyðingu.
   Öldum saman meðan „seyða ull var Foroya gull“ áttu Færeyingar mikið undir því að takmarkað beitiland væri vel gróið. Það er svo sem eðlilegt að fólk sem halar kindur upp á syllur í þverhníptum sjávarhömrum til að nýta grasið sem þar vex líti á það sem landvernd að halda niðri lunda sem grefur sundur moldina svo hún tætist á haf út.
   Nú til dags stingur þessi landvernd Færeyinga dálítið í stúf við þau sjónarmið sem eru efst á baugi í náttúruvernd. En vera má að það sé vegna þess Straumeyjarbændur hafa meira saman við höfuðskepnurnar að sælda en þorri náttúruverndarspekúlanta.

2. ágúst: Mótmælatengd ferðaþjónusta
Hér á landi hefur menningartengd ferðaþjónusta verið í sókn undanfarin ár. Víða erlendis hefur mótmælatengd ferðaþjónusta sótt á samhliða þeirri menningartengdu, enda fer þeim fjölgandi sem leggja land undir fót til að mótmæla hinu og þessu með hressilegum og spennandi hætti. Íslensk fyrirtæki sem sinna ferðaþjónustu hafa lítið notað tækifærin sem þetta skapar og yfirvöld vinna beinlínis gegn hagsmunum greinarinnar með leiðinlegri framkomu við mótmælendur. Á vinsælum stöðum eins og við Kárahnjúka er aðstaða nær engin. Það eru hvorki gisti- né veitingastaðir og ferðamenn mega þakka fyrir að vera reknir burtu af löggunni áður en þeir bíða heilsutjón af vosbúð og matarleysi. Þarna væri hægt að reka heilt hótel með ágætum hagnaði og selja handjárn, hlekki, mótmælaspjöld, sprautubrúsa og alls konar skemmtilegt andspyrnudót. Eigendur gamalla þungavinnuvéla gætu líka farið með þær þarna uppeftir og selt sætaferðir fyrir þá sem vilja hlekkja sig við ýtu eða gröfu. Svo er hægt að reka skemmtigarða fyrir börn mótmælenda og selja ýmsa afþreyingu fyrir þá sem taka sér hlé frá mótmælum dag og dag.
   Sumir ferðamenn láta ef til vill ekki nægja að hlekkja sig við aflóga vinnutæki og langar að komast í tæri við vélar sem eru enn í notkun (þótt margir séu auðvitað sáttir ef þeir fá mynd af sér þar sem þeir hanga utan í einhverju sem bara lítur út fyrir að vera nógu stórvirkt og kraftmikið). Eigendur raunverulegra vinnuvéla verða sjálfsagt eitthvað misánægðir ef þau eru teppt vegna mótmæla um lengri tíma en vafalítið er hægt að semja við þá um hlut af því sem kemur í kassann og þá verða allir ánægðir.