Atli Harðarson
Af vefnum - október og nóvember 2005

26. nóvember: Frelsi og umræður
Ég er nýbúinn að sjá leikritið Frelsi eftir Hrund Ólafsdóttur á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins. Mér fannst sýningin góð. Þarna voru töfrabrögð leikhússins notuð af kunnáttu og listfengi og mér fannst að á sviðinu væri lífið sjálft, margrætt þrátt fyrir látlausan einfaldleika, rökrétt en samt heimskulegt, hlægilegt og líka sorglegt. Vonandi heldur Hrund áfram að skrifa leikrit.
   Í leikritinu kynnumst við fjórum unglingum, Grími, Brynhildi, Sigurði og Sunnu. Þau hafa róttækar hugmyndir og ákveða að ögra valdhöfum og hræða þá með því að ryðjast inn í jólaveislu ríkisstjórnarinnar. Í upphafi virðast áform þeirra ekki svo hættuleg, það stendur ekki til að gera neitt öllu verra en að vera með uppistand og læti.
   Grímur er leiðtogi hópsins. Faðir hans er stórlax í viðskiptalífinu en líka harðstjóri sem lemur konuna sína og stjórnar með takkaýtingum þannig að heimilislífið snýst um að hafa hann góðan. Grímur er spegilmynd af karlinum, að vísu með öfugum formerkum því hann er á móti kerfinu sem pabbi hans er fulltrúi fyrir. Eins og pabbinn stjórnar hann með ósögðum skilboðum þannig að hinir krakkarnir, sem eru skynsamari og yfirvegaðri verða nánast strengjabrúður í höndum hans. Róttæklingaklíkan verður þannig eftirmynd heimilis þar sem karlinn stjórnar með óhemjugangi, barsmíðum og áráttukenndri frekju.
   Sigurður er einlægur friðarsinni og á móti ofbeldi en dálítið einfaldur þótt hann sé líka að mörgu leyti skynsamur. Brynhildur yrkir ljóð og dreymir um fegurri heim. Sigurður og Brynhildur eru allt annað en hrifin þegar Grími dettur í hug að veifa alvöru byssum til að hræða yfirvöldin. Sunna er yngri og tekur ekki eins eindregna afstöðu. Hún er hvort sem er með vegna ástar á Grími fremur en af hugsjón og Grímur notar hana, hefur hana að féþúfu, því hún getur sníkt peninga af mömmu sinni. Brynhildur er líka hrifin af Grími og hann spilar á afbrýðisemina til að stjórna báðum stelpunum og ráðskast með þær.
   Með því að spila á afbrýðisemina og nota harðstjóratakta úr föðurhúsum fær Grímur hin til að samþykkja að hópurinn verði með alvöruskotvopn. Brynhildur er tregust í taumi en lætur samt undan, kannski að einhverju leyti vegna þess að hann blekkir hana, kannski að einhverju leyti vegna þess að hún sjálf á erfitt. Hvernig sem það nú var endar leikritið á að hópurinn æðir fram vígreifur með byssur og Brynhildur verður fyrir voðaskoti. Unglingar sem ætluðu að beita sér gegn ranglæti og illsku heimsins enda á að fremja sjálfir glæp. Kúgunin og illskan finna sér farveg í hópnum þótt hann hafi náð saman í þeim tilgangi að vinna að frelsi og betri heimi.
   Eftir leikritið var boðið upp á umræður. Leikarar, höfundur og áhorfendur ræddu um hvort eitthvað þessu líkt gæti kannski gerst í alvöru hér á landi. Þetta voru svo sem ágætar umræður. Ég var samt eftir á svolítið hugsi yfir því sem einn leikaranna sagði, og fleiri virtust samsinna, að leiðin til að koma í veg fyrir ólánsverk af því tagi sem fjallað er um í leikritinu sé að ræða meira við börn og unglinga. Það er vissulega fótur fyrir þeirri klisju að sum vandamál minnki og hverfi jafnvel ef fólk bara ræðir saman í einlægni. En þetta er samt klisja sem hver étur upp eftir öðrum og er, að ég held, í besta falli hálfur sannleikur.
   Faðir Gríms hefði tæpast forðað syni sínum frá því að fremja glæp með því að masa út í eitt. Einlægar samræður hefðu varla breytt miklu. Það sem hann hefði þurft að gera var miklu erfiðara. Hann hefði þurft að breyta hegðun sinni og sigrast á eigin áráttu, valdasýki og ofbeldishneigð. Eftir það hefði hann kannski getað áunnið sér nægilegt traust til að Grímur talaði við hann og getað talað þannig sjálfur að tekið væri mark á sjónarmiðum hans fremur en hótunum. Ætli það sama eigi ekki við á fleiri sviðum. Ef hegðun manna og hátterni er í lagi þá verða samræður ekki vandamál en ef hegðunin er föst í hjólförum sem liggja milli áráttu, ofbeldis, óláns og öfga þá duga engin orð.
   Það er ósköp þægilegt að trúa því að til sé auðveld leið til að leysa mannleg vandamál, það þurfi t.d. bara að ræða saman. Sannleikurinn er oftast sá að til þess að það þýði að ræða saman þarf fyrst að gera ótalmargt sem er miklu erfiðara en að hreyfa talfærin. Ég veit ekki hvað ég hef t.d. oft heyrt á það minnst í sambandi við vímuefnaneyslu ungs fólks að það sé hægt að koma í veg fyrir hana ef foreldrar ræða við börnin sín. Sannleikurinn er samt sá að það besta sem foreldrar geta gert til að koma í veg fyrir að börnin þeirra drekki og dópi er að vera sjálfir edrú. Ætli það sé ekki eins með annað. Vilji þeir sem eldri eru koma í veg fyrir að ungt fólki taki upp á að beita ofbeldi ná þeir líklega bestum árangri með því að koma sjálfir fram við fólk af kurteisi og tillitssemi og forðast að stjórna með hótunum og valdsorðaskaki. Takist mönnum það ekki mun orðavaðall litlu breyta. En þetta er ekki gagnrýni á leikritið heldur umræðurnar á eftir, sem voru að flestu leyti ágætar þótt þar vottaði fyrir þessari oftrú á að umræður séu allra meina bót.

14. nóvember: Silfurmávur og sílamávur
Hér á landi teljast sílamávur (larus fuscus) og silfurmávur (larus argentatus) tvær ólíkar tegundir fugla enda eignast einstaklingar af þessum tveim tegundum ekki frjó afkvæmi saman og venjulega er það talið skera úr um hvort tveir stofnar séu af sömu tegund eða ekki. En önnur þessara mávategunda getur æxlast með mávum í norðaustanverðri ameríku, sem getur átt afkvæmi með mávum af stofni vestar í Kanada sem getur æxlast með svipuðum mávum enn vestar og þannig koll af kolli allt í kringum norðurhvelið þar til kemur að mávum á Norðurlöndum sem geta átt unga með hinni tegundinni. Silfurmávur og sílamávur eru tveir endar á samfellu sem nær kringum jörðina.
   Silfurmávur er af sömu tegund og annar mávastofn sem er af sömu tegund og annar stofn sem er af sömu tegund og ... sem er af sömu tegund og sílamávur. Samt eru silfurmávur og sílamávur tvær tegundir. Þetta virðist ef til vill vera mótsögn. Hvernig má vera að A sé af sömu tegund og B, B af sögu tegund og C, C af sömu tegund og D en D samt ekki af sömu tegund og A? Mótsögnin kemur til af því að við notum ónákvæmt orðalag. Ef við viljum vera alveg nákvæm ættum við ekki að tala um að tveir einstaklingar séu af sömu tegund heldur segja að þeir séu svipaðrar gerðar og bæta því við að séu einstaklingar hvor af sínu kyni mjög svipaðrar gerðar séu miklar líkur á að þeir geti átt frjó afkvæmi. Það er ekkert mótsagnakennt við að segja að A sé líkt B, B líkt C, C líkt D en D er samt ekki líkt A.
   Dæmið af silfurmávnum og sílamávnum er ein af mörgum staðfestingum þess sem Charles Darwin hélt fram fyrir einni og hálfri öld, að það séu engin skörp skil milli tegunda í lífríkinu. Okkur virðast lífverur mynda afmarkaðar tegundir vegna þess að stofnar sem brúa bilið milli þeirra eru í flestum tilvikum útdauðir. Ef enn væru á lífi einstaklingar af nógu mörgum þeirra mannapastofna sem lifað hafa á jörðinni undanfarnar sex milljónir ára þá væri hægt að segja svipaða sögu um menn og simpansa eins og um sílamávinn og silfurmáfinn og þá litu menn sína eigin stööu í dýraríkinu trúlega nokkuð öðrum augum en flestir gera.

12. nóvember: Fjórar greinar um Uppruna tegundanna
Undanfarna laugardaga hefur Lesbók Morgunblaðsins birt eftir mig fjórar greinar um Uppruna tegundanna eftir Charles Darwin. Þær eru skrifaðar í tilefni af því að þessi merkilega bók kom út í íslenskri þýðingu síðasta vetur. Greinarnar liggja hér frammi:

1. grein: Lífríkið gert skiljanlegt
2. grein: Félagslegur darwinismi
3. grein: Eigingjarnir erfðavísar
4. grein: Apamál og óvinsældir

7. nóvember: „Skerðing“ á námi til stúdentsprófs
Á morgun ætla kennarar við nokkra bekkjarskóla að mótmæla áformum stjórnvalda um styttingu á námstíma til stúdentsprófs. Meðal þess sem menn finna að styttingunni er að hún feli í sér „skerðingu“ á námi— að nemendur læri minna. Ég held að þessi aðfinnsla byggist á svolitlum misskilningi.
   Fyrir nokkrum árum síðan var 6 ára bekk bætt neðan við grunnskóla með þeim afleiðingum að nemendur hættu í leikskólum ári fyrr en áður. Var þetta skerðing á leikskólanámi? Já vissulega en þessi skerðing varð ekki til þess að 6 ára börn kynnu minna en áður og ekki heldur til þess að 7 ára börn kynnu minna en áður. Sama má segja ef stúdentsbrautir eru styttar þannig að nemendur útskrifist að jafnaði 19 ára í stað 20 og verði búnir með 1 ár í háskóla á sama aldri og þeir eru nú að ljúka stúdentsprófi. Þetta verður sjálfsagt til þess að menn kunni svona að meðaltali eitthvað minna þegar þeir setja á sig stúdentshúfu en ekkert bendir til að þetta valdi því að 19 ára námsmenn verði að jafnaði verr að sér en nú er og ekki heldur að þeir tvítugu verði minna menntaðir. Ef eitthvað er ætti menntun manna að verða meiri ef þeir eru búnir með þriggja ára framhaldsskóla og eitt ár af háskóla um tvítugt heldur en nú þegar þeir eru búnir með fjögur ár í framhaldsskóla en ekkert háskólanám á þeim aldri.

6. nóvember: Gáta

Þvílíkt veldur raunum rex.
Rist á kefli, horn og stein.
Heyra má í sunnan sex.
Sorgarefni, böl og mein.

5. nóvember: Pólitík og hjartalag
Ég rekst við og við á fullyrðingar í þá veru að vinstri menn og jafnaðarmenn hafi hjartað á réttum stað, að þeirra skoðanir beri vott um meiri góðvild en okkar sem erum til hægri í pólitíkinni. Stundum er líka fullyrt að íhaldssemi eða frjálshyggja standi í einhverjum tengslum við eigingirni, græðgi eða gróðafíkn. Allir sem þekkja fólk úr mörgum stjórnmálaflokkum hljóta þó að kannast við að alhæfingar um þetta efni eru í besta falli ýkjur og einfaldanir. Hjálpsamir menn og góðhjartaðir munu til í öllum stjórnmálaflokkum og varla er nokkur stefna svo göfugmannleg að ekki finnist síngjarnar frekjudósir meðal fylgismanna hennar.
   Það væri svo sem forvitnilegt að kanna hvort fylgismenn einhvers stjórnmálaflokks geri meira eða minna af því en aðrir að leggja á sig fyrirhöfn í annarra þágu, gefa fé til mannúðarmála, vinna sjálfboðastarf eða eitthvað annað sem gefur vísbendingu um hvar þeir eru staðsettir á skalanum frá eigingirni, frekju og græðgi til fórnfýsi, hjálpsemi og góðmennsku. Kæmi til dæmis í ljós að félagar í Samfylkingunni hafi gefið hærra hlutfall af tekjum sínum til að hjálpa fórnalömbum jarðskjálftanna í Pakistan heldur en við sem erum í Sjálfstæðisflokknum þá gæti það bent til að vinstri menn standi hægri mönnum framar að góðmennsku. Meðan engar staðreyndir í þessa veru liggja fyrir held ég að skynsamlegast sé að skoða alhæfingar um samband stjórnmálaskoðana og hjartalags sem hverja aðra sleggjudóma.
   Flestir hægri menn vilja að skattar séu lágir. Sá sem vill þetta vegna þess að hann sér eftir hverri krónu sem hann sjálfur þarf að borga til sameiginlegra þarfa er kannski eigingjarn. En sá sem vill að skattar séu lágir vegna þess að honum finnst að annað fólk eigi sjálft að fá að ráðstafa peningum sem það vinnur sér inn lætur eigingirni varla stjórna afstöðu sinni. Sama má segja um stefnu vinstri manna sem vilja háa skatta (eða mikla samneyslu, svo notað sé orðalag sem þeim sjálfum líkar trúlega betur). Hún getur átt rót í eigingirni. Ef maður vill að stjórnvöld taki mikið frá öðrum til að kosta eitthvað sem hann sjálfan langar í, t.d. dýrt tónlistarhús eða yfirbyggðan fótboltavöll, þá er hann samneyslusinni á eigingjörnum forsendum. Vilji hann hins vegar gjarna greiða hátt hlutfall af eigin tekjum í skatta til að ríkið geti aðstoðað þá sem eru fátækari eða verr settir en hann sjálfur, þá byggist afstaða hans á óeigingjörnum forsendum.
   Af því einu hvort menn vilja að skattar séu háir eða lágir verður lítið sem ekkert ráðið um sérdrægni þeirra eða aðra siðferðilega annmarka. Trúlega má segja það sama um önnur ágreiningsefni hægri manna og vinstri manna. Ólík afstaða til þeirra kann að bera vott um mismikið raunsæi og misgóðan skilning á gangverki hagkerfisins og áhrifum valdstjórnar á mannlífið. En ég efast um að hún segi mikið um hjartalag fólks.

3. nóvember: Fæðingarstyrkur (sumra) námsmanna (birtist líka í Morgunblaðinu)
Samkvæmt 19. grein laga um fæðingar- og foreldraorlof (nr. 95 frá árinu 2000) eiga „foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns ... sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði, hvort um sig“. Upphæð fæðingarstyrks til námsmanna er rúmlega 90 þúsund krónur á mánuði. Allt virðist þetta nú gott og blessað og vafalaust njóta margir námsmenn góðs af. En samt fá sumir ekki helminginn af þessu fé þótt þeir eignist barn og hafi verið í fullu námi í meira en hálft ár þar á undan. Þessu veldur undarlegt ákvæði í reglugerð með lögunum (nr. 1056 frá árinu 2004) þar sem segir: „Fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerðar þessarar telst vera 75–100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun . ... Leggja skal fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75–100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur.“
   Tryggingastofnun ríkisins hefur túlkað orðalagið „viðunandi námsárangur“ svo að nemandi í framhaldsskóla þurfi að standast próf í að minnsta kosti 13 einingum á önn. Algengt er að nemendur í fullu námi í framhaldsskóla taki sex þriggja eininga áfanga á hverri önn, eða alls 18 einingar. Nemandi sem á von á barni, stundar fullt nám og fellur í tveim áföngum og stenst próf í fjórum, fær því aðeins lágmarksfæðingarstyrk sem er rúmlega 40 þúsund krónur á mánuði. Standist hin verðandi móðir eða faðir hins vegar próf í fimm áföngum fær hún eða hann hins vegar rúmar 90 þúsund krónur á mánuði. Hvernig ætli fólki líði þegar það mætir í próf vitandi að fall kostar svona mikla peninga?
   Þegar ég frétti fyrst af þessu fyrirkomulagi trúði ég því varla að þetta gæti verið svo ég hringdi í Tryggingastofnun ríkisins og lét fulltrúa sem þar urðu fyrir svörum segja mér þrisvar. Og þetta er víst svona. Ef mamman eða pabbinn á erfitt með nám virðist álitin minni þörf á „að tryggja barni samvistir bæði við föður og móður“ eins og þetta er orðað svo fallega í markmiðsgrein laganna frá 2000.
   Fólk á vinnumarkaði fær greiðslur úr fæðingarorlofssjóði hvort sem það stendur sig vel eða illa í vinnu en námsmaður sem innritast í ögn erfiðari áfanga en hann ræður við tapar helft framlagsins ef hann fellur. Kannski eins gott fyrir þá sem eiga von á barni og eru ekki nema svona í meðallagi klárir á bókina að passa sig að velja bara létta áfanga.
   Það er svo sem vitað mál að lög um fæðingar- og foreldraorlof eru ekki beinlínis í anda jafnréttis því þau tryggja ríku fólki miklu hærri greiðslur en fátæku. En er misréttið ekki meira en góðu hófi gegnir eigi smábörn að gjalda fyrir með þessum hætti ef foreldrar þeirra falla á skólaprófum?

1. nóvember: Mat á skólastarfi og kjarasamningar kennara
Í gildandi kjarasamningi framhaldsskólakennara sem undirritaður var 18. mars 2005 er horfið frá miðstýringu sem einkennt hefur samninga kennarafélaga. Samstarfsnefndum sem gera stofnanasamninga innan einstakra skóla er falið að hafa mikil áhrif á hvernig laun kennara eru ákvörðuð og kveðið á um að hæfni, sérstakur árangur og/eða frammistaða geti haft áhrif á laun til hækkunar. Þessi ákvæði koma ekki til framkvæmda fyrr en 1. maí 2006 og því er of snemmt að segja hvaða áhrif þau muni hafa. En trúlegt er að þau verði til þess að mat á starfi kennara verði samslungið peningalegum hagsmunum, samningamakki og togstreitu af því tagi sem jafnan fylgir ákvörðunum um kaup og kjör.
   Skólastjórnendur og kennarar hafa þegar fengið ofurlítinn forsmekk að þessu því í kjarasamningi frá 7. janúar 2001 er talað um röðun á grundvelli mats. Samningum fylgdi fyrirheit um að framhaldsskólar fengju viðbótarfjárframlag sem dygði til að hækka laun þriðja hvers kennara um einn launaflokk. Þetta fyrirheit og ákvæðið í samningnum voru almennt túlkuð þannig að meta ætti störf kennara og láta niðurstöðu matsins ráða því hverjir flokkuðust í besta þriðjung og fengju launahækkun.
   Þegar ákvæði um röðun í launaflokka á grundvelli mats kom fyrst inn í kjarasamninga kennara í janúar 2001 voru framhaldsskólar að byrja að fikra sig áfram með sjálfsmat í samræmi við framhaldsskólalögin frá 1996.
Þessi lög voru sett 1996 en um það leyti var fjármálaráðuneytið að taka upp nýja stefnu í launamálum sem gerði ráð fyrir árangurstengingu launa og auknu vægi vinnustaðasamninga. Vel má vera að þessi stefna hafi haft áhrif á framhaldsskólalögin og meiningin hafi verið að mat yrði notað til að ákvarða laun einstakra kennara (þannig að þeir bestu fengu hærra kaup en þeir sem standa sig verr). Þetta kann að líta vel út í augum þeirra sem vilja koma á hvetjandi launakerfi. En fyrir þá sem þurfa að skipuleggja innra mat er þessi tenging við laun til óttalegra vandræða. Þessi vandræði eru eftir því sem ég kemst næst einkum þrenns konar.
   1) Tenging innra mats við kjaramál skapar tortryggni meðal kennara í garð matsins. Þegar ákveðið er að hækka þriðja hvern kennara í launum á grundvelli mats er skiljanlegt að þeir líti ekki á matið sem tæki til að afla gagnlegra upplýsinga sem þeir sjálfir geta notað til að ná betri árangri heldur sem tæki til að flokka þá sjálfa í góða kennara, meðalmenn og liðleskjur.
   2) Tenging innra mats við kjaramál dregur úr samvinnu meðal kennara. Tenging mats og launa er að ýmsu leyti varhugaverð á vinnustöðum þar sem mikilvægt er að auka samvinnu. Hún á e.t.v. betur við á vinnustöðum þar sem vantar frumkvæði og allir hanga saman og gera allt eins. Ef kennarar vita að þeir 10 bestu í skólanum fá kauphækkun þá borgar sig ekki fyrir þá sem eru númer 6 til 10 í röðinni að hjálpa þeim sem eru númer 11 til 15 svo innra mat sem er notað til að árangurstengja laun getur haft slæm áhrif á samvinnu kennara. Kannski er hægt að bregðast við þessu með því að greiða „hópbónus“ fyrir samvinnu, en hætta er á að einstaklingar sem vinna sjálfir vel en eru ekki í sterkum hópi upplifi það sem ranglæti.
   3) Tenging innra mats við kjaramál gerir matsmönnum erfiðara að afla áreiðanlegra gagna. Til að innra mat leiði til þess að safnað sé réttum upplýsingum sem hægt er að nota til að bæta skólastarfið er samvinna kennara nauðsynleg. Ef þeir hafa hag af að skekkja gögnin þannig að það virðist minna af vandamálum hjá þeim sjálfum eða árangur þeirra sé betri en hann er í raun þá er miklu erfiðara fyrir skólastjórnendur að afla réttra upplýsinga.
   Hvort sem okkur líkar betur eða verr hefur sjálfsmat við framhaldsskóla þróast samhliða breytingum á launakerfi kennara og í hugum margra kennara er innra mat nátengt nýju launakerfi þar sem laun eru árangurstengd og ákveðin á hverjum vinnustað en ekki í miðlægum kjarasamningi.
   Í riti sínu Tinkering Toward Utopia (Harvard University Press 1995) segja David Tyack og Larry Cuban frá tilraunum til að árangurstengja laun kennara í Bandaríkjunum. Af frásögninni má ráða að þetta sé hálfgerð hrakfallasaga og þeir fullyrða að slíkar tilraunir hafi sjaldan orðið langlífar enda séu þær andstæðar þeirri jafnaðarstefnu sem flestir kennarar aðhyllast. Það verður fróðlegt að sjá hvort þetta tekst betur hér á landi en í Bandaríkjunum.

22. október: Af launamun og tekjumun
Nú þegar 30. ára afmæli kvennafrídagsins 24. október 1975 nálgast er talsvert rætt um launamun karla og kvenna. Í þessari umræðu er stundum blandað saman tveim ólíkum hlutum, launamun og tekjumun. Sjálfum þykir mér eðlilegt að líta svo á að ef tveir menn fá jafnmikið borgað fyrir hverja unna stund þá hafi þeir sömu laun. Ef við bætist að þeir eigi álíka kosti á að fá yfirvinnu eða drýgja tekjurnar með því að taka á sig aukið erfiði eða ábyrgð þá finnst mér eðlilegt að líta svo á að þeir njóti sömu kjara. En sömu kjör í þessum skilningi jafngilda auðvitað ekki sömu tekjum. Annar gæti t.d. kosið að vinna á laugardögum en hinn ekki og miðað við sömu laun fyrir hverja unna stund hlýtur sá sem vinnur 6 daga í viku að bera meira úr býtum en hinn sem vinnur aðeins 5 daga í viku.
  Þegar tölur um kjör karla og kvenna eru bornar saman kemur í ljós að tekjumunur er miklu meiri en launamunur. Ég held að enginn viti með vissu hver skýringin á þessu er. Í pistli á þessum vef sem birtist 20. júní setti ég fram tilgátu um hver hluti skýringarinnar á launa- og tekjumun kynjanna gæti hugsanlega verið. En hugsanlegar skýringar á þessum efnum eru fleiri en sú sem þar er rætt um. Ein möguleg skýring á því að tekjumunur karla og kvenna er meiri en launamunur kann að vera að karlar og konur hafi að einhverju leyti ólík áhugamál og ólíkt gildismat. Kannski tek ég bara meira eftir konum en körlum en mér sýnist að þegar ég fer á tónleika, bókasöfn og fyrirlestra séu fleiri kvenkyns gestir en karlkyns og ég get mér þess til að þetta stafi af því að áhugi á tónlist, bókmenntum og lærdómi sé algengari hjá konum en körlum. (Að minnsta kosti finnst mér sú skýring trúlegri heldur en hin að karlar búi við slíka vinnuáþján og ofríki að þeir eigi ekki kost á að njóta lista og menningar, þótt e.t.v. væri slíkum skýringum haldið á lofti ef kynjahlutföll á þeim samkomum sem hér eru til umræðu væri öfugt og gestir væru að meiri hluta karlkyns.)
   Ef sum áhugamál eru algengari hjá öðru kyninu en hinu, t.d. á þann veg að áhugi á að eiga dýran bíl sé algengari hjá körlum en áhugi á að sækja tónleika og lesa bækur sé algengari hjá konum þá má ætla að þessi mismunur valdi því að kynin sækist í mismiklum mæli eftir yfirvinnu og afli sér af þeim sökum mismikilla tekna án þess að eiginlegu misrétti sé um að kenna.
   Umræða um jafnrétti karla og kvenna er oft ansi klisjukennd og stundum er nánast eins og sjálfkrafa gert ráð fyrir því að öll skipan samfélagsins sé konum í óhag. Eigi þessi umræða að verða uppbyggilegri og leiða til meiri framfara þurfa menn að vera tilbúnir að skoða málin frá öllum hliðum og opna hug sinn fyrir þeim möguleika að lífið fer stundum illa með karlfólk ekkert síður en kvenfólk og misjöfn staða kynjanna getur að einhverju leyti stafað af því að fleiri konur en karlar hafi, eins og María systir Mörtu, einfaldlega valið sér hið betra hlutskipti— því líkast til er það betri kostur að lesa bækur og sækja tónleika heldur en að eyða allri ævinni í að vinna fyrir peningum.

17. október: Líf af lífi og Freakonomics
Eins og venjulega er ég með nokkrar bækur hálflesnar, nýbúinn með nokkrar og nokkrar óopnaðar á borðinu. Af þeim nýlesnu finnst mér ástæða til að hrósa einni sérstaklega. Það er bókin Líf af lífi - Gen, erfðir og erfðatækni eftir Guðmund Eggertsson (Reykjavík: Bjartur, 2005). Í henni fjallar Guðmundur með afar læsilegum og skiljanlegum hætti um erfðafræði og erfðatækni og segir frá nýjustu uppgötvunum í frumulíffræði og líftækni jafnframt því sem hann rekur sögu fræðanna og skýrir undirstöðuatriði þeirra. Það er ekki of mikið gefið út af alþýðlegum fræðsluritum um náttúruvísindi á íslensku og þess ánægjulegra þegar ein þeirra fáu bóka sem kemur út um efnið er svona skínandi vel gerð.
   Fleiri skruddur er vert að nefna. Ein þeirra er Freakonomics eftir Steven D. Levitt hagfræðing við Chicago-háskóla og Stephen J. Dubner blaðamann í New York (New York: Harper Collins, 2005). Bókin fjallar um „hagfræðirannsóknir“ Levitt sem snúast ekki um venjulega hagfræði. Hann notar aðferðir hagfræðinnar til að fjalla um efni sem hingað til hafa verið á sviði félagsfræðinnar. Meðal spurninganna sem hann hefur reynt að svara eru: Hvers vegna hefur glæpum í Bandaríkjunum stórfækkað eftir 1990? Ráðast úrslit kosninga af því hvað frambjóðandi hefur gilda kosningasjóði? Ef dópsalar græða þessi ósköp af peningum hvers vegna búa þeir þá flestir heima hjá mömmu sinni? Hvað er mikið um að kennarar svindli þegar haldin eru samræmd próf í skólum? Af hverju ræðst það hvaða mannanöfn komast í tísku?
   Levitt skoðar þessi efni og mörg fleiri með því að nota tölfræðilegar upplýsingar og hugmyndir úr smiðju hagfræðinnar á afar hugvitssamlegan hátt. Sumar niðurstöður hans hafa valdið töluverðu fjaðrafoki eins og t.d. sú að meginskýringan á stórfækkun glæpa eftir 1990 sé að frá 1970 hafi fóstureyðingar verið löglegar í öllum ríkjum Bandaríkjanna og hálf önnur milljón fóstureyðinga á ári hafi fækkað börnum sem enginn gat alið vel upp eða tryggt þokkalegan aðbúnað og hefðu því öðrum fremur leiðst út í glæpi á árunum í kringum tvítugt. Það sem er flott hjá Levitt er ekki bara hugmyndirnar sem hann fær heldur hvernig hann rökstyður þær. Varla margir þjóðmálahugsuðir sem keppa við hann í frumleika.

13. október: Muhammeds ansigt
Hvað væri skynsamlegt að gera ef strangtrúaðir kaþólikkar sem telja sölu á smokkum hin verstu helgispjöll hótuðu að myrða ritstjóra vegna þess að hann legði nafn guðs við hégóma eða vegna þess að smokkar hefðu verið auglýstir í blaði hans? Ættum við að hneykslast á ritstjóranum fyrir að ofbjóða hinum trúuðu? Ég held ekki. Raunar held ég að ef ritstjóra væri hótað lífláti fyrir að birta sárasaklaust efni í blaði sínu ættu allir aðrir fjölmiðlamenn sem unna ritfrelsi að ganga í lið með honum og birta samsvarandi efni. Ætli morðóðum ofsatrúarmönnum féllust ekki hendur ef þeir þyrftu að kála þúsundum ritstjóra.
   Einhverjum kann að þykja þetta allt heldur fjarstæðukennt. En annað eins gerist. Þann 29. september birti Jyllandsposten (www.jp.dk) tólf teikningar af Múhameð spámanni undir fyrirsögninni „Muhammeds ansigt“. Það var broddur í sumum þeirra, sérstaklega þeirri næst síðustu sem sýnir teiknara sem hefur falið sig og dregið fyrir glugga meðan hann laumast til að teikna andlit spámannsins. Þessi mynd minnir á þá sjálfsritskoðun sem menn leggja á sig vegna ótta við morðvarga sem drepa fólk í nafni þess guðs sem Kóraninn kallar hinn milda og miskunnsama. Slík sjálfsritskoðun hefur færst í vöxt undanfarin ár, a.m.k. síðan íranskir klerkar dæmdu Shalman Rushdie til dauða fyrir að skrifa Söngva Satans.
   Myndirnar í Jyllandsposten gerðu ekki lítið úr Múhameð. Þær voru miklu frekar gagnrýni á sjálfsritskoðun og uppreisn gegn óttanum. Og það þurfti hugrekki til að birta þær því starfsmönnum blaðsins hafa borist morðhótanir. Og hver hafa viðbrögðin verið? Sumir sem telja sig frjálslynda og víðsýna hafa andmælt myndbirtingunni á þeim forsendum að virða beri trú múslima. Ég veit ekki hvernig þetta sama fólk hefði brugðist við ef kaþólskir ofsatrúarmenn hefðu hótað að myrða ritsjóra Jyllandsposten fyrir að auglýsa smokka eða leggja nafn guðs við hégóma eða gera eitthvað annað sem þeir telja viðurstyggð en er samt fullkomlega heimilt samkvæmt dönskum lögum? Hitt þykist ég vita að það sé ekkert vit í öðru en að bregðast eins við. Mér vitanlega er engin ástæða til að gera upp á milli Islam og Kristni eða meðhöndla múslimi með öðrum hætti en t.d. kaþólikka. Trúlega væri réttast að allir ritstjórar sem láta sér annt um tjáningarfrelsi, hvort sem þeir gefa út blöð í Danmörku, á Íslandi eða annars staðar birti teiknimynd af Múhameð strax á morgun. Þar með væri hræðslunni gefið langt nef svo hún hrökklaðist burt og léti ekki meira á sér kræla.

9. október: Evran eða krónan
Fyrir stuttu lýsti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar sig fylgjandi því að Íslendingar hættu að nota eiginn gjaldmiðil og tækju upp Evru í staðinn jafnframt því sem þeir gengju í Evrópusambandið. Í máli hennar kom fram að hún teldi notkun krónu jafngilda viðskiptahindrunum og því þyrfti ekki að réttlæta það neitt sérstaklega að taka upp Evru: Sönnunarbyrðin væri hjá þeim sem vildu halda í þessar „hindranir“ en ekki þeim sem vildu að landsmenn hyrfu frá því að hafa eigin gjaldmiðil.
   Nú kann það að vera rétt að sum milliríkjaviðskipti yrðu auðveldari ef við notuðum Evru. Mér þykir þó drepið fulldjúpt í árinni að kalla það viðskiptahindranir ef ríki hefur eigin gjaldmiðil, enda er ekki að sjá að landsmönnum reynist sérlega torvelt að eiga kaupskap í útlöndum. En hvað sem því líður er sjálfsagt rétt að veigamestu rökin með upptöku Evru eru að ýmis viðskipti yrðu auðveldari og ódýrari. En þessi rök verður að vega á móti ástæðum sem mæla með því að hafa áfram eigin gjaldmiðil. Þær eru sumar nokkuð veigamiklar.
   Hagsveiflur á Íslandi fylgja ekki hagsveiflum í Evrulöndum. Hér getur verið uppsveifla og þensla á sama tíma og þar er lægð og hitt getur líka gerst að hér sé kreppa þegar betur vegnar þar. Hingað til hefur gengi krónunnar hækkað og lækkað til samræmis við innlendar hagsveiflur. Þegar harðnar á dalnum lækkar gengi krónunnar sem jafngildir því að laun hérlendis lækki sé talið í Evrum (eða annarri útlendri mynt) og þetta verður til þess að kreppan veldur minna atvinnuleysi en yrði ef laun héldust jafnhá. Ein skýring á því að hér á landi hefur atvinnuleysi að jafnaði verið fremur lítið er að hér er sérstakur gjaldmiðill fyrir lítið hagkerfi.
   Bandaríkin eru stórt hagkerfi með einn gjaldmiðil. Stundum er kreppa þar í einu fylki en uppgangur í öðru. Þá verður atvinnuleysi þar sem kreppir að en aukin eftirspurn eftir vinnuafli þar sem þenslan er. Afleiðing þessa er að fólk flytur búferlum landshluta á milli í stórum stíl. Evrulöndin munu líklega verða lík Bandaríkjunum að þessu leyti enda þýðir sameiginlegur gjaldmiðill að staðbundnum kreppum verður frekar mætt með brottflutningi vinnuafls en með því að allir dragi úr neyslu (þ.e. með gengislækkun) meðan svæðið réttir úr kútnum.
   Þetta er umhugsunarefni fyrir Íslendinga. Upptaka Evru getur hugsanlega aukið hagvöxt í meðalárferði en hún getur líka ýtt undir fjöldaatvinnuleysi og landflótta í hörðu ári. Ég sagði „getur hugsanlega aukið hagvöxt“ enda hlýtur það að teljast afar óvíst því hagtölur benda ekki til að ríkjum Evrópusambandsins sem tóku upp Evru vegni á neinn hátt betur en hinum. Danmörk, Svíþjóð og England virðast ekki tapa neinu á að halda í eigin gjaldmiðil.

8. október: Andreas Schleicher og miðstýring í menntakerfinu
Í gær hófst 9. málþing Rannsóknarstofnunar Kennaraháskóla Íslands um rannsóknir, nýbreytni og þróun í menntakerfinu. Aðalfyrirlesari var Andreas Schleicher, forstöðumaður námsmatsstofnunar OECD og einn aðalskipuleggjandi Pisa-kannananna. Fyrirlestur hans var afar fróðlegur og hann gerði grein fyrir mjög mörgum áhugaverðum ályktunum sem hægt er að draga af gögnum sem aflað hefur verið í tengslum við Pisa-kannanirnar (en þær eru kannanir á hæfni nemenda mörgum löndum í stærðfræði, lestri og fleiri greinum). Hér ætla ég aðeins að nefna eitt sem ég held að sé afar þarft að þeir sem ráða ferðinni í menntamálum hér á landi hafi í huga. Þetta eina er að samkvæmt gögnunum sem Andreas Schleicher og samverkamenn hans hafa aflað er árangur nemenda því betri því minni sem miðstýringin er í menntakerfinu. Í löndunum þar sem nemendur ná bestum árangri samkvæmt Pisa-könnunum njóta skólar sjálfstæðis og þar er kennurum treyst. Í löndunum þar sem árangur er lakur er skrifræði, ítarlegar námskrár og fyrirmæli að ofan sem segja skólum og kennurum í smáatriðum hvernig á að gera hlutina.
   Þótt sjálfstæði skóla hér á landi hafi að sumu leyti aukist á undanförnum árum hefur það að sumu leyti minnkað. Námskrár fyrir framhaldsskóla sem hafa verið að koma út undanfarin 5 ár eru til dæmis ótrúlega smásmugulegar með ströngum fyrirmælum um uppbyggingu allra námsbrauta og löngum listum af fyrirmælum um hvað á að gera í hverjum einasta áfanga. Þarf ekki að gjalda varhug við þessu, taka mark á niðurstöðum alþjóðlegs samanburðar og herma heldur eftir því sem gefst best í öðrum löndum?

2. október: Fréttir í viðtengingarhætti og skildagatíð
Undanfarnar vikur hefur svokallað Baugsmál fengið meira rúm í fréttum hér á landi heldur en kosningarnar í Þýskalandi, undirbúningur sveitastjórnakosninga hér heima, umræða um aðild Tyrklands að Evrópusambandinu og fjölmörg önnur efni sem skiptir máli að átta sig á til að skilja hvert stefnir í stjórnmálum og samfélagsþróun. Fréttirnar af Baugsmálinu hafa þó minnst snúist um að útskýra sakarefnin sem málið snýst um. Þær hafa raunar mest fjallað um hvað einhverjir hafa ef til vill og kannski hugsað og gert til að skapa andrúmsloft sem ef til vill og kannski hafði einhver áhrif á hvað einhver gerði og nú síðustu dagana líka um hver hefur ef til vil og kannski sofið hjá hverjum. Það er búið að kjafta þetta mál upp í fáránlegar stærðir án þess að neitt mjög merkilegt hafi í rauninni gerst. Ákærurnar varða fremur væg afbrot þannig að jafnvel þótt Baugsmenn hafi brotið af sér eins og þeir eru sakaðir um eru þeir engir glæpamenn. Allt það sem meintir andstæðingar Baugs eiga að hafa gert er líka fremur smávægilegt: raunar ekkert sem hönd á festir annað en að hafa hjálpað þeim sem kærði til að finna heppilegan lögfræðing (sem er nú varla til að fárast mikið yfir).
   Ef til vill er þetta stóra Baugsmál að sumu leyti dæmigert fyrir fréttamennsku í íslenskum fjölmiðlum þessi misserin. Það minnir á stóra Hannesarmálið og stóra Ólínumálið á Ísafirði og fjölmörg önnur mál þar sem ekkifrétt verður fyrirferðameiri en allar alvörufréttirnar til samans vegna þess að það sem einhver segir eða álítur verður frétt sem einhver annar þarf svo að mótmæla og þau mótmæli verða að enn stærri frétt og svo framvegis þar til búið er að kjafta ekki neitt upp í heimssögulegan viðburð. Þegar svona ekkifréttir eru að byrja að ná sér á strik koma gjarna frásagnir sem byrja eitthvað á þessa leið: „Prófessor við háskólann telur að ef blablabla þá kunni ákvörðun stjórnenda fyrirtækisins að brjóta í bága við ...“ eða „Menn sem fréttastofan hafði samband við vildu ekki útiloka að ...“ Atburðirnir sem spunnið er út frá þurfa ekki að tilheyra veruleikanum sem vani er að segja í frá í framsöguhætti— þeir geta allt eins verið í viðtengingarhætti eða skildagatíð.