Atli Harðarson
Af vefnum - desember 2005 og janúar 2006

29. janúar: Hvers vegna er skynsamlegt að stytta námstíma til stúdentsprófs?
Hvers vegna skyldu flestar þjóðir hafa komist að þeirri niðurstöðu að heppilegt sé að unglingar taki stúdentspróf 18 eða 19 ára, en ekki 20 ára eins og hér á landi? Til að átta sig á því er gott að velta fyrir sér hvers vegna skólakerfinu er skipt í skólastig: Grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla.
   Hugsum okkur hóp 6 ára krakka sem hefja nám í sama skóla. Af þeim verða kannski tveir húsasmiðir, einn búfræðingur og einn eðlisfræðingur. Öll þessi börn geta verið saman í bekk nokkur ár því margt af því sem er heppilegt fyrir þau að læra er svipað hvort sem þau ætla að verða smiðir, búfræðingar eða eðlisfræðingar. En þar kemur að leiðir skilja. Hér gerist það eftir 10 ár og mér þykir full ástæða til að ræða hvort ekki væri betra að það gerðist fyrr.
   Nemendurnir sem ætla að verða húsasmiðir hljóta að fara í skóla þar sem er safnað saman úr mörgum grunnskólum, því í hverjum grunnskóla eru verðandi smiðir svo fáir að það yrði dýrt að halda uppi kennslu fyrir þá eina. Þeir fara því í framhaldsskóla og slást þar í hóp með nemendum úr öðrum grunnskólum sem hafa svipuð framtíðaráform. Skil milli grunn- og framhaldsskóla verða þegar leiðir jafnaldra greinast vegna ólíkrar sérhæfingar.
   Þeir sem ætla að læra búvísindi og eðlisfræði fara væntanlega í framhaldsskóla sem býður upp á nám til stúdentsprófs og innritast á náttúrufræðibraut. Þar slást þeir í hóp með nemendum úr mörgum grunnskólum. Kannski fara einhverjir þeirra svo seinna í kennaranám, aðrir í hjúkrun eða tölvufræði. Á náttúrufræðibraut í framhaldsskóla mætist sundurleitur hópur sem á samleið um sinn, en aðeins um sinn. Sá sem ætlar að læra eðlisfræði þarf t.d. að nema talsvert meiri stærðfræði heldur en sá sem ætlar að sérhæfa sig í umhirðu hrossa. Báðir eiga samt fullt erindi á náttúrufræðibraut. En hversu lengi eiga þeir samleið?
   Fjögurra ára stúdentsnám við íslenska skóla mótaðist þegar aðeins 1, 2 eða 3 skólar í landinu brautskráðu stúdenta. Þá voru nemendur sem ætluðu í háskóla saman í örfáum framhaldsskólum og þess vegna lítið því til fyrirstöðu að sérhæfing, sem væri eðlilegra að hafa á háskólastigi, byrjaði í menntaskóla. Nú er öldin önnur og þeir sem gætu átt erindi í grein á borð við eðlisfræði dreifast á meira en 25 framhaldsskóla og við suma þeirra eru ef til vill innan við 5 jafnaldrar á leið í svipað nám, enda hefur námsleiðum á háskólastigi fjölgað mikið jafnframt því sem stærri og stærri hluti árgangs lýkur stúdentsprófi.
   Stærðfræðinám er mikilvægur hluti af menntun raunvísindamanna og í þeirri grein skilja leiðir með nemendanum sem ætlar í eðlisfræði og félaga hans sem ætlar í búfræði trúlega um það leyti sem þeir eru búnir með kjarnann á náttúrufræðibraut (en síðasti áfangi þar er stærðfræði 503). Eftir það velur verðandi eðlisfræðingur væntanlega stærðfræði 603 sem hluta af kjörsviði og er að þeim áfanga loknum búinn með 3 ára nám í stærðfræði á framhaldsskólastigi. Fyrir þennan nemanda væri e.t.v. heppilegast að halda áfram í stærðfræði 703 á næstu önn. En við flesta framhaldsskóla er sá áfangi ekki kenndur, því efni hans hentar aðeins litlum hluta nemenda. Eðlisfræðingnum okkar, sem við höfum fylgt frá því í 6 ára bekk, væri því best að flytjast strax á háskólastig þar sem hann safnaðist í hóp með öðrum á svipaðri leið.
   Andstaða gegn áformum um styttingu náms til stúdentsprófs er mest í skólum sem starfa eftir bekkjakerfi. Þeir mótuðust meðan stúdentsnám var enn á svo fáum stöðum að skil milli framhaldsskóla og háskóla skiptu minna máli en nú. Mér sýnist að þeir sem andmæla styttingunni hvað ákafast vilji, a.m.k. sumir, halda til streitu að sérhæfa nemendur á framhaldsskólastigi þannig að þeir sem eru t.d. á leið í fræðilegt raunvísindanám séu síðustu annirnar í áföngum sem eru sniðnir fyrir örlítinn hluta af þeim breiða hópi sem útskrifast af náttúrufræðibraut. Slík sérhæfing verður aldrei möguleg við nema fáa framhaldsskóla.
   Eigi að miða fyrsta ár háskólakennslu í vísindum eins og eðlisfræði við mjög sérhæfðan undirbúning á framhaldsskólastigi er í reynd girt fyrir að nemendur úr skólum sem ekki ráða við þá sérhæfingu geti með góðu móti hafið háskólanám í greininni. Núverandi skipan mála, þar sem nemendum er haldið of lengi saman í hóp á framhaldsskólastigi, vinnur því beinlínis gegn greiðu aðgengi að námi í mikilvægum vísindagreinum.
   Því sundurleitari sem nemendur eru því fyrr skiljast leiðir þeirra í náminu. Nemendur á bóknámsbrautum mynda miklu breiðari og margbreytilegri hóp nú en þegar fjögurra ára stúdentsnám mótaðist. Sá tími er líka löngu liðinn að allir verðandi háskólaborgarar séu saman í 1, 2 eða 3 menntaskólum. Þeir sem vilja halda í námsskipan frá þeim tíma og sjá eftir liðinni „gullöld“ í menntamálum eru í raun að biðja um að menntamenn séu aðeins lítill hluti af hverjum árgangi. (Birtist líka á http://www.deiglan.com)

28. janúar: Gáta

Inn í frá að dulur dregst.
Dafnar blá í sænum.
Í naustum smá að landi leggst.
Leggjum hjá í bænum

28. janúar: Um styttingu námstíma til stúdentsprófs (birtist í Morgunblaðinu 26. jan.)
Undanfarna mánuði hafa allmargir skrifað í Morgunblaðið til að andmæla áformum stjórnvalda um styttingu á námstíma til stúdentsprófs. Meðal þess sem þeir finna styttingunni til foráttu er að hún feli í sér „skerðingu“ á námi, að nemendur læri minna. Ég held að þessi aðfinnsla byggist á hæpnum rökum.
   Fyrir nokkrum árum síðan var 6 ára bekk bætt neðan við grunnskóla með þeim afleiðingum að nemendur hættu í leikskólum ári fyrr en áður. Var þetta skerðing á leikskólanámi? Já vissulega en þessi skerðing varð ekki til þess að 6 ára börn kynnu minna en áður. Sama má segja ef stúdentsbrautir eru styttar þannig að nemendur útskrifist að jafnaði 19 ára og verði búnir með 1 ár í háskóla á sama aldri og þeir eru nú að ljúka stúdentsprófi. Þetta verður sjálfsagt til þess að menn kunni að meðaltali eitthvað minna þegar þeir setja á sig stúdentshúfu en ekkert bendir til að þetta valdi því að 19 ára námsmenn verði að jafnaði verr að sér en nú er og ekki heldur að þeir tvítugu verði minna menntaðir. Ef eitthvað er ætti menntunin að verða meiri ef nemendur eru búnir með þriggja ára framhaldsskóla og eitt ár af háskóla um tvítugt heldur en nú þegar þeir eru búnir með fjögur ár í framhaldsskóla en ekkert háskólanám á þeim aldri.
   Það er ekki skynsamlegt að hamra á því að nemendur muni ekki verða alveg eins lærðir og stúdentar eru nú þegar þeir setja á sig hvítu húfuna eftir styttingu. Það skiptir meira máli hvað þeir hafa menntast mikið þegar þeir ná tilteknum aldri. Einnig skiptir máli að fyrir nemanda sem er í skóla t.d. frá 6 ára til 26 ára aldurs jafngildir stytting á framhaldsskólanámi lengingu á háskólanámi.
   Þegar ég var í barnaskóla þá var skólaskyldan 8 ár, 6 ára barnaskóli og 2 ár í unglingaskóla. Í framhaldi af skyldunáminu tóku svo sumir fleiri ár í unglingaskóla og luku landsprófi eða gagnfræðaprófi. Þá voru kröfur til nemenda á níunda og tíunda námsári sjálfsagt meiri í ýmsum greinum heldur en nú tíðkast í efstu bekkjum grunnskóla. Þegar unglingaskólar og barnaskólar runnu saman í eitt skólastig eftir að grunnskólalögin voru sett 1974 var talað um að verið væri að slaka á kröfum og í reynd var hluti af verkefnum unglingaskóla fluttur til framhaldsskóla. Þetta var eðlileg þróun. Meðan minnihluti árgangs lauk landsprófi eða gagnfræðaprófi var hægt að fara yfir námsefni sem hefði verið vonlaust að þræla öllum í gegnum á jafnlöngum tíma. Tíundi bekkur í nútímagrunnskóla getur því ekki samsvarað algerlega landsprófsdeild eða fjórða bekk í unglingaskóla frá því fyrir 1974.
   Nú tekur æ stærri hluti árgangs stúdentspróf og búast má við að hlutfall þeirra sem það gera hækki mikið á næstu árum þegar fleiri nýta sér kosti á að bæta við stúdentsnámi eftir iðnnám eða annað starfsnám. Þegar stúdentar verða orðnir ríflegur meirihluti árgangs getur stúdentsprófið ekki verið alveg jafngilt því sem það var þegar aðeins bestu námsmenn fóru svo langt á menntabrautinni. Það er því eðlileg þróun að hluti af verkefnum sem sinnt hefur verið á bóknámsbrautum framhaldsskólanna flytjist til háskóla.
   Vandinn sem skólakerfið stendur frammi fyrir er hvernig á að mennta sífellt breiðari hóp án þess að draga úr gæðum eða minnka líkur á að þeir sem mestar gáfur hafa virki þær til fulls. Þessi vandi verður ekki leystur með því að berja hausnum við steininn og segja að stúdentsnám eigi um aldur og eilífð að vera eins og það hefur alltaf verið.
   Mér sýnist að einkum séu tvær mögulegar aðferðir til að stórfjölga stúdentum án þess að halda aftur af duglegustu námsmönnunum og farsælast sé að nota þær báðar. Önnur er að leyfa hverjum nemanda að ráða námshraða sínum að sem mestu leyti sjálfur. Þetta er þegar gert í áfangaskólum. Ég held að það væri til stórra bóta að hafa svipað kerfi í síðustu bekkjum grunnskóla eins og er í áfangaskólum og skipuleggja það þannig að duglegir nemendur eigi þess raunhæfan kost að klára grunnskólaprófið ári fyrr. Hin aðferðin er að flýta fyrir því að nemendur byrji í háskóla með því að stytta fyrri skólastig.
   Fyrirliggjandi tillögur um styttingu námstíma til stúdentsprófs fela í sér að minnka framhaldsskólanám stúdenta um sjöunda hluta, eða því sem næst, og flytja rúman helming af þessum sjöunda hluta niður á grunnskólastig og láta háskólum afganginn eftir. Verði farið að þessum tillögum og duglegum nemendum jafnframt sköpuð tækifæri til að flýta grunnskólanámi þá er að mínu viti stigið skref í rétta átt þótt ef til vill megi efast um að þetta skref sé nógu stórt.
   Stytting námstíma til stúdentsprófs getur, ef vel tekst til, stuðlað að því að skólakerfinu takist að mennta sífellt stærri hóp meira og meira án þess að úr verði hálfkák sem kemur í veg fyrir að duglegustu nemendurnir beiti sér af alefli.

21. janúar: Framhaldsskóli í Borgarnesi
Í Borgarbyggð er hafinn undirbúningur að stofnun einkarekins framhaldsskóla. Ef vel tekst til getur slíkur skóli vafalaust orðið til þess að fólki á svæðinu fjölgi og mannlíf þar dafni enn betur en nú. Borgarbyggð er að vísu fremur fámennt upptökusvæði fyrir framhaldsskóla, en þó ekki eins fámennt og t.d. Húsavík og nágrenni og er þar þó rekinn framhaldsskóli sem ég veit ekki annað en heimamenn séu ánægðir með. Skóli í Borgarbyggð er e.t.v. ekkert síður raunhæfur kostur en skóli á Húsavík, í Vestmannaeyjum, Höfn í Hornafirði eða Grundarfirði.
   Svæðisskólar fyrir dreifðar byggðir eða þéttbýlisstaði á stærð við Borgarnes og Húsavík geta, eðli máls samkvæmt, ekki verið mjög sérhæfðir. Þeir hljóta að bjóða upp á nám við hæfi flestra unglinga á svæðinu þannig að þeir geti a.m.k. byrjað sína framhaldsskólagöngu á heimaslóðum. Slíkir skólar þurfa m.a. að bjóða upp á almenna námsbraut fyrir þann stóra hóp sem fær ekki nógu háar einkunnir upp úr tíunda bekk til að uppfylla inntökuskilyrði á aðrar námsbrautir. Það er helst fyrir þessa nemendur sem framhaldsskóli í heimabyggð skiptir sköpum um hvort þeir halda yfirleitt áfram í skóla eftir að skyldunámi lýkur.
   Það sem ég hef lesið og séð í fjölmiðlum um hugmyndir manna í Borgarbyggð um nýjan framhaldsskóla hefur mér þótt dálítið mótsagnakennt. Annars vegar er talað um að þetta verði skóli sem býður aðeins upp á hraðferð til stúdentsprófs á tveim bóknámsbrautum. Hins vegar er um það rætt að hann eigi að bæta úr því ófremdarástandi að svo og svo stór hluti unglinga á svæðinu hætti í skóla eftir tíunda bekk grunnskóla. En sannleikurinn er sá að næstum allir sem uppfylla inntökuskilyrði á bóknámsbrautir halda áfram námi eftir að grunnskóla lýkur. Þeir sem hætta eru einkum nemendur sem færu fyrst á almennta braut og svo e.t.v. á starfsmenntabrautir ef þeir gengju í framhaldsskóla. Taki nýr skóli í Borgarnesi ekki á móti þessum nemendum verður hann tæpast til þess að auka að ráði menntun þeirra ungmenna sem alast upp á svæðinu. Ef hann neitar helftinni af þeim sem útskrifast úr tíunda bekk í Borgarnesi um skólavist þá er líka hætt við að nemendur verði allt of fáir til að reksturinn geti borið sig miðað við þær reglur sem gilt hafa um framlag ríkisins með hverjum nemanda.
   Annað sem mér hefur þótt dálítið undarlegt í umræðum um nýjan framhaldsskóla í Borgarnesi er fullyrðingar um að ekki sé rúm fyrir alla unglinga á svæðinu við Fjölbrautaskólann hér á Akranesi. Þetta er einfaldlega ósatt. Hér er pláss fyrir talsvert fleiri. Ástæða þess að skólinn tekur ekki við fleiri nemendum er ekki plássleysi heldur að hann fær ekki framlag á fjárlögum til að kenna meira en rúmar ellefuhundruð kennslustundir í viku. Ef ríkið er til í að borga fyrir meiri kennslu þá er ekkert því til fyrirstöðu að fjölga nemendum á Akranesi.
   Það verður spennandi að sjá hvernig hugmyndir um nýjan framhaldsskóla í Borgarbyggð þróast. Verður þetta svæðisskóli sem býður alla unglinga af svæðinu velkomna (líka þá sem fá lágar einkunnir í tíunda bekk og þá sem eru fatlaðir eða þurfa sérstaka aðstoð) og stuðlar þannig að því að breiðari hópur gangi menntaveginn eftir að grunnskóla sleppir? Eða á þetta að verða skóli sem aðeins tekur við nemendum sem uppfylla inntökuskilyrði á bóknámsbrautir og hvert ætlar hann þá að sækja nemendur? Ætlar hann þá t.d. að keppa við Menntaskólann að Laugarvatni sem hefur reynt að laða til sín nemendur af öllu landinu fremur en að bjóða menntun fyrir sem breiðastan hóp af tilteknu svæði?

15. janúar: Leyndardómur fjármagnsins
Á síðasta ári gaf Rannsóknarmiðstöð um samfélags og efnahagsmál (http://www.rse.is) út íslenska þýðingu Árna Óskarssonar á fimm ára gamalli bók eftir Perúmanninn Hernando de Soto. Bók þessi heitir Leyndardómur fjármagnsins og ber undirtitilinn Hvers vegna kapítalisminn er sigursæll á Vesturlöndum en bregst hvarvetna annars staðar. Í henni segir frá niðurstöðum áralangra rannsóknar höfundar og samverkamanna hans á hagkerfum fátækra landa. Ég hef ekki tök á að meta rannsóknir de Soto og get ekki fullyrt af eða á um hvort niðurstöður hans eru allar studdar traustum rökum. En ég get fullyrt að bók hans er afar áhugaverð lesning, ein af þessum fáu bókum sem fá lesandann til að líta heiminn í nýju ljósi. Í henni er fersk sýn á stærstu vandamál nútímastjórnmála og hún er jafn laus við klisjur frá hægri og vinstri, en augljóslega skrifuð af einlægri löngun til að bæta efnaleg kjör fátækra manna í þriðja heiminum.
   Meginspurning bókarinnar er hvaða munur sé á hagkerfum Vesturlanda og landanna sem höfundur hefur rannsakað mest eins og Perú, Egyptalands, Indónesíu eða Haiti. Þessu svarar de Soto á 250 blaðsíðum og svarið er svo sem ekkert einfalt. Meginatriði þess er að á Vesturlöndum sé þokkalegt samræmi milli eignarréttar sem fólk viðurkennir í reynd og byggir afkomu sína á og formlegs eignarréttar sem viðurkenndur er af ríkisvaldinu og lögunum. Í fátæku löndunum er efnahagsstarfsemi og eignarréttur alls þorra fólks hins vegar að mestu utan við lög og rétt. Þar byggja fátæklingar hús á landi sem þeir hafa ekki formlegan eignarrétt yfir og reka fyrirtæki sem eru ekki skráð. Þótt fátækt fólk eigi ekki verðmætar eignir á mælikvarða Vesturlandabúa eru hús og smáfyrirtæki fátæklinga í löndum þriðja heimsins samt langstærstur hluti af þjóðarauði þessara landa. Þennan auð er ekki hægt að virkja sem fjármagn, þ.e. til að æxla af honum meira fé, vegna þess að hann er utan við lög og rétt.
   Rannsóknir de Soto sýna að í dæmigerðu fátæku samfélagi viðurkenna nágrannar eignarrétt hver annars og hversdaglegt líf byggist á almennu samkomulagi um að virða óformlegan eignarrétt og haga viðskiptum í samræmi við venjur sem hafa skapast. En allt þetta er samt utan við lögin svo fyrir allan þorra fólk er ómögulegt að veðsetja fyrirtæki eða íbúð og nota eignir sínar þannig til að taka lán og færa út kvíarnar. Það sem Vesturlöndum og Japan tókst, en fátæku löndunum mistókst, er að samræma lög um eignarrétt raunverulegu lífi fólks.
   En hvers vegna skyldu fátæklingarnir ekki skrá fyrirtæki sín og nota löglegar leiðir til að fá eignarrétt sinn viðurkenndan. Þessu svarar de Soto með mörgum dæmum. Hér er eitt:

Til þess að fá hugmynd um hversu erfitt líf [fátæks manns sem ætlar að stofna fyrirtæki] var, opnaði ég ásamt rannsóknarhópi mínum litla fatasaumastofu í úthverfi Lima. Markmið okkar var að koma á fót nýju og fullkomlega löglegu fyrirtæki. Hópurinn byrjaði svo á að fylla út eyðublöð, standa í biðröðum og fara með strætisvagni inn í miðborg Lima til að fá öll tilskilin vottorð til að geta rekið lítið fyrirtæki í Perú samkvæmt bókstaf laganna. Þeir unnu sex tíma á dag og skráðu loks fyrirtækið - 289 dögum síðar. Enda þótt fatasaumastofan væri skipulögð þannig að þar ynni aðeins einn starfsmaður, var kostnaðurinn við löglega skráningu 1231 bandaríkjadalur - þrjátíu og einu sinni lágmarksmánaðarlaun. Að fá löglegt leyfi til að byggja hús á landi í ríkiseign tók sex ár og ellefu mánuði og það útheimti 207 skref í stjórnsýslunni í 52 stofnunum. (Bls. 38 - 39)

Löglega hagkerfið með formlegum eignarrétti er, samkvæmt de Soto, í reynd lokað fyrir fátækum. Hann fer ófögrum orðum um lögfræðinga sem búa til reglur um eignarrétt að fyrirmynd frá Vesturlöndum án þess að hirða neitt um að láta þær passa við þann rétt sem almenningur viðurkennir í reynd. Lausnin segir hann er ekki að fátæklingar geri það ómögulega, að laga atvinnulíf sitt að gildandi lögum, heldur að löggjafinn lagi reglurnar að raunverulegu lífi almennings eða „lögum fólksins“.

Það var með því að finna „lög fólksins“ sem vestrænar þjóðir bjuggu til sín formlegu eignarhaldskerfi. (Bls. 185)

Dæmin frá Vesturlöndum sem de Soto lýsir eru einkum úr sögu Bandaríkjanna. En fram yfir miðja 19. öld voru landnemar þar upp til hópa ólöglegir landtökumenn, án formlegs lögvarins eignarréttar yfir ökrum sínum og húsum. Landnemabyggðirnar breyttust svo úr þriðjaheimshagkerfum í kapítalísk hagkerfi með lagabreytingum eins og jarðnæðislögunum (Homestead Act) sem sett voru 1862 „þar sem hverjum landnema sem var reiðubúinn að búa í landinu í fimm ár og rækta það var úthlutað 160 ekrum lands ókeypis.“ (Bls. 168) Þessi lög segir de Soto að hafi aðeins staðfest það sem fólk hafði í raun gert. Með þeim hafi lög fólksins verið gerð að lögum ríkisins og þetta sé forsendan fyrir því að kapítalismi heppnist, að lögin verndi þann eignarrétt sem skapast hefur með óformlegum hætti. Góð lög sem stuðla að bættum almannahag eru ekki búin til af lögspekingum heldur fundin með því að skoða hvernig sanngjarnt og heiðarlegt fólk hagar samskiptum sínum í raun og veru.

Skortur á löglegu eignarhaldi skýrir ... hvers vegna íbúar í þróunarlöndunum og kommúnistaríkjunum fyrrverandi geta ekki gert arðbæra viðskiptasamninga við ókunnuga, geta ekki fengið lán, tryggingar eða fyrirgreiðslu þjónustustofnana: þeir hafa engu eignarhaldi að tapa. Vegna þess að þeir hafa engum eignum að tapa eru það aðeins nánasta fjölskylda þeirra og nágrannar sem taka þá alvarlega sem samningsaðila. Fólk sem hefur engu að tapa er lokað inni í óþrifalegum kjallara hins forkapítalíska heims.
   Samtímis geta íbúar í þróuðu ríkjunum gert samninga um því sem næst allt sem sanngjarnt er, en þátttökugjaldið er skuldbinding. Og skuldbinding er skiljanlegri þegar hún er studd veði í eign, hvort sem það er trygging, haldsréttur eða eitthvert annað form af ábyrgð sem verndar hinn samningsaðilann. (Bls. 69)

12. janúar: Þjóðfélagsumræða, fjölmiðlar, hnyttni og sniðugheit
Á undanförnum árum hefur stærri og stærri hluti af alvarlegri rökræðu um íslensk stjórnmál farið fram í vefritum eins og t.d. www.deiglan.com, www.andriki.is eða www.murinn.is eða á heimasíðum á borð við www.bjorn.is og www.ogmundur.is, svo ég tilgreini tvo vefara hvorn af sínum enda hins pólitíska litrófs. Þótt ég sé miklu oftar sammála Birni ber ég samt virðingu fyrir Ögmundi, því hann má eiga það að hann rökstyður skoðanir sínar og kemur til dyranna eins og hann er klæddur.
   Fyrir þá sem hafa áhuga á yfirvegaðri umræðu, snarpri gagnrýni, tilraunum til að máta pólitíska hugmyndafræði við íslenskan veruleika eða viðleitni til að kafa undir yfirborð mannlífsins er miklu meira af spennandi lesefni á vefnum heldur en í dagblöðum. Mogginn birtir að vísu mikið af aðsendum greinum sem oft eru ágætar en efni frá ritstjórn er mest hálfvolgt miðjumoð, sjónarmið sem stuða engan og passa þokkalega við ríkjandi tísku. Í Staksteinum eru þó endrum og sinnum orð sem eru brýnd þannig að bíti. Þetta er eins með Fréttablaðið og Moggann, lítið um ferskar hugmyndir. Um DV þarf varla að tala. Hafi alvarlegar pælingar ratað á síður þess blaðs hafa þær a.m.k. farið fram hjá mér. Blaðið hef ég ekki lesið nógu oft til að ég geti haft neina skoðun á því.
   Kannski eiga dagblöð nútímans bara að miðla fréttum, auglýsingum og afþreyingu og kannski er ekki undan neinu að kvarta þótt þar fari lítið fyrir rökræðum og yfirvegun um málefni sem varða almannhag. Kannski er vefurinn miklu betri miðill fyrir þá sem vilja fylgjast með umræðum og taka þátt í þeim. Hvað sem því líður reyna blöðin stundum að leggja eitthvað til málanna, þótt það sé mismerkilegt. Aftan á Fréttablaðinu eru til dæmis Bakþankar sem eiga líklega að vera gagnrýnin umræða um samfélagið.
   Sumir sem skrifa Bakþanka í Fréttablaðið tala af einlægni og alvöru eins og t.d. Jón Gnarr og Gerður Kristný (með þessu er ég ekki á neinn hátt að gefa í skyn að ég sé sammála þeim - mér finnst þau oft hafa algerlega rangt fyrir sér). En sumir sem skrifa þarna virðast ofurseldir gömlum íslenskum ósið eða kæk sem ég vil kenna við hnyttni eða sniðugheit. Einu sinni gátu menn víst unnið pólitískar kappræður með því að kasta fram stöku, segja eitthvað sem rímaði vel, var skondið og sniðugt. Það skipti engu máli hvort menn sögðu satt, rökstuddu mál sitt og töluðu af þekkingu. Hnyttnin bar alla skynsemi ofurliði og það var meira virði að fá meinfýsinn hlátur til að ískra í áheyrendum heldur en að auka skilning þeirra á umræðuefninu. Þessi ömurlega umræðuhefð er sem betur fer ekki áberandi í þeim vefjum sem hér voru nefndir (þótt www.andriki.is missi sig þegar Ólafur Ragnar Grímsson á afmæli) en hún skýtur stundum upp kollinum í Bakþönkum Fréttablaðsins. Mesti „meistari“ hnyttninnar er trúlega Þráinn Bertelsson. Ég er ekkert að gera lítið úr því að hann er í raun og veru orðheppinn og sniðugur. En reyni hann að tala af alvöru þá er eins og sniðugheitin beri hann ofurliði. Síðasti pistill sem ég las eftir hann (9. jan. 2006) byrjaði t.d. svona:

Í þessu besta landi af öllum mögulegum löndum eigum við merkilega fuglategund sem við nefnum stjórnmálamenn. Stjórnmálamennirnir okkar búa við stöðugleika og starfsöryggi og þurfa hvorki að óttast að neinir atburðir hafi áhrif á framtíð þeirra og sjálfkrafa endurkjör ...

Þetta er bara blábyrjunin. Framhaldið er eins, voða hnyttið, voða skondið, en röklega er hvergi heil brú í því sem Þráinn segir. Stjórnmálamenn búa ekki við starfsöryggi í raun og veru. Á fjögurra ára fresti missir stór hluti þerra vinnuna. Þeir eru ekki í raun og veru fuglategund. Þeir eru ekki einu sinni neitt frábrugðnir öðru fólki og flestir eru þeir að reyna að breyta heilmiklu með stuðningi kjósenda sinna, svo það er af og frá að þeir álíti að Ísland sé besta land af mögulegum löndum. Frasinn hjá Þráni er samt hnyttinn, m.a. vegna þess hvernig hann vísar til Birtings eftir Voltaire.
   Það má nefna fleiri en Þráin. Kristín Helga Gunnarsdóttir á til mjög svipaða takta og hefði ef til vill sómt sér vel sem hagyrðingur á kosningafundi eins og lýst er í Sjálfstæðu fólki. Síðasti pistill hennar (10. jan. 2006) byrjar á þessa leið:

Í plebbalandi viðgengst að múta forstjórum stórfyrirtækja með gulli svo þeir hætti störfum og steinþegi. Þaðan fara flugfarmar fyllisvína í áramótaboð erlendis og taka hárgreiðslumeistarana með sér líkt og á tímum Loðvíks fjórtánda. Þar er kastað brauðmylsnum í barnakennara svo þeir tóri naumlega og fari ekki á vergang.

Þetta eiga vafalaust að vera ýkjur fremur en bókstafleg sannindi og meiningin er sjálfsagt að hneykslast á því að forstjóri hjá flugfélagi fékk margföld árslaun kennara þegar hann hætti störfum. En vegna hnyttninnar (sem kemur t.d. fram í því að orðið „plebbaland“ er endurtekið hvað eftir annað í framhaldinu) missir öll gagnrýni marks og auk þess ganga ýkjurnar of langt til að vekja fólk til raunverulegrar umhugsunar. Að múta manni merkir að greiða honum fyrir að gera eitthvað sem er rangt eða ólöglegt og ég efast um að það sé í raun og veru algengt að forstjórum sé mútað. Ég efast líka um að fólk sem fer í áramótaboð í öðrum löndum sé upp til hópa neitt meiri drykkjusvolar en við hin. En hér skiptir sannleikur ekki máli. Það er hnyttnin sem gildir.
   Hinir hnyttnu pistlahöfundar nota mælsku sína einkum til að taka undir og ala á óánægju eða pólitískri reiði. Víst getur verið þarft að minna á það sem miður fer til að fá því breytt. Ég efast samt um að svona skrif séu uppbyggileg. Þau hjálpa fólki ekki að skilja og þau benda ekki á neinar lausnir.

8. janúar: Stærðfræði og stúdentsnám
Undanfarið hefur verið um það rætt meðal skólamanna að stytting náms til stúdentsprófs muni valda því að nemendur kunni of litla stærðfræði þegar þeir byrja í háskóla. Að nokkru leyti er þetta framhald af umræðu sem fór af stað þegar ný aðalnámskrá fyrir framhaldsskóla kom út árið 1999. Síðan þá hefur stærðfræði sem skylt er að nema til stúdentsprófs á bóknámsbrautum verið minni en áður, eða 6 einingar á félagsfræða- og málabraut (var áður 9 og 12 einingar á þessum brautum) og 15 einingar á náttúrufræðibraut (var áður 21 til 27 einingar á raungreinabrautunum).
   Með námskránni frá 1999 var stúdentsbrautum fækkað í 3 og kjarninn á hverri braut var minnkaður í 98 einingar af 140 en nemendum leyft að sérhæfa sig með því að velja 30 eininga kjörsvið (þar sem aðeins er hægt að velja áfanga í tilteknum bóklegum greinum sem nemandinn lærir til a.m.k. 9 eininga). Á öllum brautum geta nemendur valið að ljúka hluta af 30 eininga kjörsviði með því að velja meiri stærðfræði en er í brautarkjarna. Á hverri braut er svo 12 eininga frjálst val sem nemendur mega að sjálfsögðu nýta til að bæta við sig í stærðfræði. Því má segja að um leið og skyldunám í stærðfræði minnkaði jukust möguleikar nemenda á að læra enn meiri stærðfræði en þeim stóð til boða fyrir námskrárbreytinguna 1999.
   Þeir sem tala um að námskráin frá 1999 hafi valdið því að stærðfræðikunnátta sé minni nú en áður hljóta að álíta að of fáir noti valfrelsið til að bæta við stærðfræði umfram kjarna. Ég veit ekki hvernig þetta er við aðra skóla. En við Fjölbrautaskóla Vesturlands, þar sem ég starfa, er stærðfræði vinsæl kjörsviðsgrein. Nú á vorönn 2006 eru t.d. kenndir (til viðbótar við kjarnaáfangana STÆ103, STÆ203 o.s.frv.) áfangarnir STÆ313 og STÆ363 sem eru einkum valdir af nemendum á félagsfræðabraut og STÆ523, STÆ603 og STÆ703 þar sem flestir nemendur eru á náttúrufræðibraut. Á sama tíma er kenndur einn kjörsviðsáfangi í ensku og einn í íslensku. Það er því hæpið að fullyrða að nemendur læri ekki stærðfræði ótilneyddir.
   Þótt á lofti séu fullyrðingar um að stærðfræðikunnátta stúdenta hafi minnkað sannar það svo sem ekkert. Sleggjudómar um að unglingar séu verr að sér nú en áður hafa heyrst svo langt aftur sem heimildir ná. Það er líka hæpið að slá neinu föstu um að stytting á stúdentsnámi úr 140 einingum í jafngildi 120 eininga breyti miklu um kunnáttu stúdenta í stærðfræði. Við vitum t.d. ekki hvernig nemendur munu ráðstafa kjörsviðseiningum eftir styttingu. Það veltur á ýmsu, m.a. á skilaboðum sem háskólar senda nemendum í framhaldsskólum.
   Sé mikilvægt að nemendur sem innritast í einhverjar háskóladeildir kunni meiri stærðfræði hljóta háskólarnir að geta sett inntökuskilyrði þar sem krafist er tiltekins einingafjölda í greininni, eða einhvers lágmarksárangurs á samræmdu stúdentsprófi. Inntökuskilyrði af þessu tagi mundu vafalítið auka aðsókn að kjörsviðsáföngum í stærðfræði við framhaldsskóla. Slík pressa frá háskólum er að mínu viti heppilegri en að skylda alla sem ætla að taka stúdentspróf til að læra mikla stærðfræði. Hugsum okkur nemanda sem hefur engan áhuga á stærðfræði, litla hæfileika til að læra hana og ætlar að einbeita sér að námi í t.d. söng, ensku, leiklist eða íþróttum að stúdentsprófi loknu. Ef hann og hans líkar eru skyldaðir til að læra mikla stærðfræði hefur það a.m.k. tvenns konar slæmar afleiðingar: Annars vegar að nemandinn eyðir tíma í iðju sem hann hefur ekki ánægju af og líklega ekki heldur mikið gagn, því þeir sem skríða gegnum stærðfræðiáfanga með lágmarkseinkunn og líta á námið sem kvöð munu líklega ekki hafa mikil not af námsefninu. Hins vegar að í stærðfræðitímum fjölgar nemendum sem hafa litla getu og lítinn áhuga og það dregur allan hópinn niður og kemur í veg fyrir að yfirferð námsefnis gangi nógu greitt.
   Hér hef ég gert heldur lítið úr áhyggjum manna af minnkandi stærðfræðikunnáttu stúdenta. Ég vil þó ekki ganga svo langt að halda því fram að þessar áhyggjur séu að öllu leyti úr lausu lofti gripnar. Ég held að það sé a.m.k. umhugsunarefni hvort ekki þurfi að auka stærðfræðikunnáttu þeirra sem fara í kennaraháskóla og verða bekkjakennarar í grunnskólum þar sem stærðfræði er ein af mikilvægustu námsgreinunum. Þetta er hægt að gera t.d. með því að herða inntökuskilyrði eða auka námskröfur í stærðfræði við kennaraháskóla (og er e.t.v. ekki vanþörf á). En þótt áhyggjur af minnkandi stærðfræðikunnáttu stúdenta séu kannski ekki að öllu leyti úr lausu lofti gripnar held ég að þær séu a.m.k. í aðra röndina heimsósómakjaftæði af því tagi sem staglast hefur verið á síðan löngu fyrir guðs minni og í aðra röndina viðbrögð við því að nú þegar æ fleiri sækja háskóla fjölgar þar nemum með miðlungsgáfur og þar undir og þar með nemendum sem hafa takmarkaða hæfileika til stærðfræðilegrar hugsunar.
   Getur verið að þeir sem harma horfna gullöld í menntamálum séu, þegar öllu er á botninn hvolft, að biðja um að háskólanemar verði aftur aðeins lítill hluti af hverjum árgangi?

31. desember: Nú árið er liðið - landbúnaður, yfirdráttarlán og viðgangur heimskunnar
Í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu í dag eru nokkrar blaðsíður af einhvers konar áramóatuppgjöri þar sem blaðamenn tína saman það sem þeim þykir merkilegast við árið 2005. Hvað er merkilegt og hvað er ómerkilegt er ef til vill jafn misjafnt og mennirnir eru margir og sumt af því sem mér þótti merkilegt er ekki nefnt í þessum tveim dagblöðum sem ég les á hverjum morgni. Mér þykja það til dæmis allmerkileg þáttaskil að á árinu 2005 urðu borgarbúar á jörðinni í fyrsta sinn fleiri en sveitamenn. Kannski verður ársins seinna minnst fyrir þetta, kannski fyrir það að hveiti er ekki lengur aðalfæða mannkynsins eins og það hefur verið í nokkur þúsund ár.
   Stærstur hluti þeirra hitaeininga sem sexþúsundmilljónir mannslíkama á jörðinni brenna fæst af þremur korntegundum: hveiti, maís og hrísgrjónum. Síðan á steinöld hefur hveiti verið langmikilvægasta tegundin og framfarir í hveitirækt verið mikilvægasta forsenda fólksfjölgunar á jörðinni. Svona var þetta fram á síðustu ár og græna byltingin, sem átti mestan þátt í að draga úr hungursneyð á jörðinni á seinni helmingi 20. aldar var ekki síst fólgin í kynbótum á hveiti. En nú er maísuppskeran orðin stærri hluti af fæðu jarðarbúa en hveitið. Það er erfitt að fullyrða nákvæmlega hvenær þetta gerðist, hvort það var árið 2005 eða kannski 2004 eða 2003 sem hveitið lét í minni pokann. En sennilega munu maís og hrísgrjón halda áfram að vinna á næstu árin. Ein ástæða þessa er að það er miklu auðveldara að nota líftækni til að skapa betri afbrigði af þessum korntegundum heldur en af hveiti.
   Hveitiplantan er erfðafræðileg furðuskepna þar sem hvert gen er sexfalt (en ekki í tveim eintökum eins og algengast er). Erfðaefni hveitiplöntunnar (þ.e. niturbasakeðjurnar í kjarnasýrunum sem geymdar eru í 21 litningi) er alls 5 sinnum lengra en í mönnum og 40 sinnum lengra en í hrísgrjónum. Fyrir vikið er líftæknileg meðhöndlun þess fremur erfið og því líkur á að betur gangi að endurbæta maísinn og hrísgrjónin. Þótt umhverfis„verndar“sinnar hafi sumir töluverðan vind í nösum þegar talið berst að erfðabreyttum matvælum er æsingurinn út af þeim í raun tilbrigði við gamalt stef. Að minnsta kosti síðan Jethro Tull fann upp vél til að sá hveiti í byrjun 18. aldar hefur öllum alvöru framförum í landbúnaði verið mótmælt hástöfum af afturhaldsöflum hvers tíma. Enn er til fólk sem er á móti tilbúnum köfnunarefnisáburði þótt helmingurinn af öllu köfnunarefni í prótínum sem mannfólkið neytir sé upprunnið í áburðaverksmiðjum en ekki hjá bakteríum sem vinna það úr lofti með náttúrulegum hætti. Þetta andóf styðst ekki við nein alvöru rök og það hættir ekki þó á það sé bent að ef áburðaverksmiðjum yrði lokað þá mundu menn tilneyddir að ryðja nær alla skóga jarðarinnar undir akurlendi, því afrakstur af hverri flatareiningu yrði svo miklu minni en nú er. Samt dæi stór hluti jarðarbúa úr hungri. Andstaðan gegn erfðabreyttum matvælum minnkar ekki heldur þótt á það sé bent að erfðabreyttar nytjajurtir séu nú ræktaðar á akurlendi sem þekur um eitthundrað milljónir hektara og líftæknin hafi bæði aukið uppskeru af hverri flatareiningu og dregið úr þörf fyrir skordýraeitur án þess vitað sé um eitt einasta tilvik þar sem neysla erfðabreyttra matvæla hefur valdið heilsutjóni. Þessi andstaða er eitt dæmi af ótalmörgum um það sem Milan Kundera sagði einhvern tíma, að það sé ekki bara þekkingin sem eykst, heimskan geri það líka.
   Þetta var annars útúrdúr. Ég er að tala um hvað var merkilegt við árið 2005 og hef hingað til haldið mig við allan heiminn. En hér á Íslandi sló almenningur eigið met í að taka yfirdráttarlán. Í Fréttablaðinu á Þorláksmessu var sagt frá því að yfirdráttarlán á árinu 2005 séu um það bil 75 milljarðar eða um 250 þúsund krónur á hvert mannsbarn í landinu. Vextir af þessum lánum eru ansi háir eða hátt í 20% og á árinu munu landsmenn hafa borgað fjármálastofnunum milli 13 og 15 milljarða í vexti af yfirdráttarlánum. Þetta eru um það bil 45.000 krónur á mann eða 180.000 krónur á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Dæmigerð fjölskylda gæti því bætt afkomu sína um því sem næst ein dæmigerð mánaðarlaun með því að safna fyrir hlutunum áður en þeir eru keyptir í stað þess að eyða fénu áður en þess er aflað.
   Ekki er nóg með að Íslendingar hafi sett met í óráðsíu á árinu. Þeir settu líka met í áfengisneyslu og virðast hafa eytt álíka miklu fé í áfengi eins og í yfirdráttarvexti, en ÁTVR seldi meira 17 milljónir lítra á því ári sem nú er senn liðið. Þetta jafngildir því að hvert mannsbarn (börn með talin) hafi svolgrað í sig rúmlega lítra af áfengum drykkjum í viku. Líklegt má telja að einhverjum hafi orðið bumbult af þessu og þarf varla frekari vitna við til að víst megi telja, að jafnframt því sem menningin blómgast og hagur manna vænkast, dafnar heimskan og vitleysan sem aldrei fyrr. Kannski fer þetta óhjákvæmilega saman, a.m.k. hefur mér alloft sýnst að þeir menn sem mest vit hafa búi einnig yfir mestri heimsku og það sé oft minnst vitleysa í þeim sem hafa einfalda sál og óbrotinn huga. Ætli það geti ekki líka verið að í samfélagi, þar sem eru miklar framfarir, sé jafnframt mikil afturför, að þar sem allt er á fleygiferð sé ólíklegt að öll hreyfing sé í rétta átt? Lýk ég svo þessu blaðri á að óska þess að áfram verði framfarir í landbúnaði svo allir jarðarbúar fái nóg að borða, það skiptir miklu meira máli heldur en hitt hvort íslenskar fjölskyldur kjósa að eyða einum mánaðarlaunum eða svo í yfirdráttarvexti, áfengi eða aðra vitleysu.

24. desember: Uppreisn gegn ofbeldinu - gleðileg jól
Í öðrum kafla bókar sinnar, Frelsið, segir John Stuart Mill. „Mannkynið verður naumast of oft á það minnt, að uppi var maður sem hét Sókrates, ... Við teljum hann foringja og fyrirmynd allra siðspekinga fyrr og síðar ... En landsmenn þessa manns tóku hann af lífi fyrir guðleysi og siðleysi.“ (Tilvitnun tekin úr útg. HÍB 1978 bls. 65—66).
   Sókrates og Jesús eru að ýmsu leyti hliðstæður. Báðir voru hógværir og lítillátir, gæddir ríkri kímnigáfu og höfðu lag á að gera þá menn hlægilega sem voru miklir á lofti og drembilátir. Þeir voru fátækir menn að veraldlegum auði og lítils virtir af höfðingjum þessa heims og hvor tveggja var dæmdur til dauða fyrir að vera trúr köllun sinni. Vissulega er líka mikill munur á þessum tveim fornmönnum. Annar var upphafsmaður fræðilegra pælinga um siðfræði og stjórnmál. Hinn talaði til manna sem trúlega voru lítt móttækilegir fyrir flóknum rökfærslum. Hann var líka, og er enn, talinn hafa allt vald á himni og jörð og geta gefið þeim sem á hann trúa eilíft líf. Um slík efni kann ég ekki að tala og læt samband Jesú við almættið liggja milli hluta. Fyrir mínum jarðnesku hugskotssjónum er hann maður sem ferðaðist um Palestínu og flutti boðskap sem breytti heiminum.
   Sókrates gerði uppreisn gegn klisjum, sjálfblekkingu og kokhraustri vissu. Hann var vitrastur manna, ekki vegna þess að hann hefði svör við öllum spurningum, heldur vegna þess að hann viðurkenndi fávisku sína. Hann kenndi mönnum að efast og spyrja. Þar sem stórbokkar þóttust vita betur en aðrir hvað mönnum væri fyrir bestu og hvernig ætti að stjórna ríkinu og lifa lífinu spurði hann þá einfaldra spurninga sem hann raðaði upp þannig að þeir flæktust mótsögnum og öllum sem á hlýddu varð ljóst að þeir vissu miklu minna en þeir þóttust vita. Með sínum góðlátlega hætti gerði hann helstu monthana samfélagsins hlægilega og trúlega er það meginástæða þess að hann var tekinn af lífi.
   Jesús gerði uppreisn, líkt og Sókrates, en uppreisn hans beindist einkum gegn ofbeldi, sem var meira en nóg af í landi hans, þar sem Gyðingar grýttu stelpur til bana og Rómverjar negldu menn á kross fyrir litlar sakir. Háðið hjá honum var naprara en hjá Sókratesi enda beindist það gegn heimi sem var bæði harður og sljór. En boðskapurinn komst til skila í meitluðum setningum eins og: „Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum“ (Jóh. 8:7); „Slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina.“ (Matt. 5:39) og „Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður“ (Matt. 5:44). Þessi orð áttu sinn þátt í því að breyta ímynd ofbeldismannsins úr sigursælli hetju í heimskan þumba sem er bæði hlægilegur og aumkunarverður. Hvort sem Jesús gaf fólki eilíft líf eða ekki eru þessi áhrif hans á menninguna alveg nóg tilefni til að halda upp á afmæli hans eins og stór hluti jarðarbúa gerir nú í kvöld og á morgun.

24. desember: Athugasemd við skrif um brottfall úr framhaldsskólum (birtist líka í Morgunblaðinu)
Í ritstjórnargrein sem birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 19. desember getur að líta afar einkennilegar fullyrðingar þar sem fjallað er um brottfall nemenda úr framhaldsskólum. Þar segir meðal annars. „Þeir, sem vilja draga úr brottfalli, mættu gjarnan skoða muninn á hinum hefðbundnu bekkjaskólum og fjölbrautaskólunum. Staðreyndin er sú að í bekkjakerfinu gengur miklu betur að vinna gegn brottfalli en í fjölbrautaskólunum. Samt hefur verið þrengt að bekkjakerfisskólunum með markvissum hætti undanfarna áratugi og sér ekki fyrir endann á því.“
   Ekki veit ég hvaðan Mogganum kemur þessi speki. En sé mark takandi á minni reynslu þá nær hún því ekki einu sinni að vera hálfur sannleikur. Ætli það sé ekki nær réttu lagi að bæði bekkjaskólum og áfangaskólum gengur misvel að vinna gegn brottfalli og skólum af báðum gerðum hefur ýmist gengið vel og ýmist miður að ná endum saman og dafna við þau skilyrði sem stjórnvöld búa þeim. En þegar kemur að því að vinna gegn brottfalli eru skilyrði þessara skólagerða æði ólík.
   Flestir bekkjaskólar bjóða einungis upp á nám á bóknámsbrautum til stúdentsprófs og taka ekki við öðrum nemendum en þeim sem uppfylla inntökuskilyrði á slíkar brautir. Þeir eru því aðeins fyrir þá sem luku grunnskóla með góðum einkunnum. Úr hópi slíkra nemenda er brottfall fremur lítið og má þá einu gilda hvort þeir ganga í áfangaskóla eða bekkjaskóla.
   Flestir áfangaskólar sýna þá samfélagslegu ábyrgð að taka við nemendum hvort sem þeir hafa háar grunnskólaeinkunnir eða lágar. Þangað koma því nemendur sem er hætta á að verði lausir við, geri hlé á námi eða hætti jafnvel alveg áður en þeir ná að útskrifast. Iðn- og starfsmenntun fer líka að nær öllu leyti fram í skólum sem starfa eftir áfangakerfi og margir nemendur í slíku námi eru um árabil til skiptis í skóla og á vinnumarkaði. Þegar teknar eru saman tölur um brottfall getur nemandi í húsasmíði t.d. verið tví- eða þrítalinn ef hann gerir nokkrum sinnum hlé á skólagöngu til að vinna hjá byggingafyrirtæki. Samt er ekkert nema gott um það að segja að menn læri iðn með því að vera til skiptis í skóla og í vinnu.
   Hingað til hafa stjórnendur skóla af báðum þessum gerðum hjálpast að og miðlað hver öðrum af reynslu sinni svo það kemur mér á óvart ef annar hópurinn lumar á góðum ráðum sem hinn veit ekki af. Ég kalla það ekki ráð gegn brottfalli að neita einfaldlega að veita nemanda inngöngu ef hætt er við að hann eigi erfitt með að tolla í skóla. Viti leiðarahöfundur Morgunblaðsins um einhver betri úrræði en þau sem notuð eru í áfangaskólum jafnt og bekkjaskólum finnst mér að hann ætti að upplýsa hver þau eru.

18. desember: Skólaskylda og forvarnir
Ég las það í Mogganum sem kom í morgun að Dagur Eggertsson og einhverjir samverkamenn hans vildu lengja skólaskyldu upp að 18 ára aldri. Rökin fyrir þessu munu vera á þá leið að unglingar byrji síður að nota vímuefni ef þeir eru í skóla.
   Kynni mín af framhaldsskólanemum benda fremur til þess að unglingar hætti í skóla vegna þess að þeir hafi vanið sig á vímuefnaneyslu heldur en hins að þeir taki að nota vímuefni vegna þess að þeir séu hættir í skóla. En kannski er hvort tveggja til. En jafnvel þótt einhver dæmi séu þess að unglingar byrji að nota vímuefni vegna þess að þeir hafi kosið að hætta skólagöngu fyrir 18 ára aldur er ekki þar með sagt að lengri skólaskylda dragi úr áfengis- og eiturefnabölinu sem rænir bæði neytendur og venslamenn þeirra hamingjunni og veldur æði mörgum varanlegu heilsutjóni og jafnvel dauða. Víst er þetta mikið böl og víst er skiljanlegt að fólki finnist töluvert til vinnandi að draga úr því. Hitt er verra ef menn láta óttann við fíkniefni ræna sig dómgreindinni og fallast á hvaða pólitík sem er, bara ef fylgismenn hennar bera sér orðið forvarnir í munn.
   Nú lýkur skólaskyldu á Íslandi með 10. bekk grunnskóla. Þegar nemendur koma í framhaldsskóla fá þeir gjarna að heyra að nú hafi þeir sjálfir valið að stunda nám, enginn neyði þá til þess, og nenni þeir ekki að læra sé þeim frjálst að fara. Væri framhaldsskólinn skylda væri miklu auðveldara að réttlæta leti og lausatök á náminu fyrir sjálfum sér með því að þykjast ekki kæra sig neitt um að vera í skóla og segjast hanga þar af þeirri einu ástæðu að það sé bannað að fara.
   Ef skólaskylda verður hækkuð í 18 ár, hvað mun þá verða um 17 ára fíkniefnaneytanda sem skrópar í skóla og vinnur ekki það sem kennararnir setja honum fyrir? Varla geta skólastjórnendur sett honum neina úrslitakosti, krafist þess að hann fylgi ráðum forvarnafulltrúa skólans eða leiti til læknis en verði að öðrum kosti rekinn úr skólanum. Eitthvað þessu líkt gera sumir framhaldsskólar, en skólaskyldu til 18 ára aldurs fylgir væntanlega að ekki verði hægt að vísa nemendum úr skóla: Þeir hangi þar með óbærilegan léttleika tilverunnar á herðum sér, sama hvað þeir sjálfir gera.
   Getur ekki verið að það hafi forvarnagildi að þurfa sjálfur að bera ábyrgð á eigin lífi, taka sjálfur mikilvægar ákvarðanir og standa við þær? Getur kannski líka verið að of mikil barnapössun langt fram á unglingsár ali á ábyrgðarleysi? Var kannski þegar gengið skrefi of langt þegar sjálfræðisaldur var hækkaður í 18 ár í nafni forvarna? Mér er a.m.k. ekki kunnugt um að sú breyting hafi dregið verulega úr vímuefnavandanum. Væri það ef til vill betri forvörn að lækka sjálfræðisaldurinn aftur í 16 ár og skólaskylduna niður í 9 ár og segja við unglingana: Velferð þín og hamingja er í eigin höndum, stattu þig og sýndu hvað þú getur?

17. desember: Descartes á ensku
Nú er ég búinn að fara yfir næstum öll próf og skila einkunnum í heimspekiáföngunum (HSP103, HSP123 og HSP203) sem ég kenni (úrlausnir fáeinna nemenda sem eru í fjarnámi við Verkmenntaskólann á Akureyri eru ekki enn komnar til mín með póstinum en hljóta að skila sér strax eftir helgi). Í fjölmennasta áfanganum (HSP103) lesa nemendur m.a. Varnarræðu Sókratesar og Faídón eftir Platon og Hugleiðingar um frumspeki eftir Descartes. Þessi rit eru til í ljómandi góðum þýðingum á íslensku. Þær hafa verið gefnar út í ritröð sem kallast Lærdómsrit bókmenntafélagsins. Raunar er allt lesefni í þessum þrem áföngum á íslensku enda sumir nemendanna að hefja nám í framhaldsskóla og varla almennilega læsir á önnur mál.
   Á lokaprófi í HSP103 var meðal annars spurt um glímu Descartes við heimspekilega efahyggju. Eins og allfrægt er sagði hann eitthvað á þá leið að jafnvel þótt allar skoðanir sínar væru rangar og hann væri skipulega blekktur af illum anda sem villti honum stöðugt sýn þá gæti hann þó að minnsta kosti verið alveg viss um að hann sjálfur væri til (enda segir sig sjálft að það er ekki hægt að blekkja einstakling nema hann sé til). Descartes orðar þessa niðurstöðu (sem er fyrsti áfangasigur hans í glímunni við efahyggjuna) með því að segja að fyrst hann hugsi hljóti hann að vera til og orðin sem hann hefur um þetta, ég hugsa þess vegna er ég, eru líklega frægasta setning sem höfð er eftir honum. Öllu þessu gerðu (flestir) nemendur skilmerkilega grein fyrir, sem kom mér svo sem ekki á óvart því ég er svo heppinn að nemendur mínir eru upp til hópa bæði áhugasamir um námið og vel gefnir. Hitt kom mér hins vegar nokkuð á óvart að fleiri en einn þeirra sem skrifuðu að Descartes hefði sagt ég hugsa þess vegna er ég, bættu við innan sviga enskri þýðingu (I think therefore I am) eins og þeir treystu því ekki alveg að hægt mundi að gera Descartes almennileg skil á eintómri íslensku. Varla mun nokkur þó álíta að Descartes hafi sagt þessi orð á ensku. Hann skrifaði á frönsku og latínu og kunni trúlega ekki mikla ensku. Að þessu sinni komu ekki neinar tilvitnanir í Sókrates og Platon á ensku, en þær hef ég þó séð í verkefnum nemenda (þótt lesefnið hafi allt verið á íslensku).
   Ég held að þessi tilhneiging til að troða ensku inn þar sem hún á ekki heima stafi af einhvers konar vantrausti á íslenskunni. Það er trúlega svipaðrar náttúru og sá siður sem margir fræðimenn hafa tamið sér að setja ensk hugtök innan sviga aftan við íðorð og fræðileg heiti. Stundum getur verið þörf á þessu þegar um er að ræða íslensk nýyrði sem hætta er á að lesendur skilji ekki nema alþjóðlegt fræðiorð fylgi. En oftast er þetta óþarfi og óttalega hallærislegt.

10. desember: Enn um styttingu náms til stúdentsprófs
Nær daglega birtast greinar í Morgunblaðinu þar sem mótmælt er áformum stjórnvalda um að stytta nám til stúdentsprófs. Flestar virðast þær vera frá kennurum við bekkjarskóla, gömlu menntaskólana sem eru kannski íhaldssömustu stofnanir fræðslukerfisins. Meðan leikskólar, grunnskólar, fjölbrautaskólar og háskólar eru á fleygiferð og laga starfsemi sína að kröfum breyttra tíma reyna menntaskólarnir að vera samir við sig. Ekki ætla ég að lasta íhaldssemi þeirra. Hún hefur haft margvísleg góð áhrif og átt sinn þátt í að viðhalda kröfuhörku, faglegum metnaði og háum „standard“. En tímarnir líða og breytast.
   Einu sinni tóku öll börn fullnaðarpróf 12 ára og unglingaskóli (eða gagnfræðaskóli) var aðeins fyrir suma. Þá voru kröfur til nemenda í unglingaskólum sjálfsagt meiri í ýmsum greinum heldur en nú tíðkast í efstu bekkjum grunnskóla. Þegar unglingaskólar og barnaskólar runnu saman í sitt skólastig eftir að grunnskólalögin voru sett 1974 var talað um að verið væri að slaka á kröfum og í reynd var hluti af verkefnum unglingaskóla fluttur til framhaldsskóla (iðnskóla og menntaskóla og síðar fjölbrautaskóla). Þetta var eðlileg þróun. Meðan minnihluti árgangs lauk landsprófi eða gagnfræðaprófi var hægt að fara yfir námsefni sem er nær vonlaust að þræla öllum í gegnum á þeim tíma sem til umráða var. Tíundi bekkur í nútímagrunnskóla getur því ekki samsvarað algerlega landsprófsdeild eða fjórða bekk í unglingaskóla frá því fyrir 1974.
   Nú tekur stærri og stærri hluti árgangs stúdentspróf og búast má við að hlutfall þeirra sem það gera hækki mikið á næstu árum þegar fleiri nýta sér kosti á að bæta við stúdentsnámi eftir iðnnám eða annað starfsnám. Þegar stúdentar verða orðnir ríflegur meirihluti árgangs getur stúdentsprófið ekki verið alveg jafngilt því sem það var þegar aðeins bestu námsmenn fóru svo langt á menntabrautinni. Það er því eðlileg þróun að hluti af verkefnum sem sinnt hefur verið á bóknámsbrautum framhaldsskólanna flytjist til háskóla.
   Vandinn sem skólakerfið stendur frammi fyrir er hvernig á að mennta sífellt breiðari hóp án þess að draga úr gæðum og minnka líkur á að þeir sem mestar gáfur hafa virki þær til fulls. Þessi vandi verður ekki leystur með því að berja hausnum við steininn og segja að menntaskólar eigi um aldur og eilífð að vera eins og þeir hafa alltaf verið.
   Mér sýnist að einkum séu tvær leiðir til að stórfjölga stúdentum án þess að halda aftur af duglegustu námshestunum og farsælast sé að fara þær báðar. Önnur leiðin er að leyfa hverjum nemanda að ráða námshraða sínum að sem mestu leyti sjálfur. Þetta er þegar gert í áfangaskólum. Ég held að það væri til stórra bóta að hafa svipað kerfi í síðustu bekkjum grunnskóla eins og er í áfangaskólum og skipuleggja það þannig að duglegir nemendur eigi þess raunhæfan kost að klára grunnskólaprófið ári fyrr. Hin leiðin er að flýta fyrir því að nemendur byrji í háskóla með því að stytta fyrri skólastig dálítið.
   Fyrirliggjandi tillögur um styttingu námstíma til stúdentsprófs fela í sér að minnka framhaldsskólanám stúdenta um sjöunda hluta eða því sem næst og flytja helming af þessum sjöunda hluta niður á grunnskólastig og láta háskólum hinn helminginn eftir. Verði farið að þessum tillögum og duglegum nemendum jafnframt sköpuð tækifæri til að flýta grunnskólanámi þá er það að mínu viti skref í rétta átt. Stytting námstíma til stúdentsprófs getur, ef vel tekst til, stuðlað að því að skólakerfinu takist að mennta sífellt stærri hóp meira og meira án þess að úr verði hálfkák sem kemur í veg fyrir að duglegustu nemendurnir beiti sér af alefli.

4. desember: Refsingar fyrir kaup á vændi og tukthúslimir í Vesturheimi
Í Fréttablaðinu í dag segir frá því að í heiminum öllum sitji alls níu milljónir manna í fangelsi. Flestir eru fangarnir í Bandaríkjunum, en þar eru um það bil 700 fangar fyrir hverja hundrað þúsund íbúa. Í Svíþjóð er þetta hlutfall næstum tífalt lægra, en þar eru fangar um 75 á hverja hundrað þúsund íbúa og hér á Íslandi er hlutfall fanga næstum tvöfalt lægra en í Svíþjóð og tuttugu sinnum lægra en í Bandaríkjunum.
   Dapurlegt er til þess að vita að svo stór hluti borgaranna skuli dúsa bak við lás og slá í ríki sem var stofnað til að almúgamenn gætu um frjálst höfuð strokið og átti að verða „the land of the free and the home of the brave“ (svo vitnað sé í Stjörnufánakvæði Francis Scott Key, sem er þjóðsöngur Bandaríkjamanna).
   Ég hef svo sem ekki neitt á móti því að þeir sem ræna menn, meiða, nauðga eða myrða séu læstir inni og vel má vera að lögreglan sé duglegri að hafa upp á óbótamönnum í Bandaríkjunum en annars staðar. En það skýrir ekki nema að litlu leyti hvað fangar þar eru miklu stærra hlutfall af fólksfjölda en í öðrum löndum. Mikilvægasti hluti skýringarinnar er að í Bandaríkjunum eru dómar harðari en víðast hvar annars staðar og menn látnir dúsa inni fyrir minni sakir. Stór hluti bandarískra fanga situr inni fyrir verk sem er vafamál hvort beri yfirleitt að álíta glæpsamleg eins og að taka þátt í fjárhættuspili, hafa óholla neysluvöru (oftast hass) í fórum sínum eða taka þátt í vændi, annað hvort sem kaupandi eða seljandi.
   Við hér á landi höfum, eins og fleiri Evrópuþjóðir, hermt margt eftir Bandaríkjamönnum. Sumt af því gott. En sumt slæmt. Á undanförnum árum hefur umræða um lög og rétt, glæpi og refsingar, í vaxandi mæli dregið dám af því sem gerist vestan hafs. Fyrir nokkrum árum voru refsingar fyrir innflutning á fíkniefnum t.d. hertar þannig að fleirum en mér þykir nóg um. (Sjá rabb sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins sumarið 2001.) Á undaförnum árum hefur líka oftar en einu sinni komið upp umræða um að dæma menn til fangelsisvistar fyrir kaup á kynlífsþjónustu.
   Í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 18 í dag var t.d. sagt frá vangaveltum Alþingismanna um að gera kaup á vændi refsiverð. Ef til vill er rétt að skoða þessa umræðu í samhengi við aðrar tilraunir sem hér hafa verið gerðar á seinni árum til að herma eftir refsigleði Bandaríkjamanna.
   Sú hugmynd að nota refsingar til að koma í veg fyrir kaup á kynlífsþjónustu á sér samsvörun í löggjöf um fleiri efni, t.d. um eiturlyf og fjárhættuspil. Í öllum þessum málaflokkum hafa Bandaríkjamenn gegnið manna lengst í tilraunum til að draga úr óhamingju eða félagslegum vandamálum með því að beita refsingum til að stjórna hegðun fólks, jafnvel þótt almennum borgurum standi engin ógn af þeirri hegðun sem um ræðir nema þeir sjálfir séu svo óforsjálir að kjósa að taka þátt í henni. Árangurinn er vægast sagt misgóður. Af því litla sem ég hef lesið um efnið finnst mér raunar trúlegt að harðir dómar fyrir vændi í Vesturheimi auki fremur en minnki félagsleg vandamál, þjáningar og eymd.
   Fjölmiðlaumræða hér á landi bendir kannski til að þeir sem krefjast refsinga fyrir kaup á kynlífsþjónustu líti fremur á Svíþjóð sem fyrirmynd heldur en Bandaríkin. Í frumvarpi sem þingmenn allra flokka nema Sjálfstæðisflokks lögðu fyrir Alþingi fyrir nokkru síðan (38. þingskjal á 130. löggjafarþingi 2003-2004) var þó stungið upp á miklu harðari refsingum fyrir kaup á kynlífsþjónustu en gert er í sænskum lögum um sama efni, eða allt að tveggja ára fangelsi.
   Ættu íslenskir þingmenn ekki að hugsa sig a.m.k. tvisvar um áður en þeir halda lengra á þeirri braut sem löggjafinn í Bandaríkjunum hefur gengið með þeim dapurlega árangri að stærra hlutfall þjóðarinnar situr í fangelsi en í nokkru landi öðru?
   Nú munu sjálfsagt einhverjir andmæla þessu frjálslyndi mínu með því að segja að samfélagið verði að fordæma athæfi á borð við kaup á kynlífsþjónustu, sem veldur eymd og óhamingju, og slík fordæming komist best til skila með því að banna athæfið og gera það refsivert. Ég get tekið undir að æskilegt sé að stofnanir jafnt sem einstaklingar taki siðferði alvarlega og forðist að leggja neinu því lið sem rænir annað fólk hamingjunni. (Af þessum sökum finnst mér t.d. til háborinnar skammar að Háskóli Íslands skuli reka spilavíti.) En refsingar eru beggja handa járn og geta gert illt verra. Við þessu er því að bæta að eigi lögin að senda skilaboð, flytja boðskap og ala menn upp með því að banna allt sem er slæmt, þá fylgir óhjákvæmilega annar og verri boðskapur með. Hann er á þá leið að allt sem er leyft sé í lagi.